Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bölvað trúboðið

Þegar kemur að umræðum um skóla og trúboð lendir Þjóðkirkjan oft í vandræðum vegna undarlegs skilnings kirkjunnar manna á trúboði, fræðslu og umburðarlyndi. Nýlegt dæmi um svona skilning er greinin „Blessað trúboðið“ eftir þjóðkirkjuprestinn Svavar Alfreð Jónsson.

Áður en ég geri athugasemdir við greinina, ætla ég að reyna að skilgreina muninn á boðun og fræðslu. Ef við hugsum út í muninn á stjórnmálaboðun og stjórnmálafræði þá held ég að allir séu sammála því að í stjórnmálaboðun er reynt að sannfæra fólk um að ákveðin stjórnmálaskoðun sé rétt, en í fræðslu er einungis frætt um stjórnmálaheimspeki og stefnuskrá flokka.

Ef við yfirfærum þetta yfir á trúmál væri trúboð það að reyna að sannfæra einhvern um að ákveðin trúarskoðun sé rétt, en í fræðslu um trú er frætt um trúarhugmyndir og mismunandi trúarbrögð.

Snúum okkur nú að greininni:

Trúboð er eitt þeirra hugtaka sem fengið hefur á sig fremur neikvæðan hljóm. Mörgum þykir mesta ósvinna að stunda trúboð, ekki síst ef börn eiga í hlut. Háværar raddir segja að kirkjan eigi helst ekki að vera til í skólum landsins. Að þeirra mati er kirkjan ekkert annað en ein allsherjar trúboðsmaskína.

Það er rétt að sumum er almennt illa við að fólk reyni að sannfæra aðra um réttlæti skoðanna sinna. Það er að mínu mati ekkert að því að því, almennt séð. Trúboð er hins vegar rangt þegar það er annað hvort á óviðeigandi stað, t.d. í opinberum skólum, eða þegar viðkomandi er annað hvort mjög trúgjarn eða hefur ekki hæfileika til þess að vega og meta fullyrðingar trúboðans, t.d. börn og geðsjúkir.

Ég held að flestum væri illa við það ef stjórnmálaflokkar reyndu skipulega að innræta börnum stjórnmálaskoðanir flokkanna, enda teldu flestir að með því væru þeir að misnota trúgirni barnanna. Stjórnmálaboðun þegar krakkar eiga í hlut er líklega talin ósiðleg af flestum. Á sama hátt ætti trúboð þegar krakkar eiga í hlut að vera talið ósiðlegt.

Opinberir skólar eiga að vera hlutlausir í trúmálum og eiga að vera fyrir alla. Þess vegna ætti ekki að hleypa einu trúfélagi inn í þá, sérstaklega trúfélagi sem hefur slagorðið: „biðjandi, boðandi, þjónandi“, trúfélagi sem virðist ekki átta sig á því að trúboð er óviðeigandi í opinberum skólum. Það er ef til vill ýkt að segja að Þjóðkirkjan sé „ein allsherjar trúboðsmaskína“, en það er ekki hægt að neita því að trúboð er eitt af aðaláherslum hennar.

Skólinn á að snúast um að fræða börnin um trú, ekki að boða trú. Þjóðkirkjan er ekki nauðsynleg til þess að fræða krakka um trú. Þess vegna hefur Þjóðkirkjan ekkert erindi inn í skólana, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn hennar virðast oft ekki gera greinarmun á fræðslu og boðun.

Síðar í greininni skrifar Svavar:

Margir líta þannig á markmið trúboðans hljóti að vera að sannfæra viðmælendur sína um að hans trú sé sú eina rétta og miklu betri en þeirra. Trúboðið er samkvæmt því ákveðin tegund af umburðar- og virðingarleysi. Kirkjan á ekki að stunda þannig trúboð en ég er ekki frá því að þeir sem mest amast við kirkju og kristindómi í þessu landi gangi harðast allra fram í því að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og brúklegu.

Já, trúboðinn hlýtur að reyna að sannfæra viðmælendur sína um að trú hans sé rétt og betri en þeirra. Hvað er trúboð ef ekki einmitt það? Það er undarlegt að Svavar telji þetta vera ákveðna tegund af umburðar- og virðingarleysi, því það að vera sannfærður um að trú sín sé betri og réttari en trú annars er ekki merki um umburðar- og virðingarleysi. Eða er stjórnmálamaðurinn sem telur skoðun sína vera þá einu réttu og betri en skoðanir annarra vera umburðar- og virðingarlausan?

Áfram heldur Svavar:

Veraldarhyggjan er umburðarlaus í þessum efnum. Trúboðar hennar sýna einatt dæmalausan hroka í málflutningi sínum og margir þeirra neita því blákalt að sýna eigi öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina.

Nú tel ég líklega að Svavar eigi við okkur á Vantrú þegar hann talar um „trúboða [veraldarhyggjunnar]“, ég veit að minnsta kosti ekki um hverja aðra hann gæti verið að ræða.

Til að byrja með ásakar hann okkur um að vera umburðarlausa. Ég veit ekki að hvaða leyti presturinn vill að við umberum skoðanir hans. Er það merki um umburðarleysi að gagnrýna skoðanir annarra? Ég myndi telja það vera umburðarleysi að troða trúnni sinni inn í opinbera grunn- og leikskóla, að troða trúnni sinni á börn annarra.

Svavar bendir ekki á nein dæmi um hrokann. Honum finnst við örugglega vera hinir mestu hrokagikkir, en ég veit ekki hvaða máli það skiptir.

Loks segir hann að við neitum því blákalt að sýna „öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina“. Þetta er rangt. Ég tel að það eigi ekki að virða skoðanir, hvort sem það er um „jásystkini“ eða „neisystkini“ að ræða.

Þegar kemur að þeirri hugmyndafræði Svavars sem ég virði ekki, kristni, þá sé ég meira að segja ástæðu til þess að gagnrýna hana harkalega og hæðast að henni. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar. Boðendur þessarar hugmyndafræði geta ekki látið opinbera skóla og börn annarra í friði. Félagið sem stendur að þessari boðun er búið að troða sér inn í stjórnarskrána og inn á fjárlög.

Svo lengi sem Þjóðkirkjan er að troða sér inn í opinbera skóla og hefur þessi sérstöku tengsl við ríkið geta prestarnir ekki ætlast til þess að trúarskoðanir ríkiskirkjunnar verði ekki gagnrýndar.

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.10.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 03/10/07 11:03 #

Hárrétt, Hjalti. Ég hef stundum gaman af því þegar trúaðir saka trúlausa um hroka, en stundum fer það í taugarnar á mér. Svavar segir að hógværðin og auðmýktin eigi að einkenna trúaða manneskju ásamt virðingu fyrir öðru fólki. Hver sem les Biblíuna veit að lítið fer fyrir virðingu fyrir trúlausum eða trúvillingum. Þar er þvert á móti að finna bein fyrirmæli um ofsóknir á þeirra hendur og líflát. Að vísu eru kristnir menn (flestir) hættir að halda því á lofti. En hvor er hrokafyllri, sá sem lítur á sig sem örðu í gríðarstórum alheimi eða hinn sem telur sig kórónu "sköpunarverksins" og í beinu sambandi við skaparann sjálfan - með sérlegan skilning á eðli hans og vilja - jafnvel að hann sé sérstakur talsmaður hans hér á jörðu? Ég spyr.

Trúboð í skólum er siðleysi og yfirgangur.


Flugnahöfðinginn (meðlimur í Vantrú) - 03/10/07 11:57 #

Trúboð í skólum er fyrst og fremst virðingarleysi. Athyglisvert hvernig Svavar kastar þarna steinum úr glerhúsi.


Haukur Ísl - 04/10/07 11:07 #

Það að boða börnum trú er rangt í öllum myndum af öllum aðilum. Þó sérstaklega í ALMENNINGSskólum.


Árni Þór - 04/10/07 15:09 #

Þegar ég held inní mér prumpi þá ferðast það inní mænuna og uppí heila og þaðan koma skíta hugmyndir. Hvernig útskýrir þú það?


Árni Þór (meðlimur í Vantrú) - 04/10/07 15:26 #

Kannski við hæfi að taka það fram að Árni Þór hér að ofan er ekki ég.. Mitt prump ferðast ekki "inní mænuna og uppí heila"... :)


ThorK - 04/10/07 20:20 #

Veraldarhyggjan er umburðarlaus í þessum efnum. Trúboðar hennar sýna einatt dæmalausan hroka í málflutningi sínum og margir þeirra neita því blákalt að sýna eigi öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina.

Hvaða grundvallarskoðanir eru það sem sameina "Veraldarhyggjumenn"? Í stuttu máli sagt: engar. Það sem sameinar okkur einmitt við höfnum skoðunum sem eru illa eða alls ekki rökstuddar. Þær skoðanir sem eftir standa eru engin einkaeign "Veraldarhyggjumanna". Við deilum þeim með trúuðum af öllum trúflokkum. Allt sem stendur fyrir utan þetta sniðmengi af rökstuddum skoðunum viljum við ekki að börnunum okkar sé kennt sem sannleikur. Er það til of mikils ætlast?


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 04/10/07 23:10 #

Góður pistill.

Trúboð í skólum er bara fáránlegt. Allt sem tengist trúboði telst ekki menntun.

Það er allt í lagi að kenna sögu trúarbragðanna og þá allra trúarbragða, þar sem þau hafa litað svo mikið heiminn. En ítroðsla trúarhugmynda og misjafnrar túlkunar ýmissa á trúarritun er ekkert annað en innræting.

Trúarritin kenna heldur ekkert um þau mál sem hafa komið manninum þangað sem hann er. Þau kenna ekkert handverk neinskonar, matreiðslu, vélfræði, eðlis- og efnafræði, líffræði, stærðfræði og svo mætti lengi telja. Þrátt fyrir þetta telja margir að trúarritin og ritningar þeirra séu það sem við eigum að lifa eftir. Ef við gerðum það algjörlega værum við löngu útdauð.

Trúarritin kenna okkur ekki að bjarga okkur og lifa af og öðlast þekkingu.

Aftur á móti finnst mér gott að krökkum væri kennd í skólum góð almenn kurteisi og góð framkoma og mikilvægi mannúðar, þar sem ekki allir fá gott atlæti á sínum heimilum því miður.

Þetta mætti koma í staðinn fyrir trúboðið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.