Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Líklegri guð

Blake_creation.jpgTrúmenn, sérstaklega hinir kristnu, halda því oft fram að til sé algóður skapari alheimsins. Margt við meintu sköpunina sýnir hins vegar fram á að skaparinn sé illur, ef hann er til. Það að trúmenn eru ekki tilbúnir til að fallast á það sýnir fram á að trúin er ekki byggð á rökum, heldur óskhyggju.

Ef guðinn skapaði heiminn, þá er hægt að álykta eitthvað um hann út frá sköpunarverkinu hans. Trúmenn eru óhræddir við að gera það, þeir benda oft á fegurðina í náttúrunni sem vísbendingu um gæsku guðs.

Margt í náttúrunni gefur hins vegar til kynna að skaparinn er að einhverju leyti illur. Hann hannaði jörðina þannig að jarðflekarnir hreyfast til og mynda jarðskjálfta. Fyrir þremur árum varð þessi hönnun guðs hátt í 240.000 manns að bana. Skaparinn hefur hannað lífverur sem eru sérhæfðar í því að drepa fólk.

Trúmenn forðast eftir fremsta megni að draga þá augljósu ályktun af þessu að ef guð er til, þá er hann að einhverju leyti illur. Ég myndi meira að segja halda því fram að guð sem skapar reikistjörnu með náttúruhamförum og lífverum sem drepa fólk á kvalarfullan hátt sé mjög illur.

Afsakanirnar sem trúmennirnir koma með eru ýmist þær að algóði guðinn hafi einhverjar óþekktar ástæður fyrir því að hafa orðið svona mörgu fólki að bana, eða þá að við myndum einhvern veginn missa frjálsan vilja ef hann hefði ekki skapað jarðskjálftana og veirurnar.

Það er augljóslega eðlilegri ályktun að telja skaparann einfaldlega vera illan. Maður hlýtur þá að spyrja sig hvers vegna trúmenn vilja ekki draga þessa eðlilegu ályktun. Ástæðan er líklega sú að það væri hræðilegt ef mjög ill, ofurmáttug andavera væri til. En það væri mjög æskilegt ef það væri til algóð, ofurmáttug andavera. Trúin á algóðan skapara er því augljóslega byggð á óskhyggju.

Hjalti Rúnar Ómarsson 01.10.2007
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 10:36 #

Þú mátt ekki gleyma hinni gömlu góðu afsökun, "Satan gerði það", því auðvitað myndi Algóður Guð ekki skapa banvæna barnasjúkdóma sem draga börn á kvalarfullan hátt til dauða, eitruð skordýr, villidýr sem njóta þess að kvelja bráð sína, eldgosin, jarðskjálftana, loftsteinana, geimgeislana o.s.frv., o.s.frv.

En spurningin er þá bara sú hvers vegna guð var að skapa Satan eða afhverju hann eyðir honum ekki? Nema auðvitað að það myndi hindra frjálsan vilja Satans að vera eitthvað að abbast uppá hann.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 11:25 #

Hjalti Rúnar, þú segir:

Trúmenn, sérstaklega hinir kristnu, halda því oft fram að til sé algóður skapari alheimsins. Margt við meintu sköpunina sýnir hins vegar fram á að skaparinn sé illur, ef hann er til. Það að trúmenn eru ekki tilbúnir til að fallast á það sýnir fram á að trúin er ekki byggð á rökum, heldur óskhyggju.

Rangt, þetta er ekki óskhyggja nema að hálfu Hjalta Rúnars, svona rök heita að 'setja orð í munn einhvers' og gera okkur kristnu upp skoðanir sem ekki eru til. Enda ber hann sjálfur enginn rök upp í þessari fullyrðingu sinni.

Ef guðinn skapaði heiminn, þá er hægt að álykta eitthvað um hann út frá sköpunarverkinu hans. Trúmenn eru óhræddir við að gera það, þeir benda oft á fegurðina í náttúrunni sem vísbendingu um gæsku guðs. Margt í náttúrunni gefur hins vegar til kynna að skaparinn er að einhverju leyti illur. Hann hannaði jörðina þannig að jarðflekarnir hreyfast til og mynda jarðskjálfta. Fyrir þremur árum varð þessi hönnun guðs hátt í 240.000 manns að bana. Skaparinn hefur hannað lífverur sem eru sérhæfðar í því að drepa fólk.

Ef það er illska að skapa náttúrulögmál til þess að halda jörðinni í jafnvægi, þá skil ég ekki hvað illska er. Nema jú kannski að finna blóraböggul vegna eigin sjálfstrausts, eins og hér er gert í þessum skrifum? Veit ekki, en það voðalega auðvelt að benda og segja: "þetta er Guði að kenna", þegar náttúran skelfur og gerir það sem hún á að gera. Að finna sér slíkan blóraböggul eins og hér er gert, finnst mér bera vott um vanþekkingu og hugleysu.

Guð skapaði náttúruna til þess að þjóna jörðinni og halda henni í því jafnvægi sem hún á vera í, hann planaði ekki fjöldamorð eftir fjöldamorð við sköðun hennar - þú grípur til reyfarakennda ályktanna í þessum málflutningi þínum og minnir hann mig helst á ódýra teiknimyndasögu.

Eina sem þú sýnir framá með þessu er að ábyrgðartilfinningin er enginn, og þú þarft nauðsynlega að finna einhvern blóraböggul og kenna honum um hluti sem gerast á hverjum degi eins og náttúruhamfarir. Því er ver og miður að þetta fólk lést, en er þetta í fyrsta skipti sem svona gerist? Nei. Þessi nattúrulögmál eiga ekki að koma mannsskepnunni á óvart. Sér í lagi ykkur sem engu trúið, þá ættu þið samt að bekenna náttúrulögmálin.

Trúmenn forðast eftir fremsta megni að draga þá augljósu ályktun af þessu að ef guð er til, þá er hann að einhverju leyti illur. Ég myndi meira að segja halda því fram að guð sem skapar reikistjörnu með náttúruhamförum og lífverum sem drepa fólk á kvalarfullan hátt sé mjög illur.

Ef þú átt þá börn Hjalti, þá ertu sjálfur mjög illur, hvernig dirfist þú verða orskakavaldur þess að geta börn í þennan hræðilega heim!! Fyrst ástandið er svona illt og slæmt og er allt saman Guði að kenna, þá vei þér ef þú verður faðir og er það þér að kenna að barnið þitt þarf að þjást.

Mér þykja rök þín aum og veit ég ekki hvort þú eigir börn Hjalti Rúnar, en ég tók þetta aðeins sem dæmi um hræsni þína og ekki sem árás á þig persónulega. Ég vona að að þú misskiljir það ekki.

Afsakanirnar sem trúmennirnir koma með eru ýmist þær að algóði guðinn hafi einhverjar óþekktar ástæður fyrir því að hafa orðið svona mörgu fólki að bana, eða þá að við myndum einhvern veginn missa frjálsan vilja ef hann hefði ekki skapað jarðskjálftana og veirurnar.

Þú flækir þetta um of, Guð hannaði jörðina með sínum náttúrulögmálum óháð hverjir verða fyrir barðinu á þeim. Hinn viti borni maður hefur lært að umgangast jörðina og tekið tillit til þeirra atriða sem hún getur verið beinleinis hættuleg. margar bakteríur og vírusar hafa sinn tilgang í jarðríkinu, og er það jafnmikið náttúrulögmál eins og jarðskjálftarnir. Guð hannaði þetta jafnvægis á sköpun sinni, ekki til þess að vera illur og kvikindislegur. Slæmt er það, þegar saklaus börn deyja á þennan hátt, og hef ég reynslu af fyrstu hendi af þeim málum. En Guð er ekki strengjabrúðumeistari sem hrekkir lýðinn sinn, hann setti náttúrunni lög sem hún hlýðir, og að verða fyrir barðinu á náttúrunni er bara hluti af því að búa á þessari jörð.

Það er augljóslega eðlilegri ályktun að telja skaparann einfaldlega vera illan. Maður hlýtur þá að spyrja sig hvers vegna trúmenn vilja ekki draga þessa eðlilegu ályktun. Ástæðan er líklega sú að það væri hræðilegt ef mjög ill, ofurmáttug andavera væri til. En það væri mjög æskilegt ef það væri til algóð, ofurmáttug andavera. Trúin á algóðan skapara er því augljóslega byggð á óskhyggju.

Sönn ill vera, sem þú telur Guð vera, hefði jú skapað jörð sem er án alls jafnvægis og hlýðir ekki neinum eðlilegum náttúrulögmálum. Getur þú ímyndað þér ástandið ef svo væri ekki? Það hefði verið ill vera svo sannarlega, en að segja að þetta sé Guði að "kenna" að það komi jarðskjálftar og aðrir eðlilegir hlutir, er bara firra.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 11:31 #

Fyrirgefið uppsetninguna, húnfór e-ð í rugl hjá mér ! :-/


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 11:44 #

Ég lagaði uppsetningu á athugasemd, vona að ég hafi ekki klúðrað neinu.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 12:11 #

Takk kærlega Matti, nei mér sýnist þetta vera læsilegra núna.


Kári - 01/10/07 12:32 #

Ég lít nú á mig sem trúleysingja og vantrúarmann en mér finnst þessi grein heldur aum. Tónninn í þessari rökleiðslu minnir óneitanlega á tal hins versta sköpunarsinna (nema hér í hina áttina).


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 12:49 #

Ég lít nú á mig sem trúleysingja og vantrúarmann en mér finnst þessi grein heldur aum. Tónninn í þessari rökleiðslu minnir óneitanlega á tal hins versta sköpunarsinna (nema hér í hina áttina).

Eruð þið þá mikið skárri en við? Það eru auðvitað til öfgar í báðar áttir. Enda er þessi grein hans Hjalta full af fagurgala en egnum rökum. Takk fyrir að benda á þetta, ég er þá ekki einn sem finnst þetta, ég sem er sköpunarsinninn. ;)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 13:02 #

Tilvist hins illa hefur aldrei verið útskýrð almennilega eða afsökuð í svokallaðri guðfræði. Aiwaz bendir kostulega á gallann við blóraböggulinn, engil ljóssins, hann hlýtur að vera hugarfóstur skaparans og undir hans stjórn.

Sæmilega góður faðir gætir barna sinna og öryggis þeirra. Velferð þeirra skipar öndvegi.

Faðir sem lætur ekki sjá sig, krefst skilyrðislausrar hlýðni við fáránlegar reglur, dýrkunar og aðdáunar... en lyftir ekki litla fingri þegar börn hans líða skort eða kveljast (jafnvel um alla eilífð) er auðvitað skrýmsli.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 13:38 #

Reynir, ekki ætla ég að 'sanna' Guð, mér finnst það fáranleg krafa af ykkar hálfu. Ef ég gæti það þá væri ég kominn á spjöld sögunnar. En skiljið þið ekki að þetta er sannfæring sem keyrir okkur trúaða áfram? Þetta er alfarið andlegt og veltur á hverjum og einum hvað honum/henni finnst. Trú er ákvörðun og ekki kvöð, og alfarið undir hverjum og einum komið hvaða ákvörðun hann tekur.

Ekki er það heldur tilgangur minn að reyna að kristna neinn hér á vantrú, ég er ekki svo bjartsýnn á að það takist. En reynum að umbera hvorn annan þótt við séum ósammála í einum hlut, þ.e.a.s. trúmálum. Menn þurfa ekki að vera óvinir þótt okkur greini á í einum málaflokki. Það er allt sem ég vildi sagt hafa og læt lokið máli mínu hér á vantrú. Guð blessi ykkur.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 15:23 #

Sönn ill vera, sem þú telur Guð vera, hefði jú skapað jörð sem er án alls jafnvægis og hlýðir ekki neinum eðlilegum náttúrulögmálum.

Svo má böl bæta með að benda á annað verra.

Það er einkennilegur bræðingur af tilgangshyggju og nauðhyggju hjá trúðuðum manni að telja jörðina ekki geta verið öðruvísi vegna þess að guð gerði hana svo. Afhverju gat guð ekki sleppt öllum sjúkdómum og náttúruhamförum fyrst hann var að þessu sköpunarbauki sínu á annað borð?

Auðvitað er verið að plana fjöldamorð á fólki þegar t.d. malaríu sníkjudýrið var búið til. Hefur ekkert við eitthvað náttúrlegt jafnvægi að gera.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 15:49 #

Það er einkennilegur bræðingur af tilgangshyggju og nauðhyggju hjá trúðuðum manni að telja jörðina ekki geta verið öðruvísi vegna þess að guð gerði hana svo. Afhverju gat guð ekki sleppt öllum sjúkdómum og náttúruhamförum fyrst hann var að þessu sköpunarbauki sínu á annað borð?

Auðvitað er verið að plana fjöldamorð á fólki þegar t.d. malaríu sníkjudýrið var búið til. Hefur ekkert við eitthvað náttúrlegt jafnvægi að gera.

Því nauðhyggjan mín segir mér að sköpun Guðs sé stærri, meiri og ekki eins einföld og þið vantrúarmenn teljið. Það hljómar einkennilega að saka mig um nauðhyggju þegar sjóndeildarhringurinn þinn nær svo skammt. Allur heimurinn er meistaraverk, allt er tvinnað saman af atómum sem mynda masssa, og massin myndir hin efnislega hlut. Því er auðvelt að segja og trúa að það sé höfundur yfir slíku meistaraverki.

Lögmálum náttúrunar má deila endalaust um, það má vel vera að malaría sé hroðalegt níkjudýr, sem gerði og gerir stórkostlegann skaða jafnvel enn þann dag í dag, en erum við búinn að finna svör við öllu? Er búið að rannsaka alla hluti? Hver veit nema að malaría þjóni einhverjum tilgangi í náttúrunni. Aldrei segja aldrei, þú ert ekki dómbær á slíkt og ekki ég heldur.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 16:17 #

Menn eru farnir að teygja sig ansi langt í trúvörninni þegar þeir telja að malaría hafi kannski einhvern ókunnan tilgang í náttúrunni. Það deyja að meðaltali tveir á mínútu vegna þessa skæða sjúkdóms, flestir börn að aldri, en samt telur GH að það geti átt sér rökréttar guðlegar skýringar!


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 16:31 #

Lárus, ég bið þig vinsemd að lesa yfir það sem ég skrifaði. Ég sagði hér ofar:

Hver veit nema að malaría þjóni einhverjum tilgangi í náttúrunni.

Ég minnist hvergi á neina guðlega ívilnun og ert þú týpískur guðleysingi sem setur orð í munn annara til þess að þjóna eigin duttlungum. LESTU áður en þú gangrýnir orð mín næst.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 16:53 #

Guðsteinn, ef þú ætlar að koma með svona ásakanir:

þú týpískur guðleysingi sem setur orð í munn annara til þess að þjóna eigin duttlungum

Skaltu vanda þig sérstaklega vel í eigin málflutningi, vegna þess að þú gerir þig sekan um það sama í athugasemd þinni hér að ofan þar sem þú svarar Reyni og segir:

Reynir, ekki ætla ég að 'sanna' Guð, mér finnst það fáranleg krafa af ykkar hálfu

En Reynir var bara alls ekkert að tala um tilvist Gvuðs í athugasemd sinni, heldur "tilvist hins illa" og er að benda á þá klípu sem guðfræðingar (og aðrir trúmenn) lenda í þegar þeir reyna að útskýra illsku í heimi sem algóður gvuð hefur skapað (sjá t.d. wikipedia: Problem of evil).


Sigurður Karl Lúðvíksson - 01/10/07 17:02 #

Ég get alveg sætt mig við að sumir ákveða að kasta allri heilbrigðri skynsemi út um gluggann og trúa í trássi við öll rök að guð hafi skapað heiminn. Þetta ber nákvæmlega sömu einkenni og ranghugmyndir geðsjúkra einstaklinga, ég lifi alveg í sátt og samlyndi við geðsjúka einstaklinga í samfélaginu. Bara af því að þetta er guð, þá er eins og það sé allt í lagi, allt í einu. En þá segir þú Guðsteinn:

"En skiljið þið ekki að þetta er sannfæring sem keyrir okkur trúaða áfram? Þetta er alfarið andlegt og veltur á hverjum og einum hvað honum/henni finnst. Trú er ákvörðun og ekki kvöð, og alfarið undir hverjum og einum komið hvaða ákvörðun hann tekur."

og þar hittir þú naglan á höfuðið. Okkur finnst einfaldlega að þessi sannfæring er geðsjúkdómur, það er okkar skoðun miðað við þann samanburð við gerum við aðra viðurkennda geðsjúkdóma, við berum góð rök fyrir því. En sjáðu til, þetta er bara skoðun okkar, og þér er frjálst að halda því fram að við séum geðsjúkir að trúa ekki á guð, þú mættir alveg kalla mig geðsjúkan fyrir að vera frjálshyggjumaður, mér er alveg sama, en okkur er öllum frálst að tjá okkur um það. Þú hinsvegar sýnir okkur ekki þá virðingu að halda þinni trú fyrir þig, né leyfir okkur að tjá okkur frjálslega um trúna (sbr. t.d guðlastarlög og ríkisrekna trú, boðun trúar og íræting barna o.s.fr). Ef þú gerðir það, þá væri vantrú ekki til og við hefðum ekkert að ræða um. Svona eru þó málin ekki stödd, og vér mótmælum, svo einfalt er það. Andrés Önd blessi þig.

Svo segir þú líka: "Allur heimurinn er meistaraverk, allt er tvinnað saman af atómum sem mynda masssa, og massin myndir hin efnislega hlut. Því er auðvelt að segja og trúa að það sé höfundur yfir slíku meistaraverki."

Fyrir utan að vera frekar einfölduð mynd af alheiminum hjá þér og í raun algjörlega ófullnægjandi, hve mikla eðlisfræði hefur þú numið til að geta sagt að það sé skapari og vinna vísindamanna sé öll kolröng, því það er alveg deginum ljósar að trú og vísindi eiga enga samleið? Ef þú raunverulega skildir eðlisfræði og meistaraverk náttúrunnar, ekki guðs, ertu viss um að þú myndir afneita sönnunargögnum eðlisfræðinnar til að trúa áfram á guð. Það er frekar klént að aðhyllast sköpunina án þess að kynna sér til hlýtar eðlisfræðina og sjá hvað raunverulega hún hefur upp á að bjóða. Þú munt fljótlega komast að því að vísindin í raun krefjast þess að guð sé ekki til. Undursemdir náttúrunnar í gegnum náttúruvísindin eru, skal ég alveg lofa þér, því ég er menntaður eðlisfræðingur, miklu miklu stórbrotnari og æðislegri en einhver boðskapur einstrengingslegra og ólæsra karlmanna fyrir botni miðjarðahafs fyrir 2000 árum, talandi við brennandi runna. Þú ert hinsvegar alveg lokaður fyrir því. Ég hef lesið biblíuna, hefur þú lesið skammtafræði? Gerðu það og ef þú trúir enn á guð, þá ertu sannarlega í harðri afneitun sem jaðrar við alvarlega geðröskun, ef þú missir trúnna við það, þá má kenna þekkingarleysi um og við byðum þig hjartanlega velkomna í hóp þeirra upplýstu :)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 17:36 #

Ég minnist hvergi á neina guðlega ívilnun og ert þú týpískur guðleysingi sem setur orð í munn annara til þess að þjóna eigin duttlungum.

Dæmigert að byrja á einhverju kvabbi um orðalag í stað þess að takast á við viðfangsefnið.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 18:32 #

Rangt, þetta er ekki óskhyggja nema að hálfu Hjalta Rúnars, svona rök heita að 'setja orð í munn einhvers' og gera okkur kristnu upp skoðanir sem ekki eru til. Enda ber hann sjálfur enginn rök upp í þessari fullyrðingu sinni.

Ef þetta er ekki óskhyggja, hvers vegna eru þá trúmenn ekki tilbúnir að fallast á þá skýringu að guð sé bara að einhverju leyti illur?

Ef það er illska að skapa náttúrulögmál til þess að halda jörðinni í jafnvægi, þá skil ég ekki hvað illska er.

Þannig að rökin þín eru þau að guð varð að skapa náttúruhamfarir og skæða sjúkdóma til þess að "halda jörðinni í jafnvægi". Til að byrja með skil ég ekki hvað þú átt við með því að "jafnvægi" jarðar væri raskað. Í annan stað gæti vera sem bjó til þennan óendanlega fjölda stjarna augljóslega hannað reikistjörnu og lífkerfi sem væru í jafnvægi án þess að þurfa að skapa náttúruhamfarir og skæða sjúkdóma.

Veit ekki, en það voðalega auðvelt að benda og segja: "þetta er Guði að kenna", þegar náttúran skelfur og gerir það sem hún á að gera. Að finna sér slíkan blóraböggul eins og hér er gert, finnst mér bera vott um vanþekkingu og hugleysu.

Ef guð skapaði jarðskjálfta og malaríu, en hefði getað sleppt því, þá er það augljóslega honum að kenna. Hefur ekkert með "vanþekkingu og hugleysi" að gera.

Eina sem þú sýnir framá með þessu er að ábyrgðartilfinningin er enginn, og þú þarft nauðsynlega að finna einhvern blóraböggul og kenna honum um hluti sem gerast á hverjum degi eins og náttúruhamfarir.

Þetta kemur ábyrgðartilfinningu minni ekkert við (en ég hef amk svo góða ábyrgðartilfinningu, að ég teldi það vera á minni ábyrgð ef ég bjyggi til banvæna sjúkdóma). Ég þarf ekki að finna einhvern blóraböggul. Ég held að guð sé ekki til, og því get ég ekki kennt honum um neitt.

Guð hannaði þetta jafnvægis á sköpun sinni, ekki til þess að vera illur og kvikindislegur.

En auðvitað getur almáttugur guð haft "jafnvægi" á sköpun sinni án náttúruhamfara og drepsótta.

Sönn ill vera, sem þú telur Guð vera, hefði jú skapað jörð sem er án alls jafnvægis og hlýðir ekki neinum eðlilegum náttúrulögmálum.

Hvað með að skapa jörð með jafvægi og hlýðni við "eðlilegum náttúrulögmálum" og án jarðskjálfta og allra þessa ógeðslegu sjúkdóma?

.... en að segja að þetta sé Guði að "kenna" að það komi jarðskjálftar og aðrir eðlilegir hlutir, er bara firra.

Þú viðurkennir sjálfur í þessari athugasemd að guð skapaði jarðskjálftana, þannig að augljóslega er hann ábyrgur á þeim.

Lögmálum náttúrunar má deila endalaust um, það má vel vera að malaría sé hroðalegt níkjudýr, sem gerði og gerir stórkostlegann skaða jafnvel enn þann dag í dag, en erum við búinn að finna svör við öllu? Er búið að rannsaka alla hluti? Hver veit nema að malaría þjóni einhverjum tilgangi í náttúrunni. Aldrei segja aldrei, þú ert ekki dómbær á slíkt og ekki ég heldur.

Og þó svo að malaría hefði einhvern annan ókunnugan tilgang, hvers vegna gat guð þá ekki skapað lífveru sem uppfyllti þann tilgang en dræpi ekki mann á hálfs mínútan fresti?


Sverrir Ari - 01/10/07 19:01 #

Guðsteinn, hvað hafa flekamótin og hreyfing þeirra, krabbamein, loftsteinar (sem hafa útrýmt lífi) og downs heilkenni, sem dæmi, með "jafnvægi" jarðar að gera? Liggur það ekki í augum uppi að EF almáttugur skapari hefði hannað jörðina og lífið þá er hann afar slappur skapari. Ef við notum hins vegar rökin um rakhníf Occams um að einfaldari skýringin er oftast nær betri og sleppum skaparanum þá er dæmið miklu sennilegra. Sem sagt þá er miklu líklegra enginn skapari.


Guðsteinn Haukur - 01/10/07 20:27 #

Rétt hjá þér Matti, ég gerðist ómálefnanlegur - var heitt í hamsi, en ég skal halda mig á mottunni. En ég bendi samt á skrif Sigurðar hér ofar, hann er ekki beinleinis kurteis heldur.

En þú segir Matti:

En Reynir var bara alls ekkert að tala um tilvist Gvuðs í athugasemd sinni, heldur "tilvist hins illa" og er að benda á þá klípu sem guðfræðingar (og aðrir trúmenn) lenda í þegar þeir reyna að útskýra illsku í heimi sem algóður gvuð hefur skapað (sjá t.d. wikipedia: Problem of evil).

Ég bendi þá á að það er hægt sanna tilvist hins "illa" frekar en tilvist Guðs. Allt helst þetta í hendur. Og ítreka ég að ég ekki að reyna sanna eitt né neitt fyrir ykkur, heldur er trú málefni hjartans og sannfæringu hvers og eins.

Hjalti skilur ekki hvað ég við með að halda jafnvægi í náttúrunni, ef enginn væru eldgosin þá myndi auðvitað myndast of mikill þrýstingur neðan jarðar og allt færi í bál og brand. Ef enginn væri gróður þá væri ekki súrefni, o.s.f.v. það heitir að halda jafnvægi. Hvað viðkemur bakteríum og slíku, þá er þekkt að sumir sjúkdómar í dýraríkinu eru nauðsunlegur til að vinna bug á öðrum. Kallast móteitur í SUMUM tilfellum, ekki öllum. Þetta heitir jafnvægi líka.

En auðvitað verður óvjafnvægi í sumum tilfellum, og kann ég enga skýringu á því. En ég er samt ekki svo ungur að ég fari að kenna öðrum um eins og hér er gert. En það er bara mín skoðun.

Það hefur verið gaman að þræta við ykkur en ég læt þetta nægja að sinni, og þakka fyrir líflegar umræður.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/07 20:56 #

Guðsteinn, gæti guðinn þinn ekki losað um þrýstinginn í jörðinni án þess að notast við náttúruhamfarir? Eða þá að hanna jörðina þannig að það myndaðist ekki þrýstingur?

Þessi hugmynd þín um að allt bölið sé nauðsynlegt fyrir guð til þess að "halda jafnvægi" er út í hött.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 01/10/07 21:09 #

gat hann bara ekki hannað náttúrulögmálin þannig að aldrei kæmi upp vandamál, eða er hann ekki almáttugur kannski? Er þetta guð sem er ofurseldur náttúrulögmálunum? Þá er þetta ekki guð. Epicurus kláraði þetta mál fyrir 2300 árum, hvernig væri að "get with the program" hérna Guðsteinn.

ps. sorry að ég kalli þið geðsjúkann, vildi að ég kæmist hjá því, ég bara get ekki að því gert.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 02/10/07 00:35 #

Það hefur verið athyglisvert að lesa pistilinn og athugasemdirnar sem hafa verið skrifaðar í kjölfarið á honum.

Mig langar að benda á eitt og annað varðandi geðsjúkdóma. Fólk sem er ofurselt trú og trúarbrögðum er kannski ekki haldið þessum eiginlegu geðsjúkdómum sem læknavísindin hafa skilgreint, heldur er frekar um heilaþvott og ítroðslu trúarhugmynda sem eru byggðar á guðsótta að ræða.

Auðvitað leggst þetta á sinnið á fólki og það jaðrar auðvitað við geðveiki þegar fólk verður heltekið af trúnni og hefur smitast af trúarvírusnum. Trúarofstæki getur að sjálfsögðu leitt til alvarlegra geðveilu og það er ekki óþekkt að inni á geðdeildum víða um heim er fólk sem hefur misst algjöra stjórn á raunveruleikanum og þá um leið á sjálfu sér þegar það hefur kafað of djúpt í trúmálin og ýmsar upplifanir sem eru botnlausar og draga fólk dýpra og dýpra inn í heim sem er gefur í raun engin endanleg svör.

Það er líka vel þekkt í heimi læknavísindanna á geðsviðinu að ofurtrúað fólk hefur talið sig vera orðið heilagt og jafnvel uppgötvað að það er frelsarinn sjálfur endurfæddur og farið að haga sér í samræmi við það.

Það er líka vel þekkt að það fólk sem verður algjörlega vitstola við öfgafulla trúariðkun er mjög oft fólk sem er með mikla vanmáttarkennd. Það er mikið um það að margir sem fara út í öfgafulla trúariðkun eru brotnir einstaklingar og ánetjast trúnni þar sem hún þjónar mjög svo egóinu, þar sem fólki er talin trú um að það sé eitthvað meira en aðrir þegar það er orðið áhangendur Jesú.

Síðan eru auðvitað margir sem telja sig trúaða bara fólk sem er allt í lagi, ágætis manneskjur og allt það að sjálfsögðu. Það er þó oft smitað og litað á einhvern hátt af boðun biblíunnar án þess að gera sér kannski grein fyrir því, þar sem trúin hefur verið svo ríkjandi lengi og litað samfélagið á einn eða annan hátt.

...........

Varðandi jörðina og bramboltið í henni, þá hefur það sýnt sig að hún er í þróun eins og flestir ættu að vita. Flekarnir hafa verið að gliðna í sundur í gegnum tíðina og eins og dreifst betur um jörðina í staðinn fyrir að vera í einni þyrpingu eins og mér skilst að hafi verið.

Veirur og bakteríur eru taldar eldri en maðurinn, þannig að kannski erum við bara gestir hérna á þessari annars á margan hátt fallegu jörð sem er þó erfið og ekkert allt of vinsamleg við okkur.

Kannski vorum við einu sinni á ferðalagi, í nokkrurs konar vísindaleiðangri á vegum yfirmanns okkar sem við kölluðum Guð og er stórkostlegur vísindamaður og lentum hérna til að vinna ákveðin verk í þágu alheimsins. Aðstæður voru hins vegar mjög erfiðar hérna og við áttum fótum okkar fjör að launa á flótta undan snarvitlausum risaeðlum sem vildu éta okkur. Til þess að lifa af þurftum við að flýja upp í tré og dingla okkur þar um tíma þar til aðstæður voru betri en þá vorum við búin að týna svo miklu af kunnáttu okkar að við þurftum að byrja á núlli vegna þess að það tók alla okkar orku bara að reyna að lifa af og éta. Við áttum og eigum þó alltaf sköpunarkraftinn.

Þannig að við erum á þróunarbraut og stefnum heim til Guðs sem býr í óravídd geimsins á hnetti sem við eigum eftir að finna í fjarlægri framtíð þegar við smátt og smátt förum veg vísindanna á leið okkar út í geim til að finna það sem við erum að leita að.

Hahahaha....... kveðjur.


Haukur Ísleifsson - 05/10/07 11:39 #

Kæra Margét. Takk fyrir gott innlegg. Ég fatta samt ekki síðustu tvær Efnisgreinarnar. Gætiru dregið þetta saman í auðskilda kenningu.

Megi Bleikur Fíll vaka yfir ykkur.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 05/10/07 15:55 #

Kæri Haukur. Ekki skrítið að þú fattir ekki tvær síðustu efnisgreinarnar, enda var ég bara að grínast :-) Var bara að leika mér með ímyndunaraflið.

Svo má geta þess að ég hef mjög gaman að geimvísindum og finnst spennandi þetta brölt mannsins út í geiminn og fylgist spennt með því. Skrifaði sögu á moggablogginu um ferðalag mannsins útí geiminn og setti inn fullt af skemmtilegum myndum þar. Þú getur fundið hann ef þú skrollar niður síðuna mína þar.

Kveðja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.