Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nú fataðist geistlegum mönnum flugið!

Þegar styggð setur að geistlegum mönnum og kirkju vaknar hrekkjalómurinn sem blundar innra með mér og leikur á als oddi. Skelfilega lítið fyndin auglýsing Símans hefur vakið upp geðshræringar í brjóstum hinna hjartahreinu.

Biskupnum þykir þetta ósmekklegt. Spyr í hneykslun hvar menn setji eiginlega mörkin. Andvarpar og spyr enn hvort mönnum sé ekkert heilagt. Hann notaði ekki sterkari orð en þau sem eiga við þegar blaðamenn skrifa ótímabæra frétt af einhverju sem fréttist hvort sem er. Eins og þegar góðborgari laumast inná klámstað. Málið er þó alvarlegra frá kenningarlegu sjónarmiði.

Í hljóðvarpi og sjónvarpi hefur Halldór Reynisson fært þær fréttir að fólk “hafi haft samband” og uppátækið hafi sært tilfinningar þess og hneykslað. En kirkjan er auðvitað ekkert að segja mönnum hvað þeir mega og mega ekki í þessu tilliti. Og geistlegir menn leggja sig ekki niður við að “standa í stappi” eins og að kæra til siðanefndar auglýsingastofa. Halldór er fullkomlega innan marka, óaðfinnanlega og pólitískt rétt hugsandi. Við segjum engum fyrir verkum, við höfum bara skoðun. En gerum ekkert.

Biskupinn og séra Halldór gæta þess í lengstu lög að vera ekki púkó og standa sífrandi framaní alþjóð. Á meðan fer kjarni málsins fyrir ofan garð og neðan. Þessir málsvarar kristni og kirkju brugðust hlutverki sínu og gátu ekki sagt hreint og beint að hér væri um guðlast að ræða og brot á einu af boðorðunum tíu sem segir okkur að leggja ekki orð guðs við hégóma. Sennilega hefur haninn galað tíu sinnum í morgunn áður en þeir kumpánar komu upp nokkru orði. Þessir sérar eru svo feimnir að þeir geta ekki nefnt uppátæki Jóns Gnarr réttu nafni. Þeir mega nefnilega ekki vera hallærislegir, lummó og gamaldags og verða að gæta þess að kristin kirkja er nútímaleg, í takt við tímann deilandi kjörum með þjóðinni í blíðu og stríðu. Þess vegna kjökra þeir yfir særðum tilfinningum manna og velsæmismörkum þeirra. Það er leyfilegt og nútímalegt að minna menn á að taka tillit til þess sem styggir mannfólkið og særir. En það er bara alls ekki kjarni málsins. Þarna er sjálfur biskupinn og séra Halldór með afskaplega brenglaða hugmynd um velsæmismörk. Eitt er að guðlasta og leggja orð drottins við hégóma. Það er móðgun við almættið og dauðasök. Hitt er saklaust í samanburðinum að stugga svolítið við sómatilfinningu lægri vera eins og mannskepnunnar.

Kirkjunnar menn ættu nú að líta í eigin barm. Fyrst þeir veigra sér við að tala um guðlast og boðorðin tíu og þora ekki lengur að minnast á helvíti.... hvernig geta þeir ætlast til þess að trúður sem þykist vera opinberlega kristinn átti sig á hvar velsæmismörkin eru þegar guð almáttugur er annars vegar? Biskup og séra Halldór hafa gert hér mannlegar tilfinningar að mælikvarða velsæmis en ekki guðsorðið. Þess vegna er Jóni Gnarr vorkunn að nota sjálfan sig og kímnigáfu sína sem mælikvarða velsæmis en ekki guðsorðið.

Mér þykir það skelfilegt kirkjunnar vegna að guðlaus maður þurfi að vekja athygli hennar á þessum sannindum sem ættu að vera henni augljós. Mamma kenndi mér að hjálpa minnimáttar þegar ég var drengur og því bendi ég hér biskupi og kenni hér séra Halldóri.

Ég er alltaf að spyrja sjálfan mig þeirrar spurningar reglulega hvenær Jón Gnarr játar djókinn. Ég gruna hann um að hafa þóst ánetjast trú og sé að athuga hvað hann geti gengið langt í vitleysunni þangað til þeir sem eru “fátækir í anda” átta sig á að þeir hafa verið hafðir að fífli. Er spéfuglinn að koma út úr skápnum með þetta allt? Á auglýsingaherferð Símans að verða hápunktur brandarans? Fáum við bók um næstu jól: “Dvöl mín meðal trúaðra” - sem verður svo upphaf alvöru rannsóknarblaðamennsku á Íslandi?!

Mér þykir þessi auglýsing ekkert hneyksli. Þetta er eins og önnur fokdýr vitleysa sem hér veður uppi í forheimskunarlandinu þar sem bjálfar eru fengnir til að pranga inná okkur símum, dömubindum og Lukexi og láta við kaupendur eins og þeir séu álíka miklir bjálfar. Mér finnst auglýsingin hvorki fyndin né vel gerð og síst af öllu listaverk og þaðanafsíður falleg eins og hugmyndasmiðurinn hefur sagt. Má vera að hún sé “nútímalegt trúboð”. Ef það var meiningin þá hefur Jón gróflega misnotað aðstöðu sína því þetta átti að vera auglýsing fyrir síma. Ef til vill má hneykslast á því svolítið ef maður reynir. En þar sem samúð mín er meiri með afkomu Jóns en gróða Símans ætla ég ekkert að rembast. Ef eitthvað er hneyksli hér þá er það fákunnátta prestanna um velsæmi. Þeir héldu að það væri verið að móðga fólk þegar sjálfur guð var lastaður.

Ég vil taka það fram að ég tel að trúarskoðanir eigi ekki að njóta neinna forréttinda fram yfir aðrar skoðanir. Um leið og þær njóta forréttinda umfram aðrar, verða undanþegnar ádeilu og hnjóðsyrðum er voðinn vís eins og sagan kennir okkur og nútímapólitíkin sýnir svo ekki verður um villst. Því má hafa þær að háði og spotti eins og aðrar skoðanir sem þykja fáránlegar og hlálegar. Undir þessu verða menn að sitja. Undir þessu verður biskup að sitja. Ef einhverjir gera skoðanir sínar að tilfinningamáli verða þeir að bera ábyrgð á því og geta ekki gert kröfu um að það gefi þeim enhver sérstök réttindi.

Greinin birtist á bloggsíðu höfundar 4. september

Pétur Tyrfingsson 12.09.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birta - 12/09/07 16:55 #

Ég verð að segja að ég er ekki sammála Pétri um það að auglýsingin sé ekki fyndin og vel gerð. Mér finnst hún bráðfyndin, og afar vel gerð (fyrir utan það stórslys að láta þá Jesú og Júdas nota Vodafón síma).

Auðvitað eiga menn að fá að gera grína að trúarbrögðum (þó að það varði reyndar því miður við almenn hegningarlög að hæðast að trúarbrögðum - sem er reyndar ekki það sama og að grínast).

Mér sýnist Jón klárlega vera afar trúaður (þrátt fyrir vangaveltur Péturs um hið gagnstæða). Jóni finnst vænt um guðspjöllin og frásögnina af síðustu kvöldmáltíðinni, og er grín hans þeim mun skaðlausara fyrir vikið, t.d. eins brandari sem er niðrandi um gyðinga er skárri sé hann sagður af gyðingi sem gerir grín að sjálfum sér, en sé hann sagður af manni sem hefur andúð á gyðingum. Jón Gnarr er að gera grín að eigin trú - og verði honum að góðu. Hann stóð sig vel. Mér finnst auglýsingin flott og fyndin.


gimbi - 13/09/07 00:24 #

[ athugsemd færð á spjallið ]


Halldór Carlsson - 13/09/07 00:48 #

,,Dvöl mín meðal trúaðra”, haha .. - er Jón Gnarr under cover? Það er amk spurning hvort hann er heppilegasti trúboði í heimi. Mér fannst viðtalið við hann, þegar hann var að verja auglýsinguna, miklu fyndnara en auglýsingin sjálf - það var eins og hann dytti inn í nokkur Fóstbræðraatriði, eins og td þegar hann var að leita að Sound of Music á vídeóleigunni, hahaha. Verst að hann fór ekki í Guðfræðideildina, því núna sitjum við líklega uppi með Davíð Þór sem biskup eftir 20 ár ..


Birta - 13/09/07 09:05 #

Ég held að Davíð Þór hafi ekki klárað guðfræðinámið. En þar sem hann er ekki einu sinni prestur (enda uppfyllir hann ekki hæfniskröfur, sbr það sem ég sagði að ofan), og hefur ritstýrt Bleiku og Bláu, þá eru möguleikar hans heldur hæpnir :-)


Halldór Carlsson - 13/09/07 14:13 #

Æ, ég gleymdi auðvitað að Jón Gnarr er kaþólskur. Fóstbræður taka Píslarsöguna í Landakotskirkju, styrktir af Símanum, jibbí!!! Glitnis - Guðspjöllin? Eða verður Jón kannski bannfærður af kaþólsku kirkjunni af því að hann er orðinn að Júdasi?

Davíð er byrjaður aftur í námi, svo það er aldrei að vita hvað gerist, þegar kirkjan er orðin galtóm og þarf að poppa sig upp. Bleikt og Blátt, já - annað eins (og verra) hefur andans mönnum nú fyrirgefist gegnum tíðina. Og kannski gæfi það honum aukið innsæi þegar tvíkynhneigðir fara að krefjast viðurkenningar kirkjunnar. Plús: Það væru vikulegar spurningakeppnir á Biskupsstofu ..


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 14/09/07 03:16 #

Mér finnst þessi grein afar fín og tímanleg. Punkturinn um að ríkiskirkjan þori ekki að nefna fyrirbærið guðlast krystallar þá klemmu sem þetta ríkisrekna trúfélag er í.

Ríkirkirkjan þarf nefnilega hvort í senn að vera hipp og kúl og í takt við tíðarandann OG beygja sig undir kennivald bibliunnar (enda enginn venjulegur höfundur þar á ferðinni -sjálfur skaparinn)

Og þar sem biblían er samansafn miskunarlauss bronsaldarsiðferðis er ríkiskirjan í afar miklum vanda við að púsla því saman við hið umburðarlinda og upplýsta samfélag sem við búum við í dag.

Þetta verkefni ferst þeim afar illa úr hendi þvi verkefnið er óyfirstíganlegt. Ekki er mögulegt að þjóna 2 guðum í einu. Annað hvort verður ríkiskirkjan að halda sig við bibíluna (eins og t.d Krossin og aðrar öfgatrúarhreyfingar) eða búa til splunku nýja guðfræði sem er einhvert moð úr ýmsum áttum.

Hvað varðar Gnarr og auglýsinguna hans þá hefur hann verið miklu fyndnari og ég skil ekki alveg pælingu hans um "nútíma trúboð". Afar furðulegt trúboð þar á ferðinni satt best að segja.


Guðjón - 14/09/07 17:21 #

Mér finst þessi auglýsing ósmekkleg. Ég hef fram að þessu staðið í þeirri trú að það þjónaði ekki neinum tilgangi að deila um smekk manna. Sýnir þessi auglýsing með mjög skýrt fram á að trúarskoðanir njóta ekki neinnar vendar.


G2 - 15/09/07 14:39 #

Sýnir þessi auglýsing með mjög skýrt fram á að trúarskoðanir njóta ekki neinnar vendar.

Æ Gaui minn, hættu þessari vitleysu.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 15/09/07 14:55 #

HAHA Guðjón, þvílík uppgötvun, það ætti að veita þér verðlaun.


ratatoskur - 21/09/07 01:59 #

Þessi grein er góð, ég er sammála höfundi. Mín skoðun er sú að við lifum dauða kristinnar trúar, fæst okkar hafa hins vegar hugmynd um hvað það merkir í raun og veru. Við getum saknað þessa óvenjulega kristals sem píslarsagan spannar. Það er einkennilegt að prestar skuli ekki koma til varnar fyrir sína trú, en ég held að það hefði ekkert að segja, rigor mortis er að því er virðist ástand kirkjunnar. Dauði kristinnar trúar er auðvitað ekki einkamál presta, þegar froðunni er fleytt af stöndum við frammi fyrir spurningu sem snýst ekki um trú eða vantrú, pælingar í þá veru eru hlægilegar. Að berjast eins og maður les á þessum vef við vindmyllur dauðrar trúar. Nei, nú er spurningin sú hvernig okkur tekst að lýsa manneskjunni í ljósi afar langrar sögu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.