Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skítt með boðorðin

Í nýrri sjónvarpsauglýsingu Símans má sjá „meistarann“ hringja í Júdas sem er orðinn of seinn í síðustu kvöldmáltíðina. Höfundur er Jón Gnarr, sem hefur marglýst yfir trú sinni á guði Gyðinga og Ísraelslýðs. Eftir birtingu auglýsingarinnar kom fram að biskupi Íslands þótti verkið ósmekklegt og fræðslufulltrúi ríkiskirkjunnar kom í Kastljós og tók undir það. Þó kom fram í sama þætti að Jón greyið hafði gengið á fund biskups og annarra preláta og borið hugmyndina undir þá. Ákúrur eftir á komu Jóni því í opna skjöldu.

Eðlilegt hefði verið að ræða við biskup sjálfan en fulltrúi hans í Kastljósi tók skýrt fram að hann talaði ekki fyrir munn kirkjunnar, aumur fræðslufulltrúi það. En það ámátlegasta í öllu saman var að þessir kirkjunnar menn sáu ekkert athugavert að guð þeirra (eða 1/3 af honum) er notaður til að selja símtól. Fulltrúinn sagði bara að valið á senu hefði mátt vera smekklegra og benti á að meistarinn á veiðum í Geneseratvatni hefði verið betri umgjörð en síðasta kvöldmáltíðin.

Kjölfesta kristinna eru boðorðin tíu. Maður skyldi ætla að þau væru æðsta manni kirkjunnar ofarlega í huga, hvað þá fræðslufulltrúanum, en það var ekki að sjá. Eitt þeirra hljóðar nefnilega svo: „Þú skalt ekki leggja nafn drottins guðs þíns við hégóma, því að drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“ Trúi menn goðsögum Biblíunnar er þessi guð öllum fremri þegar kemur að hegningu. Hann murkar ekki bara lífið úr þúsundum manna, börnum og gamalmennum, nei, hann hegnir misgjörða í margar kynslóðir og getur úthlutað mönnum eilífum kvölum, gráti og gnístran tanna í ofanálag. Hann er svo góður, algóður kalla þeir það. Ef nýjasta tólið á markaðnum er ekki hégómi veit ég ekki hvað hégómi er.

Annað boðorð er svo að halda hvíldardaginn heilagan, það er víst sjöundi dagurinn. Flestir Íslendingar halda að sunnudagur sé hvíldardagurinn, en ef þriðjudagur er þriðji dagurinn og fimmtudagur sá fimmti hlýtur laugardagurinn að vera sá sjöundi. En þar sem enginn tekur þetta boðorð hátíðlega skiptir það engan máli, ekki einu sinni kirkjuna. Og nú má leggja nafn guðs við hégóma, jafnvel með blessun og ábendingum kirkjunnar. Saxast nú á limina hans Björns míns.

En merkilegast við þetta uppþot finnst mér yfirlýsing Jóns í Kastljósi að með auglýsingunni sé hann að stunda það sem hann kallar nútímatrúboð! Kristnir menn kalla ekki allt ömmu sína í siðleysi. Kristið siðgæði í hnotskurn. Væri ekki rétt að Jón notaði eigið fé og tíma til að stunda sitt trúboð í stað þess að láta Símann kosta það? Síminn var svikinn, í stað kynningar á nýrri tækni keypti hann misheppnaða altaristöflu. Vissulega er umgjörðin fögur og fagmannleg en innihaldið er aulabrandari. Guðinn er hafður að spotti og helgislepjan afhelguð, að vísu þarft verk og þakkarvert. Þótt Vodafone auglýsi sig líka með aulabrandara finnst mér ólíkt geðslegra að vísa í þjóðsögu okkar um Búkollu þar sem Karlssonur bjargar kúnni frá skessunum. Hún er mun geðslegri en sagan um Guðssoninn. Hvers konar skrímsli murkar lífið úr syni sínum til að fyrirgefa óvitum, börnum sínum? Þessi goðsaga er auðvitað hreinn viðbjóður en við erum orðin gjörsamlega ónæm fyrir innihaldi hennar.

Guðstrú á Íslandi á 21. öld er auðvitað skrípaleikur, þótt grátlegur sé.

Reynir Harðarson 09.09.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


ORK - 09/09/07 10:39 #

Það besta er hins vegar að bæði biskup og Nonni G eru hundfúlir, "everybody wins"


Theódór Norðkvist - 10/09/07 22:21 #

Það er margt til í þessu hjá ykkur, fyrir utan óhróðurinn um kristna trú, sem alls staðar leggur í gegn í skrifum Vantrúarmanna.

Ég er ekki viss hvort þessi auglýsing sé brot á 2. boðorðinu. Burtséð frá allri umræðu um trú, er sími hégómi? Farsími er öryggistæki og nytjahlutur, sem er nánast ómissandi í nútímalífi.


Hc. - 11/09/07 02:10 #

,,Þessi goðsaga er auðvitað hreinn viðbjóður en við erum orðin gjörsamlega ónæm fyrir innihaldi hennar."

Hvað er þá vandamálið?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.