Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað borða álfar?

Cottingley álfarnir
Cottingley álfarnir frægu
Í lok júlí fjallaði Kastljós Sjónvarpsins tvisvar um álfa og huldufólk. Mánudagskvöldið 30. júlí var viðtal við stelpu sem segist sjá álfa og föður hennar sem er búinn að gefa út bók sem byggir á þessum meintu sýnum hennar. Kvöldið eftir var umfjöllun um myndir af huliðsverum og tvö viðtöl, við áhugamann um álfa annars vegar og ljósmyndara hins vegar.

Hér eru upptökur af þáttunum:

Efnistök í innslögunum tveimur eru gjörólík. Í viðtalinu við feðginin er ekkert mótvægi. Þau fá að segja gagnrýnislaust frá hugmyndum sínum um álfa, sem eru tvímælalaust óvenjulegar í skilningi vísindanna. Öðru máli gegnir um ljósálfana. Þar segir Magnús frá myndunum og því sem hann les úr þeim. Einnig er kallaður til reyndur ljósmyndari sem sagði frá hugsanlegum skýringum á bak við myndirnar. Þarna vantaði kannski þriðja aðilann til þess að fjalla um hvernig eðli álfa er furðulegt í ljósi þeirra hugmynda sem vísindamenn hafa um náttúruna. Þann 10. ágúst komu svo ítarlegri upplýsingar um eina myndina í Kastljósi. Fjölskylda úr Reykjavík tók myndir af einu fyrirbærinu sem reyndist grjóthrúga!

Ef álfar eru til, eins og næmt fólk lýsir þeim, þá brýtur tilvist þeirra í bága við ýmis lögmál í líffræði og eðlisfræði. Ýmsar áhugaverðar spurningar hljóta því að vakna.

Álfar á hreyfingu hljóta að þurfa að fá orku (það er a.m.k. eitt höfuðeinkenna lífvera). Hvernig matast álfarnir? Hverfur fæðan sjónum okkar þegar þeir innbyrða hana? Þrífast þeir kannski á sérstökum álfamat sem við sjáum ekki?

Tökum annað dæmi: Augu okkar eru næm fyrir sýnilegu ljósi. Þetta ljós berst til augnanna frá hlutum úr „venjulegu“ efni (atómum) sem endurkasta ljósi frá sólinni og öðrum ljósgjöfum. Hvernig getur það þá verið að sumt fólk „sjái“ verur sem eru ósýnilegar öðrum, óáþreifanlegar og ekki hægt með nokkru móti að rannsaka með mælitækjum? Eins er það afar furðulegt ef þessar verur geta farið inn í steina en öll okkar reynsla segir okkur að þeir séu býsna fastir fyrir og ekki hlaupið að því að smjúga inn í þá. Í ljósi náttúrulögmálanna hlýtur að vera eðlilegt að draga í efa tilvist álfa sem aðeins útvaldir einstaklingar eiga að geta séð.

Innslagið um álfabókina virkaði svolítið eins og það ætti að vera „krúttlegt“. Hvað er hins vegar krúttlegt við það þegar fjölskyldufaðir gerir meintar álfasýnir dóttur sinnar að féþúfu? Við vitum að börn hafa frjótt ímyndunarafl og að ímyndaðir vinir og verur eru eðlilegur þáttur í þroskaferli þeirra. En hvað gerist svo þegar stelpan eldist? Reynir hún að halda þessu áfram til streitu því annars þyrfti hún að viðurkenna að þetta hafi kannski ekki byggst á traustum grunni? Þarna er náttúrlega verið að búa til enn eina „skyggna“ manneskju sem uppsker athygli, virðingu og fjölmiðlaheimsóknir út á skyggnigáfu sína.

Sverrir Guðmundsson 27.08.2007
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/08/07 08:50 #

Það má máske bæta einni spurningu í viðbót:

Hvernig stendur á því að sumar myndavélar geta tekið ljósmyndir af álfum en aðrar ekki?


Kristján Hrannar Pálsson - 27/08/07 11:00 #

Og hvers vegna eru álfarnir sem Magnús talar um litlir og með vængi - eiga þeir ekkert skylt við huldufólkið í þjóðsögunum? Hvers vegna eru þetta bara vestrænir álfar...ætti ekki að vera hægt að finna japanska anda eða suður-ameríska drauga víðar en á þeim svæðum?


Jón - 27/08/07 14:16 #

hvaða umræða er þetta? Endalaust röfl er þetta og talað um stelpuna eins og hún sé bara að rugla. Hún má bara alveg sjá álfa og pabbi hennar skrifa bók um það ef hún vill. Eina sem mælir gegn því er fólk sem þarf sífellt að vera að velta ótrúlegustu hlutum fyrir sér og hneykslast að öllu sem er eitthvað útfyrir kassann.

Svo er það nú þannig að það er að lokum heilinn sem ,,sér" áreiti en ekki augun sem eru eingöngu nemi. Það er þá í heilanum sem munurinn myndi liggja. Þar gætu þá verið svæði misnæm fyrir áreiti. Sumir gætu því verið að nema eitthvað, engu að síður í gegn um augun, sem ekki er efnislegt. eitthvað ekki af þessum heimi.Við vitum bara allt of lítið um náttúrulögmálin, mannsheilann og lífið til að fara að alhæfa um að þessi og hinn hluturinn standist ekki. 'i heiminum eru sífellt að eiga sér stað undur, bæði læknisfræðileg og önnur sem við eigum engar skýringar á

Ætli verurnar búi þá ekki bara á sama stað og steinninn er frekar en íhonum.


Pétur - 27/08/07 14:39 #

Mig langar að benda á eitt efni sem að endurkastar litlum eða engum rafsegulbylgjum, Hulduefni (http://en.wikipedia.org/wiki/Dark_matter). Hulduefni og hulduorka (eitthvað sem vísindamenn tengja saman) eru samtals ábyrg fyrir 96% af byggingarefni alheimsins, á meðan að efni sem að 'sést' beint er talið vera um 4% af heildar magni efnis (og orku) í alheiminum.

Hið undarlega við hulduefni og hulduorku er að þau fyrirbæri sjást ekki og mælast ekki. Allar kenningar um þessi fyrirbæri eru reyfarakenndar því einu ummerkin eru að ljós sem ferðast langar vegalengdir beygir meira eða minna af leið en venjulegar kenningar gera ráð fyrir.

Því vil ég kasta fram eftirfarandi kenningu til að útskýra tilvist álfa og annarra vera sem 'sjást' ekki. Aðal byggingarefni þeirra eru hulduefni og orkan sem þessar skepnur brenna er hulduorka.


Einar Þór - 27/08/07 18:03 #

Er þetta ekki bara svipað og er með Guð? Það er ósköp erfitt að sanna tilvist hans en þrátt fyrir það trúa milljónir manna á hann. Og það er eins með hann og álfana, sumir telja sig sjá hann, eða allavega heyra í honum, og aðrir gera það ekki...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/08/07 18:45 #

Því vil ég kasta fram eftirfarandi kenningu til að útskýra tilvist álfa og annarra vera sem 'sjást' ekki. Aðal byggingarefni þeirra eru hulduefni og orkan sem þessar skepnur brenna er hulduorka.

Ah...álfar sjást ekki af því að þeir eru gerðir úr efni sem sést ekki. En mér finnst undarlegt að verur úr efni sem hvorki sést né "mælist" birtist á ljósmyndum. Afar undarlegt.

Annars er það léleg aðferð að koma með tilgátu til þess að útskýra eitthvað sem virðist ekki vera til.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/08/07 20:36 #

Ýmsir "skyggnir" einstaklingar segjast sjá álfa. Eru þeir þá þeim eiginleika gæddir að sjá andefnið? Og er þá ekki hægt að fá þá til að lýsa því sem þeir sjá í ofurstjörnusjónaukum veraldarinnar?

Hvers vegna sjá aðeins sumir einstaklingar andefnið, en allar andefnisverur sjá okkur?


Jón Frímann - 27/08/07 22:35 #

Þetta eru ekki álfar, þetta eru geimverur!


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 27/08/07 22:36 #

Hvort sem álfar eru úr "and-efni" eða ekki úr neinu efni (og þar með ekki til)finnst mér bara krapp miðað við þá staðreynd að einhver gaur gefur út bók og notar meinta álfasýn dóttur sinnar sem efnivið í bókina. Þetta finnst mér barasta siðlaust. Þarna er faðirinn í rauninni að ýta undir dellu-rugl í dóttur sinni með afleiðingum sem einginn veit hverjir verða. Hvernig bregst barn við pressu frá foreldrum sínum þess efnis að það "skuli sjá álfa"? Mér finnst þetta ekkert krúttlegt. Mér finnst þetta sorglegt og sannar enn og aftur fyrir mér óendanlega djúpan siðferðislegan botn þessa álfa-anda-drauga átrúenda.

Mér barasta fallast hendur.


Kid - 28/08/07 01:03 #

"hvaða umræða er þetta? Endalaust röfl er þetta og talað um stelpuna eins og hún sé bara að rugla."

Finnst þér hún ekki vera að rugla?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 28/08/07 07:14 #

Greinin er ágæt, umræðurnar skemmtilegar. Ég hallast að því að Jón Frímann hafi rétt fyrir sér ... þetta eru auðvitað geimverur.

Það sem er athyglisvert fyrir mitt leyti um þessa álfatrú er að það má ekki deila á hana, sem mér sýnist vera það sem Sverrir er aðallega að segja. Þessi afstaða til þess sem fólk trúir, þ.e. að það megi ekki tala um það á gagnrýninn hátt, tel ég vera komin frá þeim endalausu tilraunum kristinna að komast hjá umræðum með því að draga einhver rökleysismörk utan um trúarbrögð sín. Þetta smitar síðan yfir í alla vitleysu sem fólk trúir.

Herra Sigurbjörn hefði reyndar ekki leyft fólki að komast upp með álfatrú, ég man að hann sendi stenógrafaða bæklinga í skóla til að vara við jóga og karate, hvort tveggja væru villutrúarbrögð!

Hvernig væri svo að kristna jólasveinana? Eru þeir ekki 13? Nú legg ég til að þjóðkirkjan komi með nýtt sett, 12 postular + Jesú sem kemur auðvitað síðastur. Hitt á ekki heima í kristnu samfélagi!


Svanur Sigurbjörnsson - 28/08/07 10:17 #

Takk fyrir góða grein Sverrir Hér að ofan fer Jón nokkur á kostum. Hann segir

Svo er það nú þannig að það er að lokum heilinn sem ,,sér" áreiti en ekki augun sem eru eingöngu nemi. Það er þá í heilanum sem munurinn myndi liggja. Þar gætu þá verið svæði misnæm fyrir áreiti. Sumir gætu því verið að nema eitthvað, engu að síður í gegn um augun, sem ekki er efnislegt. ...

...stop, stop, stop eitt bull í einu. Hér er Jón að koma með þá tilgátu að þrátt fyrir að neminn (augað) geti ekki séð óefnislega hluti, geti úrvinnslustöðin (heilinn) "séð" þá. Þetta er svona álíka að segja að heilinn geti búið til mynd úr innrauðu ljósi sem aldrei barst til heilafrumnanna eða að ég hafi tekið í hendina á manni sem aldrei komst inn fyrir útidyrnar mínar. Hér lýtur Jón í ímyndunargleði sinni framhjá því að það verður engin mynd til í sjónheilaberkinum önnur en sú sem augun nema. Áfram hélt Jón...

... eitthvað ekki af þessum heimi.Við vitum bara allt of lítið um náttúrulögmálin, mannsheilann og lífið til að fara að alhæfa um að þessi og hinn hluturinn standist ekki. 'i heiminum eru sífellt að eiga sér stað undur, bæði læknisfræðileg og önnur sem við eigum engar skýringar á

Hér ruglar Jón því saman að það sem við vitum ekki enn um náttúruna geri frásagnir fólks af álfum eitthvað trúanlegri. Það er enginn að alhæfa neitt. Það er einfaldlega engin ástæða til að trúa fólki sem kemur með staðhæfingar út í loftið um ósýnilegar verur. Þessi "undur" sem Jón er að tala um eru væntanlega óútskýrð tilfelli þar sem einhver læknast af banvænum sjúkdómi og slíkt. Þurfum við að álykta þá að fyrirbæri eins og álfar gætu þá verið til? Það er fráleitt! Það er margt sem við vitum ekki, en "undur" eiga sér hreinlega eðlis- og efnafræðilegar útskýringar, sem eru okkur enn ókunn. Ótal undur (eins og t.d. sárasýkingar) hafa verið útskýrð líffræðilega og aldrei hafa yfirnáttúrlegar tilgátur staðist, aldrei!


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 28/08/07 12:02 #

Pétur skrifaði:

Því vil ég kasta fram eftirfarandi kenningu til að útskýra tilvist álfa og annarra vera sem 'sjást' ekki. Aðal byggingarefni þeirra eru hulduefni og orkan sem þessar skepnur brenna er hulduorka.

Þetta er vissulega athyglisverð tilgáta. Það getur verið að huldufólk búi hér á landi, eða alls staðar í heiminum, en sé úr hulduefni og því óskynjanlegt að nánast öllu leyti. Við gætum skoðað hvaða áhrif þetta huldufólk hefur á þyngdaraflssvið jarðarinnar, og athugað hvort það passi við áhrifin sem sjáanlega efnið hefur, en ég er nokkuð viss um að við séum ekki komin með nógu næm mælitæki til að ganga úr skugga um það ennþá.

Gallinn við svona útskýringu er í fyrsta lagi sá að við höfum enga leið til að sannreyna hana. Í þokkabót skiljum við hulduefni ekki alveg ennþá.

Í annan stað getum við notað hulduefni (og hulduorku) til að útskýra hvaða ósjáanlega, óskynjanlega hlut sem er.

Ég er viss um að það séu fljúandi bleikir einhyrningar í þúsundatali uppi á íslenska hálendinu - en þeir eru úr hulduefni.

Ég held líka að til sé keðja af fljótandi þorpum á atlantshafi sem eiga upprót sína í hinni raunverulegu Atlantis, en þau eru úr hulduefni og fólkið sem býr í þeim líka.

Er einhver ástæða til að gefa einhverjum þessara tillaga meira sannleiksgildi en hinum?

Þegar ég verð keisari ætla ég að láta sníða á mig föt úr hulduefni.

Es. Passið ykkur að rugla ekki saman hulduefni og andefni, andefni er þannig að þegar það kemst í snertingu við ,,venjulegt" efni, þá umbreytast bæði efnin í hreina orku (samkvæmt E = MC^2), þannig að ef álfar væru úr andefni myndu þeir ekki lifa lengi á Íslandi, heldur springa um leið og þeir kæmust í snertingu við loftið.

Greinar Phil Plait um hulduefni Kynning Martin White á hulduefni


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 28/08/07 17:19 #

Mér finnst persónulega að það eigi ekki að íta undir "sýnir" barna, þar sem ímyndunarheimur þeirra er ansi líflegur eins og margir vita. Ef börn telja sig sjá eitthvað eða skynja sem öðrum er hulið á alls ekki að rjúka til og gera ráð fyrir því að sýnir barnsis séu eitthvað dulrænt og þar leiðandi eitthvað sem mark ætti að taka á eins og margir sem trúa á yfirnáttúrulega hluti myndu gera. Svo er líka reyndar til fólk sem rýkur með börnin sín til geðlækna ef þau sjá eitthvað eða skynja sem aðrir sjá ekki. Ekki er það betri leið. Setja börn á geðlyf sem dæmi.

Staðreyndin er að mjög mörg börn myndbirta í huga sér ástand og upplifanir. Þau geta gleymt sér í leikjum og jafnvel séð álfa ef þau eru úti að leika sér í náttúrunni. Börn eru mjög gjörn á að búa til verur í huganum og gjarnan þá verur sem þau hafa séð á myndum eða í bíómyndum eða lesið um. Myndbirting veranna verður síðan nákvæmari og skýrari eftir því sem barnið leiðir hugann meira að þessu eða er beinlínis fengið til að setja sig inn í þetta leikjaástand sitt vegna forvitni fullorðinna. Úr getur orðið ansi skemmtilegar sögur og skemmtilegar myndir hjá barni sem er með ríkt ímyndurnarafl.

Það ætti hinsvegar ekki að halda börnum við slík efni og gefa þeim tilefni til að halda að þetta sé hluti af tilverunni og jafnvel hluti af lífi þeirra. Þetta getur orðið til þess að börn missa svokallaða jarðtengingu og hugur þeirra leitar of mikið frá "hinum sjáanlega raunveruleika" og getur jafnvel orðið þeim til mikilla trafala í framtíðinni ef þetta verður stjórnlaust.

Börn sem eru myrkfælin eru sem dæmi mjög gjörn á að birta í huga sér myndir af því sem þau eru hrædd við. Eins og drengur sem ég þekki. Hann var alltaf hræddur við að fara einn á klósettið seint á kvöldin eða nóttunni þegar dimma tók og ótti hans var aðallega við baðgluggann sem var lítill og enginn gluggatjöld voru fyrir enda bjó hann á fjórðu hæð. Myrkrið blasti við honum og hann hafði mjög mikið ímyndunarafl. Hann fór að sjá gamla óásjálega konu í hvítum náttkjól með kertaljós á baðherberginu. Hann var mjög hræddur við þessa sýn. Þegar vel var að gáð, hafði þessi kona komið fram í bíómynd sem hann sá og var afar draugaleg. Þar mátti sjá þessa konu líða um gangana. Hann semsagt myndbirti ótta sinn svona.

Annars ætlaði ég ekki að skrifa heila ritgerð hérna :) Sjálf hef ég séð og skynjað ýmislegt sem gæti talist "dulrænt". Þar sem ég er mikil efasemdarmanneskja gerði ég það hreinlega að rannsóknarverkefni að kryfja til mergjar hvers vegna þetta væri svona. Það er staðreynd að fullt af fólki telur sig sjá og skynja það sem öðrum er hulið og fyrir mér þarf að leita útskíringa á því en ekki ætla það að allt sé bara bull. Mjög oft finnast eðlilegar skíringar ef fólk veit hvað ímyndunaraflið getur gert og skapað.


Jón Frímann - 29/08/07 00:41 #

Ef að fólk nær sér í stærri útgáfu af myndinni á netinu og stækkar hana með Gimp eða Photoshop þá sést augljóslega að þetta eru teiknaðir álfar, þeir eru allir nefnilega í 2D.


Eva Hauksdóttir - 29/08/07 17:46 #

Það sem mér finnst merkilegast við álfatrú hér á landi er sú goðsögn að hún sé algeng. Ég þekki persónulega engan sem trúir á álfa. Ég umgengst mjög margt hjátrúarfullt fólk og verð mikið vör við trú á "andaheiminn", "árulestur" og allskyns illskilgreinanleg "orkusvið" og "orkupunkta" en ég hef engan heyrt halda fram álfatrú af sannfæringu. Samt sem áður er stöðugt verið að ljúga því að túristum að álfatrú lifi góðu lífi á Íslandi. Kannski finnst okkur það bara svona krúttleg hugmynd.


Eva Hauksdóttir - 29/08/07 18:02 #

Annars get ég nú svosem ekki séð þessa álfabók sem stóran glæp gagnvart mannkyninu. Telpan sér myndir í náttúrunni, rétt eins og allt fólk sem hefur snefil af ímyndunarafli, og hvað með það? Verðum við ekki að gera greinarmun á listamannsauga og yndi af ævintýrum og því þegar blind trú veldur óhamingju og kemur í veg fyrir framfarir?


Eva Hauksdóttir - 29/08/07 18:06 #

Auglýsi hér með eftir rökstuðningi við fullyrðingar um að heilbrigð börn "missi jarðtengingu" ef tekið er undir hugmyndir þeirra um kynjaverur. Bendi á að meirihluta barna á Íslandi elst upp við jólasveinatrú fram að grunnskólaaldri en þekki engan sem hefur haldið þeirri trú fram á fullorðinsár.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/08/07 22:16 #

Sá er munirinn á jólasveinatrú og álfatrú að börnin halda þó að jólasveinarnir séu af holdi og blóði, bara svona einhver þjóðfélagsstétt. Og þeir eru sýnilegir, mæta á svæðið árlega, jafnraunverulegir og prestar og biskupar.

Ég mun ala börnin mín upp í því að þetta jólasveinakjaftæði sé skemmtilegur þykjustuleikur og að það séu bara leikarar innan í rauðu fötunum og skegginu. Það er alveg hægt að fíla þá jafnvel fyrir því og jafnvel sleppa við að vera hræddur við þá, eins og ég var þegar ég var fimm.


Brynjar - 23/01/09 02:05 #

"Ég mun ala börnin mín upp í því að þetta jólasveinakjaftæði sé skemmtilegur þykjustuleikur og að það séu bara leikarar innan í rauðu fötunum og skegginu. Það er alveg hægt að fíla þá jafnvel fyrir því og jafnvel sleppa við að vera hræddur við þá, eins og ég var þegar ég var fimm."

..ég vorkenni börnin þín.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 23/01/09 10:04 #

Og ég gæti vorkennt börnum sem eiga foreldra sem ljúga að þeim langt fram eftir öllum aldri um tilvist alls kyns kynjavera, s.s. jólasveina, álfa og trölla.

Sök sér að segja börnunum þessar sögur þegar þau eru óvitar, en um leið og þau þróa með sér hæfileikan til að hugsa rökrétt finnst mér gróf móðgun við þau að halda að þeim hlutum sem við vitum að eru lygi. Brjóta skipulega á rökhugsun þeirra. Saklaus lygi kannski, en engu að síður lygi.

Svona er viðhorfið til uppeldishlutverksins mismunandi. Ættum við ekki frekar að fagna fjölbreytileikanum heldur en að segjast vorkenna börnum hvors annars?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.