Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Örn Bárður er trúleysingi

Herferð franska hersins í Alsír stóð yfir allt frá árinu 1830 til u.þ.b 1900. Stríðið var afar blóðugt enda sýndu íbúar Alsír franska liðinu hörkulegt viðnám. Allan þennan tíma, þessi rúm 70 ár, héldu Frakkar Alsír í algeru hörmungarástandi. Talið er að þriðjungur Alsíringa hafi borið beinin á meðan landvinningum Frakka stóð. Samhliða þessu blóðuga landvinningastríði ástunduðu Frakkar skipulegt landnám í Alsír, enda slógu þeir eign sinni á landið og útdeildu landssvæðum til Frakka, Ítala, Maltverja og Alsíringa sem voru þeim hliðhollir.

Ástandið í landinu var eldfimt og franski herinn var í stöðugum herferðum að brjóta niður uppreisnarmenn með hörkulegu viðhorfi hinnar frönsku nýlendustefnu. Þrátt fyrir þessar aðfarir jókst viðnám Alsíringa jafnt og þétt. Árið 1958 hófst svo alsherjar stríð gegn Frökkum. Stríð sem gat bara endað með ósigri Frakka. Við þessar aðstæður þegar öll sund voru lokuð fyrir frönsk stjórnvöld spiluðu þau út trompi sem þau töldu að mundu breyta gangi stríðsins. Þeir buðu Alsíringum að gerast franskir ríkisborgarar. Að vegabréf Alsíringa væri jafnhátt því franska. Það var kannski dæmigert fyrir hroka þeirra frönsku að halda að þetta tilboð þeirra slægi í gegn. Alsíringar hertust einungis í andstöðunni við þetta ömurlega tilboð. Þeir höfðu engan áhuga á því að gerast Frakkar. -Ekki nokkurn einasta áhuga. Ekki frekar en við Íslendingar höfðum áhuga á því að gerast Danir í okkar sjálfstæðisbaráttu.

Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa blóðugu sögu Alsíringa og hið aumkunarverða tilboð Frakklandsstjórnar voru orð ríkiskirkjuprestsins Arnar Bárðar Jónssonar í ræðu sem hann hélt þann 8. Júlí s.l.. Í ræðu sinni fetar Örn gamalkunna slóð furðulegra biblíutúlkana og segir alla hafa einhverskonar „trúarþel“ sem búi í öllum mönnum. Hann segir að fólk svali trúarþörf sinni á ýmsan hátt. Sumir fari með bænir, lesa í Biblíunni meðan aðrir lesa ljóð, njóti tónlistar eða innbyrði skáldskap hverskonar. Með þessum rökum kemst síðan Örn Bárður að því að trúleysinginn sé trúaður.

Heyr á endemi! Það var þarna við þessi orð sem mér datt í hug hið ömurlega tilboð Frakka til handa Alsíringum. Hví þarf að troða upp á okkur trúleysingja einhverjum guði sem við höfum engan áhuga á! Hvað er eiginlega að ríkiskirkjuprestinum Erni Bárði? Er honum ekki sjálfrátt í sjálfsbelginsskap og sjálfsréttlætingu? Þetta minnir reyndar einnig á alræmd orð amerísks herforingja þegar hann sagði að innan í hverjum einasta Víetnama væri lítill Bandaríkjamaður sem væri að reyna að brjótast út. (Inside every gook there's an American trying to get out). Útgáfa Arnar gæti verið eitthvað á þessa leið. „Innan í hverjum trúleysingja er trúaður einstaklingur sem er að reyna að brjótast út!“. Þetta er ljótt Örn Bárður. Bara ljótt.

Þótt flestum Íslendingum sé slétt sama um guðinn hans Arnar Bárðar þá tilheyri ég þeim minnihluta trúleysinga hvers trúarbríksl Arnar Bárðar fer í taugarnar á. Mér leiðist nefnilega að láta fulltrúa einhvers opinbers trúarkerfis segja mér hvernig mér líður og hvaða hvatir liggi að baki gleðistundanna í lífinu mínu. Þegar ég er einn með sjálfum mér, horfi til himins og hugleiði tilganginn – eða tilgangsleysið í tilverunni, þá er ég ekki að trúa. Þegar ég dáist að undrum náttúrunnar, óravíddir geimsins, örveröld atómanna þá er ég ekki að iðka trú á nokkurn hátt. Sérstaklega ekki þá frumstæðu endatímavitleysu sem kristindómurinn er. Þegar ég lít vikugamlan son minn augum og vona að hann eigi fyrir höndum gæfuríka framtíð er ég ekki að trúa.

Ég beinlínis undrast óskammfeilni Arnar Bárðar og annara trúarbríkslara. Stundum hef ég heyrt þá trúuðu halda því fram að „allir trúi þegar dauðinn horfir þá í augun“, þegar flugvél er að hrapa eða þvíumlíkt. Með svona málflutningi er verið að færa sér í nyt aðstæður þegar fólk er veikast fyrir. Þegar örvæntingin ríkir. Svona orðalag er eitthvað það ljótasta sem heyri en eftir á að hyggja eru þetta einmitt lendur trúarinnar eða trúarþarfarinnar eins og Örn Bárður orðar svo ósmekklega. –Örvæntingin og óttinn við dauðann. Þá má segja að það fari afar lítið fyrir virðingu fyrir manneskjunni með svona málflutningi.

Þess verður reyndar að geta að þetta trúarbríks Arnar Bárðar er ekki einsdæmi. Stutt er síðan hann jarðsetti mann sem var trúleysingi. Smekkmaðurinn Örn Bárður sagði eitthvað á þá leið við útför þessa manns að þótt að hinn látni hafi ekki verið trúaður hefði hann eiginlega verið trúmaður. -Svo vænn hefði sá látni verið.

Nú ætla ég að vera jafn óskammfeilinn og Örn Bárður og gera honum upp aðstæður þar sem hann þarf að örvænta. Ég fullyrði að Örn Bárður er í rauninni trúlaus. Hann er menntaður og hefur reynslu í gegnum starf sitt sem ríkisprestur að upplifa gleðistundir og harmatíma fólks. Það er beinlínis útilokað að Örn Bárður trúi á það mannfjandsamlega rugl og endatímakjaftæði sem fyrirfinnst í biblíunni. Hann hlýtur að sjá í gegnum þetta. Það sem hann örvæntir í rauninni er að fólk opni augun fyrir því sem í biblíunni stendur. Að fólk lesi hana og dæmi á eigin forsendum. Því við það riðlast allt ríkiskirkjukerfið og forréttindi hinna fáu standa á berangri, öllum til hneykslunar og sárinda.

Khomeni 22.08.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Daníel Páll Jónasson - 22/08/07 10:56 #

Frábær grein, öldungis frábær!

Það er í raun ótrúlegt hvernig trúmenn leyfa sér að fullyrða að trúLEYSINGJAR skuli vera trúmenn. Samkvæmt þeirri fullyrðingu þeirra er ekki möguleiki að aðhyllast engin trúarbrögð, fólk fæðist trúað og á sér enga leið út úr vitleysunni. Hreint út sagt ótrúlegt kjaftæði.

Smekkmaðurinn Örn Bárður sagði eitthvað á þá leið við útför þessa manns að þótt að hinn látni hafi ekki verið trúaður hefði hann eiginlega verið trúmaður. -Svo vænn hefði sá látni verið.

Svona framkoma og svona talsmáti er með ólíkindum smekklaus! Er ekki hægt að sleppa því að trúa á einhverja dulda himnaveru (sem er by the way ekki svo góð) og vera fín manneskja?

Örn er ekki að gera neitt annað en að þjappa trúleysingjum saman í andstöðu þeirra við Þjóðkirkjubáknið.

Ég væri illilega móðgaður ef ég gæti tekið þennan prest alvarlega.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/07 12:28 #

Þetta er flott grein og tímanleg. Þessi trúvæðing er auðvitað markviss á Versturlöndum almennt, samanber það þegar heimsspekikerfi á borð við konfúsíanisma og taóisma eru flokkuð sem trúarbrögð, t.d. í námsefni í grunnskóla.

Þeir sem trúa ekki á neinn "Guð" eru til miklu fleiri í heiminum í dag en kristnir, múslimar og gyðingar samanlagt. Fyrir utan alla trúleysingjana og fylgismenn Konfíusar og Taó má nefna alla Búddistana, ekki er nein guðstrú þar, og svo mikinn fjölda þeirra sem teljast til Hindúasiðar en þar er algyðistrú algeng sem er verulega frábrugðin "Guðstrú" hinna þriggja gamlatestamentistrúarbragða.

En kyrkjan (afsakið kirkjan) er stofnun sem er sett á fót til að leysa vandamál sem hún býr sjálf til. Og eins og allar stofnanir þá er megin tilgangur hennar að viðhalda sjálfri sér.


FellowRanger - 22/08/07 18:41 #

Þetta minnir mig á þegar trúlausir einstaklingar láta skoðun sína í ljós og rakka niður horskjóðuna [Biblíuna], og eru stuttu seinna kallaðir djöfladýrkendur!! Fólk áttar sig greinilega ekki á því að hann/hún trúir ekki á hálfhestinn með heygaffalinn.


hjalti gbr - 23/08/07 17:23 #

þeir eru bara að reyna að ljúga að sjálfum sér að allir trúi á jésu. prestar eru ekki frægir fyrir að játa sig sigraða.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 24/08/07 04:28 #

prestar eru ekki frægir fyrir að játa sig sigraða.

Er það ekki vegna þess að þeir eru fulltrúar guðs á jörðinni og guð getur ekki haft rangt fyrir sér eða hvað?


ratatoskur - 31/08/07 03:32 #

Gæti hugsast að í vopnaðri baráttu þar sem dauðinn er stöðugt nálægur, og þú átt líf þitt ef til vill undir félögum þínum komið að þú finnir til kenndar sem er þér kannski framandi, afþví hún er sneydd allri viðkvæmni? "Trúarþel" er aðeins eitt af mörgum orðum sem þér gætu komið í hug. Samt þarf það ekki endilega að vera svo. Það gæti tekið langan tíma að finna rétt orð. Skrýtin tilhugsun afþví venjulega tætum við orðin í okkur án minnstu vitundar um þann veruleika sem þau lýsa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.