Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Farísear nútímans

Prestar Þjóðkirkjunnar halda því oft fram að það meti orð Jesú í guðspjallanna mikils. Hins vegar afneita þeir honum fljótt þegar Jesús segir eitthvað sem þeim líkar ekki við.

Seinna í dag munu prestar landsins flytja predikanir í kirkjum landsins. Þeir fá þrjá texta úr biblíunni til þess að fjalla um í predikununum, einn úr Gamla testamentinu, einn úr guðspjalli og einn úr einu bréfi Nýja testamentisins. Prestarnir munu líklega ekki ræða mikið um guðspjallatextann, því þeir eru örugglega ósammála því sem Jesús segir:

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Mt. 5.17-19)

Þarna segir Jesús berum orðum að lögmál Móse sé ekki fallið úr gildi, að maður eigi að fylgja því. Það er ekki hægt að skilja þessi orð á annan veg.

Prestarnir eru ósammála Jesú, þannig að þeir munu ekki fjalla um boðskap þessara orða. Þeir halda því fram, þvert á orð Jesú í Matteusarguðspjalli, að Jesús hafi boðað það að lögmálið væri fallið úr gildi. Honum er oft stillt upp sem andstæða faríseanna, sem vildu halda allt lögmálið. Raunin er sú að í Matteusarguðspjalli segir Jesús:

,Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. (Mt. 23:2-3)

Jesús segir að við eigum að gera það sem farísearnir boða, ekki að gera það sem þeir gera. Hann er að gagnrýna faríseana fyrir hræsni, ekki fyrir það að halda lögmálið.

Farísear nútímans eru prestarnir, þeir segjast fylgja Jesú en fara ekki eftir skýrum boðskapi hans, þeir eru hræsnarar.

Hjalti Rúnar Ómarsson 15.07.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/07/07 17:23 #

Einmitt. Í þrumuræðunni skammar Jesús einmitt fræðimenn og farísea fyrir þetta - að vera hræsnarar.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 15/07/07 19:45 #

Þarna segir Jesús berum orðum að lögmál Móse sé ekki fallið úr gildi, að maður eigi að fylgja því. Það er ekki hægt að skilja þessi orð á annan veg.

Ágæti Hjalti. Ríkisprestarnir munu nú ekki eiga í neinum vandræðum með að túlka þessi "óþægilegu" orð Jesúsar á táknrænan, sálfræðilegan eða pólitískan hátt. Mér sýnist reyndar að þetta tiltekna dæmi gæt reynst útvötnuarfræðingum ríkiskirkjunnar nokkuð strembið.

Þetta er nú afar spélegt að sjálfir ríkiskirjuprestarnir afneiti orðum Jesúsar. Við þetta tækifæri mætti vera andstygglegur og spyrja ríkiskirjufólkið hvort Móselögmálið sé í gildi eða ekki. það væri fróðlegt að fá svar frá einhverjum trúuðum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/07/07 21:51 #

Ég heyri ekki betur en að Síra Örn Bárður sleppi því alveg að minnast á þennan texta í prédikun sinni.


Birta - 15/07/07 22:08 #

Mjög góður pistill - enda hlýt ég að eiga eitthvað í honum, sbr samræður mínar við Guðjón í athugasemdum við greinina þína "Týndi presturinn", þar sem ég gerði einmitt þessa tvo ritningastaði að umtalsefni til að sýna fram á að Jesús gagnrýndi ekki faríseanna fyrir að halda lögmálið, heldur fyrir hræsni þeirra. Jesús í Matteusi er klárlega lögmálsmaður.

:-)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/07/07 22:37 #

Já, Birta, þú átt heiðurinn að tilvitnuninni í Mt. 23:2-3, en ég hafði auðvitað tekið eftir hinni tilvitnuninni. Það er einfaldlega ekki hægt að sjá hana ekki eða að misskilja hana.

Matti, hárrétt, Örn eyddi ekki einu einasta orði í þessi orð, en hann minntist á versin úr Gamla testamentinu og mistúlkaði versin úr bréfinu.

Ég heyrði ekki heldur minnst á þetta í útvarpspredikun dagsins, en ég nenni alls ekki að hlusta á hana aftur til þess að staðfesta það.


Bond007 - 16/07/07 05:25 #

Ekki má nú gleyma bróðir Jóni Vali Jensynsi og hans kaþólsku hækju. Enda lítur maðurinn út eins og miðalda munkur


Finnur - 16/07/07 07:17 #

Ég er nú ekki viss um hverju væri áorkað með því að skipa Þjóðkirkjupresta til að fara eftir skriptunum, bókstaf fyrir bókstaf. En það eru ýmsir þeirra skoðunnar, og m.a. fer páfinn í Róm þar fremstur í flokki um þessar mundir. Og óneitanlega fyndið að sjá íslenska vantrúarlinga skipa sér í þann flokk.


Andri - 16/07/07 08:40 #

Eða bara sleppa þessu rugli alveg kannski?


Finnur - 16/07/07 10:24 #

Það er náttúrlega stór spurning. Páfinn er að vara við hningnun Evrópu, sekjúlarisminn og íslam vinna á en kristni hnignar. Og hvaða máli skiptir það, má spyrja?

Allavega sé ég ekki hvaða bót fælist í að reka Þjóðkirkjupresta á bókstafinn. Það er frekar afturför.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 10:30 #

Allavega sé ég ekki hvaða bót fælist í að reka Þjóðkirkjupresta á bókstafinn. Það er frekar afturför.

Þjóðkirkjuprestar eru upp til hópa öfgatrúmenn í dulargervi hófsemdarmanna. Bótin myndi felast í því að almenningur myndi gera sér grein fyrir því að Þjóðkirkjan er afturhaldsstofnun sem boðar bábiljur.


Finnur - 16/07/07 10:44 #

Þjóðkirkjumenn eru öfgatrúarmenn sem trúa ekki því sem þeim líkar ekki við í biblíunni.

Þannig að það eru þá öfgar að trúa ekki öllu -- spurning hvað það gerir þá sem trúa engu? Það hljóta að vera öfgar þá líka.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 10:57 #

Ég nenni ekki að fást við útúrsnúninga Finnur. Frekari útúrsnúningar frá þér fara á spjallborðið.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 16/07/07 23:01 #

Ég held að enginn vilji "bókstafsvæða" Þjóðkirkjuprestana. Það er bara svo undarlegt hvernig þeir túlka biblíuna út og suður eftir sínu höfði. Hér er verið að benda á þessar misfellur.


Guðjón - 17/07/07 11:19 #

[Athugasemdir voru færðar á spjallborðið og ég hvet Guðjón til þess að halda umræðunum áfram þar - Hjalti Rúnar Ómarsson]


Guðjón - 17/07/07 16:19 #

Nei takka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.