Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðfræðileg gagnrýni

Guðfræði er að vissu leyti gervifræði. Eitt einkenni þess er að við útskrift flytja guðfræðinemar lokapredikun í kapellu Háskóla Íslands. Nýlega flutti guðfræðingurinn Sunna Dóra Möller lokapredikun sína og var Vantrú þar mikið til umfjöllunar.

Því miður var lítið um efnislega gagnrýni, enda er það eitt af stíleinkennum predikana að vera innihaldslitlar og órökstuddar. Í stuttu máli finnst Sunnu við vera dónaleg. Hún talar um „hvers kyns persónuárásir“, að „veist [sé] að persónu fólks og heilindi þeirra [séu] dregin í efa“ og „virðingarleysi og persónuníð“. Sunna Dóra bendir ekki á neitt dæmi og ég efast um að hún muni gera það, enda er vandamálið ekki dónaskapur á Vantrú.is, heldur ofurviðkvæmni trúmanna.

Áður en vefritið Vantrú var til var vefrit Samfélags trúlausra til (samt.is). Þegar trúaðir guðfræðingar rákust á þessa afar kurteisu síðu voru viðbrögðin: „Það er stundum sagt að Gunnar í Krossinum sé öfgakenndur í sínum málflutningi, ég held að þessir aðilar sem í þessu félagi [Samfélagi trúlausra] standa séu mun öfgafyllri.“ #

Annars ætti Sunna Dóra helst að beina þessum orðum að biskupnum sínum sem hefur sagt að siðleysi haldist í hendur við trúleysi #, að guðleysi og vantrú séu „sálardeyðandi og mannskemmandi“ #.

Fyrir utan þetta órökstudda tal um dónaskap kemur Sunna Dóra með nokkra örstutta punkta, fyrst um tilvist guðs:

Vantrú og efahyggja stjórna oft þessum umræðum og er hart sótt að kirkjunni, þjónum hennar og þeim sem að hafa ákveðið að lifa lífi sínu í ljósi trúarinnar á Jesú Krist. Fólk er ásakað um fáfræði, heimsku og vanþekkingu á vísindalegum staðreyndum sem eiga að sanna það að Guð sé ekki til. Í málflutningi þess hóps sem kennir sig við vantrú kemur fram að það sé ekkert sem sanni tilvist Guðs svo víst sé á sýnilegan og áreiðanlegan hátt.

Þarna misskilur Sunna Dóra greinilega málflutning okkar. Það er rétt að ekkert sannar tilvist guðs, en það er rangt að við teljum einhverjar vísindalegar staðreyndir afsanna tilvist ósýnilegrar persónu sem þú getur talað við. Guð er í sama flokki og álfar og ósýnilegir einhyrningar. Það er ekki hægt að afsanna tilvist þessara vera á vísindalegan hátt.

Hins vegar er algóði, alvitri og almáttugi guð kristinna manna alveg örugglega ekki til. Það er ekki nein „vísindaleg staðreynd“ sem sýnir fram á það, heldur augljósar staðreyndir eins og náttúruhamfarir.

Næst ræðir Sunna um guðfræði:

Varðandi guðfræðina sem fræðigrein kemur m.a. fram í umræðum vantrúarmanna á netsíðu þeirra að: Um hana gegni öðru máli. Forsendurnar sem hún þrífst á eru órökstuddar til að byrja með og byggja á hindurvitnum. Og þeir sem ljúka embættisprófi úr guðfræðideild leggja hreinlega fyrir sig að boða þessi hindurvitni í staðinn fyrir að fjalla fræðilega um þau. Auðvitað hlýtur helsta vopn slíkra fræðinga fyrst og fremst að felast í sárindum þegar hugmyndir þeirra eru gagnrýndar.

Þetta er úr athugasemd Birgis Baldurssonar við greinina Ofurviðkvæmni presta, og þetta er hárrétt hjá Birgi. Margir guðfræðingar tala um að trú á guð eða eitthvað álíka sé skilyrði fyrir því að stunda guðfræði. Einn áhrifamesti guðfræðingur 20. aldar, Karl Barth, sagði til dæmis að guðfræði verði aðeins stunduð í einingu „bænar og þekkingarleitar“ [1] Dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands hefur sagt að „að guðfræðileg menntun án persónulegs sambands við Guð [sé] mótsögn í sjálfu sér.“[2] Forsendurnar sem menn gefa sér stundum í guðfræði eru til dæmis tilvist guðs og innblástur biblíunnar. Þeir sem ljúka embættisprófi fara síðan líklega að vinna fyrir Þjóðkirkjuna að boða þar þessi hindurvitni. Almenninlegan rökstuðning þessara fræðinga fyrir þessum grundvallarforsendum er hvergi að finna, en nóg er af skrifum um sárindi.

Loks segir Sunna að „djörf og hugrökk kirkja sem þorir, getur mætt öllum gagnrýnisröddum sem á henni dynja vegna þess að hún veit að hún fetar veg sannleikans og lífsins.“ Hvers vegna hefur hún ekki getað gert það þá? Raunin er nefnilega sú að Þjóðkirkjan mætir gagnrýnisröddum með því að svara þeim ekki efnislega og gera sér upp sárindi, predikun Sunnu er frábært dæmi um það.


[1] Hvað er guðfræði? Fjórar greinar um eðli og hlutverk guðfræðinnar, Háskólaútgáfan Rvk 1997 Gunnar Harðarson tók saman, Karl Barth Guðfræðinám (Þýð GH) upph 1963, bls 9
[2] Kristján Búason - fyrrverandi dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands (Orðið 28. árgangur 1994, bls. 74)

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.06.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 19/06/07 21:58 #

Ég get upplýst ykkur um að Sunna Dóra sem skrifaði umrædda predikun, er mjög ötul við að skrifa á móti og kommenta á skrif bókstafstrúarfólks á moggablogginu. Hún er fróð og vel að sér og er að sjálfsögðu líka að verja sína trú og kristnina sem er henni hugleikin alveg eins og þið eruð að verja ykkar vantrú. Hún hefur lagt sig í líma við að skrifa gegn fordómum bókstafstrúarfólks gegn samkynhneigðum sem dæmi og þið hefðuð þurft að taka þátt í umræðum þar sem hún hefur opinberað visku sína eins og hún hefur mikið gert á minni síðu þar sem ég hef skrifað á móti bókstafstrúarfólki og öfgatrúuðum og varið mig, þegar þetta fólk ræðst á mig persónulega. Ég er sjálf opin og víðsýn varðandi trúmál, en algjörlega á móti því að öfgatrúarhópar fái að meðhöndla veikt fólk og veit um skelfileg dæmi, þar sem fólk með geðræn vandamál og einnig samkynhneigt ungt fólk hefur stórskaðast í meðhöndlun þeirra. Þessu er ég að bergjast á móti. Það verður að gera greinarmun á fólki sem aðhyllist öfga í trúmálum og hinu sem hefur trú en er víðsýnt og skaðar engan.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/06/07 22:38 #

Á þessu fólki er stigsmunur en ekki eðlis. Öfgatrúarfólkið trúir á sömu hindurvitnin og þið, en bara með öðrum áherslum. Í mínum augum eru hindurvitnin sem þið leggið til grundvallar lífskoðunum ykkar alveg jafn kolklikkuð (blóðfórn guðs í friðþægingarskyni við sjálfan sig og erfðasynd sem hann sjálfur fann upp), en kosturinn við ykkur er þó sá að þið látið ekki fökkíng Biblíuna stjórna siðferðiskennd ykkar heldur túlkið hana og teygið þar til hún lýsir ykkar ágæta siðferði.


Kári Rafn Karlsson - 19/06/07 22:39 #

Oft verið að spá í þessu, hvar eru mörkin milli öfga- og ekki öfgatrúar? Fyrir mér er þetta allt saman sama vitleysan o_0


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 19/06/07 23:10 #

Ykkar siðferði hvað? Ég er ekki unnandi biblíunnar ef það ert það sem þú ert að segja Birgir og ég aðhyllist vísindi og þekkingu og mannúð. Er ekki í þjóðkirkjunni og ekki heldur synir mínir. Ég get þó upplýst þig um það að ég hef stúderað trúmál síðan ég var barn af gagnrýnum huga en þó með það að leiðarljósi að vera opin og ákveða ekki fyrirfram að það sem ég var að stúdera væri hið mesta bull. Ég veit t.d. hvernig áhrifum er beitt af forkólfum sértrúarsafnaða til að veiða fólk í net blekkingar en það snýst mikið um sálfræði. Mér er annt um fólk og vildi að við sinntum betur því fólki sem á erfitt svo það verði ekki sértrúarsöfnuðum að bráð eins og oft verður. Síðan á ríkið ekki að styðja slíka starfsemi eða meðferðarúrræði fyrir fíkla sem byggjast á trúarrugli eins og frægt er orðið með Byrgið. Mín sannfæring er að heimurinn væri miklu betri án trúarbragða hvaða nafni sem þau nefnast og að mannúð, þekking og víðsýni væri það sem stýrði heiminum og á því hef ég trú. Les mikið pistlana og kommentin á ykkar síðu og hef gaman að. Og áskil mér að sjálfsögðu rétt til að tjá skoðanir mínar hérna þótt ég sé ykkur ekki alltaf sammála. Kveðjur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/06/07 23:20 #

Margrét, ég veit vel að Sunna Dóra hefur verið að rífast við "bókstafstrúarfólk" á moggablogginu og ég veit vel að þér finnst hún frábær og að þér finnst þú vera svaka víðsýn og frábær. Raunin er að allt þetta tengist efninu ekki á neinn hátt.

Þú mátt endilega tjá þig um efni greinarinnar, annars bendi ég þér á spjallborðið, ef þú vilt t.d. ræða um sértrúarsöfnuði.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/06/07 23:32 #

En þess má til gamans geta að Sunna Dóra hefur minnst á þetta á blogginu sínu.

Ég gerði ráð fyrir því að hún væri orðin guðfræðingur þar sem þetta var lokapredikunin hennar. Hún bendir hins vegar á að þetta sé vitlaust og að hún sé enn þá bara guðfræðinemi og telur þetta vera "til marks um hve greinin er málefnaleg og laus við allt fals".

Frábært að sjá hve Sunna Dóra er dugleg við að fara eftir eigin ráðum og "mæta gagnrýnisröddum".


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 19/06/07 23:38 #

Kíki á spjallborðið og hættu svo að skamma mig Hjalti eins og þú gerir stundum :-) og þú veist ekki hvað mér finnst um sjálfa mig. Færðu rök fyrir því sem þú segir hvað það varðar :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/06/07 05:34 #

Ykkar siðferði hvað? Ég er ekki unnandi biblíunnar ef það ert það sem þú ert að segja Birgir og ég aðhyllist vísindi og þekkingu og mannúð.

Afsakaðu. Ég mat það svo á fyrsta innleggi þínu að þú værir öfgalaus Þjóðkirkjukona. Mín mistök.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/06/07 08:03 #

Sunna Dóra skrifar í athugasemd á sinni síðu:

Ég læt lokapredikunina mína standa, þú mátt gagnrýna hana eins og þú vilt. Ég ætla ekki að rökræða hana á einn eða neinn hátt!

Til hamingju Sunna Dóra, þú verður "frábær" prestur, alveg eins og karlinn þinn. Þetta viðhorf presta, þar sem öll gagnrýni er hunsuð, er það sem veldur því að kirkjan mun hverfa. Prédikunin "stendur" - hvað í ósköpunum þýðir þetta eiginlega? Hún "stendur" þrátt fyrir að hún sé kjaftæði!

Sunna Dóra er alveg eins og liðið sem er á móti hommum og hún mótmælir reglulega í athugasemdum á moggabloggi - Sunna Dóra tekur ekki gagnrýni og hlustar ekki á óæskilegt fólk - það sem það segir hefur ekkert vægi, því "standa" orð Sunnu Dóru ennþá.

Svo verður hún prestur og prédikar fyrir fáeinar hræður - og þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að einhverjir leiðindapúkar leiðrétti kjaftæðið hennar - því hún hlustar ekki á leiðindapúkana - frekar en flestir prestar.

Frábært að sjá hve Sunna Dóra er dugleg við að fara eftir eigin ráðum og "mæta gagnrýnisröddum".

Sunna Dóra er hræsnari. Hvað eftir annað hafa komment hennar um öfgatrúaða hitt hana sjálfa heim en hún tekur ekki eftir því. Sunna Dóra er ekki hógvær trúmanneskja þó hún rökræði við bókstafstrúfólk um tiltekin mál, hún er öfgatrúmanneskja sem meðal annars berst fyrir leikskólatrúboði Þjóðkirkjunnar - kristniboð í leikskóla og grunnskóla er meðal þess sem hún vill, algjörlega óháð því hvaða áhrif það hefur á börnin sem ekki eru kristni (fleiri en þið haldið).

Höldum öllum hófsemdarstimplum frá slíku fólki.


Jón Yngvi Jóhannsson - 20/06/07 09:44 #

Væri ekki ráð að spara stimplana almennt Matthías? Ég sé ekki alveg hvernig það þjónar umræðunni eða gagnrýni á trú að halda hófsemdarstimplum frá ákveðnum einstaklingum (og stimpla aðra í bak og fyrir væntanlega). Vantrúarfólk er fljótt að benda á það þegar aðrir fara í manninn en ekki boltann, þess vegna rýrir það málflutning þeirra þegar það gerir það sjálft.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/06/07 12:35 #

Það er rétt, stimplana er fínt að spara, en mér leiðist þegar verið er að tala um marga þjóðkirkjupresta (eða verðandi presta) sem hófsemdarfólk, mótvægi við ofsa- eða bókstafstrúfólk.

Þeir sem berjast fyrir leikskóla- og grunnskólakristniboði geta að mínu mati aldrei talist hófsemdarfólk í trúmálum. Þetta er öfgafólk á jaðri trúmálaflórunnar hér á landi.

Sunna Dóra er í þeim flokki.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 20/06/07 23:16 #

Matti: Þú og aðrir hér verða að virða það við Sunnu Dóru ef hún vill ekki fara í rökræður við ykkur um sína trú.

Hún ræðst ekki persónulega á fólk og það væri ágætt að fólk væri ekki að ráðast á hana persónulega heldur.

Birgir: Gott að þetta er komið á hrein :-)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/06/07 07:56 #

Matti: Þú og aðrir hér verða að virða það við Sunnu Dóru ef hún vill ekki fara í rökræður við ykkur um sína trú.

Hér er enginn að tala um trú hennar heldur skrif hennar um Vantrú. Það er hreinn og beinn aumingjaskapur að prédika um Vantrú en þora svo ekki að standa við mál sitt með málefnalegum hætti.

En eins og ég sagði, hún verður "góður prestur".


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 21/06/07 13:48 #

Matti: Það væri gagnlegra að ráðast að þeim sem ráða fólk til starfa innan kirkjunnar sem starfsfólk í skólum og leikskólum.

Ég sjálf vil ekki trúboð í skólum og hvað þá leikskólum. Mínir synir lærðu kristinfræði í grunnskóla sem þeim fannst allt í lagi, enda aldir upp við það að vera víðsýnir svo það njörvaði þá ekki niður á neinn hátt. Það kom þó fyrir að farið var með krakkana í kirkjur og jafnvel í messu og það finnst mér ekki í lagi og þeim fannst það leiðinlegt. Þessu þarf að breyta.

Svo finnst mér allt í lagi að kenna trúarbragðasögu í skólum eins og hverja aðra sögu grein, þar sem ekki er þveginn í burtu hryllingurinn sem slóð trúarbragðanna skilur eftir sig í sögunni. Svoleiðis kennsluaðferðir eru þær einu sönnu og myndu gera fólk fráhverft trúarbrögðum sem væri að sjálfsögðu heiminum til góðs.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.