Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Á akri óttans

Með því að rannsaka og fræðast má útskýra það sem áður var óþekkt. Þannig hafa fræði menntastofnanna afhjúpað hræðslu liðina alda við hið óþekkta. Trúarbrögðin eru því í dag valdalítil í huga upplýstrar og frjálsrar nútímamanneskju. Kirkjuvaldið brýnir nú í síðasta sinn plóg óttans, sem á að draga af ímynduðu afli. Dráttarklárinn hét fyrr á öldum djöfull en er nú kenndur við kærleik. Plógurinn er orðinn bitlaus á fullorðið fólk og því er honum beitt á börnin. Í minnstu plógför vill starfsfólk kirkjunnar sá sínu afskræmda útsæði, kenndu við bænir og sáluhjálp.

Í nafni heilræða kúgaði ríkiskirkjan hug barna til undirgefni við guð sinn herra. Vélaði með skírn óvita í söfnuð sinn og lét ómótuð ungmenni skilyrðislaust játa hollustu við sig. Sama stofnun hafði það sitt fyrsta boðorð, að hýða ætti sveininn ef hann heiðraði ekki föður sinn og móður. Evangelísk kenning hennar var sú, að sá sem ekki hlýddi foreldrum sínum ætti ekki fyrir höndum langa ævi. Ástandið á hákristilegum tímum hér á landi var slíkt að börn fátæklinga voru þrælar og skiptimynt í höndum prestastéttarinnar, sem veitti þeim sáluhjálp. Ofbeldi, þrældómur og hungur voru því örlög barna á Fróni, en á meðan átu biskupar Skálholts af evrópsku gæðapostulíni.

Á tímum upplýsingar og menntunar er reynt að leysa úr vanda barna, ofbeldið hefur vikið fyrir upplýsingu. Fjöldi menntaðra starfsmanna vinnur innan skólakerfisins við að aðstoða börn, sálfræðingar, félagsfræðingar, uppeldismenntaðir kennarar o.s.frv. Mikið átak til að bæta úr geðheilbrigði barna hefur skilað sér í bættri líðan barna með ofvirkni og athyglisbrest. Til að koma í veg fyrir að bágar heimilisaðstæður skaði framtíð barna höfum við barnaverndaryfirvöld. Barist er gegn einelti og mismunun. Árangurinn lætur ekki á sér standa. Ný könnun meðal ungmenna í 10 bekk grunnskóla leiðir það í ljós að drykkja og neysla tóbaks hafa minnkað. Öllum sviðum er hægt að þakka þúsundfalda velmegun barna frá kristnum miðöldum, þökk sé fagmennsku starfsfólks skólanna.

En stofnunin sem fermdi ekki krypplinga eða börn með lýti í sínum húsum, svo að þau yllu ekki hneykslan vill núna aftur upp á dekk. Með vinaleiðakórinn, vopnaðan sálgæsluplóg og bænaútsæði, á að meðhöndla börnin með „kærleik“. Kirkjan reynir að mynda sér olnbogarými í skólanum með því að æsa til ótta um vandmál barna. Vandamál sem starfsfólk skólanna sinnir á hverjum degi og hefur staðið sig frábærlega í að leysa. Það er einfaldlega engin þörf fyrir stofnun sem heldur fast í lúterskar kenningar um kúgun barna. Sagt er að þvegið svín veltir sér í sama saur. Það er eins og þessi orð hafi ræst á heilagri almennri ríkiskirkju. Börnin okkar eiga miklu betra skilið en þessa ögrun sem felst í vinaleiðinni. Það er sambærilegt við að biskup mætti í giftingarveislu samkynhneigðra hjóna eða hörundsdökkur maður gengi í hina kristnu hreyfingu Ku Klux Klan. Megi ríkiskirkjan fá ævarandi hvíld frá menntakerfi okkar um aldir alda.

Frelsarinn 14.05.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 14/05/07 10:13 #

Frelsarinn er ljóðrænn í dag!

Já prestarnir "meðhöndluðu" börnin á Bjargi, og Breiðuvík og Guðmundur hinn ofurkristni í Byrginu var líka í því að "meðhöndla". Svo vita allir hve kaþólskir prestar eru góðir í að "meðhöndla" þau börn sem þeim er treyst fyrir.

Það er ekkert eðlilegt við það að Lútherska trúfélagið fái að senda sína presta í opinbera skóla til að "meðhöndla" börnin okkar. Það þarf að stoppa það með öllum ráðum.


Doddi - 14/05/07 10:20 #

[athugasemd eytt - við krefjumst þess að notendur gefi upp löglegt póstfang - Matti Á.]


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 14/05/07 15:16 #

Doddi efaðist um að biskupar hefðu haft postulín á sínum borðum, hér er fréttin af því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.