Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Krísa kirkjunnar manna

Gagnrýnin umræða og fræðsla um trú virðist stundum vera jafn áhrifarík og að skvetta vatni á gæs. Þegar ég horfi aftur í tímann sé ég samt að sífellt fleiri eru að kasta af sér dragúldnu synda- og sektarskikkjunni sem trúin er. Þeim fer sem betur fer fjölgandi sem ákveða að hætta að skilyrða sitt siðferði og mannúð við þetta fornaldar fyrirbæri sem kallast trú, sem hefur ítrekað verið notað í gegnum aldirnar sem verkfæri til að framkvæma hina skelfilegustu glæpi. Hægt og bítandi er fólk að átta sig á því að siðferði þroskum við í gegnum almennan lærdóm, leiðbeiningar frá umhverfinu og hvert frá öðru.

Þegar einhverjum trúarboðskap er framfylgt sem brýtur mannréttindi á einhverjum og kúgar hann, þá þarf viðkomandi að taka afstöðu: ganga af trúnni eða stinga sér á bólakaf í trúarhítina og láta alla skynsemi og rökhugsun lönd og leið.

Eftir aukið frjálsræði og menntun undanfarna áratugi þá hefur trúarinnrætingin ekki jafn afgerandi tök á hugsun landans eins og áður fyrr. Þetta veldur því að fólk velur það sjaldnar í dag að kasta sér í botnlausa hít hindurvitna og óttaboðskapar þegar það kemur að krossgötum í lífinu. Flestir velja þó enn að kalla sig kristna án þess að vita almennilega hvað felst í hugtakinu, til móts við það hvað það er að vera trúlaus.

Ef kirkjunnar menn ætluðu sér að fara að skerpa trúarvitund landans með einhverjum sértækum ráðum í dag (sem þeir eru einmitt að reyna að gera, t.d. í gegnum Vinaleiðina) þá er sem betur fer nokkuð á brattann að sækja fyrir þá. Þeir hafa ekki jafn sterk áhöld til þess og áður: almenna fáfræði og ólæsi, ómannúðlegar pyntingar, ógnarstjórn og aftökur. Tæki sem óneitanlega kæmu í góðar þarfir á þessum tímum upplýsingar og mannréttindavakningar.

Því miður er það staðreynd að þeim er hleypt að börnunum okkar sem hafa ekki enn þroskað með sér sjálfstæða hugsun og landinn amast ekki við því þó að þeir reyni að koma trúarboðun og fordómum tengdum henni að alls staðar þar sem þeir geta. Eins og til að mynda í ríkisreknum fjölmiðlum eða við opinber og almenn hátíðarhöld.

Umræðan um þessi mál í þjóðfélaginu mun halda áfram og umræðan getur aldrei endað í öðru en því að flett verður ofan af öllum mannréttindabrotunum og kúguninni í nafni trúarinnar sem viðgengst hér enn í dag þó að þau séu af annari stærðargráðu heldur en áður var. Þeir sem eru utan Þjóðkirkjunnar geta borið því vitni á margan hátt. Skiljanlega finnur Þjóðkirkju-trúmaðurinn ekki fyrir þeim fordómum og mismunun sem aðrir verða fyrir frá hinni ríkisstuddu og styrktu trú.

Gagnrýnisraddirnar hafa áhrif þó að það gangi hægt. En ég get séð fyrir mér eina aðferð sem yrði áhrifaríkari. Það yrði landanum "himnasending" ef kirkjunnar menn ákvæðu að fara að fylgja boðun sinni og inntaki trúarinnar eftir á áþreifanlegri hátt í jafn upplýstu samfélagi og við lifum í í dag.

Prestar þjóðkirkjunnar voru á prestastefnu á Húsavík nýlega og þær raddir meðal þeirra um að trúin eigi undir högg að sækja hafa verið að hækka undanfarið. Allt bendir til að það eigi að fara að blása til stórsóknar. Og ég fagna því. Ég vil að inntak hinnar kristnu trúar verði áþreifanlegra fyrir okkur öll svo að fleiri taki afstöðu til þessa og velji að kasta af sér skikkjunni.

Velji að lifa heilbrigðu og stoltu lífi hins frjálsa og siðferðislega sjálfstæða manns.

Kristín Kristjánsdóttir 29.04.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 29/04/07 12:45 #

Mjög góð grein hjá þér Kristín. Fersk sýn á málin.


FellowRanger - 29/04/07 23:34 #

Hef engu við að bæta. Flott grein.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 30/04/07 08:49 #

Mér þykir athyglisvert að kirkjan hefur einhvernvegin fundið sér skjól í "kærleikanum". Allt á að vera úrskýrt í gegnum meintan kærleika biblíunnar. Sannleikurinn er reyndar sá að afar lítið er um kærleika í biblíunni. það þarf ekki annað en að lesa hana til að komast að því.

Hinn æðsti kærleikur biblíunnar er þessi. -Ég drep son minn fyrir þig.

Þetta er náttúrulega siðlausir órar sem hinir kristnu sækja sér styrk í. Hugsið ykkur bara. Að drepa barnið sitt fyrir hóp fólks, þjóð, heiminn!.

Hverngi gagnast það mér að kona eihversstaðar í Súdan eða El Salvador ákveði að drepa barnið sitt fyrir mig!

Ég vona að hinir kristnu geti útskýrt hvernig þessi óhuggulegi dauði Jesúsar gagnist mér. Ég frábið mér allar vísanir í söguna af Adam og Evu. (Mofi þarf ekki að svara heldur) Eitt það ógeðfeldasta í hafsjó ógeðfeldninnar í kristindómnum er tákn Jesúsar. Pyntingatæki af ógerðslegustu sort. Þessu tæki er hampað víða og dýrkað sennilega meira en öll önnur tákn samanlögð. Með skáldafáknum má auðveldlega tölta yfir í þá ályktun að ekki skyldi maður furða sig á blóðþorsta hinna kristnu miðað við táknið sem þeir dýrka. Sannarlega "vondu kallarnir" sé vísað í epísk skáldverk á borð við Hringadróttinssögu og áþekkar sögur.

Þessi saga minnir hinsvegar óhuggulega mikið á óra brjálæðings sem er haldin heimsfrelsarakomplex eða þvíumlíkt. Dæmin eru fjölmörg í gegnum söguna.


Magga - 30/04/07 23:19 #

Sæl systir:)

Ég ákvað að líta á greinina þína!

Ég get ekki að því gert, þó ég sé sammála þér í mörgu af því sem þú skrifar, að þá er litið algjörlega framhjá þeim jákvæðu áhrifum sem kirkjan hefur haft í gegnum tíðina. Til að mynda þá urðu fyrstu skólarnir á Íslandi til í gegnum kirkjuna (þ.e. lúthers, eftir siðaskiptin) og varð einmitt til þess að bækur fóru að vera þýddar yfir á tungumál þjóðarinnar og læsi fór að verða almennara en áður. En eins og prestur úr fríkirkjunni sagði um daginn, Lúther gagnrýndi það fyrirkomulag sem var á kirkjunni á sínum tíma, því ætti það að vera í anda lútherskunnar að gagnrýna og endurskoða stöðugt ríkjandi fyrirkomulag kirkjunnar. Þessi gagnrýni virðist oft vera af skornum skammti, þó einhverjar breytingar hafi orðið í gegnum tíðina.

Ég á einmitt mjög bágt með að trúa því að flestir þeir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna, séu trúaðir í þeirri merkingu sem ætlast er til. Hef meiri trú á að flestir hafi sínar eigin hugmyndir um trú sína, og vilja umfram allt trúa því að til sé eitthvað æðra þeim, einhver tilgangur sem geri lífið bærilegra! Þetta getur veitt þessu fólki huggun og ánægju, þó svo að ég sem trúleysingi álíti það svolítla sjálfsblekkingu. Ég hef samt sem áður ekkert nema mitt álit og mína ,,trú" á að ekki sé til neinn æðri tilgangur og ,,trú" á að ég skapi minn eigin tilgang. Ég get hins vegar ekki með neinu fullyrt að mín ,,trú" sé á einhvern hátt réttari eða betri, enda myndi ég þá fall í sömu gryfju og allir aðrir trúaröfgamenn.

En já ég er sem sagt sammála þér í mörgu kæra systir en ekki öllu:) og er ég alveg á því að fólk mætti vera gagnrýnna á núgildandi fyrirkomulag kirkjunnar og gera meðvitað upp hug sinn um hver raunveruleg trú þeirra er, en ekki lúta samfélagslegum þrýstingi um að vera kristinn, eða trúlaus, eða hvað annað sem er!


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 02/05/07 00:27 #

Þó að greinin sé um það neikvæða sem fylgir trúarbrögðum þá þýðir það ekki að ég haldi því fram sjálfkrafa í leiðinni að aldrei hafi nokkuð gott komið til vegna trúarbragða. Það góða í þessu tilfelli nær líka ekki að draga úr skaða þess neikvæða sem fylgir kristinni trú eða réttlæta það á nokkurn hátt.

Trúarbrögðin eru einfaldlega óþarfa húmbúkk í kringum jafn mikilvæga hluti eins og siðferði og mannúð sem ættu frekar að vera sprottin upp úr mannlegu samfélagi heldur en skrumskæld og brengluð eftir uppdiktuðum trúarbrögðum sem innihalda á köflum mjög vafasamt siðferði miðað við heimsýn okkar í dag.

Að predika það að við getum aðeins fengið löggilt siðferði í gegnum trúna letur fólk frekar en hitt til þess að þroska með sér sína eigin sterku siðferðiskennd. Ég hef heyrt það allt of oft að eitthvað sé bannað eða synd eingöngu af því að það stendur í bíblíunni án þess að sama manneskja geti útskýrt það á trúanlegan eða rökrænan máta hvað sé rangt við viðkomandi meinta synd. Það er yfirleitt allt ættlætt einfaldlega beint upp úr trúarboðskapnum án nokkurrar gagnrýni.

Í raun mætti segja að trúarbrögð séu uppfull af sleggjudómum og þau ala nokkuð örugglega á fordómum eins og viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðra sannar. Reglulega gefur kirkjan út líka yfirlýsingar um djöfulskap trúlausra til að reyna að hræða fólk frá því að ganga af trúnni. Undir slíkum áróðri ættum við ekki að sitja þegandi og hljóðalaust.

Ég hvet þig til að fylgjast t.d. með Karli Sigurbjörnssyni og málflutningi hans til að reyna að hræða fólk frá því að ganga af trúnni. Málflutningi sem beinist meðal annars gegn mér og mínum heilindum. Gef þér eitt dæmi til að koma þér af stað:

"Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar."

Karl Sigurbjörnsson

Það eru svo margir alvarlegir vankantar á því að hér séu ríkistrúarbrögð og þjóðkirkja að því verður að breyta sem allra fyrst.

Ég er ekki að predika það að mín lífsskoðun sé eitthvað sem allir aðrir ættu að aðhyllast eða að hún sé sú eina rétta sem er til. Ég er að gagnrýna fordómahlaðin og kúgunargjörn trúarbrögð og mótmæla harðlega þeim ótta- og fordómahlaðna áróðri sem er beint gegn trúlausum að ósekju frá kirkjunnar mönnum.


Árni Árnason - 02/05/07 11:14 #

Ég er svo hjartanlega og innilega sammála kjarnanum í grein Kristínar. Við getum ekki annað en tekið fagnandi öllu því afturhaldi, forpokun og miðaldamennsku sem kirkjan ber okkur á borð, því þeim mun meira sem hún einangrar sig frá nútíma samfélagi þeim mun fyrr losnum við við hana.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 02/05/07 13:35 #

Góður punktur Árni. Ég hef stundum sagt að eina almennilega birtingarmynd kristindómsins er ofstækistrú á borð við þá sem Gunnar í Krossinum boðar. Þar er engin málamiðlum við tíðarandann hverju sinni og biblían sögð "orð guðs - hreint og ómengað". Lítið um grænsápuguðfræði þarna.

Ef þið efist þá endilega lesið biblíuna. Gunnar hefur gert það og er í raun bundin af ramma boðskapsins,samkynhneigð er synd, konur eiga að vera undirgefnar karlinum og Satan er á eftir sálum okkar. Þetta stendur barasta í biblíunni og ég skil ekki fólk sem fær í allskonar hugarleikfimi til að snúa út úr orðum biblíunnar.

Sem trúleysingi og andstæðingur ríkiskirkjufyrirkomulagsins þá vonast ég innilega eftir þvi að það skerpist á línunum í guðfræðilegri orðræðu. Þetta moð er orðið frekar leiðinlegt. Um leið og moðræðan endar og orðræðan hefst mun almenningur sjá hina yfirgripsmiklu mannfyrirlitningu sem einkennnir kristin trúarbrögð. Við það munu stjórnvöld neyðast til að endurskoða lögin um ríkiskirjuna.

Grænsápuguðfræðin er orðin svo leiðinleg og full af sjálfsréttlætingu að ég fæ orðið mígreni um leið og ég heyri einhvern út-tuggin kærleiksfrasa um kosti kristindómsins. Lesið bara biblíuna. Lesið um guðinn sem hinir kristnu dýrka. Lesið um skoðanir hans á samkynhneygðum, lesið um skoðanir hans á konum. Lesið um siðfærðisboðskap Jesúsar. Lesið um morði sem guðinn hefur velþóknun á. Lesið um fórnarathöfnina þar sem mann-guðinum Jesú var fórnað á hryllilegan hátt í þeirri trú að erfðasyndin (upprunin úr sögunni um Adam og Evu) einhvernvegin færi frá mannkyninu og í mann-guðinn Jesús.

Endilega lesið biblíuna. -það er besta leiðin til að gerast trúleysingi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.