Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vorkunnarhössl kristinna

Frá upphafi hefur kristni mætt andstöðu af ýmsu tagi. Algengasta andstaðan er sú sem sjaldan hefur þótt ástæða til að rita í annála, semsé að fólki hafi fundist hún órökrétt, barnaleg, einfeldningsleg eða á annan hátt bjánaleg. Við heyrum meira um andstöðu í formi ofsókna, á borð við þær sem kristnir menn sættu í Rómarveldi til forna.

Enginn ætti að sæta ofsóknum; um það eru flestir sammála. En það eru tveir endar á þessari pylsu. Annars vegar hefur kristin kirkja síst látið sitt eftir liggja í ofsóknum sjálf. Sögulega séð ætti að nægja að nefna nornabrennur og krossferðir, gyðingaofsóknir og grimmilegt trúboð í Suður-Ameríku fyrr á öldum, þótt listinn sé nánast ótæmandi.

Hinn endinn er sá að þótt fólk verði fyrir áföllum, þá verður það að geta komist yfir þau. Eða, hvað er langt síðan kristnu fólki var síðast varpað fyrir ljón? Kannast einhver við það í seinni tíð? Nei – en ef maður tæki mark á málflutningi kirkjunnar, þá gæti maður haldið það. Kannski er kirkjan ennþá þjáð af áfallastreituröskun. Kannski er hún haldin ofsóknaræði. Kannski var það bara heppilegt fyrir hana að halda sig í hlutverk lítilmagnans, píslarvottarins sem allir hafa samúð með.

Ég átti einu sinni vin sem reyndi þessa taktík í samskiptum sínum við hitt kynið. Það er að segja, að reyna að hössla út á vorkunnsemi. Hann velti sér upp úr eigin eymd, sagðist vera þunglyndur og reyndi stundum að skera sig á púls með glerbrotum eða öðru oddhvössu sem var við höndina. Ekki síst þegar huggulegar stelpur voru í grenndinni. Það kom svo sem fyrir að þær fengu samúð með honum og gáfu sig á tal við hann, en ég held reyndar að hann hafi aldrei farið heim með neinni þeirra. Þannig að hann gafst fljótlega upp á þessu. Kannski hefði honum orðið meira ágengt með meiri þolinmæði eða með því að slípa aðferðina, en mér og öðrum sem til þekktum fannst þetta vægast sagt aumkvunarverð leið til að ná athygli kvenþjóðarinnar. – Og nei, þessi vinur var ekki ég sjálfur!

Kirkjan hefur hins vegar náð betri árangri með þessa aðferð að leiðarljósi. Eða, það hlýtur að vera fyrst hún notar hana ennþá eins mikið og raun ber vitni. Sú mynd er einatt dregin upp, að kristni eigi í vök að verjast, að „hafís trúleysis lóni fyrir landi“ eins og biskup orðaði það svo smekklega, að íslam breiðist um heiminn eins og sinueldur og að andstaða við trúboð í skólum sé líkust því þegar Stefán postuli var grýttur fyrir trú sína.

Með því að setja sig í hlutverk fórnarlambsins og klæmast á eigin bágindum, hvað „siðurinn í landinu“ eigi uppdráttar vegna skilningsleysis grafkaldra húmanista, reynir kirkjan að vinna fólk á sveif með sér. Hann vinur minn átti ekki góðu gengi að fagna í kvennamálum þrátt fyrir viðleitni sína – enda voru þær flestar fljótar að sjá í gegn um hann, hvað honum gekk til í raun og veru.

Það er léttir hvað Íslendingar eru orðnir glöggir í að sjá, í gegn um þetta vorkunnar-hössl, hvað kirkjunni gengur til í raun og veru. Kirkjan veltir sér upp úr eymd sinni, en er alltaf með betliskálina í annarri hendinni. Kirkjan reynir að fá fólk til að finna til með sér af aumingjagæsku sinni, að fá fólk til að ala börn sín upp í guðsótta og góðum sóknargjaldagreiðslum.

En hver ofsækir hvern? Hvaða trúfélag er með meirihluta landsmanna innanbúðar? Hvaða trúfélag er undanþegið fasteignagjöldum, er með 139 presta á jötu ríkisins og auk þess alla menntaða ókeypis? Og hvaða leiðtogi trúfélags er með milljón krónur í laun á mánuði, fyrir utan ókeypis húsnæði og meira að segja diplómatavegabréf, meðan hann predikar um hvað kirkjan eigi bágt? Dettur einhverjum í hug að þetta sé hræsni? Dettur einhverjum í hug að kötturinn sé að kveinka sér undan því að músin ofsæki hann?

Því fleiri sem sjá í gegn um þetta skrípaspil, þess betra. Stelpurnar sem hann vinur minn hugsði sér gott til glóðarinnar með þurftu ekki röntgensjón til að sjá í gegn um hann, og hana þarf ekki í þessu tilfelli heldur. Það er vissulega brjóstumkennanlegt þegar rígfullorðnir karlar klæða sig í kjóla og láta eins og þeir séu ofsóttir, en það þýðir ekki annað en að þeir ættu að hætta að láta svona og leyfa fólki að sofa út á sunnudögum, geta hlustað á trúarlega hlutlaust ríkisútvarp og velja alvöru góðgerðasamtök til að gefa peningana sína.

Vésteinn Valgarðsson 26.04.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristján Ari Sigurðsson - 26/04/07 10:22 #

Miðað við þekkingu þinnara af Biblíunni fynnst mér sorglegt hversu þú misskylur hana. Þú skrifaðir um Krossfarinnar, nornaveiðir og fleiri hluti. Ef þú myndir lesa í Biblíunni myndur átta þig á því að það er rangt að myrða mann og að Guð gefur hverjum manni frelsi til að velja hvort hann vilji fylga sér eður ei. Þó ég sé ekki í þjóðkirkjunni þá er ástæða þess að samstarfi ríkis og kirkju er, eins og þið hafið kannski kynnt ykkur, en í gamla daga áttu kirkjan fullt af landsvæði. En við sameiningu ríkis og kirkju þá eignaðist ríkið þessar landeignir. Þessar landeignir eru nú mjög mikils virði og ríkið væri í mikli skuld við kirkjuna ef sambandinu yrði slitið. Ég tek það þó fram að ég er ekki hlyntur þessu samstarfi. Varðandi vin þinn, þá held ég að stelpur séu ekki æstar í sambönd þar sem hin aðilinn er með sjálfsmorðshugleiðingar enda væri það vægast sagt vafasamt samband. Ekki talandi um hversu siðferðislega rangt það er að stunda kynlíf með einstakling sem er greinilega ekki í andlegu jafvægi. Ferkar ætti að útvega honum sálfræðilega hjálp...


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/04/07 10:42 #

Ég var ekki að skrifa um Biblíuna, heldur bera saman annars vegar hvað kirkjan hefur á samviskunni, og hins vegar hvað hún kveinkar sér undan meintum ofsóknum en sér ekki bjálkann í eigin auga.

Í öðru lagi þekki ég til þessara jarðamála. Við siðaskiptin var kirkjan gerð að ríkisstofnun með öllu sem hún átti. Látum það liggja milli hluta að margt eða flest eignaðist hún með vafasömum hætti, hvort sem litið er til almenns siðferðis eða þess hlutverks sem henni er ætlað ef marka má frásagnir af Jesú og félögum. Það má vel segja að þessar jarðir séu réttmæt eign íslensku þjóðarinnar, og þetta sé því spurning um lagasetningu. Eftir stendur að Þjóðkirkjan nýtur forréttinda, en ætti ekki að gera það.

Loks er ég alveg sammála þér með hann vin minn og stelpurnar. Hann hefði átt að leita sálfræðings.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 26/04/07 10:44 #

Ef þú myndir lesa í Biblíunni myndur átta þig á því að það er rangt að myrða mann og að Guð gefur hverjum manni frelsi til að velja hvort hann vilji fylga sér eður ei.

Þú hefur greinilega ekki mikið lesið Biblíuna, þú þarf allavega að fara yfir hana aftur. Ég vísa nú bara á þetta mér til stuðnings hérna. Gvuðinn þinn er ekki alveg sammála þér.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 26/04/07 11:01 #

Umm, Kristján Ari, bannar Biblían morð á nornum? Hvað þá þetta:

"Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda." (2. Mósebók 22:18)


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 26/04/07 11:19 #

Ekki gleyma að það er dauðasök við því að vinna á hvíldardeginum (4M.15:32-36)

-Hugglulegur guðinn sem þú átt Kristján.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.