Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Verndum bernskuna

Þjóðkirkjan er ekki þekkt fyrir að vera dugleg við að líta í eigin barm. Fyrir nokkru síðan hóf hún verkefni sem nefnist Verndum bernskuna. Nú skal ég verða síðastur manna til að mótmæla því að bernskan sé vernduð, en um leið er Þjóðkirkjan frekar neðarlega á óskalista mínum yfir verndara sem koma til greina.

Hluti af þessu verkefni var að gefa út bækling með 10 heilræðum. Heilræði þessi eiga tvennt sameiginlegt, annars vegar eru þau góð og gegn í sjálfu sér og hverjum uppalanda þörf áminning. Hins vegar mætti Þjóðkirkjan taka þau öll til sín með tölu, í sinni eigin umgengni við bernsku þessa lands! Látum oss skoða heilræði þau sem Þjóðkirkjan gefur:

Heilræði 1: Leyfum barninu að vera barn
Heilræði 2: Þorum að axla ábyrgð sem uppalendur
Heilræði 3: Viðurkennum barnið eins og það er
Heilræði 4: Verum til staðar fyrir barnið
Heilræði 5: Munum að rækta okkur sjálf
Heilræði 6: Hlífum barninu fyrir ónauðsynlegu áreiti
Heilræði 7: Setjum foreldrahlutverkið í forgang
Heilræði 8: Veitum frelsi - en setjum mörk
Heilræði 9: Verum barninu mikilvæg
Heilræði 10: Verndum bernskuna

Ef þessi heilræði kæmi frá hlutlausum aðila, þá tæki ég heils hugar undir án þess að hugsa mig tvisvar um. En þar sem það er Þjóðkirkjan sem á í hlut, ríkisstofnun sem elur á ranghugmyndum um veröldina og á þeirra hagsmuna helstra að gæta, að koma sér í mjúkinn hjá sem flestum svo þeir haldi áfram að borga henni sóknargjöld, þá get ég ekki annað en vísað þessum heilræðum til föðurhúsanna. Lið fyrir lið:

  1. Leyfum barninu að vera barn
    Mín ábending til kirkjunnar: Látum börn ekki þurfa að taka afstöðu til mála sem þau hafa ekki nægan þroska til. Förum til dæmis ekki á meðal smábarna til að láta þau halda að guð sé til -- 13 ára fermingar eru nógu rangar, hvað þá leikskólaprestar! Þótt Ésús hafi sagt að börnin skyldu koma til sín, þá er ekki réttlátt að láta fólk taka afstöðu til svokallaðra eilífðarmála áður en það hefur tileinkað sér gagnrýna hugsun.

  2. Þorum að axla ábyrgð sem uppalendur
    Mín ábending til kirkjunnar: „Af því að guð vill það“ er ekki svar sem hæfir vitsmunaveru. Börn eru yfirleitt ekki heimsk, og það er ábyrgð uppalenda að veita þeim bestu svör sem völ er á og þau hafa þroska til að höndla. Þannig verður barnið betur í stakk búið til að fóta sig í lífinu en það annars verður. Yfirnáttúru eða hjátrú ætti ekki að halda að börnum sem sönnum svörum við þeirra mörgu góðu spurningum.

  3. Viðurkennum barnið eins og það er
    Mín ábending til kirkjunnar: Börn fæðast trúlaus. Viðurkennum þau augljósu sannindi og leyfum þeim að vera þau sjálf. Eða er það góð uppeldisfræði að reyna að breyta barninu í sig sjálfan?

  4. Verum til staðar fyrir barnið
    Mín ábending til kirkjunnar: Ef uppalandi er til staðar fyrir barnið, þá hefur það ekki þörf fyrir ímyndaða huggara úr andaheimum, sem eru hvergi til staðar nema í hausnum á þeim. Ímyndaðir handanheimshuggarar eru tilraun til að flýja stundum erfiðan heim. Sá sem vill bæta heiminn ætti líka að gera það, ekki að láta fólk halda að það leysi málin að afneita þeim.

  5. Munum að rækta okkur sjálf
    Mín ábending til kirkjunnar: Við erum verur þessa heims, eins og allar aðrar verur sem við þekkjum, og það er í þessum heimi, ekki öðrum, sem sönn mannrækt fer fram. Það er ekki mannrækt að segja fólki að leggja inn á ímyndaða himnaríkisbankabók sem það getur aldrei tekið út úr, frekar en að bæta kjör fólks hér á jörðinni. Lífið í efnisheiminum er það eina sem við vitum að er til, og það eina sem er rökrétt að rækta.

  6. Hlífum barninu fyrir ónauðsynlegu áreiti
    Mín ábending til kirkjunnar: Ónauðsynlegt áreiti getur til dæmis verið að flækja líf þess með fánýtum útúrdúrum á borð við yfirnáttúruverur. Barn hefur um nóg að hugsa þegar það tekur út vöxt og þroska, og það hrærir ungan huga að halda að ósýnilegir skeggjaðir menn fylgist með manni á klósettinu eða skrifi það niður í kladda og haldi því til haga, ef maður freistast til einhvers sem er bara mannlegt, þegar öllu er á botninn hvolft.

  7. Setjum foreldrahlutverkið í forgang
    Mín ábending til kirkjunnar: Góðir foreldrar eru góðir foreldrar í sjálfu sér, og sá sem á þá þarfnast ekki ímyndaðra al-gæskuríkra himnaforeldra.

  8. Veitum frelsi - en setjum mörk
    Mín ábending til kirkjunnar: Fólk hefur frelsi til að mynda sér skoðanir, en sé það frelsi stundað af ábyrgð, þá markast það af gagnrýninni hugsun. Þegar fólk myndar sér lífsskoðun ætti ekki að hindra það í að fara þangað sem rökin leiða það -- og börn ætti ekki að hneppa í andlega fjötra trúarbragða. Mörkin sem við setjum eru jarðnesk.

  9. Verum barninu mikilvæg
    Mín ábending til kirkjunnar: Foreldrarnir eru það mikilvægasta í heimi í augum barns. Barninu er enginn greiði gerður með því að segja því að það sé eitthvað „súper-foreldri“ sem er ofar alvöru foreldrunum sett.

  10. Verndum bernskuna
    Mín ábending til kirkjunnar: Bernskuna á að bólusetja, ekki smita, af trú.

Vésteinn Valgarðsson 23.04.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


FellowRanger - 23/04/07 12:48 #

Get lítið sagt nema góð grein; kirkjan virðist nú uppá síðkastið verið ótæmandi viskubrunnur fyrir börn. Látið þau í friði!


Kristján Hrannar Pálsson - 23/04/07 13:17 #

Mér finnast þessi heilræði fremur opin og hægt að túlka þau á marga vegu (hvort sem það er notað með kirkjunni eða á móti, án þess þó að ég gagnrýni grein Vésteins sem mér finnst mjög góð).

Lítum aðeins á heilræði 8: Veitum frelsi - en setjum mörk. Hvað á kirkjan við með þessu? Ég spyr bara af hreinni forvitni og langar að fá svar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/04/07 13:57 #

Það er kannski við hæfi að Þjóðkirkjan stóð alls ekk ein að þessu, hún var einn aðili af mörgum, sbr þetta


FellowRanger - 23/04/07 16:37 #

Ég væri til í að sjá fleiri trúarstofnanir á þessum lista, eða enga.


Daníel Páll Jónasson - 23/04/07 17:43 #

Frábær grein og mjög góðar hugleiðingar.

Þessi "bernskuverndarúrræði" kirkjunnar eru svo sem góð og gild en það væri samt hægt að túlka þau á svo marga vegu. Einnig er vert að benda á það að hvaða manneskja sem er hefði getað sagt sér þetta sjálf.

"Verum til staðar fyrir barnið." "Verum barninu mikilvæg." "Setjum foreldrahlutverkið í forgang."

Oooookey... þetta er álíka mikið common sense og;

"Munið að anda inn og út, viljið þið halda lífi."

Ekkert nýtt þarna á ferð. Þeir foreldrar sem hafa vilja og metnað til að verða góðir foreldrar vita þetta allt saman fyrir fram.

Er þetta virkilega það eina sem kirkjan hefur fram að færa? Common sense?

Eiga þetta ekki að vera súper-dúper-all-knowing háskólamenntaðir sérfræðingar í eðli og náttúru mannkynsins? Að minnsta kosti halda þeir því fram sjálfir ;)


Svanur Sigurbjörnsson - 25/04/07 17:51 #

Þessi heilræði eru komin til vegna samstarfsverkefnis fimm aðila og eru í raun húmanísk í eðli sínu. Það er ekkert trúarlegt í þessum heilræðum en vissulega má þess utan taka þau til skoðunar og athugasemda. Það er tæpast rétt að taka Þjóðkirkjuna á beinið fyrir þessi heilræði en e.t.v. eru hún ekki að fara eftir þeim í sumu tilliti eins og Vésteinn bendir á í grein sinni.
Í útskýringum með einu af heilræðunum er notað eftirfarandi orðalag: "Sálir okkar eru brothættar. Barnið þitt sér oft og heyrir ýmislegt sem það hefur ekki þroska eða þekkingu til að skilja." Orðið "sál" er notað fyrir "hugsanir" eða "persónuleiki" eða annað sem væri meira lýsandi en "sál". Betur lýsandi væri t.d. "Hugsunarferli barna eru brothætt". Hér væri komið að kjarna málsins og úreltu ósértæku hugtaki skipt út. Því miður er "sál" fast í málinu og er þar ekki sérstaklega við Þjóðkirkjuna að sakast.

Mér finnst aftur gagnrýnisvert að bjóða Þjóðkirkjunni einni lífsskoðunarfélaga að vera þátttakanda í þessu. Siðmennt fékk ekki tækifæri til að koma með sitt innlegg og trúlega ekki önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.