Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúvillingaskattur á Íslandi

Í íslömskum lögum (sharía) er fjallað um fólk sem ekki er múslimar og hefur aðra réttarstöðu, en nýtur ákveðinnar verndar í annars íslömskum ríkjum. Þetta fólk er kallað „dhimmi“ eftir „dhimma“, eins konar verndarsáttmála milli þess og þess samfélags múslima sem það tilheyrir. Til dhimmi taldist upphaflega fólk sem er kristið eða gyðingar – „fólk bókarinnar“ – sem sharía-lög viðurkenna að sé ekki alveg heiðið frá sjónarhóli íslams, og seinna var skilningur laganna útvíkkaður til að ná m.a. til síkha og zóróaster-trúarfólks. Sums staðar fá t.d. búddistar og hindúar að njóta þessarar réttarstöðu líka.

Í sharía er gert ráð fyrir að íslamstrú sé breidd út, og boðuð þeim sem ekki aðhyllast hana þegar. Undantekningin er dhimmi, trúflokkar sem eru ekki einfaldlega fordæmdir sem heiðni, heldur viðurkenndir sem leyfilegir, en óæðri íslam. Dhimmi njóta þannig takmarkaðs trúfrelsis, en þurfa að sætta sig við lægri félagslega og pólitíska stöðu heldur en múslimar. Milljónir þegna kalífadæmisins og síðari ríkja múslima hafa lotið þessum lögum, frá sjöundu öld fram til nútímans.

Það er viðurkennt að þeir sem aðhyllast ekki íslam þurfi ekki að lúta öllum skyldum sem múslimar þurfa. Til dæmis er ekki ætlast til þess að dhimmi borgi reglulega ölmusu til fátækra með þeim hætti sem ætlast er til af öðrum múslimum. Enn fremur stendur þeim ekki til boða að gegna herþjónustu. Þar sem herþjónustan er þeim lokuð, inna þeir skatt af hendi í staðinn, sem nefnist jizyah, og njóta þá verndar réttarríkisins. Dhimmi leyfist að iðka trú sína svo fremi að þeir geri það ekki opinberlega og reyni ekki að boða hana meðal múslima. Auk þess sem þeim er óheimilt að halda kirkjum og samkunduhúsum sínum við.

Jizyah-skatturinn er nefndur í Kóraninum [9:29]: „Berjist gegn þeim sem eigi trúa á Guð, né á hinn hinsta dag, né halda bönn þau sem sett eru af Guði og Sendiboða Hans, og þeim sem játa ekki trú sannleikans á meðal fólks bókarinnar [=gyðingar og kristnir], nema þeir borgi Jizyah, fúsir og auðsveipir, og játi undirgefni sína.“ Jizyah er, að minnsta kosti í orði kveðnu, lægri upphæð en útgjöldin sem dhimmi sleppa við.

En hvað með okkur?

Vesturlandabúar telja sig gjarnan siðmenntaðri en Austurlandabúa, og fordæma – réttilega – að minnihlutahópar búi við aðra réttarstöðu en annað fólk vegna trúar sinnar. En hvernig líta málin út ef við lítum í eigin barm, hér á Íslandi?

Áður en Íslandi var sett stjórnarskrá 1874 var ekki trúfrelsi í neinum skilningi orðsins. Fólki var frjálst að vera lútherskt, annað ekki. Í samanburðinum má segja að þá sé takmarkað trúfrelsi skárra en ekkert trúfrelsi, þótt hvort tveggja ástandið sé óþolandi. Fullt trúfrelsi er hins vegar ekki til á Íslandi. Meðal okkar Íslendinga er stór hópur sem er dhimmi, þótt hið opinbera afneiti misréttinu. Ég er sjálfur meðal þeirra sem tilheyra þessum hópi.

Trúvillingaskatturinn er lagður á fólk sem ekki tilheyrir Þjóðkirkjunni.

Trúvillingar skattlagðir

Byrjum á sóknargjöldunum. Íslenskt trúfélag fær árlega greiddar um 9500 krónur úr ríkissjóði í sóknargjöld fyrir hvern skráðan félaga. Trúfélög, það er að segja, að Þjóðkirkjunni undanskilinni. Hún fær nefnilega um 12.300 krónur árlega. Fyrir utan sóknargjöld fær hún nefnilega aukaframlag greitt úr Kirkjumálasjóði og Jöfnunarsjóði sókna. Þessa sjóði er reynt að réttlæta með því að kirkjan hafi látið ríkinu hinar og þessar eignir í té, og standi auk þess fyrir starfsemi sem venjuleg sóknargjöld standi ekki undir.

Heyr á endemi! Fyrir það fyrsta má vel líta svo á að eignirnar, sem kirkjan afsalaði sér, hafi verið illa fengnar til að byrja með. Þeim var safnað meðan á margra alda óréttlætanlegri einokunarstöðu kirkjunnar stóð, gjarnan í skiptum fyrir loforð um himnaríkisvist – loforð sem kirkjan þurfti ekki að standa við og gat ekki staðið við. Kirkjan var þá, eins og hún er nú, fyrst og fremst fyrirtæki, rekið af fámennri klerkastétt og alið á spena forréttinda. Jarðasöfnun hefur aldrei verið á hirðisbréfi neins, né sjálfsögð frá trúarlegu sjónarmiði – enda er hún verk fyrirtækis sem er rekið eins og önnur fyrirtæki, með hagsmuni sína í fyrirrúmi. Drjúgur hluti þessara jarða var ennfremur tekinn af kaþólsku kirkjunni þegar lútherstrú var þröngvað upp á landsmenn með valdboði.

Það er auðvitað ekki hægt að finna réttmætan erfingja jarðar sem skipti síðast um eigendur á 16. öld, þannig að eðlilegast væri að þjóðin sjálf væri réttmætur eigandi þeirra. Hvað útgjöldin varðar, sem venjuleg sóknargjöld duga ekki fyrir, þá er ég ekki í vafa um að Ásatrúarfélagið, Krossinn eða Búddistafélagið gætu fundið samsvarandi upphæð stað í sínu starfi ef hún stæði til boða. Þessum félögum er refsað fyrir að vera ekki Þjóðkirkjan. Um það er engum blöðum að fletta. Ef tekið er mið af fólki sem á annað borð er í trúfélagi, þá eru þeir sem eru í „röngu“ trúfélagi skattlagðir um tæpar 3000 krónur á ári. Þetta heitir jizyah – eða á íslensku: Trúvillingaskattur.

Sýnu verr er þó farið með okkur sem stöndum alfarið utan trúfélaga. Sami hjátrúarskatturinn er heimtur af okkur, og rennur til Háskóla Íslands. Það er ekki það að HÍ sé ekki vel að fjárframlögum kominn – gallinn er að hann ætti að vera kostaður úr ríkissjóði, það er að segja, jafnt af öllum landsmönnum. Þótt Háskóli Íslands sé hátt skrifaður í mínum huga, þá er ekki sanngjarnt að ég sé látinn borga meira í hann en aðrir landsmenn, bara vegna þess að ég hafna hjátrú. Það er einfaldlega ósanngjarnt.

Það er margt fleira sem tína má til. Kirkjur og safnaðarheimili eru til dæmis undanþegin fasteignagjöldum, og fyrir nokkru óskaði Vídalínskirkja í Garðabæ eftir að verða undanþegin holræsagjöldum líka. Hvað er þetta annað en óbein skattlagning á aðra? Hvers vegna þarf söfnuðurinn í Neskirkju ekki að borga fasteignagjöld af vannýttu félagsheimili sínu, meðan Rauði krossinn og Félag frímerkjasafnara þurfa það? Eða hin umdeilda guðfræðideild Háskóla Íslands, hvers vegna stendur þjóðin straum af kostnaði við menntun lútherskra presta? Og hverju sætir það, að Þjóðkirkjan hafi, eitt trúfélaga, aðgang að börnum í skólanum? Þarna er verið að mismuna þeim sem aðhyllast ekki „Siðinn í landinu“, þeim sem samþykkja ekki hina opinberu hugmyndafræði íslenska ríkisins. Trúvillingar sitja ekki við sama borð. Hér er takmarkað trúfrelsi. Skárra en ekkert trúfrelsi – samt miklu verra en fullt trúfrelsi.

Þá er ónefnt að guðlast er ennþá bannað í íslenskum hegningarlögum, eins og í sharía. Þótt viðurlögin hafi verið umtalsvert strangari í Mekku á miðöldum, þá er inntakið það sama: Þetta er bannað. Lögin hafa reyndar sýnt sig að vera úrelt, þannig að það er bara tímaspursmál hvenær þau verða numin úr gildi. Það minnir mig á það: Guð er grimmur ruddi og yfirgangssamur forræðishyggjuseggur sem er ekki til, og reynið bara að kæra mig!

Svo fullrar sanngirni sé gætt, þá er rétt að halda því til haga að jizyah-skattur í sharía er æði frábrugðinn hinum óbeina trúvillingaskatti íslenska lýðveldisins. Jizyah var öðrum þræði hugsaður til að undirstrika félagslega og pólitíska undirgefni dhimmi, en trúvilluskatturinn hér er aðallega tímaskekkja sem Ríkiskirkjan hefur barist gegn því að verði afnumin. Jizyah endurspeglar líka að trúvillingar í íslam eru undanþegnir sumum öðrum réttindum og skyldum, sem trúvillingar eru ekki á Íslandi, samkvæmt stjórnarskrá.

Hvaðan kom umburðarlyndið?

Þegar ljós Upplýsingaraldar braust út með Frönsku byltingunni, þá hættu Frakkar að hampa sérstaklega sumum trúfélögum. Sama hafði átt sér stað nokkrum árum fyrr í Bandaríkjunum, þegar þau brutust til sjálfstæðis og settu sér framsækna stjórnarskrá. Þetta fordæmi varð mörgum umhugsunarefni, og er fram liðu stundir fóru mörg önnur vestræn ríki að dæmi Frakka og Bandaríkjamanna. Því eiga Íslendingar að þakka, að trúfrelsi hafi verið haft með í okkar stjórnarskrá, þótt skrefið hafi ekki enn verið stigið til fulls nú rúmum 130 árum seinna.

Meðal þeirra sem heyrðu fagnaðarerindi umburðarlyndis og rökhugsunar, voru dhimmi í Ottómanska keisaradæminu. Með fulltingi trúbræðra sinna í Evrópu, og framsýnna manna í keisaradæminu sjálfu, tókst þeim að fá því framgengt, um miðja nítjándu öld, að Ottómanar afléttu jizyah-skattinum og hófu réttarbætur, dhimmi til handa. Þannig komst á trúarlegt jafnræði meðal þegna soldánsins, í það minnsta fyrir lögum, árið 1839.

Ayatollah Khomeini boðaði að trúvillingar ættu ekki að fá að taka þátt í stjórnmálastarfi, en ættu að njóta almennrar þjónustu og verndar ríkisins gegn því að borga sinn jizyah-nefskatt. Sumir aðrir íslamskir fræðimenn líta svo á að jizyah-skattur eigi sér ekki stoð í samtímanum, og því beri ekki að innheimta hann.

Nú til dags eru fáar ríkisstjórnir sem innheimta þennan skatt. Skattur sem mismunar fólki eins og jizyah gerir, er líka allrar gagnrýni verður.

Áður en við Íslendingar dæmum múslima vegna þess að þessi skattur hafi einu sinni verið almennur og þekkist ennþá, þá ættum við að líta í eigin barm. Hér er innheimtur tæplega 3000 króna aukaskattur á þá sem tilheyra „röngu“ trúfélagi, og um 9500 króna aukaskattur á þá sem tilheyra alls engu trúfélagi, þótt yfirvöld hér hafi ekki manndóm í sér til að kalla skattinn sínu rétta nafni. Það er kominn tími til að við drögum höfuðið upp úr þessum mykjuhaugi fortíðarinnar.

Verum ekki eftirbátar, fullt trúfrelsi strax!

Vésteinn Valgarðsson 20.04.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 20/04/07 10:12 #

Virkilega góð grein! Það er óendanlega sorglegt að þjóðkirkjuforystan sér ekki bjálkann! Þessi blinda virðist heltaka launaða starfsmenn hennar sem hamast í að viðhalda þessu kerfi miðalda. Engin segir neitt, kannski er það græðgin og forréttindafíknin sem ræður för? Hvar er samviskan? Hvar er kærleikurinn?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/04/07 11:06 #

Góð grein og umhugsunarverð. Hvert mannsbarn greiðir 9.500 krónur í trúarskatt á ári. Mér skilst að kirkjan rukki fyrir börnin líka!

Að auki fá sauðir ríkiskirkjubáknsins 3.200 krónur fyrir hvern meðlim. En þar sem aðeins 80% þjóðarinnar eru í þessu apparati þarf hver landsmaður "aðeins" að greiða um 2.600 krónur í þetta.

Aukaskattur trúvillinga til þjóðkirkjunnar er því 2.600 krónur en heildarskattur trúleysingja er 9.500 (til Háskólans) + 2.600 (til Ríkiskirkjunnar) eða samtals 12.100 krónur á ári!

En ef við gefum okkur að það er verið að rukka skattgreiðendur um þetta, börnin greiða ekki skatt, þá hækkar krónutalan á hvern skattborgara.

Greiði 60% landsmanna þennan skatt verða tölurnar þessar:

Trúarskattur (sóknargjöld) = 15.800 kr/ári Ríkiskirkjubitlingurinn = 4. 300 kr/ári

Trúlausir skattgreiðendur greiða því samtals rúmlega 20.000 á ári vegna trúarbragðanna.

Hvað eru menn að væla yfir einni milljón á mannsævi í svona frábæra starfsemi?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 20/04/07 13:45 #

Vésteinn! Þetta er blaðagrein. Beint í blöðin með þetta. Stórgott.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 20/04/07 14:47 #

Hvað erum við að kvabba yfir svona smáræði þegar það eru mörg mál brýnni í þjóðfélaginu?

Hafið þið ekki fengið þessi viðbrögð?

En ef við gefum okkur að eftir 20 ár verði þjónusta presta í skólum orðin almennt viðurkennd.

-Á landsfundi sjálfstæðismanna var nýlega felld tillaga um það að bæta inn í ályktun um skóla- og fræðslumál, að hvers kyns starfsemi trúfélaga eigi ekkert erindi innan ríkisrekinna skóla. Á landsfundi Vinstri grænna var ákveðið að taka ekki fyrir aðskilnað ríkis og kirkju því að "best væri að minnka aðeins hugsjónaeldinn og beina kröftunum að þarfari málefnum".

Eftir 20 ár yrði búið að styrkja starfsemi þjóðkirkjunnar enn frekar með hærri sköttum á alla landsmenn í ljósi aukins umfangs hennar í skólum landsins.

Eftir 20 ár yrði búið að styrkja aftur í sessi lög um guðlast þar sem að innrætingin sem byrjar í barnaskóla væri farin að skila sér til almennings.

-Í dag tekur fólk andköf yfir bingóspili trúlausra en þó er trúarsannfæring landans ekki til fyrirmyndar í augnablikinu, hvað gerist þegar búið er að skerpa á heilagleikanum með því að hleypa prestastéttinni inn í skólana aftur til að stunda sína innrætingu um hið eina sanna siðferði og heilagleika?

-Í Rússlandi þessa dagana horfum við uppá hættulega afturför þar sem verið er að afnema tjáningarfrelsi til að vernda umdeilda stjórnarhætti. Er eitthvert okkar hrifið af þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa verið að grípa til þar? Sá einhver þessa afturför fyrir?

Getum við fullyrt að svona afturför geti ekki orðið hér á Íslandi þar sem flestir segjast vera fylgjandi trúfrelsi en eru bara samt einhverra hluta vegna ekki til í það að festa það almennilega í sessi í lögum?

Er þetta einungis lítilvægt mál sem engu skiptir? En þegar og ef spá mín rætist, hverjar eru líkurnar á því að barátta hins trúlausa minnihluta fyrir sjálfsögðum mannréttindum sínum nái þá fram að ganga?

Ég get vel skilið að hinn almenni trúmaður finnist þetta lítilvægt mál, eðli málsins samkvæmt þá er ekki verið að brjóta á honum. Við hin sem sitjum undir mismununinni finnum hins vegar oft fyrir þessu í okkar daglega lífi eins og staðan er í dag og mér finnst bara full ástæða til að leiðrétta þetta núna. Ef við afskrifum þetta sem léttvægt þá erum við að halda opnum þeim möguleika að þróunin geti farið á versta veg fyrir alla þá sem ekki aðhyllast "hina einu sönnu ríkistrú".

Hversu mikilvægt er þitt frelsi til að vera kristinnar trúar? Er mitt frelsi til að vera trúlaus ekki jafn sjálfsagt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/04/07 15:02 #

Kristín, ég sé ekki betur en næsta skref hjá þér sé að byrja greinaskrif á vefritið. Þetta eru hreint ágætar hugleiðingar.


FellowRanger - 20/04/07 15:30 #

Kristín, þetta eru góð og lööööng viðbrögð þarna en segðu mér, hvað er nákvæmlega verið að gera í Rússlandi.

(First hélt ég að Mofi væri að tjá sig).


hildigunnur - 21/04/07 10:45 #

Frábær grein.

En taktu eitt orð út, vannýtt, í sambandi við safnaðarheimili Neskirkju, sérstaklega ef þetta fer í blöðin. Ég syng í kammerkórnum þar (jarðarfarakórnum, ekki skamma mig, it's just a living :D ) og iðulega finnum við ekki einu sinni smá kompu til að syngja okkur saman, eða æfa, ef það er eitthvað sem við kunnum ekki. Þarna er fullt af herbergjum en alltaf troðið af fólki að föndra og hlusta á fyrirlestra og hitt og þetta.

Hvet þig annars til að senda greinina í blöð, hún á svo sannarlega erindi víðar en hingað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.