Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofurviðkvæmni presta

Síðustu misserin hafa prestar Þjóðkirkjunnar verið duglegir við að auglýsa hversu ofurviðkvæmir þeir eru fyrir öllu því sem þeir líkar ekki við. Þeir hafa kært Hjört fríkirkjuprest og vælt yfir hinu saklausa bingói okkar Vantrúarmanna.

Þetta er reyndar mjög gömul hefð hjá prestum þjóðkirkjunnar að bregðast við allri gagnrýni með væli, órökstuddum upphrópunum og málaferlum.

Fyrir fjórum árum braut ein verslun 10-11 lög um helgidaga og hafði opið á páskadag. Eftir nokkra klukkutíma kom lögreglan og lokaði búðinni. Næsta miðvikudag fjallaði leiðari DV um þessa lokun. Eitthvað hefur þessi leiðari farið fyrir brjóstið á Hjálmari Jónssyni, dómkirkjupresti, því næsta sunnudag sagði hann þetta um leiðarann í messu:

Leiðari eins dagblaðsins, DV á miðvikudaginn, með mynd af Dómkirkjunni, verður varla skilinn öðruvísi en sem hatursáróður gegn kirkju og kristni. Farið er niðrandi orðum um þá sem rækja trú sína, sérstaklega er þess getið að þeir séu fáir og kirkjur séu reistar undir tómlæti andans og landans. Þetta er skoðun á þeim bæ - en hún hefur ekki við rök að styðjast. Það er líka misskilningur að þjóðlífið batni með minni áhrifum kristinnar trúar.

Mér hefur reyndar aldrei þótt það stórmannlegt að gera lítið úr trú annarra, eða hæðast að því sem öðrum er heilagt. Alþjóðasamfélagið, Evrópuráðið, Sameinuðu þjóðirnar, fjöldi af samtökum fólks og þjóða telja það ein helgustu réttindin í mannlegu samfélagi að allir fái að iðka trú sína óáreittir og að skoðanir hvers einstaks séu virtar. Í ritstjórnargrein DV er brotið gegn þessum sjálfsögðum mannréttindum. #

Var leiðarinn "hatursáróður" og braut hann á þeim "mannréttindum" að dómkirkjupresturinn gæti iðkað trú sína óáreittur og trúarskoðun hans væri virt? Hérna er þessi hræðilegi leiðari:

Lögbrotin í búðinni

Enn á ný stekkur forneskjan upp úr greni sínu og gerir landsmenn forviða. Í þessu tilviki stóðu menn í matvörubúð á sunnudegi með sultukrukku í hendinni og var gert að hætta innkaupum. Einkennisklæddir lögreglumenn fóru mikinn og ráku viðskiptavini á dyr eins og felmtri slegnar rollur um réttarhlið. Almenningur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og skímaði pírðum augum eftir falinni myndavél. Engar græjur voru í grenndinni, aðeins íslensk alvara á löngu gleymdum hátíðisdegi.

Íslenskri þjóðkirkju var enginn greiði gerður með uppákomunni sem varð í þjóðlífi landsmanna á hvítasunnudegi. Þvert á móti var hún sýnd í aumkunarverðu ljósi. Kirkjan hefur verið aðhlátursefni margra á síðustu dögum enda fær enginn lengur skilið að fólk sé ekki frjálst að kaupa sér kótilettur á einni af mestu ferðahelgum ársins. Hér verður heldur ekki sakast við almenna lögreglumenn sem einfaldlega voru að fara að fyrirskipunum yfirboðara sinna – og fara að lögum í strangasta skilningi bókstafsins.

Í þessu efni hefur löggjafarvaldið gleymt sér. Lögum um helgidaga var reyndar breytt fyrir hálfum áratug en lagabreytingin a tarna gekk á köflum svo skammt að til lítils var að hrófla við lagagreininni. Það er eins og Alþingi vilji ekki styggja kirkjuna enda ríkistrúin algild og samband ríkis og kirkju hafið yfir samband ríkis og almennings. Fyrir vikið lýstur kirkju og þjóð stundum saman og standa báðir fast á sínu. Matvörurassían á sunnudag er dæmi um að ríki og kirkja lifi á annarri öld en almenningur í landinu.

Talsmenn kirkjunnar hafa það sem af er þessari viku reynt að verja gerðir ríkisvaldsins á sunnudag. Þessir talsmenn virðast leggja áherslu á að afturhaldsseminni verði haldið við í hvívetna. Kirkjunnar menn nefna einkunn tvennt því máli sínu til stuðnings að loka beri matvörubúðum á „allra helgustu dögum“ landsmanna. Annars vegar að leggja beri áherslu á að launafólk í landinu fái öðru hvoru frið fyrir atvinnurekendum sínum og hins vegar að fólki gefist færi á að sækja kirkju sína þegar mest liggur við.

Hér stenst hvorugt. Fæstir landsmenn eru að vinna á helgustu dögunum og þeir sem þess þurfa geta komist hjá því. Það ætti reyndar að vera kirkjunni ærin ráðgáta að naumasti hlutur landsmanna virðist sjá eitthvert samhengi á milli trúrækni og kirkjusóknar enda kirkjur á Íslandi að mestu reistar undir tómlæti landans og andans. Og enda þótt hver frídagurinn reki annan á almanakinu virðist það engu skipta fyrir landsmenn í þessu samhengi; frítíminn er notaður til annars en að tylla sér á bekki bókstafsins.

Löggjafinn gerði kirkjunni mikinn greiða með því að laga lög um helgidaga að lífsvenjum Íslendinga á nýrri öld. Stutt er frá því að erlendir ferðamenn og einstæðingar hér á landi gátu étið það sem úti fraus á jólum og yfir áramót. Stutt er frá því að kirkjan og ríkið réð að mestu lífsvenjum fólks á völdum dögum valdsmanna og beinlínis kvaldi fólk til hlýðni og undirgefni. Þessi tími er blessunarlega liðinn í hugum fólks en enn eimir eftir af honum í samlífi ríkis og kirkju. Rök fyrir lokun matvörubúða hurfu með síðustu öld.

Miðvikudagurinn 11. júní 2003 Leiðari DV

Raunin er sú að þetta er ótrúlega saklaus grein. Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna Hjálmar og aðrir þjóðkirkjuprestar bregðast aftur og aftur svona við gagnrýni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.04.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/04/07 09:12 #

Það væri gersamlega absúrd að ímynda sér t.d. ofurviðkvæmni líffræðinga eða efnafræðinga. Allar fræðigreinar, að guðfræðinni undanskilinni, þrífast á gagnrýni enda leiðir slíkt til framfara og framþróunar þekkingarinnar.

Um guðfræðina gegnir öðru máli. Forsendurnar sem hún þrífst á eru órökstuddar til að byrja með og byggja á hindurvitnum. Og þeir sem ljúka embættisprófi úr guðfræðideild leggja hreinlega fyrir sig að boða þessi hindurvitni í staðinn fyrir að fjalla fræðilega um þau. Auðvitað hlýtur helsta vopn slíkra fræðinga fyrst og fremst að felast í sárindum þegar hugmyndir þeirra eru gagnrýndar.


FellowRanger - 18/04/07 09:42 #

Kannski ættaað leggja niður öll hjálparstörf kirkjunnar í leiðinni. Og spítala. Og neyðarlínuna, frú klukku, gera landið lamað yfir hátíðarnar.


Gunnlaugur Snær Ólafsson - 19/04/07 02:43 #

Það er allt í lagi að hafa skoðanir varðandi gildandi lög en að ögra menn með þessu bingói var nú algjör óþarfi...

Ég er ekki að segja að þessi skoðun sé röng hjá kkur, en ég tel lögin liggja ofar enn skoðanir hvers og eins og vil ég ítreka að lögbrot er ekki rétta leiðin að fara.

Slík vinnubrögð byggir hatur hjá þeim sem ekki eru sammála og skapar virðingaleysi fyrir lögum meðal þeirra sem eru sammála málstað ykkar.


Daníel Páll Jónasson - 19/04/07 02:57 #

Hvenær er lögum breytt, Gunnlaugur? Þegar löggjafinn áttar sig allt í einu á því sjálfur hversu furðuleg lögin eru eða þegar einhverjir taka sig til og mótmæla þeim með saklausum hætti?

Þó bingóið á föstudaginn langa hafi "ögrað" þjóðfélaginu getur þú varla sagt að það hafi verið stórhættulegt og skaðandi, er það nokkuð?

"Slík vinnubrögð byggir hatur hjá þeim sem ekki eru sammála..."

Ég ætla rétt að vona að þjóðfélagið, einhverjir einstaklingar eða nokkur yfir höfuð sé ekki svo grunnhygginn og smámunasamur að hann "hatist" (frekar sterkt orð) yfir þessu útspili Vantrúarseggja á föstudaginn langa.

Ef sú er raunin, að þetta "hatur" út í Bingó sé almennt á Íslandi, þá er ég fluttur eitthvert annað.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/04/07 03:28 #

Hér er ein einlæg spurning fyrir háttvirtann Gunnlaug Snær Ólafsson:

Ha?


Gunnlaugur Snær Ólafsson - 20/04/07 10:45 #

Daníel Páll: Það er allt í lægi að mótmæla, en að brjóta lög í þeim tilgangi er rangt. Hver ákveður hvaða lög eru furðuleg?

Green Peace meðlimum fannst löggjöf norðmanna vaðandi hvalveiðar vera svo furðuleg að þeir töldu sig hafa rétt á því að fremja eignarspjöll.

Hver metur hvaða lög eu nægilega furðuleg til þess að brjóta, er það maður sjálfur, samtökin vantrú eða einhver nefnd? Það að ákveðnir aðilar telji sig vera svo miklu greindari enn löggjafavald þjóðarinnar að þeir geta brotið þau lög sem þeim FINNST vera furðuleg er ekkert annað en virðingaleysi fyrir lögum landsins.

Hver og einum er alveg kleift að hafa þá skoðun a lögin séu furðuleg, eins og Daníel Páll orðaði það, og skrifað greinar, sett færslur á bloggið sitt, talað við stjórnmálamenn og gert auglýsingar án þess að algjörlega vanvirða trú annara og lög landsins.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.