Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Strategískar ráðleggingar handa Þjóðkirkjunni I: Opnið augun

Í deilum undanfarinna mánaða um Vinaleið hefur fylking Þjóðkirkjunnar verið á óskipulegu undanhaldi. Útúrsnúningar, þrákelkni og stóryrði hafa verið áberandi, eins og einkennir jafnan málflutning þeirra sem hafa lélegan málstað að verja. Það er ekki gott að sjá hvernig gerlegt er að fylkja liði þegar málstaðurinn er lélegur og sérhagsmunir tengdir gildum sjóðum ríkisvaldsins á öllum stigum. Forystan er óskipuleg, og eftir höfðinu dansa limirnir.

Hvort sem er í stærra eða smærra samhengi, og hvort sem átökin eru háð á vígvelli, ritvelli eða velli rökræðunnar, þá er eitt grundvallaratriði stjórnlistar að velja víglínu sem hægt er að verja. Það hefur herforingjum Þjóðkirkjunnar mistekist. Niðurstaðan er að riðluð fylkingin er á áðurnefndu óskipulegu undanhaldi.

Staðan er þessi: Kirkjan er í makró-strategískri nauðvörn og rembist við að halda víglínum sem hún getur ekki varið til lengri tíma litið. Hún ætti að læra af Hadríanusi Rómarkeisara, sem gaf eftir nýlendurnar sem hann gat ekki varið. Hún ætti ekki að halda dauðahaldi í eitthvað sem hún mun missa hvort sem er, heldur einbeita sér að því sem hún hefur möguleika á að halda í. Stjórnlist ætti alltaf að byggjast á raunsæi. Tökum dæmi:

Í fyrsta lagi er trúboð í skólum svo augljós tímaskekkja að það sætir furðu að menn hafi svo mikið sem lagt í það. Í þeim slag tapar kirkjan miklu meira en hún getur nokkru sinni unnið með því, og er það þó enn bara á tilraunastigi. Trúboð getur farið fram í kirkjum, safnaðarheimilum og á síðum dagblaða, en trúboð í skólum er ekki bara úr takti við tímann, heldur úr takti við landslög og mannréttindi. Talandi um skóla:

Í öðru lagi sjá flestir Íslendingar hversu gróf tímaskekkja það er, að reka lútherska guðfræðideild í opinberum háskóla. Kirkjan er nógu stöndug til að mennta sína eigin embættismenn, og ætti að gera það, en leyfa skattfé almennings að renna annað. Það mundi kosta fleiri krónur í nánustu framtíð, en mundi spara kirkjunni viðvarandi ímyndarhnekki sem hún hefur ekki efni á. Rétt er að taka fram að fræðsla um trúarbrögð er sjálfsögð í Háskólanum; það sem er rangt er að hún sé á forsendum Þjóðkirkjunnar. En talandi um skattfé:

Í þriðja lagi vilja færri og færri Íslendingar að ríki og kirkja séu í einni sæng. Það er aumkvunarvert að heyra þegar formælendur kirkjunnar halda því fram að aðskilnaður hafi í raun orðið fyrir áratug síðan. Það er bara blaður. Á meðan ríkið borgar prestum laun, veitir kirkjunni fyrirgreiðslu með sjóðum og ívilnunum, forseti skipar biskupa og stjórnarskráin kveður á um þjóðkirkju, þá er kirkjan ríkiskirkja og fyrir það þýðir ekki að þræta. Tveir af hverjum þrem landsmönnum vilja aðskilnað. Kirkjan ætti að verða við því og leita eftir að ná hagstæðum samningum við ríkið um tafarlausan aðskilnað. Erfiðasti hlutinn yrði þegar kirkjan afsalaði sér forréttindastöðu og áskrift að sóknargjöldum sinnuleysingjanna, en til lengri tíma litið stæði málstaður trúarinnar betur með 10-40% landsmanna sem einarða lútherstrúarmenn heldur en með 82% landsmanna (sem fer fækkandi) sem koma helst ekki í kirkju frá því þeir fermast þangað til þeir eru jarðaðir. Hvaða trúfélag sem er væri fullsæmt af því að hafa 10-40% landsmanna innanborðs, ef hið klingjandi kall sóknargjaldanna væri ekki of sterkt.

Þetta eru þrjú dæmi um víglínur sem Þjóðkirkjan rígheldur í þótt hún geti ekki haldið þeim nema til skemmri tíma og tapi meiru en hún græðir á því. Það mætti tína til urmul annarra dæma. Ég geri það ekki hér, enda er þessum lista ekki ætlað að vera tæmandi, heldur að koma til skila hugsun sem Þjóðkirkjan hefði gott af að tileinka sér. Sú hugsun kallast raunsæi. Það getur verið sárt á meðan á því stendur, en það er hverjum manni hollt að horfast í augu við raunveruleikann. Einhver gæti spurt hvernig mér detti í hug að yfirnáttúrutrú og raunsæi fari saman. Því er til að svara, að yfirnáttúrutrú þarf alls ekki að útiloka veraldlega stjórnvisku. Værukærð hinnar skvapholda ríkisstofnunar er hins vegar líklegri til þess.

Framhald þessarar greinar birtist á morgun og nefnist Rætur vandans.

Vésteinn Valgarðsson 13.03.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 13/03/07 09:41 #

Virkilega góð grein. Það er óskiljanlegt hvers vegna Þjóðkirkjan hefur ákveðið að sókn sé besta vörnin í dag. Það væri ágætt í sjálfum sér en sóknartækifærin sem valin hafa verið gera lítið annað en espa fólk upp til andúðar á henni. Á meðan þessu stendur eru varnirnar illa eða þunn skipaðar. Þjóðkirkjan hefur verið umsnúið úr kastala í spilaborg á örfáum árum. Það má segja að kristnitökuhátíðin hafi verið fyrstu og alvarlegustu mistök hennar, síðan hefur hvert hroka og ofbeldis atriðið fylgt í kjölfarið. Biskupinn hefur predikað með dylgjum og sóðaskap gegn trúlausu fólki. Fyrir vikið var engin önnur leið en að stofna Vantrú til að svara málflutningnum. Kirkjan er á óstöðvandi óvinaleið. Eftir höfðinu dansa limirnir, kannski ætti höfuðið að fara hugsa sitt ráð?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 13/03/07 10:50 #

Já, þetta er snjöll grein Vésteinn. Takk.

Það er umhugsunarvert hve slæmt PR ríkiskirkjan hefur fengið síðustu misserin og hvernig fólk sem engan áhuga hefur á trúmálum eða kirkju hristir hausinn og hlær þegar minnst er á kirkjuna. Það er líka bagalegt fyrir þá hvernig prestar og trú hafa tengst öllum þeim Byrgis-, Breiðavíkur- og Bjargsmálum sem komið hafa upp á síðustu vikum.

Biskupinn og prelátar hans eru aðhlátursefni hjá hinum almenna borgara og tiltrú á kirkjuna sem stofnun sýnist mér vera að hrynja og allt er það þeirra eigin bægslagangi og klaufaskap að kenna. Þeir ættu að hlusta á ráð Vésteins!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/03/07 15:40 #

Í Vinavillunni á kirkjan tvo kosti:

a) að draga sig í hlé í vor og viðurkenna með því að sóknin var misráðin.

b) að berja höfðinu við steininn og vera rekin úr skólunum með dómsvaldi.

Enginn skyldi efast um að ég geri það sem í mínu valdi stendur til að þessari ósvinnu ljúki. Fyrri kosturinn er vissulega þægilegri en í ljósi ósvífni þessarar stofnunar gréti ég ekki að sjá hana með dóm um mannréttinda- og lögbrot á bakinu, og það gagnvart börnum þessa lands.


Árni Árnason - 13/03/07 18:03 #

Er ekki kirkjan bara að bíða eftir vorinu, í þeirri von að þá geti hún látið sig hverfa hægt og hlótt, og láta það svo vera að birtast aftur í haust þegar skólarnir hefjast að nýju. Það er minna áberandi heldur en að vera borin út af fógeta. Þeir bókstaflega hlóta að sjá það, ef þeir eru ekki öllu skini skroppnir, að þeim getur ekki haldist á þessu til lengdar.


Hafþór Örn (meðlimur í Vantrú) - 13/03/07 19:27 #

Ég held það sé málið Árni.

En frábær grein.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 13/03/07 20:50 #

Ég held ekki. Þeir fara ekki fyrr en þeir eru dregnir út "kicking and screaming". Þeir hafa nákvæmlega engan sans fyrir stöðu sinni og þetta verður þeim til ævarandi háðungar.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/03/07 00:09 #

Það gæti reyndar vel verið planið, að þeir vilji draga sig í hlé án þess að það verði hægt að segja að þeir hafi "tapað".


Árni Árnason - 14/03/07 12:23 #

Ég er næstum því viss um að vinaleiðin verður horfin af sjónarsviðinu þegar skólar hefjast í haust. Það væri auðvitað fínt, en vissulega væri miklu skemmtilegra að sjá hempuliðið borið út, "kicking and screaming" , eins og Aiwas orðar það. Það væri svona "grand finale". Sjáið þið fyrir ykkur tvo fíleflda lögregluþjóna draga brjálaðan prest í járnum út úr barnaskóla, gargandi bölbænir og lofandi laganna vörðum eilífri helvítisvist. Ég held að kirkjan hafi næga glóru til að láta þessa senu ekki verða að veruleika. Því miður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.