Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að brjóta lög eða námskrá?

Eins og fram hefur komið hérna á Vantrú viðurkenndi Jóna Hrönn Bolladóttir á málþingi um Vinaleið að vera prests í grunnskólum fæli í sér trúboð. Það eru nú frekar augljós sannindi og það er gleðilegt að annar prestur Þjóðkirkjunnar hafi viðurkennt þetta[1].

Í aðalnámskrá grunnskóla stendur að skólinn sé “fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun” og það er alveg á hreinu að trúboð á ekki heima í skólum. Vera prests Þjóðkirkjunnar í opinberum skólum brýtur því klárlega gegn aðalnámskrá grunnskóla.

Mig grunar að ástæðan fyrir því að æðsti biskup Þjóðkirkjunnar sagði að Vinaleið væri fyrir börn sem væru skráð í Þjóðkirkjuna sé sú að hann vilji komast undan þessum trúboðsbrotumi. En ef svo er þá er Vinaleið brot á landslögum, að mismuna skólabörnum eftir trúarskoðunum.

Af þessum ástæðum held ég að kirkjan muni halda áfram að halda því fram að prestur hafi ekkert með kristni að gera, að hann sé bara að tala við börn, að þessu fylgi ekkert trúboð.

Ég er ekki að halda því fram að aðalmarkmið Vinaleiðar sé að boða kristni, en það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að hafa vígðan mann frá Þjóðkirkjunni í skólanum. Kirkjunnar menn hljóta að átta sig á þessu. Þá hlýtur maður að spyrja sig, fyrst þetta á bara að snúast um að ræða við börnin, en tengist ekki trú, og það að vígður maður stofni starfinu í hættu, hvers vegna er þá ekki fenginn einhver hlutlaus aðili? Hvers vegna býðst kirkjan ekki bara til þess að borga fyrir stöðu hlutlauss aðila? Fyrst þetta tengist ekki trú þá hlýtur að vera í lagi að fá ódýra fúskara eins og sálfræðing eða félagsráðgjafa í starfið. Þannig myndu allir geta notað þessa þjónustu og enginn ágreiningur væri um hana. Hvers vegna gerir kirkjan þetta ekki?

Ég veit það ekki. Ein hugsanleg ástæða er sú að í augum kirkjunnar geti hún þarna frelsað nokkrar sálir. Ég fullyrði það ekki, en það er einhver ástæða fyrir því að hún vill endilega koma prestum og djáknum í skólana. Þetta er eina líklega ástæðan sem mér kemur til hugar.

Hefur kirkjan neitað því að trúboð sé ástæðan? Ég veit það ekki. Það hljómaði það vissulega á tímabili. En síðan segir einn frumkvöðla Vinaleiðar, Jóna Hrönn, að svona hafi orðið trúboð verið notað í umræðunni:

Við erum hlustendur og við veitum leiðbeiningu og byggjum á ákveðinni trú og gildum. En það er ákkúrat þetta sem er svo erfitt og það er svo andlegt og svo erfitt þess vegna að tala um það af því að trúboð eins og það er skilgreint og talað um það í þessari umræðu. Það er þetta, maður sér fyrir sér einhvern ofsatrúarmann eða ofsatrúarkonu, einhvern veginn sitja og og negla biblíuversum í barnið og berja það með biblíunni og einhvern veginn sko. Maður sér fyrir sér "Hallelúja, Gunnar í Krossinum" og það er einhvern veginn búið að búa til í kringum orðið trúboð einhvern svona bókstafstrúarofstæki sem er bara ekki vinnuaðferð íslensku Þjóðkirkjunnar. Þess vegna eru kannski tæplega 90% þjóðarinnar í henni. Þess vegna er kannski vegna þess að okkur er treyst. Vegna þess að þetta trúboð, þessi innræting sem henni er borið á brýn og er alltaf verið að núa um nasir. Það er bara ekki hægt að nota þetta orð lengur, trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi. Þannig að það er bara eðlilegt að við notum bara ekki orðið trúboð, en það er það. Það fylgir bara presti, embætti hans og því sem hann stendur fyrir og persónu, það fylgja því bara ákveðin skilaboð. [2]

Jóna Hrönn nefndi að vísu engin dæmi um þessa notkun á orðinu trúboð. Ef Jóna Hrönn hafði sagt að trúboð fylgdi ekki Vinaleið, þá var hún líklega að tala um að þar færi ekki fram heilaþvottur, ofbeldisfull eða stíf innræting kristinnar trúar. En enginn hefur haldið því fram.

Hvað með ofbeldislausa innrætingu kristinnar trúar? Hvað með að gefa það til kynna að kristin trú sé æskileg? Er það hluti af Vinaleið? Er það fylgifiskur veru prests í skólum? Kirkjan hefur ekki svarað þessu. Þangað til hún svarara þessu er vafasamt að hleypa trúfélagið sem hefur svona sérstakan skilning á orðinu “trúboð” inn í skólana.

Ég held að Þjóðkirkjan skuldi okkur útskýringar á þessu öllu. Hvers vegna er ekki fenginn hlutlaus aðili til þess að sjá um Vinaleið? Fylgir trúboð veru prests? Þau fáu svör sem prestar Þjóðkirkjunnar hafa gefið virðast þýða eitthvað allt annað í þeirra huga heldur en almennt gengur og gerist. Þjóðkirkjan virðist ekkert vilja ræða um Vinaleið. Hvers vegna vill hún ekki svara þessu?


[1] Áður hafði þjóðkirkjupresturinn Óskar Hafsteinn Óskarsson skrifað í glefsur sínar undir heitinu Vinaleið og trúboð:

Trúboð kann að hafa á sér nokkuð einstrengingslegan blæ í ,,upplýstu" nútíma þjóðfélagi. Ýmsir setja samasemmerki á milli trúboðs og innrætingar þar sem gagnrýni er ekki leyfð. Og er því jafnan farið að nota mildara orð og tala um boðun. Í guðsþjónustum og í hinum ýmsu starfsþáttum kirkjunnar á sér stað boðun. Sálgæsla sem þjónar kirkjunnar veita er líka boðun, í vissum skilningi ef ekki öllum. Breytir þar litlu hvort farið er með bæn eða hvort Guð sé nefndur á nafn. Að þessu leytinu til get ég því tekið undir efasemdarraddir Siðmenntarmanna og annarra.

Mér finnst það hæpið af hálfu talsmanna Vinaleiðarinnar að viðurkenna ekki að þar eigi sér stað boðun. Þegar skólar og stofnanir leita eftir þjónustu kirkjunnar, hvort sem það er vegna Vinaleiðar eða einhvers annars, þá er verið að opna fyrir boðun, trúboði í vissum skilningi. Breytir þá engu um siðarleglur (sem eru afar mikilvægar) sem settar eru upp eða hvort bænir séu viðhafðar. Presturinn eða djákninn sem fer inn í skólann fer þangað vegna þess að hann er prestur eða djákni. Nærveru hans og þjónustu er erfitt að skilgreina öðruvísi en boðun.

Þetta segi ég ekki til að kasta rýrð á Vinaleiðina heldur þvert á móti. Þar er á ferðinni dæmi um farsælt samstarf kirkju og skóla. En við eigum hins vegar ekki að vera feimin að kalla hlutina réttum nöfnum. Ef múslimaprestur fer inn í skólana til að bjóða upp á ákveðna þjónustu við börnin þá felur það í sér boðun. Sama gildir um þjóna kirkjunnar. Í fjölmenningarsamfélagi má velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að kirkjan eða önnur trúfélög bjóði upp á sérstaka og skipulagða þjónustu við börnin innan skólanna. Ég held í það minnsta að þjóðkirkjan eigi að stíga varlega til jarðar.

[2] Í fyrirspurnatíma á málþingi ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ.

Hjalti Rúnar Ómarsson 12.03.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/03/07 11:20 #

Menntamálaráðherra sagði í haust: “Ég tel ekki óeðlilegt að trúfélög geti innan einhverra marka fengið aðstöðu innan grunnskóla til að iðka þar tómstundastarf með börnum rétt eins og önnur félagasamtök og íþróttafélög fá að gera utan hins hefðbundna skólastarfs. Skólinn á hins vegar ekki að vera vettvangur trúboðs.”

Samtökin Heimili og skóli ályktuðu nýlega: "Mikilvægt er að friður ríki á hverjum tíma um þá þjónustu sem býðst innan skólans. Með tilliti til jafnræðissjónarmiða og með vísan í 2. grein grunnskólalaga, telur stjórn Heimilis og skóla eðlilegra að til framtíðar standi sálgæsluþjónusta Þjóðkirkjunnar börnum og forsvarsmönnum þeirra til boða utan húsakynna skóla, eftir að skóladegi lýkur."

Í 29. grein grunnskólalaga er lagt bann við mismunun nemenda vegna trúarbragða en biskup segir Vinaleið bara fyrir börn í einu trúfélagi.

Biskup og fulltrúi biskupsstofu hafa neitað að um trúboð sé að ræða - kannski höfðu þeir í huga mjög öfgafullan skilning á orðinu, sbr. Jónu Hrönn. Enginn kirkjunnar maður getur hins vegar neitað að presti og djákna fylgir boðun, eða að það sem þessir embættismenn boða er trú. Það er trúboð. Nú eru þeir meira að segja farnir að viðurkenna það.

Vinaleið brýtur bersýnilega gegn aðalnámskrá og grunnskólalögum. En hún brýtur líka gegn alþjóðalögum um borgaraleg réttindi (4. lið 18. greinar) sem kveða á um rétt foreldra og forráðamanna barna til að sjá um trúarlegt uppeldi þeirra - ríkið (skólar) á ekki að skipta sér af því. Prestur hefur sagt brot á mannréttindum vera óþolandi glæpi.

Hvers vegna kýs kirkjan að brjóta grunnskólalög, aðalnámskrá og mannréttindi með starfi presta og djákna í skólum?

  1. Tilgangurinn er að aðstoða börn í vanda.
  2. Tilgangurinn er að gera alla að lærisveinum - það hefur komið fram á prestastefnu og kirkjuþingi.
  3. Tilgangurinn er ný sókn kirkjunnar (orð biskups).
  4. Tilgangurinn er að auka "trúverðugleika" kirkjunnar - kom fram á kirkjuþingi.

Enginn hefur efast um eða hnýtt í Nr. 1, en Nr. 2 er meinið sem ekki verður umflúið. Nr. 4 er orðið öfugmæli en ég held að kirkjunnar menn hangi nú á Vinaleiðinni eins og hundur á roði fyrst og fremst vegna Nr. 3. Í stað þess að sjá að andstæðingar Vinaleiðar eru að verjast þessari SÓKN kirkjunnar líta þeir á gagnrýnina sem ÁRÁS á kirkju og kristni. Gegn henni ætla þeir að standa sem einn maður. Draumur þeirra (skjalfestur) er að prestar og djáknar verði í hverjum skóla.

"Í draumi sérhvers manns er fall hans falið."


Árni Árnason - 14/03/07 18:00 #

Ef þetta er rétt eftir menntamálaráðherra haft:

"Ég tel ekki óeðlilegt að trúfélög geti innan einhverra marka fengið aðstöðu innan grunnskóla ......" þá er mér öllum lokið.

Hvernig í ósköpunum ?

Þetta gengur þvert á alla skynsemi, að maður nú ekki tali um lög og námsskrá.

Hvað er hún að meina með: "trúfélög" í fleirtölu ? Getur hún staðið við það að henni finnist eðlilegt ( ekki óeðlilegt ) að trúfélög almennt hafi aðstöðu í skólunum ?


Árni Árnason - 14/03/07 22:41 #

Eftir því sem ég hugsa meira um tilvitnuðu setninguna að ofan: "Ég tel ekki óeðlilegt að trúfélög geti innan einhverra marka fengið aðstöðu innan grunnskóla ......", sem höfð er eftir menntamálaráðherra verð ég eiginlega meira og meira hissa.

Sagði hún þetta virkilega ? Ef svo er, gerir hún sér þá einhverja grein fyrir því hvað hún var að segja ? Ætlaði hún að friðþægja okkur með því að úr því þjóðkirkjan má, þá meiga allir hinir líka ? Átti þetta að vera útspil um að búnar yrðu til einhverjar reglur um viðveru trúfélaga í barnaskólum ? Átti "..innan einhverra marka" að létta af okkur einhverju fargi, eða sefa reiði okkar ? Var þetta kannski bara ein af þessum setningum stjórnmálamannanna sem þeir stama upp úr sér þegar þeir eru króaðir af, og eru að reyna að segja eitthvað sem er nógu óljóst og afstöðulaust til að halda öllum góðum ?

Ég get ekki annað en spurt. Mér finnst þetta með svo miklum ólíkindum að trúi þessu varla.

Ég trúi því og vona að þetta sé ein af þeim setningum, sem menntamálaráðherra óskar þess í dag að hafa aldrei sagt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/03/07 23:56 #

Þorgerður Katrín sagði þetta í Hægri, málgagni Ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ rétt fyrir prófkjör Sjálfstæðismanna.Hún verður ekki menntamálaráðherra lengi enn. Ég benti á þessi orð hennar í opnu bréfi til hennar í Morgunblaðinu á sínum tíma og það var birt hér á vantrú.

Því miður er Þorgerður Katrín ekki "stelpa sem þorir að taka sterka pólitíska afstöðu" eins og ungliðarnir vonuðust til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.