Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Annars flokks nemendur

Á málþingi sem ég fór á um daginn var fjallað um hlutverk Þjóðkirkjunnar á 21. öld. Í fyrirspurnatímanum hélt þjóðkirkjupresturinn Jóna Hrönn Bolladóttir ræðu um Vinaleið sem endaði á öskrinu: “Og það er talað við okkur eins og við séum GLÆPAMENN!!!!” Ástæðan er líklega sú að Vinaleið virðist brjóta gegn landslögum.

Í Kompási síðasta sunnudags var fjallað um Vinaleið og Karl Sigurbjörnsson, æðsti biskup Þjóðkirkjunnar, sagði þetta um þá starfsemi [byrjar 8:30]:

Vinaleið er nýbreytni, tilboð að hálfu kirkjunnar um sálgæslu gagnvart grunnskólabörnum, sem vel að merkja, gagnvart grunnskólabörnum sem eru í Þjóðkirkjunni. Og þetta er tilboð um þjónustu á forsendum skólans í nánu samstarfi við skólann um stuðning við einstaklinga, við börnin.

En er þetta ekki boðun? Trúarboðun í sínu eðli?

Þetta beinist að börnum sem að eru í Þjóðkirkjunni og það er gert með samþykki foreldranna. Það er ekki verið að troða neinu upp á einn eða neinn.

Samkvæmt yfirmanni þess trúfélags sem sér um Vinaleiðina er hún sem sagt eingöngu handa þeim börnum sem eru meðlimir í Þjóðkirkjunni. Í grunnskólalögum segir:

.29. gr. ... Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.

Starfsemi innan opinberra skóla sem er eingöngu handa meðlimum eins trúfélags mismuna börnum augljóslega vegna trúarbragða. Vinaleið brýtur því augljóslega gegn grunnskólalögum.

Í síðustu viku svaraði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fyrirspurn um Vinaleið. Í svari hennar sagði hún:

Þegar skólar taka ákvörðun um að nýta þjónustu félags, trúfélags í þessu tilviki, í þágu nemenda þarf skólinn að fara að fara að lögum og reglugerðum þar að lútandi. Menntamálaráðuneytið tekur hvorki sérstaka afstöðu til verkefnisins vinaleiðar né getur ráðuneytið lagt mat á gildi þess fyrir nemendur og foreldra eða forráðamenn. Ráðuneytið gætir þess hins vegar að sérfræðiþjónusta í grunnskólum uppfylli þær kröfur sem grunnskólalög gera til hennar, auk þess að við framkvæmd skólastarfs sé gætt jafnræðisreglu stjórnarskrár sem tryggir nemendum grunnskólans sem og öðrum þjóðfélagsþegnum að þeim sé ekki mismunað, m.a. á grundvelli trúarbragða. Þessi krafa hvílir að sjálfsögðu einnig á sveitarfélögunum.

Vonandi mun ráðuneytið sjá sóma sinn í því að stöðva þetta ólöglega siðleysi.

Hjalti Rúnar Ómarsson 21.02.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/02/07 08:53 #

Biskup virðist hafa áttað sig á að prestar og djáknar, boðberar boðandi kirkju, hljóta að boða "fagnaðarerindið" með störfum sínum. Því hefur kirkjan nú horfið frá því að neita trúboði og þá er þrautalendingin sú að þetta sé bara fyrir börn í þjóðkirkjunni (eins og börnin hafi forsendur til að velja slíkt).

Vinaleiðin er trúboð (bannað skv. aðalnámskrá) og mismunar nemendum vegna trúarbragða (bannað skv. grunnskólalögum).

En tilgangurinn virðist helga meðalið og tilgangurinn er skýr og margyfirlýstur...að ná börnunum, styrkja stöðu kirkjunnar.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 21/02/07 10:22 #

Biskup virðist með orðum sínum hafa komið málinu upp á borðið. Nú er kristalskýrt að Vinaleiðin er ólögleg.

Biskup er yfirmaður Vinaleiðar og veit sínu viti. Ljóst er að nú er línan sú að Vinaleið er fyrir börn í Þjóðkirkjunni. -Inn í opinberum grunnskólum.

-Svona starfsemi eins trúfélags inn í opinberum skólum er BÖNNUÐ skv aðalnámsskrá.


Steindór J. Erlingsson - 21/02/07 10:55 #

Hjalti af hverju sendir þú ekki þessa fínu samantekt í blöðin? Þessi ummæli biskups, sem stangast á við landslög og það sem menntamálaráðherra sagði í síðustu viku, þurfa að koma fyrir sjónir almennings!!!


Árni Árnason - 21/02/07 11:06 #

LAUSNIN ER FUNDIN

Í gegnum þessa vinaleiðarsögu alla hafa forsprakkar hennar og viðhlæjendur farið í endalausa hringi eftir því hvaðan vindurinn blæs hverju sinni. Þeir eru margsaga um það hvort vinaleiðin sé eða sé ekki trúboð, um það hvort hún sé í samráði við foreldra eða ekki, um það hvort kirkjunnar fólk eigi sjálft frumkvæði eða ekki, fari inn í bekki til kynningar (að sækja sér fórnarlömb) eða ekki.

Nú er sjálfur Biskupinn yfir Íslandi búinn að taka af skarið, með orðum sem ekki verða misskilin, og sem hljóta að teljast hin nýja opinbera stefna kirkjunnar í Vinaleiðarmálinu.

" Vinaleiðin er þjónusta við börn sem eru í þjóðkirkjunni og er með samþykki foreldranna"

Hvað er þetta þá að gera í Grunnskólum?

Á ekki þjóðkirkjan nóg af húsnæði, kirkjur og safnaðarheimili ? Hvað er því til fyrirstöðu að þessi þjónusta sé sótt þangað fyrst foreldrar eru með í ráðum ?

Miðað við þessa nýju opinberu stefnu er allur grundvöllur ( meira að segja kirkjunnar sjálfrar) brostinn fyrir því að þetta hafi yfirleitt nokkuð að gera inni í grunnskólanum.

Það er bara fínt, þá geta þeir tekið pokan sinn og hypjað sig, og allir eru sáttir. Eða hvað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/02/07 16:59 #

Séra Jóna Hrönn Bolladóttir öskraði á málþingi um ríkiskirkjuna:

“Og það er talað við okkur eins og við séum GLÆPAMENN!!!!”

Hvernig ætli Jónu Hrönn þyki að meira segja yfirmaður hennar talar á þann máta - þ.e.a.s. að þau (sem standa fyrir Vinaleið) séu glæpamenn?

Ég verð að segja eins og er, mér finnst Jóna Hrönn Bolladóttir skulda okkur og öllum þeim sem mótmælt hafa Vinaleið með málefnalegum hætti, afsökunarbeiðni. Málflutningur hennar í þessu máli hefur verið skammarlegur, bæði í morgunsjónvarpi stöðvar 2 og á ráðstefnunni í Vídalínskirkju.

Nú er alveg ljóst að við höfðum rétt fyrir okkur og hún hafði rangt fyrir sér. Það er ekki hægt að deila um þetta frekar.

Á ég von á afsökunarbeiðni? Nei, svo sannarlega ekki. Jóna Hrönn er of fordómafull í garð okkar og ekki nógu stór manneskja til að játa að hún fór með fleipur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.