Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sögð og ósögð orð

Halldór Reynisson á fræðslusviði Biskupsstofu heldur því fram í Fréttablaðinu 8. febrúar að málflutningur gegn Vinaleiðinni sé „ófaglegur". Ástæðan virðistvera sú að hann telur vegið ómaklega að sr. Hans Guðbergi, sem er fulltrúi trúfélags inni í grunnskólum. En persóna eða drengskapur þessa manns kemur málinu nákvæmlega ekkert við.

Í Fréttablaðinu 29. janúar var greint frá óánægju móður með aðkomu þessa prests að dóttur hennar. Dóttirin skildi prestinn sem svo að hann gæti fjarlægt ör af sálinni ef börnin ræddu við hann. Í blaðinu var haft eftir Hans að hann hefði bent á ör á eigin höfði og sagt að hann gæti hlúð að sárum á sálinni. Því er hafið yfir vafa að presturinn lofar einhvers konar meðferð á sálmeinum þrátt fyrir að viðtöl við hann séu sögð stuðnings- en ekki meðferðarviðtöl. Það er ámælisvert og ófaglegt.

Fólk gagnrýnir líka að presturinn kynnir þessa meðferð sína inni í bekkjum þrátt fyrir loforð og yfirlýsingar skólastjóra og prests um hið gagnstæða. Í þessum bekkjum geta verið börn foreldra sem kæra sig ekkert um að boðberi boðandi kirkju sé að lokka börnin þeirra til sín með fagurgala. Um þetta þegir Halldór þunnu hljóði.

Halldór hefur reyndar haft hljótt um sig síðan gagnrýni á Vinaleiðina hófst. Í upphafi reyndi hann að vísu að þræta fyrir að um trúboð væri að ræða og sagði kirkjuna gera skýran greinarmun á boðun og þjónustu. Síðan hefur verið bent á að yfirmaður Kristniboðssambandsins segir boðun umvefja og merkja allt starf kirkjunnar. Trúboð sé boðun trúar og vissulega stundi kirkjan trúboð hér heima með störfum sínum. Kirkjuþing segir Vinaleiðina eiga að miðla kristinni trú og kærleiksþjónustuna rekna samkvæmt Kristniboðsskipuninni („Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.").

Í fálmkenndri tilraun til varnar gagnrýni á þetta trúboð voru samdar siðareglur Vinaleiðar þar sem fram kom að hún væri ekki trúarleg boðun. Nú hefur þetta ákvæði verið fjarlægt, svo lítið beri á, enda hef ég og nokkrir kirkjunnar menn bent á að það stenst engan veginn að boðun sé ekki hluti af kalli og störfum presta og djákna. Um þetta þegir Halldór líka.

Aðalgagnrýnin felst þó í því að mismunun nemenda vegna trúarbragða er ólögleg og foreldrar og forráðamenn barna eiga skýlausan rétt samkvæmt alþjóðalögum á að ala þau upp samkvæmt hugmyndum sínum í trúmálum. Starf kirkjunnar gengur hins vegar út á forræðishyggju, að hafa vit fyrir almúganum því það sé honum fyrir bestu. Ekki orð um það frá Halldóri. Vinaleiðin var kynnt sem kristileg sálgæsla en nú keppast kirkjunnar menn við að sverja af sér trúarlega þáttinn. Samt segir biskup að sálgæsla snúist umfram allt um trú. Það verður ekki bæði haldið og sleppt. Ég veit vel að Halldór þekkir vel til vinnubragða Hans enda var Hans í starfshópi sem Halldór skipaði til að skipuleggja sókn kirkjunnar inn í framhaldsskóla. Fyrirmyndin var Vinaleiðin í Mosfellsbæ og draumurinn að fá prest eða djákna í hvern skóla. Enginn getur þrætt fyrir að fyrirmyndin í Mosfellsbæ er grímulaust trúboð. Lokaorðin í erindi þessa starfshóps á prestaþingi voru: „Síðustu orð Jesú til lærisveinanna voru: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum..." Hlutverk kirkjunnar er skýrt, að fara með boðskap Jesú og fara að fordæmi Jesú."

Halldór og fleiri hafa haldið fram að gagnrýnendur Vinaleiðar misskilji fyrirbærið. Í stað þess að drepa málinu á dreif hlýtur að vera hægt að ætlast til þess af fulltrúa fræðslusviðs biskupsstofu að hann fræði okkur nú um hvað felst í þessu herópi skósveina hans ef það er ekki trúboð. Halldór segir að gera verði „þá faglegu kröfu í orðræðu af þessu tagi að andstæðingi sé sýnd sanngirni og hvorki sé reynt að afbaka né bjaga málflutning hans en takast á við málstað hans með gildum rökum". Halldóri væri hollt að fara eftir þessu sjálfur. Hann ætti að takast á við meginrökin gegn Vinaleiðinni en ekki reyna að gera persónu Hans Guðbergs að aðalatriði eða ímyndaðar árásir á hana.

Höfundur er sálfræðingur.

Reynir Harðarson 19.02.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Viddi - 19/02/07 08:43 #

Frábær pistill. Það er pínu sorglegt hvað það þurfa að koma margir pistlar um þetta mál til að fólk fari að hugsa um þetta.

En hérna ein spökulering, í trúvæddri löndum er prestur innan skóla alls ekki óalgengur og samstarf skóla og kirkju eru á mörgum stöðum mjög sterkt. Eru til einhverjar rannsóknir sem sýna að nemendur sem koma úr skóla sem hafði prest á launaskránni séu eitthvað betur stödd en börn sem koma úr trúhlutlausum skólum, bæði andlega sem og vitsmunalega?

Það væri kannski vert að skoða það og fá þá kannski nýjan vinkil á þetta mál alltsaman, bara hvort að þetta sé til góðs eða ekki, hjálpar presturinn í raun?


Árni Árnason - 19/02/07 12:45 #

Þó að "spökulering" Vidda sé eflaust sett fram af góðum hug, verð ég að slá hana út af borðinu.

Það á ekki að fara að rannsaka eða skilgreina störf presta eða djákna í barnaskólunum með það fyrir augum að komast að því hvort þau geti hugsanlega leitt til einhvers góðs.

Það er eflaust ekki fjarri sanni að barn sem á í einhverri kreppu vegna eineltis, erfiðra heimilisaðstæðna eða einhvers annars, geti ekki notið góðs af því að tala við einhvern velviljaðan fullorðinn, sem hugsanlega gæti hughreyst viðkomandi, ráðlagt honum, eða séð til þess að tekið yrði á málunum. En málið snýst bara ekkert um það.

Málið snýst um að þessari þjónustu á að sinna öllum börnum jafnt, af fagfólki og án trúartengsla. Með fagfólki á ég við t.d. sálfræðinga, félagsfræðinga, lækna, hjúkrunarfólk og aðra slíka. (Trú er ekki fag.)

Við erum síður en svo á móti því að börn sem eiga í einhverskonar kreppu í lífinu fái hjálp og stuðning, við viljum bara ekki að það sé á könnu sértrúarfólks ( þjóðkirkjan er bara stór sértrúarsöfnuður )

Þó svo að "vinunum" í vinaleiðinni tækist að sannfæra okkur um að beinni trúarinnrætingu sé ekki fyrir að fara, er vera þeirra á vegum kirkjunnar í skólunum ein og sér nóg til að við höfnum þeim.

Biskupinn, sem reyndar mátti kyngja miklu munnvatni í vandræðalegu viðtali í Kompás í gær, kórónaði svo vitleysuna þegar hann sagði vinaleiðina í skólunum vera eingöngu fyrir börn innan þjóðkirkjunnar. Þar fór hann alveg með það. Nú er mismununin á forsendum trúar innan skólanna orðin opinber. Svei því öllu. Sem betur fer eru fleiri en við farnir að sjá hversu mikil steypa þetta er.


Árni Árnason - 19/02/07 12:51 #

Smá leiðrétting

-- , geti notið góðs -- ( ekki- geti ekki notið góðs)

Fyrirgefið.


Viddi - 19/02/07 22:44 #

Þakka svarið Árni en ég var samt frekar að meina

"Nú hljóta að hafa verið gerðar rannsóknir á líðan barna sem hafa prest í skólanum hjá sér og síðan rannsóknir á þeim sem ekki hafa haft presta, eru einhver rök eða gögn sem styðja þær yfirlýsingar Þjóðkirkjunnar að Vinaleiðin geri gott?"


Árni Árnason - 20/02/07 15:49 #

Af hverju að eyða púðri í að rannsaka þetta ?

Ef þetta gerir vont- út með það. Ef þetta gerir hvorki gott né vont- út með það. Ef þetta gerir gott- út með það og gera gott með öðrum formerkjum.

Ef þetta gerir sumum gott og öðrum vont - út með það. Ef þetta gerir mörgum gott og fáum vont- út með það. Ef þetta gerir fáum gott og mörgum vont- út með það. Ef þetta gerir kirkjunni gott- út með það. Þó að það geri kirkjunni vont- út með það. Út Út Út. Ef þörf er , þá uppfyllum við hana án kirkjunnar.


Árni Árnason - 20/02/07 16:02 #

Ef við ætlum eitthvað að fara að vega og meta, eða ljá máls á einhvejum umræðum um hvort hugsanlega sé hægt að finna einhverja jákvæða punkta við Vinaleiðina, erum við um leið að leggja til hliðar algert prinsippmál sem á bara hreint ekki að vera til umræðu.

Trúarsöfnuðir eiga ekki að hafa aðstöðu eða viðveru í barnaskólum. Þeir eiga ekki einu sinni að fá að koma þar inn fyrir dyr. Ekki eina mínútu. PUNKTUR.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.