Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fagmennsku í skólum

Enn má finna fólk sem skilur ekki hvernig nokkur nennir að agnúast út í Vinaleiðina í ljósi þess að henni er aðeins ætlað að hjálpa nemendum og enginn er neyddur til að nýta sér þjónustu prests eða djákna í skólum. Þeir eru þó sífellt fleiri sem skilja að trúarleg starfsemi á ekkert erindi inn í grunnskóla, sér í lagi í ljósi þess að grunnskólalög leggja blátt bann við mismunun nemenda vegna trúarbragða. En kristileg sálgæsla snýst umfram allt um trú, samkvæmt skilgreiningu biskups.

Þegar ég benti skólastjóra Hofsstaðaskóla á þá meinbugi sem eru á starfi prests í skólanum fullvissaði hann mig um að presturinn færi ekki inn í tíma til barnanna. Það taldi ég eðlilegt í ljósi þess að engin leið er að vita um trúfélagaskráningu foreldra barna í hverjum bekk (sú skráning ætti vitaskuld ekki að skipta neinu máli). Nýjar tölur þjóðskrár herma að einn af hverjum fimm sé ekki í þjóðkirkjunni og einn af hverjum tíu ekki í kristnum söfnuði. Það eru 3-5 í hverjum bekk! Í þættinum Ísland í bítið 9. janúar fullyrti Jóna Hrönn Bolladóttir prestur Garðasóknar líka að fulltrúar Vinaleiðar færu ekki inn í bekki.

Því miður er sannleikurinn í málinu allt annar. Til eru lýsingar Þórdísar Ásgeirsdóttur djákna í Mosfellsbæ á því þegar hún fer inn í bekki til að kynna starfsemi sína og líka til að sækja nemendur í viðtöl. Þá rétta gjarnan fleiri upp hönd til merkis um að þeir vilji ræða við hana, jafnvel þótt það sé til þess eins að losna úr tíma! Og í Garðabæ er presturinn ötull við að koma sér í mjúkinn hjá börnunum í frímínútum og á matartíma en hann fer líka í tíma. Hann raðar nemendum í hring og biður þá svo að sýna sér ör á líkama sínum og segir að þessi ör beri þeir alla tíð. Svo fer hann að tala um sálina og að við getum borið ör á henni líka. Spjallinu lýkur svo með því að prestur segir að hann geti fjarlægt þessi ör af sálinni ef börnin komi að máli við hann!

Lýsingu á þessu má lesa á vef Siðmenntar og jafnframt er greint frá óánægju móður með þessa nálgun prestsins, og skal engan undra. Það er ekki lítið sem presturinn virðist lofa börnunum. Í hvaða aðstöðu eru foreldrar komnir ef grunlaus börn þeirra vilja nýta sér þetta kostaboð prestsins? Margir foreldrar telja prestinn alls ekki hæfan til að sinna svona þjónustu. Í kynningu á Vinaleiðinni er tekið fram að viðtöl við nemendur séu stuðningsviðtöl en ekki meðferðarviðtöl. Sannleikurinn virðist annar því enginn veit hvernig presturinn ætlar að gæta þess að fara ekki út í meðferð og það má vera öflugur stuðningur sem fjarlægir ör af sálinni. Þarna er presturinn kominn út í allt aðra sálma en hann er fróður um og ættu skólasálfræðingar, námsráðgjafar og aðrir fagmenn í skólum að spyrna hér við fótum.

Einhverjir foreldrar eru líka annarrar trúar en presturinn eða engrar og geta ekki hugsað sér að boðberi boðandi kirkju krukki í börnum þeirra. Af hverju ekki? Vegna þess að yfirlýst markmið og stefna kirkjunnar með Vinaleiðinni er að gera alla að lærisveinum Krists, enda eru prestar og djáknar í skólum “erindrekar Krists” og eiga að “miðla” kristinni trú með störfum sínum. Allt þetta má lesa í ályktun Kirkjuþings, æðsta valds þjóðkirkjunnar, frá því í haust. Sumir eiga bágt með að trúa að starfsemi Vinaleiðarinnar sé trúboð, þrátt fyrir ofangreindar upplýsingar, enda hafa biskup Íslands og fulltrúi biskupsstofu þrætt fyrir það í blöðum. Í kjölfar gagnrýni á Vinaleiðina voru samdar siðareglur þessa fyrirbæris og eitt ákvæðið í þeim hljóðaði svo: “Vinaleiðin er ekki trúarleg boðun.” Ég benti á að það væri kirkjunnar mönnum til háðungar að neita því að boðun væri hluti af starfi og köllun presta og djákna. Ágætir kirkjunnar menn hafa enda tekið undir þá gagnrýni mína. Nú bregður svo við að ofangreint ákvæði er horfið úr siðareglunum á vef kirkjunnar. Það hvarf í skjóli nætur enda neyðarlegt fyrir kirkjuna að viðurkenna trúboð í skólum. En þessi breyting er auðvitað slík viðurkenning.

Það vill svo grátlega til að kærleiksþjónustan átti að auka trúverðugleika kirkjunnar en trúverðugleiki fæst ekki með lögbrotum, undanbrögðum, blekkingum og ósannindum þeim sem einkennt hafa framgöngu kirkjunnar manna í Vinaleiðarmálinu.

Nú ætti öllum að vera ljóst að Vinaleiðin er vel meint en illa ígrundað klúður og kristilegt fúsk. Börnin okkar og íslenskt menntakerfi á betra skilið.

[Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. febrúar]

Reynir Harðarson 05.02.2007
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Davíð - 05/02/07 21:27 #

Er ekki eðlilegt að samstarf sé milli ríkiskirkju og ríkisskóla?


Þorsteinn Ásgrímsson - 05/02/07 21:39 #

svona álíka eðlilegt og ef við vildum að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun sæi um alla fræðslu á orkumálum og umhverfisstefnu. Ríkisfyrirtæki og ríkisskóli !


jogus (meðlimur í Vantrú) - 06/02/07 00:03 #

Fyrir utan það að yfirstjórn og fjölmiðlafulltrúar Þjóðkirkjunnar ehf. sverja það af sér við hvert tækifæri að þeir séu ríkiskirkja.

Og einnig fyrir utan það smáatriði að þótt ríkið styðji sérstaklega við eitt trúfélag gerir það okkur ekki að trúríki með Eina Rétta Trú (c). Við þykjumst vera komin nokkrum skrefum lengra en Talibanar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/02/07 10:55 #

Halldór Reynisson á biskupsstofu "svarar". Takið eftir því sem hann segir ekki og svarar ekki. Í raun er það mun athyglisverðara en píslarvættisuppstillingin gamalkunna.


Árni Árnason - 08/02/07 12:51 #

Það kemur mér alltaf jafnspánskt fyrir sjónir þegar kirkju/vinaleiðarliðið er að hamra á þessari svokölluðu "fagmennsku".

Mér hefur fundist það á skænisþunnum ís að kalla guðfræði fag. Trú getur að mínu viti aldrei orðið fag og gildir þá einu hversu djúpt og lengi er kafað og hversu virtir þeir háskólar teljast sem ástunda kennslu þessa "fags".

Upphafning bábilja með orðunum "fræði","fag" eða "vísindi" hefur sama status í mínum huga hvort um ræðir guð þjóðkirkjumanna eða álfa og huldufólk. Ég held til dæmis að það taki enginn "fag"-mann í álfa"fræðum" eða huldufólks"vísindum" alvarlega.

Þó að innan guð"fræði-" og djákna"vísinda-" kennslu sé eflaust að finna eitthvað það sem að sönnu má kenna við faglegan lærdóm ( kannski kúrs í sálfræði ) er íblöndun og óaðskiljanleiki trúarbábiljunnar samt nóg til þess að öll fagmennska er að ónýti gerð.


Bjarni - 21/03/07 12:27 #

Er þetta ekki bara þörf sálfræðinga og Geðlækna (hausakuklara) til að halda því fram að eina leiðin fyrir fólk sem á í sálrænum vanda sé að fara til löglegu dópsalanna og fá reseft upp 6 tegundir að dópi til þess að taka 7 sinnum á dag. Ég þekki fullt af fólki sem hefur losnað undan trúarbrögðum hausakuklara í AA samtökunum þar sem skilningur og reynsla keyrir fagmennskuna í kaf.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 21/03/07 12:49 #

"Hausakulkararnir" eru þó skömminni skárri en trúartryllingarnir. Það má með sanni segja að Guðmundur í Byrginu hafi losað marga undan "hausakuklurunum".

Lestu þetta: http://www.vantru.is/2007/03/18/08.00/#athugasemd-20070318133604

Vissulega er vísindaliðið ekki fullkomið (ólíkt því sem trúartryllingarnir halda fram um sjálfa sig og trú sína, guð er nefilega ÓSKEIKULL.)

Ég held að flest ærlegt fólk hafi megnustu skömm á læknum sem útbýtta dópi til dópista. -Það gerir ekki trúartryllingana neitt skárri.

Þú verður að athuga að með Vinaleið er kirkjan að reyna að troða sér inn í hefðbundið skólastarf. Þeit ætlast til þess að sveitarfélögin greiði laun þeirra. En það er hægt að ráða 2 stöðugildi í staðinn fyrir þetta prestarugl sem boðið er upp á með Vinaleiðinni.

Kirkjan er í kreppu, þessvegna varð Vinaleiðin til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.