Formælendur kristinnar trúar segja stundum að rétt sé að hlúa að kristni vegna þess að hún hafi uppbyggilegri boðskap en önnur trúarbrögð, t.d. íslam eða ásatrú. Fyrir utan að það er beinlínis ekki rétt að kristni hafi í sjálfu sér betri boðskap en önnur trúarbrögð, nær það þá einhverri átt að kristni verðskuldi meiri aðhlynningu en önnur trúarbrögð, jafnvel þótt siðferðisboðskapurinn væri betri? Ég segi nei.
Öll trúarbrögð sem boða líf eftir dauðann, almáttugar himnaverur eða önnur hindurvitni verðskulda það sama: Gagnrýni. Viðnám gagnrýnendanna fer að sjálfsögðu eftir stað og stund. Bókstafstrúarhindúismi þvælist til að mynda ekki fyrir neinum á Íslandi, og því ekki ástæða til að leggja mikla áherslu á hann, en um kristni gegnir öðru máli. Þegar kristni er gagnrýnd sem hindurvitni, þá er ekki verið að segja að önnur trúarbrögð séu betri. Það er verið að segja að hindurvitni séu röng. Spurning: Ef hindurvitni A hafa betri siðferðisboðskap en hindurvitni B, hvorum á þá að fylgja að málum? Svar: Hvorugum! Enginn ætti að láta stilla sér upp við vegg og vera boðin fölsk valþröng þegar þriðji kosturinn er í stöðunni, að hafna öllum hindurvitnum á einu bretti. Spurningin á ekki að vera hvort maður eigi að fylgja órökréttum hugmyndum með allt í lagi boðskap eða órökréttum hugmyndum með heldur verri boðskap, heldur hvort maður eigi að fylgja rökréttum hugmyndum eða órökréttum.
Þótt sumir vilji halda öðru fram, þá eru manneskjur vitsmunaverur og vel færar um að mynda sér rökréttar hugmyndir. Reyndar eru flestar hugmyndir flestra býsna rökréttar, þótt samfélagið viðurkenni órökréttar hugmyndir um uppskáldaðar "hinstu spurningar" eða ótta við það sem við þekkjum ekki, t.d. dauðann.
Þegar fólk lærir að synda, þá byrjar það vanalega með kút og/eða kork sér til hjálpar. Fljótlega nær það þeirri færni að það getur synt hjálparlaust. Eins er um hugmyndir fólks um heiminn: Þegar börn byrja að mynda sér þær, þá láta þau sér nægja svör foreldra og annarra, án þess að hugsa gagnrýnið um þau. Þegar fram í sækir á fólk hins vegar ekki að þurfa ógagnrýnar hugmyndir um tilveruna til þess að ráða við hana. Fullorðið fólk þarf ekki kút þegar það fer í sund, og það þarf ekki yfirnáttúrlegar skýringar til að komast í gegn um lífið.
Kút og korK - veit ekki af hverju kortanotkun læddist þarna inn hjá mér :o)
"Fullorðið fólk þarf ekki kút þegar það fer í sund, og það þarf ekki yfirnáttúrlegar skýringar til að komast í gegn um lífið."
Góð grein Vésteinn, en óheppileg samlíking í enda hennar. Margir fullorðnir þurfa einmitt að fara nota kúta í sundi þegar krafturinn þverr. Og sumir komast jafnvel alls ekki í sund hjálparlaust.
Þegar grámyglulegur kvundagurinn er orðinn eins og fangaklefi fyrir marga, er á sama hátt auðvelt og jafnvel nauðsynlegt fyrir fólk að grípa til trúarinnar. Það er á einhvern hátt nauðsynlegt fyrir fólk að hafa eitthvað sem bíður þess, eitthvað til að hlakka til. Þessi tilfinning er ekki yfirnáttúrulegs eðlis heldur líffræðileg staðreynd. Fyrir ungt fólk er þetta oftast ekkert mál. Hver dagur er uppfullur af nýrri reynslu og tilhlökkunarefni í sjálfu sér. Hefur það ekki alltaf verið trúin á að eitthvað sé handan við fjallið við sjóndeildarhringinn sem drífur okkur áfram. Hvað er það sem leitar á okkur? Ekki er að fullvissan um að dauðinn sé endir alls? Hver væri drifkrafturinn í því?
Frelsið felst í því að sætta sig við sannleikann eins og hann er, en ekki trúa því sem maður vill að sé satt, og sökkva þannig í óskhyggjusvað og staðleysu-óra.
”Frelsið felst í því að sætta sig við sannleikann eins og hann er, en ekki trúa því sem maður vill að sé satt, og sökkva þannig í óskhyggjusvað og staðleysu-óra.”
Hljómar eins og skrumskæld útgáfa af ræðu eftir Hitler sem sagði “Vinnan mun gera ykkur frjálsa”.
Heiti greinarinnar “Gagnleg ósannindi” er glettilega góður titill. Það er nefnilega oft óumdeilanlega gagnlegt að hafa hæfileika til að trúa í stað þess að heimta ævinlega sannanir fyrir öllu. Þeir sem heimta endalaust sannanir verða fljótlega kverúlantar. Hugrekki er að gera eitthvað þrátt fyrir hræðslu en ekki að vera óhræddur. Á sama hátt er trú eða grunur oft hinn gagnlegi drifkraftur sem ýtir okkur af stað. Sannanirnar koma síðar og eru þá oftar en ekki ólíkar öllu því sem áður var talið.
Heimurinn var vissulega reistur á grundvelli siðareglna sem oftar en ekki voru skapaðar af trú. En viðlíking upphafsins við kútanotkun í sundkennslu er mjög góð. Í dag höfum við meiri tækni og betri skilning á tilverunni en áður og ættum við að vera óhrædd að takast á við lífið eins og það í raun er. Samt sem áður eru sumir sem leitast við þægindi trúarinnar, ennþá. Ótti við dauða, hjálparleysi, vonleysi eða sjálfselska hreint og beint (vilja ekki deyja) leiðir til þess.
(Þegar ég les yfir þetta comment sé ég að það er nákvæmlega eins og öll hin) Góður pistill.
Ef líf fólks er grámyglulegt, þá væri nær að gera eitthvað í því þannig að það hætti að vera grámyglulegt, frekar en að leita á náðir ósanninda og telja sér trú um að það taki betra við þegar maður er dauður. Hver segir að lífið sé grámyglulegt "af því bara"? Hver segir að fólk geti ekki haft áhrif á aðstæður sínar? Ég lít nefnilega svo á að vonin um að eitthvað betra taki við sé einmitt ekki það sem drífur okkur áfram, heldur það sem fær okkur til að sætta okkur við slæmt hlutskipti, þótt það sé í sjálfu sér á okkar færi að breyta því.
Ég þekki vel til þess að sumt fólk á alvarlega bágt og er ekki fært um að taka rétt á lífinu af eigin rammleik. Því fólki er hægt að veita mikla aðstoð án þess að yfirnáttúra komi til sögunnar. Ég nefni, sem dæmi, fólk sem er fórnarlamb fordóma og líður af þeim sökum. Ef fordómarnir væru minni, þá liði því kannski betur.
Loks kannast ég vel við að það sé gagnlegur hæfileiki að geta komist fljótt að niðurstöðu án þess að hafa lúslesið allt um málið. Trú og fordómar eru neikvæðar hliðar á hæfileika sem alla jafna er mjög gagnlegur. Þannig að ekki vil ég segja að allir verði alltaf að heimta fullkomnar sannanir fyrir öllu sem fyrir ber -- það er einfaldlega ógjörningur. En eins og þú segir sjálfur, danskur: "Sannanirnar koma síðar" -- það er í hæsta máta eðlilegt að mynda sér skoðun hratt, en maður þarf líka að vera reiðubúinn að endurskoða hana ef rökin benda til þess að hún sé röng.
Sannarnirnar koma síðar og enn síðar reynast þær haldlitlar eða jafnvel ósannar. Auðvitað eiga menn að geta skipt um skoðun. Í daglegu máli heitir það að læra. Þeir sem trúa á bókstafi geta ekki spurt þeirra spurninga sem brenna á þeim. Fullvissan reynist því oft stóri hemillinn á framfarirnar en ekki bjargvætturinn sem útilokar vitlausu spurningarnar. Í raun er það grundvöllur lærdómsins, að vera vitlaus. Sá sem er ekki vitlaus þarf ekki að læra neitt. Hjá honum eru allar spurningar sem ekki falla að fullvissu hans, tóm vitleysa. Hann er fastur í eigin neti, staðnaður. Þannig eru örlög akademíunnar. Hún festist í sínum eigin sannleika. Þannig hefur það ævinlega verið.
"Loks kannast ég vel við að það sé gagnlegur hæfileiki að geta komist fljótt að niðurstöðu án þess að hafa lúslesið allt um málið."
Nákvæmlega, en menn verða að átta sig á því að gagnrýni sem maður er fær um, er ævinlega sjálfsgagnrýni. Það er í raun furðulegt hve margir telja að skoðanir sínar séu kórréttar. Að gagnrýni eigi að beinast að hinum. Fólk telur það ekki eftir sér að segja skoðun sína á mönnum eða málum og trúir því að lýsingar þeirra eigi við umræðuefnið. En þegar við skoðum hvað sagt hefur verið og gert hefur verið þá er fólk í raun alltaf að lýsa sjálfu sér, dæma sjálft sig. Afstaðan sem maður hefur gagnvart umræðuefninu staðsetur mann sjálfan og lýsir manni sjálfum fyrst og fremst.
En hvað er það sem leitar á okkur? Varla er það fullvissan um að dauðinn sé endir alls?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/01/07 12:17 #
En til er fólk sem er svo illa synt að það þarf kút og kort, svo fótlama að það þarf hækju og staf og svo lausgirt að það þarf belti og axlabönd... og dugar þó ekki alltaf til.