Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tölvuspá Vantrúar

Það þykir til siðs um áramót að draga fram spákellíngar og stjörnuspekivitringa og hampa eins og merkilegu fólki. Almenningur liggur yfir allra handa völvuspám og um leið og þær birtast er farið yfir spá síðasta árs og dregið fram hve ótrúlega hárnákvæm hún var.

Flestir líta reyndar á þetta sem dægradvöl og sjá ekki ástæðu til að koma sér upp þeim annkannalegu hugmyndum að fólk þetta sé á einhvern hátt skyggnt eða á annann hátt dulrænt, enda þarf ekki annað en líta yfir þessar spár til að sjá að þær byggja meira og minna á forspám sem hægt er að gefa sér, með brjóstvitinu einu, að líklegt sé að gangi eftir.

Þær völvur sem best gengur í þessu árlega giggi vinna þar að auki skipulega, höggva eftir ummælum, sögðum á yfirstandandi ári um fyrirætlanir næsta árs, og tefla þeim svo fram þegar allir eru búnir að gleyma að hafa lesið þau í fréttum og viðtölum fjölmiðla. Þegar svo allt gengur eftir birtist það auðvitað í hinu árlega völvuuppgjöri og sumir gapa yfir innsýn þessara bandanaskrýddu eyrnahringjafrúa.

Völvuspár byggja einfaldlega ekki á neinu yfirnáttúrlegu. Það er engin dulræn völvugeta á bak við þetta heldur einföld tölfræði og þeir útreikningar heilastarfseminnar sem kalla má ályktunarhæfni út frá gefnum forsendum.

Tökum dæmi:

Grjótkvendið Sigríður Klingenberg var í Kastljósinu á dögunum og sagði fátt gáfulegt. Þegar hún var t.d. spurð út í úrslit kosninganna á vori komanda þorði hún ekki að gefa neitt upp en talaði um að það yrði mikill hasar. Þarf yfirnáttúrlega hæfileika til að geta sér til um slíkt? Nei, við vitum öll að þetta verður hörkubarátta. En af hverju ætlum við þá að gefa svona blaðurskjóðu eitthvert kredit fyrir að lýsa einhverju því yfir sem við getum öll sagt okkur sjálf?

Vantrú ætlar að spá fyrir um komandi ár og byggja þær spár á líkindum og fyrirliggjandi upplýsingum. Þetta er því ekki völvuspá heldur tölvuspá - heilatölvan í okkur gerir ráð fyrir að sennilega muni flest ef ekki allt eftirfarandi ganga eftir:

  • Áframhaldandi styrjöld í Írak
  • Kosið verður til þings og niðurstöðurnar munu koma einhverjum á óvart
  • Prestar halda áfram að vera jafnmálefnalegir
  • Steingrímur J. og Ögmundur munu tala mikið á Alþingi
  • Hugsanlega verður eldgos á landinu eða allavega einhvers staðar í heiminum.
  • Jónína Ben mun komast í fjölmiðla og segja eitthvað heimskulegt
  • Biskupinn mun tala um græðgi í samfélaginu án þess að tengja það á nokkurn hátt við ofurlaun sín né við heimtufrekju þjóðkirkjunnar
  • Davíð Oddsson verður fúll yfir einhverju
  • Mikið verður um lélegt sjónvarpsefni og þá sérstaklega raunveruleikasjónvarpsþætti
  • Moggabloggarar verða hissa á að þeir séu ekki ráðnir til alvöru fjölmiðla.
  • Ritstjórarnir á Trú.is munu ekki hleypa í gegn óþægilegum kommentum
  • Útrásin heldur áfram
  • Íslendingur vinnur íþróttaafrek
  • Einhver hneykslismál munu skekja þjóðfélagið, sumt af því tengt trúarstarfsemi, annað stjórnmálum
  • Mikil átök í kringum stjórnarmyndun í vor
  • Hræringar á fjölmiðlamarkaði
  • Mikil kirkjusókn um næstu jól og páska
  • Vindasamur vetur með kulda og rigningartíð
  • Milt sumar en víða vætusamt
  • Vinaleiðin frelsar mörg börn í Garðabæ
  • Vinaleið verður kærð
  • Hatur milli Ísraels- og Palestínumanna mun halda áfram
  • Slæmt ástand mun ríkja í Afganistan
  • Uppbygging í Kína verður gífurleg
  • Mikið mun ganga á hjá íslensku bönkunum
  • Miklar uppgötvanir hjá Íslenskri erfðagreiningu
  • Tveir eða þrír stórbrunar á árinu, a.m.k. einn þeirra verður heilu byggðarlagi nokkurt áfall
  • Kuklari verður með sjónvarpsþátt þar sem hann fær til sín fræga gesti
  • Olíuverð hækkar
  • Efnahagsstjórn landsins verður fyrir gagnrýni
  • Fjölmiðlafólk mun gagnrýnislaust birta fáránlegustu staðhæfingar skottulækna, miðla, presta og annarra kuklara

Svo er bara að bera saman spá okkar og allra völvanna þegar árið er liðið og sjá hverjum tölfræðin verður í hag.

Gleðilegt ár!

Ritstjórn 01.01.2007
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Guðmundur Sigurðsson - 01/01/07 20:12 #

Skyggnigáfa mín spáir ykkur 98% -99% árangri,sem hlýtur að vekja þjóðarathygli um næstu áramót.Og þessi spá er gerð án aðstoðar tarrotspila, kaffikorgs, og á lófalesturs!!!ótrúlegt


Þorsteinn Ásgrímsson - 02/01/07 05:25 #

Tek undir orð Guðmundar, spá ykkar mun örugglega ganga upp 95 - 100%. Eina sem ég vil reyndar trúa og spái að muni ekki ganga upp og frelsa marga er vinaleiðin í Garðabæ. Ég tel að miklar (meiri) umræður muni fara fram um hana og að hún muni á endanum (á þessu ári) leggjast af. Þess fyrir utan frekar góð "spá" :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/01/07 18:52 #

Það eru reyndar þarna atriði sem maður vonar að gangi ekki eftir, t.d. þetta síðasta.


Guðmundur Sigurðsson - 02/01/07 21:04 #

Það eru reyndar þarna atriði sem maður vonar að gangi ekki eftir, t.d. þetta síðasta.

Birgir!--Það kæmi mér reyndar verulega á óvart ef fjölmiðlaliðið fengi áhuga á að fjalla um niðurstöður "spádóma"fengna með common sens,frekar en með hjálp kristalkúlna eða garnaskoðun.alla vega ennþá.;-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/01/07 21:41 #

Þetta snýst reyndar ekki um hvaða aðferðum menn vilja beita til að leiða fram niðurstöðurnar, heldur að fjölmiðlar taki kuklarana gagnrýnni tökum í stað þess að leyfa þeim að ljúga og bulla þindarlaust.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.