Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað er umburðarlyndi?

Þjóðkirkjan er á vafasamri vegferð. Til vitnis um það er þátttaka hennar í samráðshópi trúfélaga og yfirlýst stefna hennar um umburðarlyndi í garð annarra trúarskoðana og trúarbragða. Umburðarlyndi þetta felst í því að ekki skuli viðteknar skoðanir annarra trúarhópa gagnrýndar, heldur skal með samræðu reyna að finna sameiginlega fleti og efla skilning. Ég tel slík viðhorf hvorki viturleg né gagnleg.

Menningarleg framför felst í því að láta af skaðlegum hugmyndum/gjörðum og taka upp aðrar skárri. Og til að meta það hvað sé skaðlegt er afar hentugt að notast við rök og sannanir. Tökum dæmi:

Kristnin hefur um allan aldur úthrópað samkynhneigð og kynhegðun homma og lesbía, enda rækilegur fótur í trúarritinu til slíkrar fordæmingar. En trúarritið byggir þessa andúð ekki á rökum, heldur er þessum skoðunum haldið þar á lofti algerlega rakalaust. Sá sem mótar skoðun sína á samkynhneigð í takt við Biblíuna gerir það því á forsendum kennivalds, en byggir ekki á rökum.

Það má færa fyrir því ýmis gild rök að fordæming samkynhneigðar sé skaðleg. Fyrir það fyrsta þá velur fólk sér ekki kynhneigð sína, heldur finnur aðeins fyrir henni. Líkindi eru fyrir því að samkynhneigð sé afrakstur heilastarfs sem mótast af framleiðslu kynhormóna þegar heilinn er að þroskast í móðurkviði. Einstaklingur sem vex samkynhneigður upp í samfélagi sem fordæmir slíkar langanir er dæmdur til sálarkreppu sökum einhvers sem hann hefur ekkert vald yfir.

Og þegar við bætist að samkynhneigð er ekki á nokkurn hátt skaðleg, hvorki einstaklingum né samfélaginu verður ekki séð að nokkur ástæða sé til að fordæma þessar meðfæddu tilfinningar fólks. Og á þeim forsendum er hægt að afgreiða þessar hvatir sem fínt mál, jafnvel eitthvað sem eykur á fjölbreytileika mannflórunnar og kryddar tilveru okkar allra.

Slíkt viðhorf er því byggt á rökum en ekki kennivaldi. Og þessi rök má setja fram þegar kennivaldsviðhorfin eru gagnrýnd. Og á móti má svo tefla fram gagnrökum, ef einhver eru, ef takast á að hrekja málflutninginn. Vísun í rakalaust kennivald dugar þar hvergi.

Fyrir aðdáendur kristninnar er vandinn aðeins sá að það eru engin mótrök. Það eina sem hinir kristnu geta sagt er „guð vill hafa þetta svona“, eða „það stendur í Biblíunni“. Ötulustu fordómapúkarnir ganga þó reyndar svo langt að líta á samkynhneigð sem sjúkdóm og fullyrða að meiri hætta sé á slæmum afleiðingum kynmaka fólks af sama kyni en hefðbundnu kynlífi. En þetta eru reyndar hinir sömu og vilja ekki að fólk noti verjur við kynlíf sitt!

Þjóðkirkjan vill viðhafa umburðarlyndi í garð slíkra skoðana og eiga gagnrýnislaust samráð við þá sem slíkum bjánahugmyndum halda á lofti. Með því gefa kirkjunnar menn það í skyn að þeir samþykki þessar hugmyndir, eða finnist þær í það minnsta ekki gagnrýnisverðar. Hvaða gagn er í svoleiðis afstöðu?

Leiðir slík afstaða okkur fram á veg í siðferðislegu tilliti? Nei, það gerir hún svo sannarlega ekki, heldur kemur því inn hjá fordómapúkunum að ekkert sé athugavert við málflutning þeirra. Umburðarlyndi getur ómögulega falist í því að veigra sér við að gagnrýna það sem maður telur rangt og skaðlegt, heldur hlýtur það þvert á móti að felast í því að umbera það að skoðanir manns séu gagnrýndar, svo rökræða megi þær og hverfa frá vondum skoðunum til annarra betri, mannkind allri til framdráttar.

En hvernig stendur Þjóðkirkjan sig í slíku umburðarlyndi? Er hún tilbúin til að hlusta á gagnrýni, t.d. trúleysingja, á málflutning sinn og svara henni með tiltækum mótrökum? Þegar málið er skoðað kemur í ljós að svo er raunin í fæstum tilfellum. Starfsfólk kirkjunnar viðhefur það gjarna að bregðast ókvæða við gagnrýni á hugmyndakerfið og saka gagnrýnandann um dónaskap, tillitsleysi, ofstæki og jafnvel einelti. Umburðarlyndið fyrir skoðanaskiptum er vægast sagt lítið á þeim bænum.

En allt á þetta sér auðvitað skýringu. Þegar menn hafa ekki rök fyrir máli sínu, heldur ríghalda aðeins í fullyrðingar kennivalds síns er ekki þægilegt að verða fyrir gagnrýni. Það verður svo erfitt að svara af einhverju viti að miklu betra er að láta sér bara sárna og kalla gagnrýnandann illa uppdreginn fant og dóna. Og tala svo um umburðarlyndi á þeim nótunum að það eigi að felast í því að gagnrýna ekki skoðanir annarra.

Ef viðhorf kristinnar kirkju til samkynhneigðar hefði aldrei verið gagnrýnt væru þau mál sennilega enn í sama farvegi og þau voru um aldir. En þjónar kirkjunnar hafa þurft að drattast á eftir breyttu og þroskaðra almenningsáliti í þessum efnum sem og mörgum öðrum. Það sýnir okkur best hve rökstudd gagnrýni á vondar hugmyndir er góð leið til að þoka siðferðinu áfram. En til að það sé hægt þarf að viðhafa umburðarlyndi fyrir því að bent sé á rangindi þeirra skoðana sem menn ganga með í kollinum.

Umburðarlyndi felst ekki í því að gera þá kröfu að hugmyndir manna séu á einhvern hátt heilagar og að ekki megi hrófla við þeim. Slíkt er þvert á móti til vitnis um fullkomið umburðarleysi. Að auki er, í tilfelli Þjóðkirkjunnar, falinn í þessu helber tvískinnungur, því sama fólk og vill ekki að eigin heimsmynd sé gagnrýnd vílar ekki fyrir sér að úthúða lífsskoðunum þeirra sem kosið hafa sér natúralíska sýn á veröldina, með upphrópunum um siðleysi, ógn við samfélagið og jafnvel heimsku.

Er það ekki fullkomin hræsni? Af hverju mega þeir en ekki við?

Áhangendum kristni og kirkju er auðvitað vorkunn, því ekki aðeins er þetta fólk á valdi hugmynda sem fengnar eru með því að lúta kennivaldi, heldur leitast þetta fólk sjálft við að vera kennivald. Megininntak í boðun trúarinnar felst nefnilega í þessu merkilega atriði að kenningunum á að trúa og því er litið á efann sem löst hinn mesta. Sú stofnun sem segir það dyggð að efast ekki og hlýða boðskapnum blindandi hefur einfaldlega ekki forsendur til að sýna gagnrýninni hugsun nokkurt umburðarlyndi. Hinum efagjarna ber þess þá heldur siðferðileg skylda að gagnrýna slíka dragbít á framþróun menningar og siðferðis, í nafni framfara og fegurra mannlífs.

Verum umburðarlynd - verum tilbúin til að ræða skoðanir okkar og vega þær og meta á mælikvarða þeirrar röksemdarfærslu sem fyrir hendi er.

Birgir Baldursson 13.12.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Guðjón - 13/12/06 11:52 #

Eitt brýnasta verkefni samtímaans er að stuðla að umburðalyndi. Það erfiða verkefni sem býður okkar er að læra að lifa í sátt og samlyndi með fólki sem hefur skoðanir sem eru í grundvallar atriðum ósættanlegar okkar eigin skoðunum. Við þurfum að virða rétt fólks til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun algjörlega á eigin forsendum. Það eru ekki skoðanirnar sem við virðum heldur rétturinn til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun óháð öllu og öllum. Það er óraunsætt að ætlast til að venjulegt fólk geti borið virðinu fyrir öllum, en yfirleitt ættum við að geta umborið flest .


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/12/06 12:49 #

Þessi afstaða kirkjunnar er merkileg í ljósi þess sem Biblían, hið heilaga orð, bók bókanna, ritningin, segir um samskipti við réttdræpa heiðingja. Ég fagna því að kirkjan fjarlægist æ meir það ógeðfellda í boðskap Biblíunnar en auðvitað er það tvískinnungur hinn mesti. Mönnunum er vorkunn að hafa þessa ritningu á bakinu, hafa vondan málstað að verja.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/06 13:10 #

Já Guðjón, hér er ekki verið að boða andúð á fólki sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur. En nái fólk að móta sér skaðlegar skoðanir og hangir í þeim er lausnin ekki sú að leyfa slíku að vaða uppi, heldur gagnrýna og sýna fram á rangindi þessara skoðana. Biskup gagnrýnir trúleysi einmitt þess vegna og er það vel.

En hann verður þá líka að vera tilbúinn að ræða þær skoðanir og heimsmynd sem hann sjálfur boðar og taka afstöðu til þeirrar röksemdafærslu sem varpar ljósi á skaðsemi þess sem hann heldur á lofti. Að öðrum kosti munu hópar á borð við samkynhneigða áfram verða fyrir barðinu á fólki með annarlegar skoðanir.


Khomeni - 13/12/06 15:56 #

Furðulegt að efna til einhverrar svona umburðarlyndissamkomu.. Sérstaklega í ljósi orða Biskups um trúleysi. Honum finnst trúleysi hugsanlega vera verra en t.d fundamental mórmónismi?

Ég persónulega held að svona umburðarlyndissamkoma sé dómsdagsviðbragð. Það vantar sálir til að hirða. Þetta er bara viðbraðg við áhugaleysi íslendinga á kristindómnum. Fyrst að enginn nennir að hlusta á messurnar þá verður að gera eittvað!. Ráðstefna um samræður trúarbragða er ágætis leið til að deila um keisarans skegg.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/06 16:08 #

Prestar og guðfræðngar hafa haldið því fram fullum fetum að samræður milli trúarbragða snúist ekki um að gagnrýna kennisetningar heldur finna sameiginalegan flöt. Auðvitað er það svo sem allt gott og blessað, en gagnrýnin umræða um trúarskoðanir, sem og aðrar skoðanir, á auðvitað að vera í gangi líka.

Ég vil sjá biskupinn gagnrýna meiningar kaþólskra á sama hátt og hann gagnrýnir siðleysi trúlausra. Og gaman væri að sjá hann einhvern tíma færa rök fyrir máli sínu í stað þess að varpa eintómum órökstuddum sleggjudómum inn í umræðuna.


Árni Árnason - 13/12/06 17:21 #

Þessi bylgja sátta og samlyndis milli trúarbragða er í raun nauðvörn trúarbragðanna.

Gamla aðferðin - Trúðu á minn guð annars drep ég þig - er gengin sér til húðar, og heimsbyggðin öll að átta sig á því að öll eru þessi trúarbrögð sama bábiljan, sami grautur í sömu skál, með eilítið mismunandi kryddi. Þegar fólk kemst til vits, menntunar og þroska og er orðið hundleitt á langvinnu trúarhatri, fer það ekki að skifta um trú, heldur gengur af trúnni alfarið. Það er sem sagt stríðið á milli trúarbragðanna, brigslyrðin, og formælingarnar sem helst vekja fólk til umhugsunar um hvað þetta er allt saman fáránlegt. Friður er vænlegri til þess að halda status quo og þá skiptir minna máli þó að upphaflegar kenningar, trúarrit, og regluverk sé útþynnt og innantómt, og fólk hangi inni á félagaskránni af hreinu nennuleysi. Það eru því sameiginlegir hagsmunir trúarbragðanna að bátnum sé ekki ruggað.

Úr því afstöðuna til samkynhneigðra ber á góma, þá er þar sama sagan á ferðinni. Hatursfull og óvægin framkoma kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum á veldur flótta, ekki bara samkynhneigðra, heldur líka hinna, frá kirkjunni, og því þarf að læðupokast frá málinu, helst án þess nokkur taki eftir því.

Þessi geðlurða kirkjunnar, að hafa enga kenningu, enga skoðun, og vera á fullri ferð afturábak í ljósi Krists sýnir okkur út á hvað þetta gengur allt saman. Halda í kúnnana, því að það eru þeir sem skaffa aurinn.


Svanur Sigurbjörnsson - 16/12/06 02:07 #

Já talandi um efann Birgir. Þegar það æpir á mann að efinn hljóti að vera versti óvinur trúmannsins, leyfa fulltrúar kirkjunnar að hreykja sér á því að trúin byggi á efa. Nýjar túlkanir presta á ritningunni líta ljós hvert ár og er hver annarri vitlausari. Nú er t.d. vinsælt að segja að kaflar í Gamla Testamentinu séu ljóð og því þurfi ekki að taka þá bókstaflega.
Þú hittir naglann á höfuðið sem endra nær Birgir. Takk fyrir greinina.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.