Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Á að kenna kristnifræði í skólum?

Sú skoðun að sjálfsagt sé að tengja kristna trú og siðfræði er bæði mjög almenn og útbreidd. Margir virðast telja að trúarbrögð og siðferði séu óaðskiljanleg og það sé aðeins hægt að tala um siðfræði og gott siðferði út frá trúnni. Þar liggur t.d. skýringin á því af hverju prestar eru svo oft kallaðir til þegar fjalla á um siðferðileg efni t.d. í fjölmiðlum. Þeir túlki jú trúna og þar með einnig siðferðið og siðfræðina. Enda sjá prestar og aðrir fulltrúar kirkjunnar um að halda þessari skoðun mjög á lofti. Svo mjög eru þessi tengsl viðurkennd að þess er getið í lögum um grunnskóla að: “Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.” Jafnframt skal skólinn efla með nemendum víðsýni.

Kristin siðfræði er margskonar

Á einfaldan hátt er hægt að segja að kristin siðfræði sé mismunandi eftir því hvaða lífi þeir ólíku hópar sem eru kristinnar trúar þykir sæmandi að lifa. Kristin trú er eins og nafnið bendir til einkum tengd Jesú Kristi. Trúin hvílir á tveimur forsendum. Sú fyrsta er tilvera Guðs. Og ekki bara einhvers guðs úr hópi þeirra þúsunda sem skráðir eru heldur þess Guðs sem kirkja Jesú Krists hefur valið. Þessi Guð er hinn forni Guð gyðinga. Í fornum ritum gyðinga var því spáð að Guð myndi senda frelsara til þess að bjarga mannkyninu og fyrstu kristnu mennirnir voru gyðingar sem trúðu því að þetta hefði raunverulega gerst. Siðfræði er mjög mikilvæg í trúarbrögðum gyðinga og því er eðlilegt að hún sé það einnig í kristinni trú. Gamla testamenti Biblíunnar er túlkað sem undirbúningur að komu Jesú og Nýja testamentið sem vitnisburður um líf hans, dauða og sigur yfir dauðanum. Boðskapur kristninnar barst milli fyrstu söfnuðanna með orðinu en síðar voru guðspjöllin rituð og um það leyti bréf Páls postula sem hann ritaði hinum ýmsu söfnuðum. Þessi rit ná nokkurn veginn yfir í hverju kristin trú felst og hver er hinn siðferðilegi boðskapur hennar. Það tók reyndar nokkrar aldir að ná einingu um það hvaða bækur yrðu með í þeirri Biblíu sem við þekkjum í dag.

Þróun kristni

Eftir fall Jerúsalem í hendur Rómaveldis dró mjög úr áhrifum gyðingdóms á hina ungu, kristnu trú og hún varð gegnsýrð af hellenskri menningu sem grundvallaðist á hinum forna gríska heimspekiarfi. Þegar Rómaveldi féll fjórum öldum síðar tengdu kristnir sig við Evrópu og þaðan í nýlenduríkin. Kristni hefur nú breiðst um allan heim og skiptist nú í fimm höfuðflokka sem hver um sig hefur sínar eigin kennisetningar og siðfræði. Þjóðkirkja Íslendinga samkvæmt stjórnarskrá er Hin evengeliska lútherska kirkja sem er einn þessara höfuðflokka. Sú kirkja greinist síðan í ótal ólíkar kirkjudeildir og söfnuði.

Gerðu það rétta á réttum tíma

Kristin siðfræði byggir á því að gera það rétta á réttum tíma og út frá réttum forsendum. Þetta er ekki öðruvísi en í öðrum siðfræðikenningum nema að því leyti að í kristinni siðfræði er hún rakin til kristinnar trúar. Sama gera önnur trúarbrögð. Það er því augljóst að siðfræðikenningar skarast mjög. Það er mjög mikilvægt að gera sér þetta ljóst í sífellt meiri samskiptum milli þjóða og auknum ferðum fólks á milli landa með ólík trúarbrögð og menningu. Gott dæmi um hinn sameiginlega siðferðilega grundvöll er Gullna reglan sem svo hefur verið kölluð. Þegar “The Golden Rule “ er slegið inn á Google koma upp ótal síður sem sýna þess reglu í ótal trúarbrögðum sem mörg eru miklu eldri en kristnin. Kenningin um náungakærleik er því alls ekki kristin að upplagi þótt kristnir menn eigni sér hana eins og margt annað í siðferðilegum boðskap. Margt í boðskap Jesú eru, eins og Gullna reglan, almenn siðalögmál sem gilda á milli manna. Það sem sérstaklega einkenndi boðskap Jesú var hve róttækur hann var. Sem dæmi má nefna að í kristinni trú eru engin takmörk sett á fyrirgefninguna. Ekki vegna þess að þannig sé unnin sigur á þeim sem beitir mann órétti heldur með skýrskotun til fyrirgefnar Guðs á syndum okkar. Jesú sagði það ekki merkilegt að elska þá sem elskuðu á mann á móti það gerðu jafnvel heiðingjarnir heldur spurði hann hvað gerir þú meira. Reyndar gekk Jesú sjálfum alltaf vel að fyrirgefa eins og sést vel þegar hann hefur verið negldur á krossinn og hann býður aðeins þeim ræningja himnavist sem er auðmjúkur gagnvart honum en ekki hinum sem var hrokafullur og móðgaði hann. Sem dæmi um hin hellensku áhrif má nefna að þegar Jesú leit til himins sagði sól og regn vera merki um hina óendalega gæsku Guðs sem gæfi okkur þessa hluti. Þetta sjónarhorn má rekja til Aristótelesar sem áleit að til þess að skilja hlut þyrfti að vita hver væri tilgangur hans.

Gagnrýni á kristna trú

Kristin trú leggur mikla áherslu á laun hins trúaða sem fer til himna eftir dauðann en aðrir fari til Helvítis. Á þeim forsendum hefur kristin siðfræði fengið þá gagnrýni að hún sé ósiðleg. Kristnir menn vinni góðverk sín með það í huga að fá laun sín á himnum eftir dauðann en ekki góðverkanna sjálfra vegna. Einnig hefur kristin siðfræði verið sökuð um að vera ekki umburðarlynd eins og ofsóknir kristinna trúfélaga á hvert annað eru gott dæmi um. Kristin siðfræði hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að bæla einstaklinga í stað þess að hvetja þá til þess að þroska sjálfa sig. Flestar nútímagreininar sálfræðinnar líta svo á að þroskaður einstaklingur hafi sjálfstætt, óeigingjarnt viðhorf til siðferðis en að það komi hvorki frá kristni né öðrum trúarbrögðum. Bent er á að kristin siðfræði leiði frekar til stöðnunar og hindri einstaklinga í að þroskast því þeir bregðist við á fyrirframgefinn hátt óháð aðstæðum. Samkvæmt sjónarhorni kristins manns er Guð löggjafinn og hið rétta líf er að fylgja lögum Guðs. Það sem er “siðferðilega rétt” er “fyrirskipað af Guði” og á hinn bóginn bannar Guð það sem er “siðferðilega rangt”. Samviskan gegnir mjög mikilvægu hlutverki í kristinni siðfræði. Svo mjög að sagt er að þú verðir alltaf að gera það sem samviskan býður þér því samviskan sé óskeikul og rödd Guðs. Þeir sem ekki eru trúaðir sjá einfaldlega engin rök fólgin í því að það sé siðferðilega rétt að gera það sem Guð segir þar sem þeir hafna tilvist guða.

Tengsl trúar og siðfræði eru ekki til góðs

Bent hefur verið á að við komust í röklegt öngstræti ef við höldum því fram að breytni sé rétt vegna þess að Guð fyrirskipaði hana. Var breytnin hugsanlega rétt áður og þessvegna hafi Guð fyrirskipað hana? Guð er óskeikull samkvæmt skilgreiningu og því gæti hann rétt eins hafa fyrirskipað að við ættum að ljúga en ekki að segja satt. Samkvæmt því að Guð sé óendanlega vitur geri hann aðeins það sem okkur mönnunum er fyrir bestu því velur hann auðvitað boðorðið að það eigi ekki að ljúga. Þetta segir bæði trúuðum og trúlausum að sá sem er trúaður hefur engan einkaaðgang að því að vita hvað er siðferðilega rétt. Við erum einfaldlega öll á sama báti í því að tileinka okkur gott siðferði. Þar skiptir hvorki kristin trú né nokkur önnur trúarbrögð máli. Það á ekki að tengja saman trúarbrögð og siðfræði. Að gera rétt vegna þess eins að Guð segir það eru þröngar og afmarkaðar forsendur sem hindra einstakling í að hugsa sjálfur af skynsemi og mannúð og finna út hvað er rétt breytni og afhverju hún er rétt. Þar af leiðir að það á að kenna siðfræði og gagnrýna hugsun í skólum. Siðfræði sem er óháð kristinni trú og sérhverri annarri trú. Það á að kenna siðfræði sem temur nemendum víðsýni, nokkuð sem kristin siðfræði nær ekki að gera.

Jórunn Sörensen 11.12.2006
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 14/12/06 16:14 #

Mjög góð grein Jórunn. Kærar þakkir. Þetta eru akkúrat rökin fyrir því að "trúarlegt siðferði" verður alltaf almennu húmanistísku siðferði lakara. Trúarbrögðin þurfa alltaf að losa sig við hlekki ritninga, bókstafs, afturhaldssamra foringja og hefða áður en þau geta bætt siðferði sitt. Þjóðkirkjan hefur verið þokkalega sveigjanleg og því er hún ekki algert miðaldafyrirbæri hvað siðferði varðar. Hún er þó ekki hreyfing til framfara í þeim efnum heldur þvert á móti, oftast til trafala, líkt og dæmin sýna hvað varðar tregindi hannar að veita réttindi kvenna og síðar samkynhneigðra. Siðferðislegar framfarir hafa því orðið þrátt fyrir kirkjuna en ekki vegna hennar.


Hjalti - 14/12/06 17:55 #

Fróðleg samantekt með nytsömum upplýsingum. Takk!


hjalti hilmarsson - 08/06/07 23:04 #

ég neitaði nú á sínum tíma að læra kristinnfræði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.