Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ályktun Vantrúar vegna endurskoðunar Grunnskólalaga

Vantrú hefur sent eftirfarandi ályktun til nefndar sem starfar á vegum Menntamálaráðuneytis við að vinna að tillögum um breytingar á Grunnskólalögum.


Félagið Vantrú skorar á Menntamálaráðuneytið að breyta aðalnámsskrá grunnskóla þannig, að í stað „kristilegs siðgæðis“ verði sagt „almennt siðgæði“. Það má kalla eðlilegri stefnu, þar sem annars vegar aðhyllist stór hluti landsmanna ekki kristna trú og jafnræðis ætti að vera gætt milli lífsskoðana, og hins vegar vegna þess að tæplega er hægt að ganga út frá því að siðferði sé gott þótt það sé byggt á kristnum grunni.

Hugmyndir fólks um hvaða siðferði teljist kristilegt eða ekki kristilegt hafa breyst mikið í tímans rás. Má nefna kúgun kvenna, þrælahald og mismunun gagnvart samkynhneigðum, gyðingum og fleirum, sem dæmi um rangindi sem hafa verið rökstudd með vísunum í kristna arfleifð og ritningu. Við teljum „kristilegt siðgæði“ vera of umdeilanlegt og þversagnakennt til að gagnast við barnauppeldi, en „almennt siðgæði“ vera því betra -- enda er það svo í reynd að það sem oft er kallað „kristilegt siðgæði“ er í rauninni ekki annað en almennt siðgæði í meðförum fólks sem kallar sig kristið.

Kristinni trú teljum við rangt að hampa sérstaklega í skólakerfinu. Þekkt er að trúarbrögð landsmanna verða æ fjölbreyttari samhliða æ fjölbreyttari uppruna landsmanna, en að auki er talsvert stór hluti innfæddra Íslendinga ekki kristinn. Fyrir utan það að kristin trú ætti ekki að njóta forréttinda, þá teljum við það ótækt að það beri á trúboði innan veggja skólanna. Við vonum að það verði sérstaklega tekið fram, að skólinn eigi ekki að vera vettvangur trúboðs. Grunnskólalög kveða á um að bannað sé að mismuna fólki vegna trúarbragða. Þeim lögum sjáum við ekki að verði fylgt nema öll trúarbrögð séu sett undir sama hatt.

Við endurskoðun á kennslu í kristnifræði og trúarbragðafræðum þykir okkur eðlilegt að höfð sé hliðsjón af dómi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í nóvember 2004, í máli norskra foreldra gegn norska ríkinu, sem meðal annars var fjallað um í Morgunblaðinu 5. nóvember síðastliðinn. Núverandi fyrirkomulag hyglar um of kristinni trú á kostnað annarra trúarbragða og undanþáguúrræði setja foreldra og börn í óviðunandi aðstæður. Fyrra atriðið brýtur í bága við 4. lið 18. greinar laga um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi en hið síðara er mismunun vegna trúarbragða.

Loks mælumst við til þess að í trúarbragðafræðslu verði tekin upp þau nýmæli að börnum verði sagt frá því að sumir aðhyllist hreint engin trúarbrögð. Verulega stór hluti landsmanna er annað hvort yfirlýstir trúleysingjar eða eru það í reynd. Slíku ætti ekki að halda leyndu fyrir börnum. Eðlilegt er að í trúarbragðafræði sé fjallað um lífsskoðanir þessa hóps á sama hátt og fjallað er um lífsskoðanir trúaðra.

Ritstjórn 01.12.2006
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 03/12/06 14:56 #

Flott!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.