Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er boðun trúar trúboð? Opið bréf til Menntamálaráðherra.

Í BLAÐI ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ varst þú spurð hvort þér fyndust trúfélög eiga að hafa aðstöðu innan grunnskóla og aðgang að börnum þar og þú sagðir: "Ég tel ekki óeðlilegt að trúfélög geti innan einhverra marka fengið aðstöðu innan grunnskóla til að iðka þar tómstundastarf með börnum, rétt eins og önnur félagasamtök og íþróttafélög fá að gera utan hins hefðbundna skólastarfs. Skólinn á hins vegar ekki að vera vettvangur trúboðs."

Í greinum hér í Morgunblaðinu hefur ítrekað verið sýnt fram á að í starfsemi Vinaleiðar í grunnskólum felst bæði bein og óbein trúarinnræting eða trúboð og því leiðir hún óhjákvæmilega af sér mismunun vegna trúarbragða. Starf presta og djákna í skólum fer auk þess ekki fram utan hins hefðbundna skólastarfs heldur er því beinlínis ætlað að vera hluti af skólastarfinu og innan þess.

Nú hefur foreldri, lífsskoðunarfélag, trúfélag og stjórnmálahreyfing bent á að Vinaleiðin stangast á við grunnskólalög, aðalnámsskrá, siðareglur kennara og brýtur jafnframt á rétti foreldra og barna samkvæmt alþjóðalögum. Þessir aðilar hafa krafist þess að starfsemi Vinaleiðar verði stöðvuð þegar í stað af þeim sökum.

Í blaði ungliðanna í Garðabæ stóð að þú kæmir fyrir sjónir sem ákveðin stelpa sem þyrði að taka sterka pólitíska afstöðu. Nú reynir á þorið því trúarlegt eðli Vinaleiðar er skýrt, lögin eru skýr, aðalnámsskrá er skýr, krafa áðurnefndra hópa er skýr og nú er afstaða þín skýr. Það eina sem vantar er þessi pólitíska ákvörðun, sem þér ber að taka.

Boðandi

Einkunnarorð þjóðkirkjunnar eru: boðandi, biðjandi, þjónandi. Enginn velkist í vafa um að boðun kirkjunnar felst í boðun trúar. Engum dettur heldur í hug, allra síst þjónum kirkjunnar, að þeir eigi ekki að boða fagnaðarerindið með öllum störfum sínum, beint og óbeint. Djáknum er beinlínis sagt að þeir eigi að "hvetja aðra með orðum og eftirdæmi til að fylgja Kristi og ástunda það eitt að frelsarinn Jesús Kristur megi vegsamaður verða fyrir líf þeirra og starf".

Biðjandi

Halldór Reynisson á Biskupsstofu biður okkur að trúa að Vinaleiðin sé þjónusta en ekki boðun. Lýsingar djáknans í Mosfellsbæ, forsprakka Vinaleiðar, á störfum sínum taka þó af allan vafa að um trúarinnrætingu er að ræða. Kannski áttu eftirfarandi orð Halldórs í fréttaskýringu Morgunblaðsins 5. nóvember að afsaka það: "Við gerum okkur grein fyrir að skólinn þarf að fræða um lífsskoðanir, en gera það á hlutlausan hátt. Við getum auðvitað ekki fortakslaust tryggt að svo sé, en þetta er augljós stefna kirkjunnar í málinu."

En dettur þér í hug að djákni eða prestur í skóla geti eða vilji vera hlutlaus í trúmálum?

Þegar Vinaleiðin bauðst Hofsstaðaskóla fór skólastjórinn eðlilega fram á að kirkjan kostaði hennar í stað aukið starfshlutfall námsráðgjafa, en kirkjan neitaði og krafðist þess að fá vígðan mann inn í skólann. Ástæðan getur einungis verið sú að tilgangur þessa starfs er boðun kristinnar trúar. Enginn mælir gegn aukinni þjónustu eða stuðningi við nemendur en hann á að vera hlutlaus í trúmálum. Þjónusta hlutlausra fagmanna er auk þess mun ódýrari en "þjónusta" presta ef marka má kjarasamninga. Og hvernig er hægt að réttlæta að skólinn greiðir starf fulltrúa trúfélags í Mosfellsbæ? Í Garðabæ hefur kirkjan nú þegar beðið bæjaryfirvöld um tvær milljónir árlega til að greiða störf presta og djákna í skólum.

Þjónandi

"Hvernig nær kirkjan til ungs fólks?" var titill erindis starfshóps, sem flutt var á prestastefnu árið 2003. Hóp þennan skipaði áður nefndur Halldór Reynisson. Einn þremenninganna í þessum hópi var Hans Guðberg Alfreðsson en hann starfar nú sem "skólaprestur" Vinaleiðar í Garðabæ. Í erindinu segir: "Þjóðkirkjan hefur lengi haft ágætan aðgang að grunnskólunum og samstarf við leikskóla hefur farið ört vaxandi síðustu ár. Nú er kominn tími til að sá góði árangur sem náðst hefur í barna- og unglingastarfi nái einnig til ungs fólks á framhaldsskólaaldri." "Við sjáum fyrir okkur að þetta verkefni geti vaxið mikið og orðið lykill þjóðkirkjunnar að framhaldsskólunum, að aldurshópnum 16-20 ára." "Við sjáum fyrir okkur að eitthvað í líkingu við "Vinaleið" sem Þórdís Ásgeirsdóttir djákni hefur leitt í barna- og gagnfræðaskólunum í Mosfellsbæ ætti fullt erindi inn í framhaldsskólana. Eins og það eru námsráðgjafar og sálfræðingar tengdir skólunum, sé ég fyrir mér djákna eða prest í hvern framhaldsskóla.

Draumur okkar er að kirkjan nái að vera eðlilegur hluti af framhaldsskólunum. Við teljum að nú sé rétti tíminn á útspili frá kirkjunni með tilboð inn í framhaldsskólana. Þetta er tækifæri sem þjóðkirkjan má ekki missa af. Við höfum stigið fyrstu skrefin og nú er tækifæri að festa þetta í sessi."

Ég geri lokaorð þessa magnaða erindis kirkjunnar manna að mínum því skýrar verður ekki mælt:

"Síðustu orð Jesú til lærisveinanna voru: "Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum..." Hlutverk kirkjunnar er skýrt, að fara með boðskap Jesú og fara að fordæmi Jesú."


Greinin birtist í Morgunblaðinu 17/11

Reynir Harðarson 20.11.2006
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Sindri - 20/11/06 16:21 #

Lausn: Opinberir aðilar hætti að reka skóla. Fólk sendir svo börnin sín í (einka) skóla sem er með stefnu að þeirra skapi í ýmsum málum. (styrkir handa efnaminna fólki, eða á öll börn?). Þá geta sumir skólar bannað Vinaleið og aðrir leyft hana, svo kýs fólk með fótunum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/06 16:35 #

Æi, það þykir mér skelfileg "lausn". Hvað er svona flókið við að halda trúboði frá skólum? Enginn er að banna foreldrum að fara með börnin sín í Sunnudagaskólann (eða Sunnudagamoskuna).


Halldór E. - 20/11/06 16:50 #

Matti, það er föstudagsmoskuna og laugardags-synagóguna. Mér finnst nú klént að þú klikkir á þessu :-).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.