Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Barnatrúboð

Þar sem kristin trú er afskaplega fjarstæðukennd er nauðsynlegt að koma henni inn á fólk á meðan það notast ekki við gagnrýna hugsun. Þess vegna stundar Þjóðkirkjan, og reyndar önnur trúfélög líka, barnatrúboð.

Tökum sem dæmi eina af grundvallarkennisetningum kristinnar trúar, að fyrir langa langa löngu síðan hafi karl dáið en lifnað við eftir nokkra daga. Það ættu allir að vita að þetta gerist ekki. Ef við hefðum ekki alist upp við að heyra þessa fáránlegu sögu þá væri hún álíka trúleg og goðsögur annarra trúarbragða.

Vegna þess að sagan stenst ekki lágmarks rýni þá er nauðsynlegt að koma henni inn á fólk sem hefur ekki næga reynslu af heiminum og þekkingu til þess að vita hvernig hann virkar.

Að innræta börnum kenningar kristinnar trúar gengur undir ýmsum nöfnum hjá trúmönnum, til dæmis “að vinna með trúaruppeldi barnanna”#, “að opna augu barnanna fyrir trúnni og samfélagi við Guð sinn” #, kærleiksþjónusta, skírnarfræðsla eða einfaldlega fræðsla.

Svo miklir sérfræðingar eru kirkjunnar menn í að boða börnum trú að innan hinnar meintu fræðigreinar guðfræði er að finna fræðasvið sem kallast “trúkennslufræði” og þar læra atvinnubarnatrúboðar “að innræta börnum og unglingum hin kristilegu trúarsannindi”[1]

Þessi sérfræði- og atvinnumennska í barnatrúboði er vissulega óhugnanleg en eflaust hafa foreldrar sem vilja það (eflaust sjálfir fórnarlömb barnatrúboðs) rétt til þess að gefa atvinnubarnatrúboðunum skotleyfi á börnin sín. En það nægir þeim ekki, eins og sést vel í leiðtogaheftinu Litlir lærisveinar sem Þjóðkirkjan gaf út og var ætlað til notkunar í barnastarfi kirkjunnar veturinn 1994-1995.

Markmið eins sunnudagsins er “[a]ð börnin læri að Guð vill að allir fái að heyra um hann.” Vers dagsins er hin svokallaða skírnarskipun (Mt. 28:18-20), þar sem Jesús skipar lærisveinunum að gera “allar þjóðir að lærisveinum” og skíra “þá í nafni föður, sonar og heilags anda” (bls. 76). Það er stungið upp á tveimur úrvinnslum á versi dagsins:

Tillaga 1
Guðfinna spæjari kemur til þess að rannsaka vers dagsins. Hún les það með börnunum.

Leiðbeinandinn útskýrir versið: Jesús vill að allir séu lærisveinar hans. Allir sem trúa á Jesú eru lærisveinar. Lærisveinn þýðir nemandi.

Við eigum að segja öðrum frá Jesú. Flestir á Íslandi vita um Jesú en sumir hugsa sjaldan um hann. Við getum hvatt aðra til þess að koma í sunnudagaskólann með okkur.

Tillaga 2
Allir fara saman með versið. Útskýrið versið á sama hátt og gert er í tillögu 1. (bls. 77)

Síðan eiga leiðtogarnir að sýna börnunum mynd og ræða við krakkana:

Hvað eru börnin að gera? Þau eru að bjóða vinkonu sinni með í sunnudagaskólann. Hvers vegna gera þau það?

Hvað læra þau í sunnudagaskólanum? Hafið þið boðið vinum ykkar í sunnudagaskólann? Hvernig gekk það?

Af þessu sést að kirkjunni nægir ekki að innræta börnum trú, heldur nota þeir börnin sjálf til þess að reyna að fá önnur börn í trúboðsstundirnar.

Trúfélag sem beitir svona aðferðum til þess að ná til barna er ekki treystandi fyrir því að starfa með börnum í skólum landsins.


[1] próf. Björn Magnússon - Guðfræðinám bls. 38 6. árgangur 1969-1970, I tölublað Orðið
[2] Litlir lærisveinar : leiðtogahefti / Elín Jóhannsdóttir. textaröð C-A. Reykjavík : Skálholt : Fræðsludeild kirkjunnar, 1994. bls 76-77

Hjalti Rúnar Ómarsson 12.11.2006
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/11/06 12:57 #

Svona pistill á erindi svo miklu víðar. Segið vinum ykkar frá honum :o)


Eyjólfur - 15/11/06 02:09 #

Mikið rosalega hlítur fólki að líða illa, sem númer 1. veltir sér uppúr svona löguðu og númer 2. er á móti sálgæslu. Skiptir engu máli hverrar trúar maður eða kona er sem býður upp á sálgæslu, hann skal taka fagnandi. Bara það að Hjalti skuli skrifa um svona lagað segir mér að honum geti ekki liðið vel. Að þurfa að vera í einhverjum mótþróa yfir svona löguðu er lýsandi dæmi þess að manni líði illa, og þurfi að losa um það á rangan hátt, með að kenna einhverjum um, sem í tilviki Hjalta er greinilega kristin trú, og Hjalti notar greinilega sem blóraböggul í flest öllu í lífinu. Mikið rosalega vorkenni ég honum, og mikið rosalega vorkenni ég ykkur ef þessi kommenti verður eytt út, bara af því ég er ósammála greininni!


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/11/06 02:15 #

Eyjólfur, ég er ekki á móti "sálgæslu". Ég er á móti trúboði í opinberum skólum.

Og reyndu nú að ræða um efni greinarinnar en ekki mína ágætu líðan.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/11/06 09:47 #

og mikið rosalega vorkenni ég ykkur ef þessi kommenti verður eytt út, bara af því ég er ósammála greininni!

"Eyjólfur", við erum ekki vön því að eyða út athugasemdum hér á Vantrú þó fólk sé ekki sammála greininni. Þetta getur hver sem er staðfest með því að lesa yfir greinarnar. Athugasemdir þar sem andstæðum skoðunum er lýst eða greinar eru gagnrýndar eru hér í hundraða tali. Svona dylgjur eru algjör óþarfi. Ritstjórnarstefnu Vantrúar er hægt að ræða á spjallinu

Ef ég myndi eyða út þessari athugasemd væri það vegna þess að "Eyjólfur" eyðir mikilli orku í að ræða eitthvað allt annað en innihald greinarinnar sem hann heldur að hann sé að gagnrýna.


Valdimar - 12/11/09 18:40 #

Það er ekkert að sálgæslu enn hinsvegar er hægt að kenna sálgæslu og boðskap gegnum annað enn kristinntrú sérstaklega þar sem boðskaður hennar er mjög efanlegur.

Mjög flott grein

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.