Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vinaleið er ekki rétt leið

Af lestri greinar Helgu Bragadóttiur “Vinaleið, frábær leið” má glöggt sjá að hún er ekki í nokkrum vafa um að Vinaleið sé trúboð. Ég er sammála Helgu um það en að öðru leyti er ég ósammála henni í flestum atriðum.

Kærleikur og gott siðferði er óháð trúarbrögðum. Ekki þarf að boða trú á guðlegar verur til að kenna gott siðferði og iðkun kærleiks. Kærleikur er sammannlegur og gott siðferði þekkist meðal allra þjóða og trúarbragða. Því væri réttara að tala um almennt siðferði frekar en kristið siðferði. Að halda því fram að kristið siðferði ( hvað sem það nú þýðir ) sé öðru siðferði fremra stenst einfaldlega ekki og ber vott um fordóma.

Kirkjan boðar nú að börn þessa lands séu afskipt, nú frekar en áður. Ítrekað eru fluttar ræður þar sem lýst er hvernig foreldrar og samfélag séu ekki að sinna hlutverki sínu. Með því lýsir þjóðkirkjan yfir vantrausti á foreldra og fagstéttir þessa lands. Ég treysti starfsfólki skólanna ásamt fagstéttum eins og kennurum,félagsfræðingum, sálfræðingum og geðlæknum fullkomlega til starfsins. Boðun kristinnar trúar er ekki lausn á vandanum líkt og Helga gefur í skyn. Auk þess hefur kirkjan boðað versnandi heim svo lengi sem ég man eftir mér. Ég spyr því hvenær var hann betri?

Helga skrifar í grein sinni: “...en ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt eða lesið um að Jesús Kristur boði harðræði, hefnd eða óvild.”

Jesú segir:

(Matteus 10.34) Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. (10.35) Ég er kominn að gjöra son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. (10.36), Og heimamenn manns verða óvinir hans. (10.37), Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. (10.38), Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður. (10.39) Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.

Þarna finnst mér Jesú boða harðræði, hefnd og óvild.

Jesú segir,

(Matteus 5.32), En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína nema fyrir hórsök, verður til þess að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

Kristnir og kirkjan hafa ekki séð ástæðu til að taka mark á þessum orðum Jesú. Biblían boðar kvenfyrirlitningu og þó að kirkjan hafi í gegnum aldirnar haft í frammi misrétti gegn konum þá hefur hún látið af því að mestu. Því er þó að þakka jafnréttisbaráttu kvenna frekar en siðarbótum innan kirkjunnar. Kirkjan hefur í gegnum tíðina þurft að láta af ýmis konar misrétti og misbeitingu. Með ári hverju eykst þekking fólks og jafnframt dregur úr því sem sem Kirkjan getur boðað af því sem í Biblíunni stendur. Ég skora á þá, sem lesa þessa grein, að lesa Biblíuna með skynsemina að vopni. Það er kristinni kirkju til gagns hve fáir koma því í verk að lesa þessa merku bók. Við fáum því miður ekki rétta mynd af ritningunni með því einu að hlusta á prédikanir þjóðkirkjunnar.

Annar þjóðfélagshópur sem er úthrópaður enn í dag af kirkjunnar mönnum eru trúlausir. Forvígismönnum kirkjunnar er mikið í mun að koma þeirri hugmynd að meðal þjóðarinnar að trúlausir séu siðlausir og samfélaginu standi ógn af þessu fólki. Hóp trúlausra fylla meðal annars margir af helstu vísindamönnum sögunnar, látnir og lifandi. Fólk sem hefur lagt meira af mörkum til velsældar og hamingju mannkyns en nokkur guðsmaðurinn. Þetta fólk er siðlaust og hættulegt samkvæmt málflutningi kirkjunnar. En auðvitað þýðir ekkert að segja vel menntaðri og upplýstri þjóð eins og Íslendingum slíka fásinnu.

Helgu er tíðrætt um kristinn kærleika í grein sinni. Kærleikur kristninnar í eilífðinni stendur þeim einum til boða sem játast Jesú, hinir eiga vísa vist í helvíti eins og okkur er öllum kunnugt um. Hugsið ykkur alla þá einstaklinga sem í gegnum aldirnar hafa látist og ekki fengið tækifæri til að taka kristna trú. Fólk í heimshlutum sem kristnin náði ekki til. Þetta fólk brennur nú í víti og skilur væntanlega ekki hvernig á því stendur.

Ég geri ráð fyrir að Helga sé trúlaus þegar kemur að öðrum trúarbrögðum svo sem ásatrú, íslam, búddisma, hindúisma o.s.frv. Því ætti Helga auðveldlega að geta sýnt fólki skilning og umburðarlyndi, sem ekki aðhyllist sömu trú og hún. Auk þess virt rétt þeirra til að trúa á sinn guð og okkar hinna að trúa ekki.

Umræðan um Vinaleið snýst ekki um það hvort ein trúarbrögð séu betri en önnur, heldur um sjálfsögð og lögbundin mannréttindi forelda og barna þeirra að ráða hvaða trú þau iðka og eða hvort þau kjósa að iðka trúarbrögð yfir höfuð.

Vinaleið gengur út á að fulltrúar þjóðkirkjunnar fái forgang að skólum landsins umfram önnur trúarbrögð eða lífsskoðunarfélög. Kirkjan fær meira að segja að eiga viðtöl við börnin án vitneskju foreldaranna. Það hefur komið fram af hálfu kirkjunnar að í þessum viðtölum er kristinni trú haldið að börnunum, með öðrum orðum ástundað trúboð. Þarna er verið að fremja brot á lögum og ber því að stöðva þetta umsvifalaust. Trúfélög eiga ekki að fá að boða trú sína í opinberum skólum, ekkert frekar en stjórnmálaflokkar eða önnur lífsskoðunafélög skoðanir sínar. Skólar eiga að vera óháðir í þessum efnum.

Kirkjan sýnir í þessu máli ekki réttlæti heldur ranglæti, ekki umburðarlyndi heldur umburðarleysi, ekki siðferði heldur siðleysi.

Ég skora á Helgu og aðra talsmenn Vinaleiðar að horfa á málið frá fleiri sjónarhornum en þeirra eigin. Prófið að sjá fyrir ykkur Vinaleið þar sem fulltrúinn er frá öðru trúfélagi eða trúarbrögðum . Ég er sannfærður um að þá sjáið þið rangindin og óréttlætið í þessu máli.

Þannig sýnið þið kærleika í verki.


Birtist í Morgunblaðinu 4. Nóvember

Arnold Björnsson 06.11.2006
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


khomeni - 06/11/06 20:33 #

Frábær grein. Vönduð og málefnaleg. Húrra fyrir Arnoldi!


Svanur Sigurbjörnsson - 07/11/06 09:26 #

Ég tek undir það. Frábær grein hjá þér Arnold. Dýrðlingsmynd Helgu af Jesú ætti heldur að fölna eftir þetta. Þú komst að punktum sem ekki höfðu komið fram áður í umræðunni um þetta mál. Geysilega gott framtak!


Arnold Björnsson - 07/11/06 09:44 #

Ég vil þakka vinsamleg orð. Ég vil líka benda á að greinin birtist í aðeins styttri útgáfu í Mbl.


Örvar - 09/11/06 06:29 #

Ég er nú ekki mjög trúaður maður, reyndar trúi ég bara á mitt og það er mín trú. En þetta tal á þessari síðu er öfgatal út í ystu æsar. Það má bara ekki minnast á guð þá koma þessar líku þvílíku greinar hægri vinstri. Leyfið henni Helgu Braga bara að trúa því sem hún vill og flytja þann boðskap sem hún heldur að virki.


Viggi - 09/11/06 06:38 #

Er það ekki hver og eins að trúa því sem hann vil trúa...? Ég lít á það þannig að þið eruð bara með áróður og þegar kemur að því þegar þið farið að labba í hús og bella pening þá get ég sagt ykkur það að það verður ekkert nudd sem þið fáið þegar þið bankið hjá mér ! og takið eftir því að ég skrifa þegar en ekki hvort því það kemur að því að þið hálfvitarnir byrjið á því ! Þið eruð bara ekkert betri en Jesús víst þið teljið hann svona vondan mann ! Hálfvitar !


Arnold Björnsson - 09/11/06 06:52 #

Leyfið henni Helgu Braga bara að trúa því sem hún vill og flytja þann boðskap sem hún heldur að virki.

Það er engin að banna Helgu að flytja sinn boðskap. Hún vill hinsvegar að sinn boðskapur og kirkjunnar fái forgang að börnum í skólakerfinu. Það er beinlínis lögbrot og því rétt að benda á það.

Engar skoðanir eru hafnar yfir gagnrýni, ekki mínar, ekki þínar, ekki Helgu og alls ekki þjóðkirkjunnar.


Arnold Björnsson - 09/11/06 07:00 #

Er það ekki hver og eins að trúa því sem hann vil trúa...?

Það hafa allir rétt á skoðana og trúfrelsi. Það er bundið í stjórnarskrá og í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þjóðkirkjan villi hins vegar ekki virða það og það er verið að gagnrýna hér.

Ég er mikill fylgjandi trú- og málfrelsis. Því er ég þeirrar skoðunar að þú megir kalla mig hálvita. Það hins vegar gerir þinni ímynd lítið gagn og því síður umræðunni. Þú er t.d. ekki að sýna af þér kærleika með þessu innleggi þínu og ekkert sérstaklega gott siðferði. En það er þitt val og þú verður að lifa með því.


PéturH - 09/11/06 14:11 #

Svo að þjóðkirkjan er ekki með áróður?


Örvar - 09/11/06 22:10 #

Lesið morgunblaðið í dag og rennið yfir grein Magnúsar Skarphéðinssonar. Hann segir allt um þessa vinaleið sem segja þarf.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/06 22:15 #

Örvar, segðu okkur endilega hvað kemur nýtt fram í grein Magnúsar?


Arnold Björnsson - 10/11/06 05:49 #

Magnús segir í stórum dráttum að ef við sem gagnrýnum vinaleið komum ekki með neina lausn á móti að þá eigum við ekki að vera að skipta okkur af þessu. Það er nú allt of sumt sem Magnús segir.

Við sem gagnrýnum Vinaleið höfum einmitt bent á aðrar leiðir. Það eru fargstéttir sem eiga að hjálpa börnum sem eiga við félagsleg eða sálræn vandamál að stríða. Mér finnst tildæmis að það mætti fara að skera niður útgjöld til kirkjunnar og veita þeim peningum til aðstoðar við börn og unglinga sem þurfa félags- eða geðræna aðstoð. Það væri hægt að reka t.d. BUGL með sóma auk þess að kosta aðkomu fagfólks að skólum.

Grein Magnúsar fellur því dauð og ómerk og kemur ekki með neitt nýtt í umræðuna af hendi Vinaleiðarsinna.

Reynið svo að skilja það að ákalla guð er ekki lausn á vandamálum. Það er jafn áhrifaríkt og að leysa vandamál með því að stinga hausinum í sandinn.


Viggi - 10/11/06 16:49 #

Þið eruð sauðir ! Endið allir í helvíti !


Örvar - 10/11/06 16:53 #

Heyrðu, nú fórstu alveg með það. Þessi skrif þín áðan lýsa heimsku þinni. Ég er alveg sammála þér í því að peningurinn mætti fara að hluta til í eitthvað skárra....að mínu mati. Ég segi það enn og aftur að ég er ekki trúaður maður, nema að ég trúi bara á mitt. En ég er ekki hrifinn af því að menn níði önnur trúarbrögð eins og þú varst að gera. Allt í lagi að segja sína skoðun en ekki vera með svona öfgar. ....jafn áhrifaríkt og að leysa vandamál með því að stinga hausnum í sandinn? Ert þú maður til þess að fullyrða svona?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/06 17:11 #

En ég er ekki hrifinn af því að menn níði önnur trúarbrögð eins og þú varst að gera. Allt í lagi að segja sína skoðun en ekki vera með svona öfgar. ....jafn áhrifaríkt og að leysa vandamál með því að stinga hausnum í sandinn? Ert þú maður til þess að fullyrða svona?

Örvar, hvaða öfga ert þú að tala um? Svo hefði ég líka gaman af því hvað þú átt við með orðunum "að níða önnur trúarbrögð". Kannski efni í aðra umræðu (bendi þér á spjallborðið).


PéturH - 10/11/06 17:34 #

Víst við erum að ræða um öfgatal, þá bendi ég á greinina sem þú vísaðir í eftir hann Skarphéðinn.


Arnold Björnsson - 10/11/06 17:52 #

Örvar, Hér er dæmi: Maður greinist með krabbamein. í langflesum tilfella leitar hann á náðir læknavísindanna. Stundum tekst að lækna krabbamein en oft duga læknavísindin ekki. Þegar sjúklingur er kominn á líknandi meðferð er presturinn kallaður til. Þá hefst bænahald o.s.frv. Ég spyr fyrst máttur bænarinnar er svona mikill, hvers vegna var ekki presturinn kallaður til strax og krabbameinið greindist. Þeir trúuðu trúa sjaldan sjálfir að bænin virki og hvað er að því að ég bendi á þá staðreynd að hún leysi ekki vanda. Hún í besta falli virkar sefandi á fólk að því gefnu að fólkið trúi á mátt bænarinnar, en hún læknar ekki og leysir ekki vandamál. Það er vísindalega sannað.

Þér er velkomið að kalla mig heimskan ef þér finnst það gagnlegt innlegg í umræðuna.


Arnold Björnsson - 10/11/06 19:46 #

Eitt í viðbót Örvar, trúarbrögð eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrar lífskoðanir. Ég er viss um að þú ert tilbúinn til að gagnrýna öfgafull muslimasamtök sem réttlæta morð á fólki með sinni trú. Ef kristin trú hefði aldrei verið gagnrýnd værum við ekki ólíklega á mun frumstæðara tæknistígi. Kannski en drekkjandi konum í drekkingarhyl, konum sem gerðu það eitt af sér að eignast börn utan hjónabands og þar með gera börn þeirra munaðarlaus. Kannski værum við en vitni að galdrabernnum? Eigna upptökur á eigum almennings. Og en er kirkjan þrándur í götu jafnréttis, nú ekki í málefnum kvenna heldur í málefnum samkynhneigðra.

Misrétti og misbeitingu ber að gagnrýna hvort sem það er framið í nafni trúarbragða eða ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.