Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skráning ungbarna í trúfélög

Hvað er skírn?

Öll börn fæðast syndug, samkvæmt kristinni kirkju. Með skírninni er guð að hreinsa börnin af syndum og tekur síðan við þeim í sitt ríki. En orðið skírn þýðir hreinsun eða þvottur. Skírn er kristin trúarathöfn, ef þú skírir barnið þitt í kirkju krists, þá er barnið skráð í þá kirkju. Með öðrum orðum er skírn inngönguathöfn í kirkju krists.

Af hverju eru börn ennþá skírð í dag?

Flestir láta skíra börnin sín í íslensku Þjóðkirkjunni og hefur það lengi verið siður flestra Íslendinga og sér fólk yfir höfuð ekkert athugavert við það. Það er spurning hversu margir trúa því að börnin fæðist syndug og guð þurfi að hreinsa þau af þessum syndum, en ég vona að flest fólk í íslensku samfélagi sé betur upplýst en það að gleypa við svona dellu. Sumir vilja sjálfsagt að kristni haldist við í samfélaginu, svo trúleysingjar, múslímar eða aðrir „ógæfumenn“ taki ekki völdin í landinu. Aðrir halda eflaust að kristni sé eina trúin sem boði eitthvað gott, það er þá væntanlega vegna þess að það fólk hefur aðeins heyrt um það góða í kristinni trú og hefur ekki kynnt sér önnur trúarbrögð nógu vel. Flesta tel ég gera þetta útaf gamalli hefð, og sjá ákveðna stemmningu í skírninni sjálfri og vilja einfaldlega viðhalda þessari hefð.

Af hverju höldum við ennþá í þessa hefð?

Flest fólk á Íslandi hefur alist upp við þessa hefð og finnst alveg sjálfsögð athöfn þegar nýtt barn lítur dagsins ljós. Öll þessi skírnarathöfn er eflaust ómissandi fyrir marga. En það er hægt að smala ættingjunum saman, halda veislu án þess að trú þurfi að koma nálægt því og barnið þurfi að vera skráð meðlimur kirkjunnar. Margir kjósa borgaralega nafngjöf, án skírnar. Þá er öllu því trúarlega sleppt, barninu er ekki gefið upp hvaða trú það tilheyrir heldur er barninu einfaldlega gefið nafn og boðið velkomið.

Er rétt að leyfa foreldrum velja hvaða trú barnið tilheyrir?

Foreldrar eiga ekki að velja trú fyrir barnið, það hefur rétt á því að velja trú sína sjálft þegar það vex úr grasi og verður að sjálfstæðri og rökhugsandi manneskju. Hér á landi ríkir ákveðið frelsi, það frelsi gefur okkur val í hvaða trúfélag við skráum okkur, eða hvort við gerum það yfir höfuð og okkur ber að virða þetta frelsi.

Richard Dawkins segir í bók sinni The God Delusion að ekki sé rétt að tala um kristið barn eða íslamskt barn, heldur eigi að tala um barn kristinna foreldra eða barn íslamskra foreldra. Þetta tek ég undir með honum, börn mynda sér ekki sjálfstæða skoðun, og ungbörn hafa enga skoðun! Þar með eiga þau ekki að fá þennan stimpil á sig.

Það er góður og skemmtilegur siður að halda upp á komu barnsins í heiminn og nafnagjöf þess, en það er alls ekki nauðsynlegt að skrá það óumbeðið í eitthvað trúfélag. Upplýsingar um borgaralegar nafnagjafir er hægt að nálgast á www.sidmennt.is og hvet ég fólk eindregið til að nýta sér þann kost.

Pétur H. 29.10.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/10/06 14:02 #

Flestir Íslendingar líta á skírn sem nafngjöf sbr: "Hvað á að skíra barnið?" Og þótt skírnin eigi að kallast innganga barnsins í kirkjuna er það þegar skráð í trúfélagið. Börn eru skráð í trúfélag móður VIÐ FÆÐINGU! Þá er enginn spurður og faðir hefur til að mynda ekkert um það að segja.


Siggi - 29/10/06 14:08 #

Þetta var fínt FAQ um skírn. þó ég sé ekki foreldri þá er gott að vita það þessu.


Pétur H - 29/10/06 14:34 #

Takk fyrir þetta Reynir. Það mætti þá segja að skírnin sé bara hreinsun og íhaldsemi, ekki skráning í trúfélagið sjálft. Einnig "nafngjöf" eins og þú sagðir.


Trú-ðurinn - 29/10/06 21:25 #

Auðvitað er skírnarathöfnin rótgróin í þjóðlífið en í raun þarf athöfnin ekki heldur að vera skráning á nafni því það er hægt að gera beint til Þjóðskrár án milliliða. Mig grunar að flestir foreldrar leiti eftir skírninni vegna þess að þeir vilja börnum sínum það besta. Þess vegna er fyrirbæn og blessun skírnarinnar oftast það sem fólkið leitar eftir. Eins og segir í skírnarsálminum um barnið: Ef á því hér að auðnast líf, því undir þínum vængjum hlíf og engla þinna láttu lið það leiða og gæta slysum við. Foreldrar upplifa sig á tímamótum með nýfæddan anga í höndunum og leita eftir blessun Guðs með framtíðina. Þar með er ekki verið að velja trú fyrir barnið. Það hefur frelsi til, með viti og þroska, að velja hverju það trúir þegar fram líða stundir. Enda skapaði Guð okkur í sinni mynd, með frjálsan vilja. Í Guðs friði, Trú-ðurinn


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 29/10/06 21:42 #

Verst að þjóðkirkjan telur að skírnin gefi sér rétt til að kalla barnið kristið. Verra er að fólkið gerir sér ekki grein fyrir að margir prestar, ef ekki allir, telja sig vera að hreinsa barnið af ímynduðum syndum.


Örvar - 29/10/06 22:45 #

Til hvers eruð þið að velta ykkur upp úr þessu? Þetta skiptir engu máli.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/10/06 00:35 #

Er eitthvað að því að fræða fólk?


Pétur H - 30/10/06 01:05 #

...en svo er það hlutverk foreldranna, skírnarvotta, fjölskyldu og safnaðarins að ala barnið upp í þeim anda sem kristin trú kallar á.

Tekið af trú.is

Að ala barnið upp við kristna trú er nógu slæmt. Auðvitað gera það ekki allir, en samkvæmt þessum orðum þá er það hluti af ferlinu og eru alltof margir sem fara eftir því.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 30/10/06 01:09 #

Hvað er tilgangslausara en að velta sér upp úr því að aðrir séu að velta sér upp úr tilgangslausum hlutum?


Trú-ðurinn - 30/10/06 10:40 #

Verst að þjóðkirkjan telur að skírnin gefi sér rétt til að kalla barnið kristið... -Vitanlega gerir Þjóðkirkjan það. Enda foreldrarnir í trúfélaginu. Hvað er rangt við það? Foreldrar þurfa að velja ótal margt fyrir börn sín en seinna er það barnanna að velja (þegar þau eru ekki lengur börn) hvaða stefnu þau taka í lífinu. Er fólk að gera börnum sínum betur ef það VELUR FYRIR ÞAU að ala þau upp í trúleysi?

-Verra er að fólkið gerir sér ekki grein fyrir að margir prestar, ef ekki allir, telja sig vera að hreinsa barnið af ímynduðum syndum... - Hvaða presta hefur þú rætt við um þessi mál, Óli Gneisti? Liggur einhver rannsókn að baki þessari fullyrðingu? Hvaða ímynduðu syndir ertu að tala um? Hver ímyndar sér þær? Foreldrarnir? Barnið? Presturinn? Guð blessi þig, Óli Gneisti. Bestu kveðjur, Trú-ðurinn


Arnold Björnsson - 30/10/06 11:20 #

Trúður, hefur þú heyrt um erfðarsyndina? Samkvæmt túlkun flestra guðfræðinga er skírn synda aflausn. Þ.e. Kristur tók á sig syndina fyrir þá sem játa trú á hann. Við hin sem ekki játum kristna trú berum samkvæmt þessu áfram erfðasyndina. Þú getur svo lesið meira um þetta í grein á tru.is

Lestu svo biblíuna Trúður áður en þú ferð að predika.


Pétur H - 30/10/06 12:16 #

-Er fólk að gera börnum sínum betur ef það VELUR FYRIR ÞAU að ala þau upp í trúleysi?

Betra er að ala börnin upp án þess að uppfylla þau af yfirnáttúrulegu bulli sem foreldrarnir trúa á. Það er enginn að tala um að ala barnið upp þannig að það verði trúlaust í framtíðinni, heldur að það geti gert upp á milli þegar það eldist og hugsað um þetta með gagnrýnum hætti. Börn sem alin eru upp við kristna trú eru mun líklegri til að halda hana þegar þau verða eldri. Þetta gildir t.d. líka um stjórnmálaskoðanir og ekki viljum við þröngva þeim uppá börnin.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/10/06 12:17 #

Trúður, ég tók mig einfaldlega til og las pistla um málið á trú.is og hef þar að auki rætt um þetta við prestana Carlos Ferrer og Torfa sem ég man ekki hvers son er.

Mér finnst allt í lagi að fólk velji að ala börn sín upp í kristinni trú þó mér finnist það vissulega mistök. Ég held hins vegar að margir foreldrar líti ekki skírnina sömu augum og prestarnir sem framkvæma hana. Ég held að margir myndu líka hætta við skírnina ef þeir vissu hvaða hlutverki hún gegni því það er satt best að segja viðbjóðslegt að ætla að saklaust barn sé með erfðasyndina á bakinu.


Trú-ðurinn - 30/10/06 13:59 #

Það var nákvæmlega þetta með erfðasyndina sem ég var að fiska eftir. Auðvitað eru börnin óvitar þegar þau eru skírð, en mér finnst fátt augljósara en að við séum öll því marki brennd frá fæðingu að vera syndug. Börn eru yfirleitt ekki orðin mjög gömul þegar í ljós kemur eigingirni o.þ.h. Hún verður ekki þvegin af við skírnina enda eru skírð börn ekkert þægari en önnur. Skírnin gerir engan syndlausan en ef við trúum á hann sem er syndlaus, sem er Jesús Kristur, þá sér Guð okkur í honum. Við erum ekki "þvottekta" en það er Jesús hinsvegar:) Þess vegna þurfum við á honum að halda. Pax XP, Trúðurinn


Rún - 30/10/06 15:47 #

Reyndar er það hér á landi þannig að börn fæðast inn í það trúfélag sem móðir þess er í við fæðingu, burtséð frá því hvort það er skírt eða gefið nafn samkvæmt einhverjum öðrum trúarbrögðum. Ég var ekki skírð og ekki fermd en var samt skráð í þjóðkirkjuna


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 30/10/06 16:35 #

en mér finnst fátt augljósara en að við séum öll því marki brennd frá fæðingu að vera syndug.

Þetta finnst mér einfaldlega vera viðbjóðslegt viðhorf. Núna áðan var ég að dást að dóttur vinkonu minnar og mér finnst svo sorglegt að fólk geti tengt orðið synd við lítil, saklaus börn.


Trú-ðurinn - 30/10/06 19:52 #

Ég skil þig mjög vel, Óli Gneisti. Þetta er auðvitað ekki geðfellt. Enda er ekkert geðfellt við syndina. Lítil börn hafa heldur engra synda að iðrast. Þetta syndaelement er engu að síður til staðar, rétt eins og hæfileikinn til að ganga, tala, o.s.frv. Pax, Trúðurinn.


Davíð - 30/10/06 20:08 #

Börn eru skráð í trúfélag móður, óháð því hvort um kirkjulegar, trúarlegar eða óháðar athafnir er að ræða.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 31/10/06 13:26 #

Þetta syndaelement er engu að síður til staðar, rétt eins og hæfileikinn til að ganga, tala, o.s.frv.

Athyglisverð skoðun (og hryllileg ef út í það er farið). Hvar er þetta syndaelement falið? Er þetta í genunum eða innprentað í sálarlíf sérhvers manns?

Ef þetta er í genunum þá væri e.t.v. hægt að eyða þessum genum út með nútíma líftækni og búa þannig til syndlaust fólk, væri það ekki afbragðshugmynd?

Ef þetta er í þessu þokukennda fyrirbæri sem sumir kalla sál hvers vegna setti guðsi svo afkáralega hluti þar inn?

Annars held ég að þetta syndaelement sé einungis til í kollinum á trúmönnum, sérstaklega eru lútherskir kristnir með þetta á heilanum. Einstaklega sorgleg lífssýn og niðurdrepandi að mínu mati.


Árni Árnason - 31/10/06 21:46 #

Þetta erfðasyndarkjaftæði er algert met.

Hugsið þetta aðeins, barn sem fæðist er syndugt vegna synda forfeðra þess. Syndin erfist.

Ætli Kári Stefánsson viti af þessu ? Kannski hann geti fundið meingenið.

Í alvöru talað, er þessi dómadagsþvæla tilkomin vegna þess að helsta söluvara kirkjunnar gegn um tíðina er syndaaflausnin (þar á meðal skírnin). Með því að innprenta fólki að allir séu syndugir upp fyrir haus, líka fóstrin í móðurkviði, kom kirkjan sér upp gullkistu sem hægt var að sækja í stanslaust peningastreymi. Limbó og logar helvítis biðu þeirra sem ekki höfðu fengið hvítþvott kirkjunnar fyrir dauða sinn. Allir voru gersamlega með lífið í lúkunum að drepast syndugir, og menn gátu vart á heilum sér tekið eða stundað uppbyggileg störf af viti vegna sífellds ótta við helvítisvistina. Kirkjunnar menn glottu, - og glotta enn gulltönninni sinni, þegar auðtrúa lýðurinn bar kirkjunni aleigu sína, eða eyddi sinni aumu ævi í að byggja dónalega stórar kirkjur, í þeirri vissu að því fylgdi aðgöngumiði að himnaríki. Hvernig annars varð Kirkjan ríkasta apparat veraldarsögunnar, með ekkert annað að selja en himnríkisvist.

Maður hélt satt að segja að þessi forheimskun myndi hverfa með fáfræði hinna myrku miðalda, en það sætir furðu hvað hægt er að halda sæmilega skynsömu fólki í bábiljunni. Til þess er nauðsynlegt að ná til barnanna nógu snemma, með látlausum áróðri í leikskólum og barnaskólum, því lengi býr að fyrstu gerð. Þeir vita alveg hvað þeir eru að gera dópsalarnir þegar fyrsti skammturinn er ókeypis.


Arnold Björnsson - 01/11/06 11:10 #

Nóaflóðið var plan guðs til að losa sig við mennina vegna illsku þeirra. Hann valdi nokkra útvalda sem áttu að vera hjartahreinir og áttu væntanlega að fæða af sér betra mannkyn Eftir að hafa drekkt öllu lifandi nema því sem var í Örkinni segir Guð:

Fyrsta Mósebók 8.21. Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki deyða framar allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört.

Þarna játar Guð ekki bara að syndaflóðið hafi verið vanhugsað klúður, heldur einnig að hönnun hans , maðurinn var líka mein gallaður. Þetta er líka til merkis um að Guð er ekki alvitur og almáttugur heldur klaufi. Þannig að erfðarsyndin er framleiðslugalli af hendi Guð. (Poor Quality Control).


jogus (meðlimur í Vantrú) - 01/11/06 12:48 #

...ef maður kýs að trúa vanhugsuðum útskýringum fornmanna á eðli sínu og umhverfi, það er að segja...


Arnold Björnsson - 01/11/06 13:27 #

..ef maður kýs að trúa vanhugsuðum útskýringum fornmanna á eðli sínu og umhverfi, það er að segja...

Akkúrat, og þær útskýringar eru mjög vafasamar ( varlega orðað ). Ég velti því oft fyrir mér hvort þeir trúuðu hafi í alvöru lesið biblíuna. Eða bara drukkið gerilsneyddan guðfræðikokteil þjóðkirkjunnar þar sem þagað er yfir því sem vafasamt er, eða túlkað þangað til upphafleg merking orðanna er löngu týnd.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.