Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hlutlausa skóla, takk!

Reynir Harðarson sálfræðingur býr í Garðabæ og uppgötvaði nýlega að prestur og djákni eru að koma sér fyrir í skólakerfinu þar í bæ. Reynir skrifaði þetta ágæta bréf til að sýna fram á hvað er athugavert við þetta starf sem biskup og fleiri lofa. Bréfinu var dreift til allra heimila í Garðabæ og á Álftanesi.


Félagaleiðin

Skólakomminn: Í starfi mínu í flokknum hef ég umsjón með samstarfi skóla og flokks og barnastarfi flokksins í skólum. Í skólunum hef ég fasta viðveru og sinni sósíalískri sálgæslu sem ég kalla FÉLAGALEIÐ.

Allir nemendur skólans geta nýtt sér þessa þjónustu að vild og ekki þarf leyfi foreldra til að nemandi komi í viðtal. Í byrjun skólaárs kynni ég þjónustu Félagaleiðar í öllum bekkjum. Í hverri kennslustofu er auglýsingarmiði FÉLAGA-LEIÐAR. Á skrifstofu FÉLAGALEIÐAR í skólunum eru vers úr Rauða kverinu og kommúnistaávarpið er í ramma á vegg. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs flokksins í kjördæminu og myndir af Lenín eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að.

Þegar ég sæki nemanda í viðtal inn í bekk rétta gjarnan fleiri nemendur upp hönd til merkis um að þeir vilji koma og reyna þessa þjónustu. Þótt það sé e.t.v. af einskærri forvitni og jafnvel ósk um að sleppa úr tíma þá eru allir velkomnir í FÉLAGALEIÐ.

Hlutverk komma í skólum:

  • kommi er fulltrúi kommúnista og vinstri stefnunnar
  • kommi veitir sósíalíska sálgæslu og stuðning
  • kommi er tengiliður milli skóla, heimila og flokks
  • kommi hefur vakninga- og baráttuvökur fyrir nemendur og starfsfólk skólanna
  • kommi leiðbeinir inni í bekkjum og ræðir við börnin um sósíalismann, lífið og dauðann.

Með þessu móti og ýmsu öðru er kommi í FÉLAGA-LEIÐ tengiliður á milli uppeldis, menntunar og stjórnmálalífs.

Vinaleiðin

Skóladjákninn: Í starfi mínu í kirkjunni hef ég umsjón með samstarfi skóla og kirkju og barnastarfi kirkjunnar í skólum. Í skólunum hef ég fasta viðveru og sinni kristilegri sálgæslu sem ég kalla VINALEIÐ.

Allir nemendur skólans geta nýtt sér þessa þjónustu að vild og ekki þarf leyfi foreldra til að nemandi komi í viðtal. Í byrjun skólaárs kynni ég þjónustu Vinaleiðar í öllum bekkjum. Í hverri kennslustofu er auglýsingarmiði VINALEIÐAR. Á skrifstofu VINALEIÐAR í skólunum eru bænavers og Faðir vor er í ramma á vegg. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í sókninni og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að.

Þegar ég sæki nemanda í viðtal inn í bekk rétta gjarnan fleiri nemendur upp hönd til merkis um að þeir vilji koma og reyna þessa þjónustu. Þótt það sé e.t.v. af einskærri forvitni og jafnvel ósk um að sleppa úr tíma þá eru allir velkomnir í VINALEIÐ.

Hlutverk djákna í skólum:

  • djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
  • djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning
  • djákni er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju
  • djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna
  • djákni leiðbeinir inni í bekkjum og ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann.

Með þessu móti og ýmsu öðru er djákni í VINALEIÐ tengiliður á milli uppeldis, menntunar og trúarlífs.

Félagaleiðin virðist líklega fráleit við fyrstu sýn en Vinaleiðin er orðin staðreynd.

Lýsingin á Vinaleið og störfum djákna í skólum er fengin frá forvígismanni hennar til sjö ára í Mosfellsbæ, Þórdísi Ásgeirsdóttur djákna (sjá www.kirkjan.is/kjalarnessprofastsdaemi/?deiglan/6). Skólayfirvöld í Garðabæ og á Álftanesi hafa nú hleypt Vinaleið þjóðkirkjunnar inn í grunnskólana og þar eru djákni og prestur með skrifstofu og viðveru einn dag í viku. Félagaleiðin gæti þótt sjálfsögð og þörf í N-Kóreu eða Kína en Vinaleiðin argasti ósómi. Á Íslandi er dæminu snúið við.

Lög um grunnskóla:

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar (VI. kafli, 29. gr.).

Aðalnámsskrá grunnskóla:

Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. (Bls. 51) Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun... (bls. 9)

Siðareglur kennara:

Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða. (Nr. 3)

Kennarar skulu virða ákvörðunarrét forráðamanna ósjálfráða nemenda og hafa ekki samband um málefni nemanda við sérfræðinga utan viðkomandi skóla, nema slíkt sé óhjákvæmilegt til að tryggja velferð og rétt barns. (Nr. 8)

Álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna:

Norsk stjórnvöld brjóta á trúfrelsi almennra borgara með því að stunda trúboð í skólum, svo sem með því að láta börn læra og fara með bænir, syngja sálma og trúarleg lög, taka þátt í trúarathöfnum, fara í skoðunarferðir í kirkjur, vera með trúarlegar yfirlýsingar, lita eða teikna trúarlegar myndir, taka þátt í helgileikjum og láta þau taka á móti trúarlegu efni s.s. Biblíu eða Nýja testamentinu. (15. nóv. 2004)

Karl Sigurbjörnsson biskup hefur lýst Vinaleiðinni sem stórkostlegu sóknarfæri kirkjunnar. Vegna kvörtunar um að hér væri um trúboð að ræða aftók hann það í Fréttablaðinu 10. okt. sl.. Það er þá í fyrsta skipti í sögunni sem vígðir menn kirkjunnar eiga ekki að BOÐA fagnaðarerindið í störfum sínum.

Skólastjórar, kennarar og skólanefnd bera ábyrgð á því að mörgum, sem aðhyllast ekki kristna trú, sárnar og er misboðið vegna trúarstarfs í grunnskólum.

Á Íslandi er lögboðið trúfrelsi en trú manna er einkamál, rétt eins og stjórnmálaskoðanir. Almennur skóli á að vera hlutlaus í slíku – annað er óréttlæti og mismunun óháð því hversu stór hluti aðhyllist þá hugmyndafræði sem yfirvöld eða skólinn hefur kosið að hleypa að.

Bréfi þessu er aðeins ætlað að vekja athygli þína á málinu og hvetja þig til alvarlegrar umhugsunar. Börnum á að kenna gagnrýna hugsun, ekki boða rétttrúnað, hvorki í stjórnmálum né trúmálum.

Mörgum verður á að hugsa sem svo að sá sem er á móti Vinaleiðinni í skólum sé á móti aðstoð og stuðningi við nemendur, en svo er alls ekki, eða að sá hinn sami vilji meina kristnum að vera kristnir. En hér er aðeins verið að benda á óviðeigandi afskipti trúfélags af skólastarfi.

Vilji einhver leggja foreldri lið í baráttu fyrir hlutlausum skólum eða fá frekari upplýsingar má senda tölvupóst á reynirh@islandia.is.

Reynir Harðarson, Holtsbúð 14, Garðabæ 16. október 2006



Ritstjórn 20.10.2006
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


óðinsmær - 20/10/06 14:20 #

ótrúleg snilld. ég hló mig máttlausa yfir kommanum og djánanum, ég hafði aldrei spáð í þessu svona. Hugmyndaríkur maður og gott hjá honum að senda út þetta bréf.

ef það er verið að brjóta allar þessar reglur, hvernig gat þetta þá orðið að veruleika? Skólayfirvöld verða að gera eitthvað strax og í öðru lagi þurfa prestarnir sem að þessu standa virkilega að athuga sinn gang því að þeir eru að brjóta á börnum og brjóta reglur skólakerfisins. Þeir eru að sækjast í mið sem koma þeim alls ekki við og þarsem þeir hafa nú þegar allrækileg ítök.

Ég er hlynnt því að þjóðkirkjan og öll trúfélög efli sig en eitthvað verður að vera heilagt, t.d menntun barna. Þau eiga rétt á því að þeirra námstími sé ekki settur í uppnám með hugmyndum og umræðum sem eiga sinn tíma, annarsstaðar en í lærdómsstofnun.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 14:57 #

Skítt með skólakommann, hvað ætli Þjóðkirkjunni fyndist um skólasatanistann? Það er jú trúfrelsi og því ætti Kirkja Satans alveg eins að fá að koma upp skrifstofu Heljarleiðar fyrir skólasatanista sinn.


Gyða (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 15:05 #

"Þegar ég sæki nemanda í viðtal inn í bekk"

Er það ekki grundvallar atriði þegar einstaklingur sækir sér aðstoð að þörf hans á aðstoð sé ekki auglýst með því að sækja viðkomandi inn í hóp og tilkynna öllum að nú sé tími laus fyrir hann.

Ég get ekki að því gert að þetta atriði stakk mig sérstaklega.

En þetta vinaleiðamál allt saman er auðvitað alveg ótrúlegt. Að fólki skuli finnast eðlilegt að hylla einum trúabrögðum á þennan hátt er mér óskiljanlegt.

Frábært framtak hjá Reyni að senda út þetta bréf.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 15:10 #

Það lítur út fyrir það að Guðfræðideildin í HÍ gerir ekkert annað en að útskrifa fólk sem veit ekki hvað almenn mannréttindi eru. Svo blint er þetta lið af eigin trú að það sér ekkert að því að valta yfir rétt annara.

Vonandi verður þetta til þess að fólk fari að vakna og gera sér grein fyrir því að þetta er engan veginn í lagi.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 15:15 #

Sammála Gyða með þennan punkt að sækja nemendur í viðtal. Sækir hún nemanda inn í bekk án leyfi foreldra og vill þá að fleiri komi með?!?!

Fólk ætti ekki til orð ef það yrði vitni að t.d. Sálfræðingi reynandi svona taktík - jæja Jói minn, núna ætlum við að tala um persónuleg vandamál þín og vilja ekki einhverjir fleiri koma með?

Maður á fá orð til að lýsa svona snarklikkuðum hugsunarhætti!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 15:17 #

Það eiga eflaust einhverjir gvuðsamenn eftir að póstmóderníska þetta á einhvern hátt.


palli - 20/10/06 15:37 #

eins gott að þetta er ekki komið í minn skóla


Asta - 20/10/06 17:25 #

Mikið væri gaman að heyra í einhverjum sem er hlyntur vinaleiðinni og fá að vita hvernig hægt er að réttlæta þetta.


Reynir - 20/10/06 17:44 #

Gott hjá ykkur í Vantrú að birta þetta. Takk fyrir stuðninginn! Ég fékk svar frá foreldraráði í dag. Það er svohljóðandi:

"Vísað er í bréf þitt dagsett 26. september 2006 þar sem fram kemur gagnrýni á þjónustu fulltrúar Vinaleiðar í Hofsstaðaskóla. Foreldraráð hefur kynnt sér starfsemi Vinaleiðar í Hofsstaðaskóla en um er að ræða valfrjálsa þjónustu sem einungis er veitt að frumkvæði nemenda eða forráðamanna þeirra. Þá hefur foreldraráð kynnt sér ólík sjónarmið varðandi þjónustuna og hvort þjónustan stangist á við grunnskólalög. Í lögum um grunnskóla segir í 2. grein: "Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi."

Foreldraráð sér ekki ástæðu til að gera athugasemd við starfsemina en fagnar allri umræðu um bætt skólastarf."

Þar hafið þið rökin! Duga þau ykkur? Hvernig á að bregðast við svona löguðu?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 17:47 #

Þau greinilega vilja að þetta hverfi bara, sé ekki að það sé neitt öðruvísi. Allavega hafa þau ekki mikið að segja til að réttlæta þetta annað en "af því bara".

Afskaplega lélegt svar að mínu hógværa mati.


Arnold Björnsson - 20/10/06 17:57 #

"kristilegu siðgæði"

Þetta er mjög hvimleið röksemdarfærsla að flagga kristilegu siðgæði. Ég hef átt í svipaðri baráttu vegna trúboðs í leikskóla sonar míns og þar hefur þessu verið flaggað ásamt því að þetta sé líka gert í menningarlegum tilgangi.

Hvernig á að bregðast við svona löguðu?

Ég held að það gerist ekkert fyrr en þessi mál verða kærð og þetta fer fyrir dómstóla. Þetta mun ekki komast í gegn um Evrópudómstólinn. Ég held að nú sé mál að stofna sjóð til að fjármagna þessa málsókn. Fyrr gerist ekki neitt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/10/06 21:52 #

Já, eða stofna einkaskóla trúlausra.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 21/10/06 11:49 #

Biskup um Vinaleiðina:

Verkefnið byggir umfram allt á því að gefa barninu tíma til að tjá sig, og hlusta á það. Það virðist reyndar lítill tími aflögu til að hlusta á börn, hávaðinn og ærustan virðast ráða ferðinni svo allt of víða. Vinaleiðin er sálgæsla og forvörn undir kristnum formerkjum, í andrúmslofti virðingar, trausts og kyrrðar.

Hún er ekki meiri virðingin en svo að þeim finnst sjálfsagt að valta yfir mannréttindi annara!


Guðmundur - 21/10/06 11:57 #

Það þarf að setja strangari reglur um opinbera skóla. Skólanefnidir, stjórnir og foreldrafélög eiga ekki að geta tekið ákvarðanir um að hylla eina trú innan veggja skólans. Í landi þar sem að trúfrelsi er stjórnarskrábundið eiga einstaklingar sem að stýra svona batteríum ekki að troða inn sínum trúarskoðunnum. Ég vona að foreldrar í Garðabæ berjist hart á móti þessu. Það er svo lélegt afsökun að það sé frjálst val nemenda að nýta sér þessa þjónustu. Ef að þessi þjónusta verður til staðar á verða skólayfirvöld að bjóða samskonar þjónustu til nemenda sem að aðhyllast aðra trú já eða trúleysu.


Eva - 21/10/06 12:33 #

Ég veit þá allavega að til eru foreldrafélög sem munu heilshugar styðja mig í starfi byggðu á pólitísku siðgæði innan grunnskólans. Eru ekki einhverjir hér til í að stofna samtök um "félagaleið" og kynna hana í skólum í Garðabæ? Sveitarfélagið væri kannski tilbúið til að styrkja verkefnið. Eða ríkið.


Eva - 21/10/06 12:36 #

Gleymum því heldur ekki að Félagaleiðin gæti orðið stórkostlegt sóknarfæri fyrir Vinstri Græna. Við getum fengið Steingrím J til að skrifa það í stuttri umsögn sem yrði höfð með í kynningunni til skólayfirvalda og fjölmiðla.


Arnold Björnsson - 21/10/06 13:32 #

Úr ræðu biskupsinns við upphaf kirkjuþings.

og á sama tíma hefur börnum og unglingum verið innrætt afstæðishyggja í siðferðismálum, að sérhver krafa um hömlur, siðaboð og viðvaranir sé aðeins leið til að dylja valdafíkn og kúgunarvilja. Afleiðingin verður tilgangsleysi, tómhyggja og að vera ófær um að treysta nokkrum eða neinu, og að öll viðmið til að byggja líf sitt á tapast.
Umræður hafa verið um kristindómsfræðslu í grunnskólum, og athugasemdir gerðar um aðkomu Þjóðkirkjunnar og afskipti af skólanum. Þess má vænta þegar börnum fjölgar sem eiga rætur að rekja úr framandi menningu og trúarbrögðum. Þó er athyglivert að andmæli koma ekki frá öðrum trúfélögum eða trúarbrögðum, heldur aðilum sem beita sér gegn Þjóðkirkjunni og vilja þrengja að kostum kristni og kirkju í samfélaginu.
verkefnið „vinaleið“ sem Kirkjuþing ályktaði um árið 2003 er kristin sálgæsla fyrir grunnskólabörn. Vinaleiðin hefur gefið afar góða raun í Mosfellsbæ og hefur nú verið komið á fót í grunnskólum Garðaprestakalls að ósk skólanna og með tilstyrk einkaaðila og Kirkjuráðs. Verkefnið byggir umfram allt á því að gefa barninu tíma til að tjá sig, og hlusta á það. Það virðist reyndar lítill tími aflögu til að hlusta á börn, hávaðinn og ærustan virðast ráða ferðinni svo allt of víða. Vinaleiðin er sálgæsla og forvörn undir kristnum formerkjum, í andrúmslofti virðingar, trausts og kyrrðar. Allir sem er umhugað um líðan og velferð barna ættu að taka höndum saman um að greiða því veg!
Ég vil minna á að Þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu um samstarf Þjóðkirkju og skóla og vill vera bandamaður skólans í að sinna skyldum sínum við nemendur um miðlun þekkingar um kristni og kirkju. Slíkt samstarf byggir á gagnkvæmri virðingu og á traustum faglegum grunni, guðfræðilega og uppeldis- og kennslufræðilega. Þessari stefnumótun verður fylgt eftir, og einnig að skilgreina betur stöðu Þjóðkirkjunnar gagnvart skólanum.

Og svo kemur þessi maður fram í fjölmiðlum og segir að ekkert trúboð sé í skólum. Vinaleið er ekki trúboð! Karli Sigurbjörnsyni þykir ekkert tiltökumál að segja ósatt. Kristilegt siðferði?


Arnold Björnsson - 21/10/06 13:36 #

Fyrsta tilvitnunin er athyglisverð, enn og aftur gefur hann í skyn að engum er treystandi til uppeldis barna nema að hann styðjist við "User manual" kirkjunar.


Reynir - 21/10/06 13:43 #

Biskup: "Vinaleiðin hefur gefið afar góða raun í Mosfellsbæ og hefur nú verið komið á fót í grunnskólum Garðaprestakalls að ósk skólanna og með tilstyrk einkaaðila og Kirkjuráðs."

Skólinn greiðir laun djáknans í Mosó!

Einkaaðili borgar útrásina! Hver er það?

Nú þegar liggur fyrir umsókn frá Jónu Hrönn presti í Garðabæ um styrk frá bæjarsjóði í gegnum íþrótta og tómstundaráð vegna Vinaleiðar. Í farvatninu er "þjónustusamningur" vegna Vinaleiðar upp á 2.000.000 kr á ári!

Jóna Hrönn sækir líka um styrk frá Garðabæ til að kosta störf Æskulýðsfulltrúa kirkjunnar!


Viggó - 21/10/06 21:08 #

Ég á nú ekki börn á skóla aldri en þegar að það kemur að því og ef þessi vinaleið er ennþá inní skólakerfinu þá tel ég það eðlilega kröfu af minni hálfu að hún innihaldi fólk af öllum trúarbrögðum. Eða það sem betra væri að trú væri farlægð með öllu úr vinaleiðinni því það er ekkert að því að kenna siðferði.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/06 22:24 #

Fjársjúgandi og hindurvitnaboðandi óbermi!

Afsakið gott fólk, ég bara varð...


Arnold Björnsson - 21/10/06 23:05 #

Kirkjan er siðferðislega á mjög gráu svæði þegar hún býður börnum upp á viðtöl án vitneskju foreldra barnanna.


Gunnar örvarsson - 22/10/06 00:51 #

Að bjóða börnum eitthvert viðtal um trúmál án vitneskju foreldra er ekkert annað en gróft ofbeldi gagnvart þeim og fjölskyldu þess. Á sjálfur börn í barnaskóla í Garðabæ og hef í haust haft miklar áhyggjur af þessu máli. Fyrirfinnst virkilega sú stofnun í íslenzku þjóðfélagi sem vill beita slíku ofbeldi gagnvart íslenzkum fjölskyldum? Ef svo er, hversu djúpstætt bakland hefur slíkt afturhald og hverra umboð hefur það til sinna verka? Sjálfur, vil ég a.m.k. vernda börn mín gegn afturhaldi af þessu tagi. Fæ ég tækifæri til þess? Eða ætlar afturhaldið að ræna foreldrana börnunum og samvizku þeirra (og ég tek hér fram að samvizka hefur ekkert með Kristni að gera sem augljóst ætti að vera hverjum þeim sem lesið hefur hið minnsta í sögu).


Reynir - 22/10/06 03:56 #

Blaðið greindi frá málinu á bls. 2 á laugardag (21. okt). Þar segir:

"Skólinn á að byggja á kristnum grunni," segir Hilmar Ingólfsson skólastjóri í Hofsstaðaskóla. Hann segir andstöðu gegn þessu átaki sé ofstæki og jaðri við frekju.

Í Morgunblaðinu sama dag (bls. 42) er grein eftir Halldór Reynisson verkefnastjóra fræðslusviðs Biskupsstofu. Hann segir gagnrýni á Vinaleiðina byggða á misskilningi.


Arnold Björnsson - 22/10/06 04:13 #

Það er makalaust Reynir að þú skulir vera sakaður af opinberum starfsmanni um ofstæki og frekju fyrir það eitt að fara fram á að sjálfsögðum mannréttindum sé framfylgt. Mannréttindum sem eru varin í stjórnarskrá Íslands og með alþjóða sáttmálum. Ef einhver gengur fram með frekju í þessu máli þá er það þjóðkirkjan.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/06 04:31 #

Sjóður er varðar mannréttindadómstól SÞ núna strax! Nóg er af fjasi, röfli og tali. Ef fram heldur sem á horfir þá mun þetta verða Færeyjar. Stoppa þetta strax. Helst í gær.

Mér finnst einsog "við vs. þeim"-hugsunarhátturinn sé í miklum uppgangi hjá Þjóðkirkjunni þessa dagana.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/06 04:45 #

Þetta virkar allt saman á mig eins og að Þjóðkirkjan sé búin að gefa sjálfri sér heimild til að lokka til sín saklaus börn, án vitneskju og vilja forráðarmanna, til að hnýsast í einkalíf fjölskyldnanna, láta krakkana mala um ástandið heima fyrir. Þetta virkar á mig eins og gróft brot á friðhelgi einkalífsins.

En ég get svo sem haft rangt fyrir mér. En svona virkar þetta á mig.


Viddi - 22/10/06 20:12 #

Svona lagað er ekkert annað en gróft brot á þeim réttindum sem okkur eru gefin í stjórnarskra Íslenzka Lýðveldisins. En það er nú ekki í fyrsta skipti sem Þjóðkirkjan virðist hafa þetta merka plagg að engu. En ég furða mig samt á því hve litla umfjöllun þetta fær í imbakössum og dagblaðsleiðurum landsins. Eins og svo oft áður virðast Íslendingar alveg tilbúnir í að láta svona yfir sig ganga, það er öllum alveg nákvæmlega sama, eða þá að Íslendingar séu mun kristnari þjóð en við þorum að láta uppi.


Arnold Björnsson - 22/10/06 20:53 #

eða þá að Íslendingar séu mun kristnari þjóð en við þorum að láta uppi.

Það eru þeir ekki. Íslendingar iðka trú sína mjög lítið einfaldlega vegna þess að þeir eru upp til hópa trúlausir. Þeim er líka alveg sama hvað Kirkjan er að aðhafast, hún er ekki í hugum fólks daglega. Kirkjan er fyrir íslendingum eins og þjóðminjasafnið ,hluti af menningararfinum en hefur svo sem lítið að gera með daglegt líf landans. Kirkjan hinsvegar er í kreppu vegna þess að í eina tíð var hún valda mikil stofnun sem hafði eitthvað undir sér. Það veldur Kirkjunnar mönnum miklum áhyggjum hve litla hlutdeild hún hefur orðið í samfélaginu og þess vegna er kirkjan að bregðast við með þeim hætti sem sjá má þessa dagana. Örvæntingarfull viðbrögð deyjandi stofnunar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/10/06 08:39 #

Athugasemd Lárusar Páls Birgissonar var færð á spjallið


Reynir - 24/10/06 12:01 #

Sæl. Þið hafið kannski gaman af því að heyra af ritskoðuninni á www.tru.is sem rekin er af kirkjunni en þar birtist grein Halldórs Reynissonar um Vinaleiðina

Ný athugasemd við færslu #276 "Um trúvæðingu og Vinaleið í skólum" bíður samþykkis http://tru.is/pistlar/2006/10/um-truvaedingu-og-vinaleid-i-skolum/

Sendandi : Reynir Harðarson

Athugasemd : Þvílíkur reginmisskilningur. Að nokkur skuli láta sér detta í hug að þjóðkirkjan eða þjónar hennar vilji BOÐA fagnaðarerindið í sínum störfum eða að BOÐskapur Krists komi þar nokkuð við sögu.

Þerna nokkur sá Pétur sitja í bjarmanum, hvessti á hann augum og sagði: "Þessi maður var líka með honum." Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki." Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim." En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki." Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður." Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við maður."

Svo kom bréfið:

On Mon, 23 Oct 2006 18:19:30 -0000 Árni Svanur Daníelsson arni.svanur.danielsson@kirkjan.is> wrote:

Komdu sæll.

Viljir þú senda inn ummæli þá þurfa þau að bæta einhverju við umræðuna. Þér er frjálst að setja fram gagnrýni á kirkjuna og starf hennar, en hún þarf að vera studd rökum og sett fram á kurteisan hátt.

Virðingarfyllst, Árni Svanur Daníelsson

Og ég svaraði:

Sæll sjálfur, ritskoðari. Ég taldi ummæli mín einmitt bæta nýrri vídd í umræðuna og tengja hana ritningunni. Ég fæ heldur ekki séð að ég hafi verið ókurteis. En það er svo margt sem ég ekki skil eða sé þegar að þessu máli kemur. Kannski er blindan líka á öðrum stöðum. Góðar stundir. Reynir

Ég reyni ekki framar að blanda mér í "umræðuna" á tru.is


Árni Árnason - 24/10/06 22:22 #

Orð þessara tveggja kumpána hér að neðan verða ekki látin liggja óbætt hjá garði.

"Skólinn á að byggja á kristnum grunni," segir Hilmar Ingólfsson skólastjóri í Hofsstaðaskóla. Hann segir andstöðu gegn þessu átaki sé ofstæki og jaðri við frekju.

Í Morgunblaðinu sama dag (bls. 42) er grein eftir Halldór Reynisson verkefnastjóra fræðslusviðs Biskupsstofu. Hann segir gagnrýni á Vinaleiðina byggða á misskilningi.

Hilmar þessi Ingólfsson vogar sér að kalla það ofstæki og jaðri við frekju, að okkur skuli finnast eitthvað að leyndri og ljósri trúarítroðslu í skyldunámsskólum. Það er þá kannski best að hann átti sig á því að þetta krossberandi bábiljulið, djáknar, prestar annað álíka, á ekkert með að egna beitu sinni fyrir saklaus börn, sem eiga að vera á griðasvæði innan veggja skólanna. Það jaðrar ekki við, heldur bara er rétt og slétt helvítis frekja. Þetta skal ég standa við á hvaða vetvangi sem er Ingólfur.

Halldór Reynisson er öllu mýkri, eins og hans er vandi, en heldur að hann geti slegið ryki í augu fólks með einhverju misskilningstali. Það er rétt að hann viti það, að ef einhver eða einhverjir eru að misskilja eitthvað þá eru það krosshangadýrkendurnir sjálfir sem viljandi misskilja landslög, og hlutverk sitt. Það er enginn misskilningur að Vinaleiðin er ekkert annað en illa dulbúin bábiljuítroðsla. Ef menn vilja finna henni einhver fegurri nöfn, þá þarf viljandi misskilning til, öðru nafni óheilindi. Þetta skal ég líka standa við hvar sem er.


Ólafur S - 26/10/06 00:58 #

"Í lögum um grunnskóla segir í 2. grein: "Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.""

Athyglisvert að lögin séu orðuð svona. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að kristnir einstaklingar deili ekki sömu siðgæðisvitundinni. Til rökstuðnings get ég nefnt hvernig þeir deila um ritningatúlkanir þegar kemur að ýmsum siðferðislegum hitamálum, t.d. viðhorfum til samkynhneigðra - sem þjóðkirkjumenn virðast ekki einusinni geta verið sammála um.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 03:41 #

Það sem í almennu tali er kallað kristilegt siðgæði táknar í raun bara alennt siðgæði. Mann grunar að þetta hafi verið orðað svona í grunnskólalögunum til þess eins að gefa kirkjunni skjól til sóknarfæris.

Hverjir sömdu annars þessa klausu?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 10:53 #

Hverjir sömdu annars þessa klausu?

Björn Bjarnason yfirkrisslingur á heiðurinn af þessu.


Reynir - 26/10/06 17:39 #

Kirkjunnar menn klóra í bakkann á tru.is Gott gildismat og Jóna Hrönn prédikar

Rökin eru: Á enginn að hlusta á börnin? Á enginn að segja þeim að útlitið skiptir ekki öllu máli?

En við getum verið róleg. Kirkjan ætlar að sjá um þetta, eðlilega!


Arnold Björnsson - 26/10/06 19:24 #

Þessi ræða Jónu Hrannar er makalaus.

Góð gildi þurfa að greypast inn í barnssálina og stuðningur við foreldra er hagur allra. Heimili, skólar, kirkja, stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að hlusta á orð Jesú þegar hann spyr: “Er leyfilegt að hlusta á börn í hversdeginum eða ekki?” Er leyfilegt að skapa forvarnir sem byggðar eru á umhyggju og hlustun?

Ekki er hún að tala um trúboð! Nei forvarnir byggða á umhyggju og hlustun. Jesú kemur engu að síður oft fyrir í þessu samhengi í ræðunni.

Hún segir ennfremur.

Við lifum á spennandi breytingatímum, þar sem menningarstraumar mætast og nýjar hugmyndir skjóta upp kollinum í öllum áttum. Einmitt þess vegna, einmitt vegna þess að við erum fjölhyggjuþjóðfélag, þar sem margbreytileikinn ræður ríkjum í lífsháttum, trúarskoðunum og fjölskyldumunstri, þurfum við að iðka virka hlustun í anda Jesú Krists.

Ég átta mig ekki alveg á hvað hún er að fara hérna. Hún nefnir þarna margbreytileika meðal annars í trúarskoðunum og því þurfi að iðka hlustun í anda Jesú Krists!

Við þurfum að láta börnin okkar finna að þau eigi rödd, að þeirra sjónarmið séu gild, að þeirra líf sé að marka. Þau þurfa m.a. að finna og heyra að fjölskylda þeirra sé ekki jaðarfyrirbæri, heldur séu öll fjölskyldumynstur virt. Þau þurfa líka að vita frá fulltrúum þess trúfélags sem hér hefur verið nær einrátt öldum saman og mótað andlegt líf þjóðarinnar, að trúarafstaða foreldra þeirra sé virt, hver sem hún annars er.

Það þarf sem sagt fulltrúa þjóðkirkjunar til að segja börnunum að pabbi og mamma séu allt í lagi þó þau trúi á Múhameð, Búdda eða ekki neitt.

Þetta er einhver furðulegasta ræða eftir þjóðkirkjuprest sem ég hef lesið.

Ræðan gefur þó sterklega til kynna að trúarinnræting er hluti af vinaleið.


Arnold Björnsson - 26/10/06 20:36 #

Þjóðkirkjan leggur mikið á sig þessa dagana að bera út þann boðskap að foreldrar hafi engan tíma fyrir börnin. Að það sé gríðarlega mikilvægt að börnin eigi samfélag við fullorðna. Foreldrunum er ekki treystandi til að sinna þessum þörfum barnanna og því sé mikilvægt að börnin eigi trúnaðarsamband við prest í skólanum. Jesú kemur þessu að sjálfsögðu auðvitað ekkert við.

Í grein Þórdísar Ásgeirsdóttur um Vinaleið má lesa þetta. ( Þórdís hefur farið fremst í flokki við þróun Vinaleiðar)

Á skrifstofu VINALEIÐAR í skólunum er heimilislegt og notalegt. Á veggjum eru teikningar og ljóð eftir nemendur, bænavers og málshættir sem þeir hafa skrifað og skreytt. Myndir úr dagblöðum eða bæjarblöðum af skólastarfinu s.s. nemendum sem hafa safnað fyrir Rauða Krossinn eða Hjálparstarf kirkjunnar. Þar eru einnig myndir af nemendum í skólahljómsveit og kennurum skólans. Faðir vor er í ramma á vegg og sjö boðorð voru í einlægni skrifuð á blátt blað. Auglýsingamiðar um fundartíma alls barnastarfs kirkjunnar í Lágafellssókn og Jesúmyndir eru í körfu þar sem allir hafa góðan aðgang að og geta fengið miða og mynd. Þar liggja líka bæklingar um réttindi barna samkvæmt Barnasáttmála sameinuðuþjóðanna sem Ísland er aðili að. Skrefin tökum við saman í átt að því sem er jákvætt, fagurt og fullkomið í jafnvægi og kærleika.

Tekið héðan Leturbreiting mín.

Þarna er lýsing á hvað ber fyrir sjónir í því rými sem Þórdís notar í þessum viðtölum. Þarna er Faðir vorið í ramma á vegg, barn hefur byrjað að skrifa boðorðin á blað. Bænavers sem börnin hafa skrifað og myndskreitt! Ég efast um að það hafi verið að frumkvæði barnanna. Þarna er líka verið að útbíta biblíumyndum.

Ég spyr því hvernig dettur þessu fólki það í hug að halda öðru fram en að um trúarinnrætingu sé að ræða. Þarna er lýsing á því hvernig kristinni trú er haldið að börnum í þessum viðtölum.

Framkoma kirkjunnar í þessu máli er móðgun við foreldra þessa lands.

Ég segi við ykkur kirkjunnar fólk, sýnið siðferðisþrek og hættið að segja ósatt í þessu máli. Viðurkennið ásetning ykkar, annað verður ykkur einungis til minkunar.


Árni Árnason - 27/10/06 12:52 #

Ég efast ekki um að krosshangagengið telur sig vera að vinna kærleiksverk, en undirliggjandi trúarinnræting þeirra er hverjum heilvita manni auðséð. Trúarslepjan lekur af þessu í allar áttir. Biblíumyndir og bænavers. Trúfrelsi barnanna er fótum troðið í nafni helgislepjunnar. Þetta er alveg eins og hjálparstarfið sem unnið er víða um heim, fæði, klæði, hreint vatn, menntun, og heilbrigðisþjónustu er ekki hægt að veita af góðmennsku og mannkærleik einum saman, heldur skal vogaraflinu sem fylgir því að gefa hungruðu barni að borða beitt samviskulaust til að smygla inn á það trúarskoðunum. Manni verður hreinlega óglatt yfir hræsninni og yfirdrepskapnum. Svo þykist þetta fólk ekkert skilja í því að okkur finnist eitthvað að þessu.

Ég legg til að "Vinaleiðin" verði hér eftir kölluð Kirkjuvinaveiðin.

Á ekki Krissi sjálfur að hafa sagt einhvers staðar: Héðan í frá skalt þú menn veiða ?


Sævar Már - 27/10/06 20:24 #

Ég bara trúi ekki að þetta sé að gerast! Ef að ég ætti barn í skóla þá mundi ég..... ég bara veit ekki hvað ég mundi gera.

Hvað getum við gert?


Arnold Björnsson - 27/10/06 21:23 #

það gerist því miður ekkert. Við getum mótmælt og látið í okkur heyra. Það mun ekki bera nokkurn árangur, það er full reynt. Þetta verður bara þagað í hel og kirkjan mun ná sínu fram. Við munum sennilega sjá skólapresta í flestum skólum á næstu árum. Það er bara eitt eftir og það er málsókn.

Kirkjan hefur sýnt af sér einstaklegt siðleysi. Því verður varla hægt að taka hana alvarlega þegar hún predikar siðferði hér eftir. Siðferði sem á að vera öllu öðru siðferði æðra þ.e. kristilegt siðferði.

Þetta er sorglegt.


Árni Árnason - 28/10/06 10:39 #

Af hverju dettur manni í hug hrægammar og hyenur ?

Tækifærissinnar ?

Hvar sem eitthvað bjátar á, alkóhólismi, sjúkdómar, einelti, erfiðleikar á heimili, fátækt, þá eru þeir mættir. Þeir meiga ekkert aumt sjá, án þess að notfæra sér það. Þeir eru eins og "ambulance chasers" sem þefa uppi erfiðleika til þess að fá fórnarlömbin í viðkvæmu ástandi til að bætast í kúnnahópinn sinn. Þó að allt þetta vinaleiðarbrölt sé set fram undir yfirskini kærleika og góðmennsku, þá hangir alltaf eitthvað annað á spýtunni.

Við vitum öll hvað hangir á spýtunni,(fyrir utan auðvitað 2000 ára gamalt lík)


G2 (meðlimur í Vantrú) - 28/10/06 12:03 #

Hvað getum við gert?

Farið í mál við þetta hyski. Það eru engin önnur úrræði.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/10/06 16:10 #

Hér gefur að líta úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna kvörtunar norskra foreldra um trúaráróður í kristinfræðikennslu. Málið verður tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu 6. desember.

Óttalega eru Íslendingar aftarlega á merinni.


Halldór E. - 29/10/06 16:54 #

Þarna verð ég að gera athugasemd Reynir. Ef úrskurðurinn er skoðaður kemur í ljós að brotið er bundið við 18. grein 4. málsgrein og byggir á því að foreldrar geta ekki hafnað þátttöku í kristnifræðikennslu. Slík heimild hefur verið til staðar á Íslandi um áratugaskeið.

Annað sem er áhugavert er að Dawkins og fleiri trúleysingjar sem vísað er í á þessari síðu, hafa gagnrýnt innihald þessarar 18. greinar, 4. málsgreinar harkalega.


Arnold Björnsson - 29/10/06 18:15 #

Halldór, hvar er vísað í Dawkins á þessari síðu? Ég finn það ekki.


Halldór E. - 29/10/06 19:22 #

Það sem vakti athygli mína, er að brot norska ríkisins felst í því að virða ekki skilyrðislausan rétt foreldra til að ráða og stjórna trúaruppeldi barna sinna.

Hér á Vantrú hefur verið efast um að þessi réttur eigi að vera til staðar og vísað í Dawkins í því sambandi. Það má sjá t.d. hér. Ég notaði orðið síða í stað vefs og biðst afsökunar á því.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/10/06 19:30 #

Þetta eru útúrsnúningar (nánast dylgjur) Halldór.

ps. settu gæsalappir utan um vefslóðina þegar þú setur inn vísun.


Halldór E. - 29/10/06 19:37 #

Já, það er rétt Matti, að eftir að ég hafði skrifað fyrri færsluna þá fannst mér vísunin við Dawkins ekki eiga heima hér. Enda er ég að vísa í annað en málið sjálft. Þetta gerist stundum í umræðunni. En ég taldi samt rétt að útskýra málið fyrir Arnold.

Hins vegar er mikilvægt að átta sig á því, að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gerir EKKI athugasemd við Kristnifræðikennslu eins og henni er háttað í Noregi, heldur þá staðreynd að foreldrum er EKKI heimilt að taka börnin út úr kennslunni.

Sú heimild er til staðar á Íslandi og því er athugasemdin um að Íslendingar séu aftarlega á merinni, röng með hliðsjón af þessu máli alla vega.

En ég ítreka aftur að athugasemdin um meinta afstöðu Dawkins átti ekki við hér.


Arnold Björnsson - 29/10/06 19:41 #

Það sem Dawkins á við þarna er að börn fæðast ekki með trúarskoðanir. Ég er viss um að þú ert sammála því Halldór. Hann er ekki á móti rétti foreldra til að ala börn sín upp í þeirri trú sem þau aðhillast. Ég hef alla vega ekki séð það haft eftir Dawkins eða séð hann halda því fram.


Halldór E. - 30/10/06 01:23 #

Við erum komnir út fyrir efnið. En þar sem Dawkins er á móti því að foreldrar ali börn upp í þeirri trú sem þau aðhyllast, það er skýrt í framsetningu hans, þá ályktaði ég að hann væri á móti rétti foreldra til að ala börn upp í þeirri trú sem þeir aðhyllast. Ég virðist því oftúlka þarna skoðanir kappans.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/10/06 11:33 #

Halldór E. Við virðumst ekki lesa þetta með sömu gleraugum. Mér sýnist nefndin taka fullt tillit til kvartana foreldranna og þær snerust ekki eingöngu um undanþáguúrræðið.


Halldór E. - 30/10/06 12:47 #

Vissulega skoðar nefndin allar kvartanirnar og kallar eftir viðbrögðum frá ríkisvaldinu í Noregi, en niðurstaðan er birt í efnisgreinum 14.1-17 og þá sér í lagi efnisgreinum 14.7, 14.8 og 15.


gústaf - 19/05/08 09:19 #

he7y ég er kristinn og þið ekki svo ekki vera að dissa mig


sosos - 19/05/08 09:23 #

heyb ég er kristin en þið ekki svo ekki vera að spila bingó á föstudaginn langa.P.S ekkki vera að dissa mig því nþá fáið þið það bara verra til baka.


sosos - 19/05/08 09:23 #

heyb ég er kristin en þið ekki svo ekki vera að spila bingó á föstudaginn langa.P.S ekkki vera að dissa mig því nþá fáið þið það bara verra til baka.


Master Chief - 27/05/08 13:54 #

Halló,

Mér finnst þessi grein vera grátbroslega fyndin og lýsandi dæmi um samstæðu eða þegar tveir andstæðingar eru í raun sama sinnis um að nota sömu aðferðina til að blekkja sama hópinn. Annar vill að bók eftir hroðalegann fjöldamorðingja verði notuð sem e.k. leiðbeiningabæklingur fyrir börn að unga aldri en hinn er bara venjulegur maður sem er að leika sér og gera sína skyldu. Góður punktur með skólasatanistann. Ég held að þetta verði þannig með skólaskrifstofurnar í framtíðinni hér á landi að þær verða allar fullar af pínulitlum viðarkirkjum og litlum viðarmoskum og enginn getur labbað um stofurnar því þær verða alltaf fullar. Ekki þarf að borga fyrir viðarkirkjurnar eða viðarmoskurnar eða viðar hitt og viðar þetta í míní - útgáfu af trúarhofi og sennilega verða trúleysingjar einnig komnir með eigin kirkju fyrr en varir. Þá er þetta leyst mál. Þá erum við búin að búa til nýja myndlist og farin að breyta skólastofunum í gallerý fyrir viðarkirkjur og svo seljum við þær bara út til að rýma fyrir og allir eru svo úti að leika sér og enginn er að læra í skólanum. Yrði það ekki alveg gasalega lekkert?

bestu kveðjur,


Bryan - 18/09/10 00:51 #

Mjög áhugavert í alla staði. Þetta er í fyrsta sinn sem að ég er að lesa vantru.is og finnst það mjög spennandi, minnir mig dálítið á barnaland.is. Haldið endilega áfram að pósta og ég ætla að halda áfram að lesa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.