Undanfarin ár hefur borið æ meira á því að prestar og jafnvel djáknar séu með viðveru og kynningar í grunnskólum landsins við öll möguleg tækifæri og hafa m.a. sett á fót kristilega ráðgjafaþjónustu innan veggja þriggja skóla.
Í Hofsstaðaskóla í Garðabæ, er þjónusta sem kallast Vinaleið. Á forsíðu vefseturs skólans má finna upplýsingar um þjónustuna, sem byggir á “kristilegri sálargæslu og forvarnarstarfi” sem Þórdís Ásgeirsdóttir djákni var frumkvöðull að og er orðin sjö ára gömul. Verkefnið var upphaflega þróað í samvinnu við kirkju og skóla í Mosfellsbæ en þar er Þórdís með viðtöl og samskiptanámskeið fyrir börn. Vinaleið er einnig til boða í Flataskóla, Garðabæ í umsjón "skóladjákna". Í lýsingu á Vinaleið í Hofsstaðaskóla segir:
Með stuðningsviðtölum við nemendur er leitast við að leiðbeina, sætta, styrkja og gera heilt. Það er aðalinntak sálgæslunnar. ... Sálgæsluviðtölin eru stuðningsviðtöl en ekki meðferðarviðtöl. Góð samvinna er á milli fagaðila í grunnskólanum svo sem kennara, námsráðgjafa, sálfræðinga, deildarstjóra sérkennslu...” Áfram segir: “Boðleiðir Vinaleiðar eru þrjár: 1) Nemandi óskar eftir þjónustu beint við fulltrúa Vinaleiðar eða hann talar við umsjónarkennara. 2) Umsjónarkennari sækir um fyrir nemanda sinn. 3) Foreldri biður um viðtal. Viðtölin fara fram á skrifstofum Vinaleiðar í skólanum. Föst viðvera skóladjákna eða skólaprests í skólanum er undirstaða þess að þjónustan sé virk. Vinaleið er einnig stuðningur við kennara.
Allt hefur þetta greinilega verið sett af stað í góðri meiningu en jafnframt von djákna / presta og Þjóðkirkjunnar til að hafa sín áhrif á börnin. Ég vil gagnrýna þetta af eftirfarandi ástæðum:
Liður í trúboði og sókn Þjóðkirkjunnar
Karl Sigurbjörnsson biskup nefndi í setningarræðu Prestastefnu Íslands 2006 (sjá á kirkja.is) eftirfarandi undir fyrirsögninni “Sóknarfæri kirkjunnar”:
“Sérþjónustan á sjúkrahúsum ... Fullorðinsfræðslan.... Námskeið um sorg og sorgarviðbrögð, biblíunámskeið Alfa námskeið, hjónanámskeið, bænabandið, tólf sporin allt hefur þetta opnað nýjar gáttir. Gleðilegt að sjá þegar slík námskeið opna brýr yfir til helgihaldsins. ... kyrrðardagar .... Vinaleiðin er stórmerkilegt framtak í Mosfellsprestakalli. Ég vildi óska að fleiri skólar og sóknir tækju höndum saman um slíka leið.”
Mér verður ómótt við þennan lestur. Af þessu er ljóst að yfirmaður Þjóðkirkjunnar styður starfsemi eins og Vinaleiðina heils hugar og ber enga virðingu fyrir því að börn eiga að vera í friði frá trúboði í skólum landsins.
Ég á ekki orð yfir þessari innrás fulltrúa Þjóðkirkjunar inn í grunnskólana. Er þeim ekki nóg að halda Sunnudagaskóla og KFUM/K í sínum húsum? Þurfa þeir að troða sér inní skólana í krafti þess að 84% landsmanna eru skráðir í Þjóðkirkjuna? Það skiptir engu máli hvort að það eru 1% eða 99% sem eru í henni. Trúboð rétt eins og stjórnmáláróður á ekki rétt á sér innan veggja skólanna. Ég vil biðja alla þá sem vilja gæta jafnræðis og mannréttinda innan menntakerfisins að mótmæla þessu.
Birtist í Morgunblaðinu 14. október 2006
Þessi öfugþróun á sér stað á sama tíma og verulega er dregið úr menntun kennaranema við háskólann á Akureyri í stærðfræði og raungreinum:
Mánudaginn 23. október kl. 15 verður haldinn kaffifundur á vegum eðlisfræðistofu í innri kaffistofu Tæknigarðs. Þar mun dr. Stefán Jónsson eðlisfræðingur fjalla um efnið
Staða stærðfræði og raungreina í kennaranámi við Háskólann á Akureyri.
Ein af boðuðum áherslum í kennaranámi við kennaradeild HA var ítarlegt nám í kennslugreinum grunnskólans. Þótt deila megi um hvort það hafi tekist þá hefur þó verið lögð meiri áhersla á stærðfræði og raungreinar fyrir alla kennaranema en tíðkast hefur við KHÍ. Svipuð skipan hefur haldist varðandi þessar greinar frá upphafi en fyrstu nemendur luku prófi sem grunnskólakennarar 1996. Í endurskoðun þeirri sem átti sér stað síðastliðinn vetur var áhersla á stærðfræði og raungreinar svo minnkuð verulega. Ætlunin er að gera örstutta grein fyrir umfangi þessara greina fyrir og eftir þessa breytingu. Drepið verður á hvernig þessi breyting átti sér stað og hvað búast megi við að gerist næstu árin.
Hvað er að gerast í samfélaginu?
Bréf Reynis, sem Þorsteinn minnist á í athugasemd sinni, er komið á Vantrúarvefinn.
Þetta er mjög alvarlegt. Ekki er síður áhyggjuefni að sjá hve vægi trúarbragða, óhefðbundinna lækninga og annara hindurvitna er mikið í fjölmiðlum á meðan lítið er fjallað um vísindi. Ég held að það væri þjóðhagslega hagkvæmara til lengri tíma litið ef hlutföllunum væri öfugt farið.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Þorsteinn Ásgrímsson - 20/10/06 11:31 #
Littlu hægt að bæta við þetta, segir mest allt sem segja þarf um þetta ranglæti sem er að ná fram að ganga í Garðabænum. Vil samt benda á að það er einn einstaklingur sem er einmitt að byrja að berjast gegn þessu (hann er sálfræðingur, þannig að ósk þín um að þessar starfséttir bregðist við er að uppfyllast)og á hann hrós skilið fyrir það. Hann hefur nú þegar borið út blað til alls Garðabæjar þar sem þetta er kynnt og gagnrýnt.