Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ofþensluvandi Þjóðkirkjunnar

Ofþensla er vandamál sem heimsveldi hafa oft farið flatt á: Að ætla sér meiri kröfur en þau geta fylgt eftir. Sami vandi þekkist hjá stofnunum sem áskilja sér meira en þær höndla. Þegar Ottó von Bismarck heyrði að Ítalir ætluðu sér að byggja upp her sinn að prússneskri fyrirmynd, komst hann svo að orði: „Græðgin er óskapleg, en þeir eru illa tenntir.“

Þjóðkirkjan er ein af þessum stofnunum. Hún færist meira í fang en raunhæft er. Tveir þriðju hlutar landsmanna vilja aðskilnað ríkis og kirkju en kirkjan streitist á móti. Sólargeislar mannréttinda til handa samkynhneigðum ná nú sem betur fer í flest skúmaskot þjóðfélagsins, nema helst inn í katakombur Þjóðkirkjunnar. Hvað getur hún gert? Hvað getur hún gert? Það er sama hvernig hún snýr sér, hún getur ekki þóknast öllum ef hún tekur afstöðu til annars en umferðarslysa eða náttúruhamfara. Hún notar of lágan samnefnara.

Þegar öllu er á botninn hvolft, hvert er þá hlutverk kirkjunnar? Að fá sóknargjöld (auk framlaga úr Kirkjumálasjóði og Jöfnunarsjóði sókna, að ógleymdum margs kyns fríðindum) frá sem flestum skattgreiðendum eða að sinna trúuðum sem best? Að fá sem flesta krakka til að fermast þótt það sé gert ólöglega, en skeyta engu um það þótt næstum engir þeirra komi nokkurn tímann framar í venjulega messu? Beita óvönduðum meðölum til að sá óumbeðnum fræjum í varnarlausa huga?

Þjóðkirkjan glímir við ofþenslu og hún veit sem er, að þegar hún tekur afstöðu sem einhverjir eru ósammála, þá fækkar í henni. Átakafælnara batterí er því vandfundið. Hverjum dettur í hug að það sé hægt að þóknast öllum í samfélagi sem er jafn margklofið í ólíka hópa og okkar? Vandi Þjóðkirkjunnar er að hún ætlar sér stærra hlutverk en hún getur skilað.

Árið 117 varð Hadríanus keisari í Róm. Hans er minnst fyrir margs kyns skörungsskap og strategíska sýn á málefni heimsveldisins. Hann gaf upp á bátinn landakröfur þar sem nú eru Norður-England og Skotland, þar sem Rómverjar höfðu gert tilkall til yfirráða en ekki haft vald til að fylgja tilkallinu eftir. Það svaraði ekki pólitískum og hernaðarlegum kostnaði að halda kröfunum til streitu, svo hann lét það eftir sem var ekki hægt að verja, og byggði í staðinn múr sem enn stendur og er við hann kenndur. Einnig gaf hann eftir miklar valdakröfur í austri í friðarsamningum við Parþaveldið, og gat þannig losnað við feiknamikið land sem ekki hefði svarað kostnaði að verja. Með öðrum orðum, þá sendi hann rómverska heimsveldið í megrun. Frekar að gera aðeins minna en gera það vel heldur en að taka sér meira fyrir hendur en maður ræður við.

Sumir söfnuðir á Íslandi eru samstæðir og samhuga og virkir jafnt félagslega sem trúarlega. Þeir eiga það sameiginlegt að vera litlir en samanstanda af mótiveruðu fólki sem kemur gjarnan þangað sjálft. Þessir söfnuðir eru ólíkt spengilegri hinni skvapholda Þjóðkirkju. Ef Þjóðkirkjan vildi rækja hlutverk sitt, að sinna kristnu fólki á Íslandi, þá hefði hún ekki not fyrir alla þá sinnuleysingja sem fylla raðir hennar nú. Hún mundi heldur ekki berjast fyrir lengri lífdögum þess kerfis sem hafa valdið henni þessum velmegunarsjúkdómum, sambandi ríkis og kirkju.

Fyrst kirkjan fer ekki að dæmi Hadríanusar og gefur eftir það tilkall sem hún hefur ekki vald til að fylgja eftir, en velur í stað þess að reyna að þóknast öllum, þá er tæpast hægt að álykta annað en að helsta áhugamál hennar sé að fá sem mest af sóknargjöldum frá sem flestum.

Vésteinn Valgarðsson 18.10.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


foreldri - 18/10/06 09:36 #

Hárrétt. Sterkustu rökin gegn aðskilnaði ríkis og kirkju eru einmitt þau að við skilnaðinn gæti þursinn vaknað og farið að gera eitthvað. Núverandi stefnu-, aðgerða-, ráða og dugleysi þjóðkirkjunnar er mikil "guðs blessun" í sjálfu sér. Í vellystingum og spiki sínu er hún meinlausari en ella, þótt vissulega sé blóðugt að kosta svall hennar úr eigin vasa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/10/06 10:27 #

Ég er ekki viss um að þetta sé rétt. Í krafti þess að vera ríkisstofnun steðjar Þjóðkirkjan af auknum þunga inn í skólakerfið og níðist þar á ungviðinu með trúaráróðri og bænalífi. Ekkert barn getur vaxið úr grasi hér án þess að hafa verið innrættar hugmyndir um syndabyrði, frelsun og útskúfun. Hvers eiga börnin að gjalda að þurfa að burðast með slíkar ranghugmyndir um veröldina?

Látum þursinn vakna. Einörð afstaða í viðkvæmum málum, auk tekjutapsins af sóknargjöldunum mun valda því að við verðum álíka mikið vör við þessa kirkju og Krossinn, gætum meira að segja losnað við stöðugt áreitið í Ríkisútvarpinu.


foreldri - 18/10/06 11:26 #

Ég er sammála þér, Birgir. Sterkustu rökin gegn aðskilnaði ríkis og kirkju duga ekki til að snúa mér. Megi orð þín rætast, "ef guð lofar".


Guðmundur D. Haraldsson - 18/10/06 20:03 #

Tveir þriðju hlutar landsmanna vilja aðskilnað ríkis og kirkju [..]

Hvaðan eru þessar tölur komnar?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/10/06 20:17 #

Frá Gallup. Sjá m.a. hér

(Google er merkilegt fyrirbæri!)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 18/10/06 20:19 #

Þessar tölur eru komnar úr Gallup könnunum. Niðurstöður síðustu ára má sjá hér.

Stuðningurinn við aðskilnað ríkis og kirkju hefur mælst 2/3 frá 2002 og hefur verið yfir 60% frá 1997.


StjörnuBilur - 19/10/06 05:58 #

[athugasemd færð á spjallið]


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 19/10/06 14:41 #

Þjóðkirkja Íslendinga er ekki illa tennt - þar liggur meinið. Hún er að vísu ekki með "náttúrulegar" tennur - heldur gullslegna stálbrú sem stenst allar árásir. Þökk sé ríkisvaldinu. Og nú hefur hún tekið upp á því - vegna allra djáknanna sem hún ungar út og vantar sárlega verkefni að búa sér til það sem biskupinn kallar "sóknarfæri" - að koma djáknum fyrir í hverjum grunnskólanum á fætur öðrum undir því yfirskini að þeir eigi að veita börnum stuðning - en eru þó fyrst og fremst að boða kristni og dreifa biblíumyndum. Göbbels hefði verið fullsæmdur af áróðursmaskínu þjóðkirkjunnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.