Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Enginn getur þjónað tveimur herrum

Þjóðkirkjan er með 85% Íslendinga innanborðs þótt innan við helmingur þeirra aðhyllist trúna sem hún boðar og mikill meirihluti landsmanna vilji aðskilnað ríkis og kirkju. Við höfum þráfaldlega séð það undanfarin ár að Þjóðkirkjan getur ekki tekið afstöðu á álitamálum án þess að vekja hneykslun og að fleiri eða færri skrái sig úr henni. Skýringin er líklega sú að áhyggjur kirkjunnar af því hvað fáir eru kristnir á Íslandi ganga meira út á að þá séu þeir líklegri til að fælast við einhver frumhlaup kirkjuhöfðingjanna og skrá sig úr Þjóðkirkjunni, heldur en að þá verði allt þetta fólk ekki sáluhólpið.

Þjóðkirkjumenn ættu að gefa meiri gaum að 6. kafla Mattheusarguðspjalls, þar sem segir m.a. (6:1) „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.“ Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að hlaupa eftir skoðunum nútímamanna og samþykkja hjónavígslur fráskilinna eða samkynhneigðra (sem Biblían viðhefur skrautlegri orð um)? Í Matt. 6:24 segir: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“

Er nema von að Þjóðkirkjan komi sér í annkannalega stöðu þegar hún reynir að þjóna tveim herrum og vera vinur allra? Allir vita að það er ekki hægt að vera vinur allra. Sá sem reynir það verður á endanum fárra vinur en í besta lagi tækifærissinni í augum allra hinna. Ef trú er lífsafstaða, hvernig getur trúfélag þá látið reka á reiðanum ár eftir ár án þess að krefja meðlimi sína um neina afstöðu? Jú, klink í kassann.

Vésteinn Valgarðsson 13.10.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Davíð Örn - 13/10/06 08:43 #

Oftar en ekki heyrir maður að Þjóðkirkjan er svo stór að hún rúmi "allar" skoðanir...er ekki viss um að það sé svo gott frá hvorki "Guðs hliðinni" né "veraldlegri hliðinni"

Áægður með þessa grein!


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 13/10/06 09:25 #

Þjóðkirkjan er Framsóknarflokkur trúfélaganna. Þeir þjóna hvaða herra sem færir þeim völd og snúast eins og vindurinn blæs. Þess vegna munu þeir bráðum skoða hjónabönd samkynheigðra í "ljósi Krists" og skipta um skoðun.

En góð grein.


Árni Árnason - 13/10/06 18:04 #

Það eru gömul sannindi og ný að kirkjan er löngu hætt að vera félgsskapur trúaðra, þ.e. þeirra trúuðu sem aðhyllast sömu guðfræði, sömu kenningar. Kirkjan er stofnun, sem hefur það eina hlutverk að vernda sína eigin tilveru, og skara eld að sinni köku. Ef kirkjan væri raunverulega félagsskapur sanntrúaðra, væri það hún sjálf sem gengi fremst í kröfugöngunni um aðskilnað ríkis og kirkju. Ef kirkjan væri í alvörunni félagsskapur sanntrúaðra, væri aðild að henni bundin ströngum skilyrðum um aðskilnað frá peningalegu veraldarvafstri. Ef kirkjan væri í alvöru félagsskapur sanntrúaðra myndi ferming felast í því að bera þyrnikórónu og þungan kross upp á Öskjuhlíð, undir húðstýkingum, og algerri afþökkun fermingargjafa, annarra en tólgarkertis og etv. lúinnar biblíu látins langafa. Ef kirkjan væri í alvöru samfélag sanntrúaðra, væru prestarnir t.d. tamningamenn, tannlæknar eða trésmiðir að atvinnu og predikarar í eigin frítíma á kvöldin og um helgar.

Einstaka trúarnöttarar eru sjálfsagt ægilega kristnir og eftir því heilagir, en flest er þetta bara vel launað fólk í þægilegu innidjobbi.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 13/10/06 20:04 #

Sjálfsagt eru prestarnir jafn misjafnir að gæðum (ef þannig má að orði komast) og þeir eru margir, og ég efast ekki um að "alvöru" sérfræðingar væru betri í mörgum þeim störfum sem prestastéttin hefur næstum einkarétt á. En ég held að "þægilegt innidjobb" sé ekki góð lýsing á starfi prests, sérstaklega þegar um fleiri sóknarbörn er að ræða. Þú ert á vakt tventíforseven, verður að gjöra svo vel og sætta þig við að fá hringingu frá bláókunnugu fólki klukkan ellefu á laugardagskvöldi, þarft oft að starfa við aðstæður þar sem hörmungar hafa riðið yfir, veita sorgmæddum huggun og sárum líkn. Ég vorkenni þeim ekki fyrir starfið sem þau völdu sér - en þetta er ábyggilega erfitt á köflum og hrikalega lýjandi.


Fiffi - 14/10/06 21:28 #

Mikið er það ægilega fínt að heyra frá vantrúuðum hvernig sannkristin kirkja á að hegða sér. Hreinar og beinar línur, ekkert vafstur og vesen. Verst að þú skulir vera vantrúaður Árni, annars gætirðu sjálfsagt bjargað kirkjunni.

En leyfi ég mér að láta í ljós ánægju mína með þessa grein. Þó ég sé nú kannski ekki sammála efni hennar er hún rökstudd og skýr.

Þá er auðvitað rétt það sem jogus bendir á. Prestsembættið er alls ekki starf sem allir valda og segi ég fullum fetum að ekki valdi því allir prestar. En hver á að meta það annar en maður sjálfur fyrir sig? Ég hef ekki heyrt af evrópustaðli fyrir presta. Svo get ég nú ekki sagt að það fylgi heilli stétt að standa vörð um eigin hag, ef þannig má að orði komast. Græðgi er persónueinkenni - ekki akademískt áunninn hæfileiki. Ergo: Þó Þjóðkirkjan væri rekin sjálfstæð án afskipta ríkisvaldsins væri hún ekkert snauðari af mönnum og konum sem vilja það eitt að komast í 'þægilegt innidjobb'. Svona gagnrýni er auðvitað bara fáránleg.

Árni fullyrðir að ef Kirkjan væri svona og hinsegin í staðin fyrir það sem hún er í dag þá væri hún betri kirkja. Við sjáum nú alveg góð dæmi um hvað boð og bönn gera fólki, sama í hvaða samhengi við setjum þau. Trú er persónulegt mál - rétt eins og aksturslag. Það er lítið mál að skrifa undir yfirlýsingu um að passa sig nú í umferðinni og drífa sig svo af stað út í umferðina og aka eins og vitleysingur. Eins er að segjast aðhyllast einhverjar lífsskoðanir og gera svo þvert á það. Hverjum kemur það í raun við nema manni sjálfum og hver á þá að dæma?

Þá vildi ég vinsamlega benda á að það er ekki undarlegt að vantrú(aðir) fái skömm í hattinn fyrir að vera ódrengilegir í garð trúaðra þegar ekki er hægt að minnast á þá öðruvísi en að kalla þá nöttara. Þetta orðalag lýsir engu öðru en óeðlilegri vanþóknun og óvirðingu í garð þeirra sem ákveða með sjálfum sér að lifa á einn hátt en ekki annan. Er óeðlilegt að mönnum bjóði við öðrum eins barnaskap? Vissulega geri ég mér grein fyrir því að þau ummæli sem ég tek hér til gagnrýni eru ekki komin frá vantru.is heldur sem persónuleg ummæli, en ég veit ekki hvort viðkomandi tilheyrir opinberu samfélagi vantrúaðra eða hvernig þetta lítur nú allt út.

Það breytir því ekki að á þá sem skrifa á vefinn sem yfirlýstir vantrúarmenn - hvort sem þeir tilheyra ritstjórn eða skrifa persónulega - verður alltaf litið sem talsmenn þess sem þeir standa fyrir, rétt eins og alltaf verður litið á trúaaða sem talsmenn þess sem þeir standa fyrir.

Í ummælum sem þessum eru velviljuð tilmæli ritstjórnar allavega ekki virt, þ.e. þau að lesendur skulu vinsamlegast sleppa öllum ærumeiðingum í ummælum sínum og finnst mér að ritstjórn ætti á einhvern hátt að bregaðst við því til að sýna ábyrga ritstjórnastefnu sína í verki. Þó að ummæli hafi af og til verið fjarlægð af vefnum er ég ekki að leggja til að gripið verði til svo róttækra aðgerða gegn tjáningafrelsi en smávegis skömm í hattinn er alls ekki óviðeigandi, það er EF vantru.is leggur upp með að ummæli lesenda, hver svo sem persónuleg skoðun þeirra kann að vera, skuli vera gersneydd öllum skoðunum á geðheilsu manna - hverrar svo sem fylkingar þeir tilheyri. Hitt er svo annað mál hvort það er þá stefnan - það veit ég ekkert um.

Meira hef ég út á ummæli Árna að setja í tengslum við skrif Davíðs Þórs og andsvara Óla Gneista við þeim. Það er nefnilega komið upp svolítið skemmtileg staða! Árni fullyrðir eitt og annað um hvernig sannkristin kirkja á að vera uppbyggð vegna þess að honum þykir hann hafa betri skilning á orðum almættisins heldur en aðrir. Davíð sagði einmitt í pitlinum að það sé sérlega ógeðfellt þegar fólk þykist hafa einkarétt á því hvernig skilja á eitthvað jafnóskiljanlegt og eðli almættisins og níðir alla þá sem voga sér að skilja það öðruvísi og tekur Óli þessi tilteknu orð fyrir í sinni grein. Þessu er Óli ósammála og kórónar með því að segja að í gagnrýni Davíðs standi ekki steinn yfir steini - sem svo fellur aftur hér í þessum afkima vantruar púnkts iss.

Loks vil ég segja, bæði í samhengi við greinina svo og ummæli (t.d. frá Aiwaz) að eitt það merkilegasta sem Kristur - eða alltént sagan af honum - þykir mér vera það að sama hvað sagt hefur verið áður þá er hægt að skoða alla hluti í nýju ljósi eftir því sem fram líða stundir og að boðskapur og merking þurfa ekki að breytast þó menn orði hlutina á annan hátt heldur en upphaflega. Jesús kenndi að til að geta boðað orð sín og föðurins á himnum verða menn að vera í tengslum við það samfélag sem þeir lifa - enda rökrétt að ná til þeirra sem maður vill ná til. Þetta hlýtur að vera grundvallarelga í pjé-err. Hvað um það - skrúfur þarf að herða, sérstaklega þær sem á mæðir.


Árni Árnason - 15/10/06 20:25 #

Hef engan áhuga á að bjarga kirkjunni. Hef ekkert fullyrt um að kirkjan yrði betri svona eða hinsegin. Skoðun mín byggist ekki á því að ég ætli mér einhvern skilning á orðum almættisins, enda fyrir mér ekkert til sem heitir " almætti"
Mér finnst kirkjan ótrúverðug,og nefni aðeins hvernig mér finnst hún gæti verið aðeins minna fake.
Annað ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.