Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Áskorun til þingmanna

Í dag, mánudag 2. október 2006, er Alþingi Íslendinga sett. Að venju hefst setning Alþingis á messu í Dómkirkjunni, þar sem biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, klæðist fornfálegum búningi og hefur yfir hjátrú, og ef marka má reynsluna, fordóma gegn einhverjum saklausum þjóðfélagshópi.

Með því, í fyrsta lagi, að Þjóðkirkjan er trúfélag, og trúfélög ættu ekki að vera á könnu ríkisvaldsins, í öðru lagi að Þjóðkirkjan hefur gert margt á undanförnum árum sem hún hefði betur látið ógert, og í þriðja lagi að Karl Sigurbjörnsson hefur verið talsmaður margvíslegra afturhaldssamra og and-húmanískra viðhorfa, þá hefur félagið Vantrú sent öllum Alþingismönnum svohljóðandi áskorun í tilefni þingsetningar:

Háttvirti Alþingismaður

Flestir Íslendingar vilja að ríki og kirkja verði aðskilin. Það er í takt við þá hugsun sem hefur unnið á undanfarna mannsaldra, að stjórnmál og trúarbrögð eigi ekki heima í sömu sæng. Með því að Alþingismenn eru fulltrúar allra Íslendinga hvetur félagið Vantrú yður, og aðra Alþingismenn, til að leggja þessari frómu kröfu lið á táknrænan hátt með því að mæta ekki til messu við setningu Alþingis 2. október næstkomandi.

Með von um vinsamlegar undirtektir,

Birgir Baldursson, formaður Vantrúar

Það er einlæg von okkar að fulltrúar þjóðarinnar ljái þjóðarviljanum og skynseminni eyra og sniðgangi messuna við þingsetningu. Það væri mikið gæfuspor fyrir íslensku þjóðina ef ríki og kirkja yrðu aðskilin án allra ónauðsynlegra tafa.

Ritstjórn 02.10.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Óli - 02/10/06 22:22 #

Ofstæki er alltaf ofstæki, hvort sem það er trúarofstæki eða ofstæki gegn trú.


Kalli - 02/10/06 22:25 #

Ah, frábær spakmæli. Svona eins og „ofstæki er alltaf ofstæki, hvort sem það er ofbeldisofstæki eða ofstæki gegn ofbeldi.“

Ofstæki er sem sagt alltaf ofstæki nema stundum er það gott en stundum slæmt?


Óli - 02/10/06 23:45 #

Og ertu þá að segja að ofstæki gegn trú sé gott en trúarofstæki sé slæmt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/10/06 23:48 #

Hvaða ofstæki er þetta í þér Óli? Þoli ekki þetta ofstækisfólk :-)


Kalli - 03/10/06 03:55 #

Ég var aðallega að benda á að þetta innlegg þitt væri innihaldslaust, Óli.

Ef því er ætlað að bera ofstæki á Vantrú, en ég veit ekki hvaða tilgang annan það getur haft, skortir rök því til stuðnings.


danskurinn - 03/10/06 08:42 #

Ofstæki er á endanum alltaf gagnslaust í sjálfu sér og þekkist á því. Því miður hafa ekki allir innsæi til að sjá það í upphafi. Hins vegar er hægt að læra af ofstæki og hefur það þá haft þveröfug áhrif en ætlast var til. Þannig getur ofstæki í raun haft áhrif til góðs. Spurning er hvort bréf Birgis til þingheims hafi haft einhver áhrif til góðs eða ills? Ég tel að betra hefði verið að biðja þingmenn um að hugsa um þessi mál á meðan presturinn fór með sína rullu. Það verður að teljast afar ólíklegt að einhver þingmaður myndi taka sig út úr hópnum til að hefja einkamótmæli á þessum nótum sem bréfritari leggur til. Og það er kannski eitthvað sem Vanrúarmenn ættu að gera meira af, að setja sér raunhæf markmið, að biðla til hinna hófsömu. Hinir hörðu og ákveðnu rísa upp við fyrsta kall hvort sem er.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 08:51 #

Ég tel að betra hefði verið að biðja þingmenn um að hugsa um þessi mál á meðan presturinn fór með sína rullu.

Er ekki ansi líklegt að bréf okkar hafi einmitt orðið til þess?


danskurinn - 03/10/06 11:57 #

Nei, það er líklegra að þeir hafi hugsað um tilmælin sem óraunhæf og það er alltaf óþægilegt að standa andspænis slíku. Þannig gæti þetta bréf hafa kallað fram neikvæð viðhorf þingmanna gagnvart bréfritara.

Það er hins vegar vel hægt að halda því fram að allt sem kallar fram umhugsun um þessi mál sé jákvætt. Það er þá sjónarmið útaf fyrir sig og þess vegna sé alveg eins gott að berja bumbur eða sletta skyri og að vera hófsamur og lítillátur.


Magnús - 03/10/06 13:10 #

Mér fyndist það bera vott um hófsemi og lítillæti að láta ekki eins og lýðræðislega kjörnir fulltrúar beri skyldu til að mæta á andatrúarfund áður en þeir mæta í vinnuna.


danskurinn - 03/10/06 20:41 #

Það er einfaldlega miklu erfiðara að hafna hófsamri ósk en að vísa frá frekjulegum kröfum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju verður tekinn eitt skref í einu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 20:51 #

Það er nú varla hægt að kalla þessa áskorun til þingmanna frekjulega kröfu :-|


danskurinn - 03/10/06 22:10 #

Jú, hún er sennilega frekjuleg séð frá sjónarhorni þingmannsins sem hugsanlega vildi leggja málinu lið.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 03/10/06 22:20 #

Þingmaðurinn er hvattur til að mæta ekki til guðsþjónustu við upphaf Alþingis. Það er einföld hvatning, ekki frekja.


Kalli - 03/10/06 22:23 #

Bréfið til þingmannanna er ákaflega kurteis beiðni (frá „dónunum“ í Vantrú) um að þingmenn sýni stuðning í verki við skoðun meirihluta þjóðarinnar.

Sá maður sem túlkar þetta bréf sem frekju hefur líklega ekki nógu þykkan skráp til að endast á Alþingi undir þeim ræðum og umræðum sem þar fara fram.


danskurinn - 03/10/06 22:34 #

Ef enginn þingmaður varð við þessari "frómu kröfu" þá hefur krafan farið fyrir ofan garð og neðan. Hvers vegna?


Kalli - 03/10/06 22:42 #

Því þeir þora ekki að sýna afstöðu? Því þeim er nákvæmlega sama? Því þeir eru ósammála? Því þeir vilja ekki skera sig úr?

En auðvitað er það líka hugsanlegt að 63 alþingismönnum hafi bara fundist þetta frekja.


danskurinn - 03/10/06 23:52 #

Þingmenn slást um atkvæði í kosningum en þegar á þing er komið eru þeir þingmenn allra kjósenda og allra landsmanna en ekki aðeins þingmenn sinna stuðningsmanna. Það þýðir að trúlaus þingmaður þarf líka að gæta hagsmuna hinna trúuðu og öfugt. Þess vegna eru hógværar óskir líklegri til að ná fram að ganga en "frómar kröfur" sem auðvelt er að hundsa.


Kalli - 04/10/06 00:49 #

"Þingmenn slást um atkvæði í kosningum en þegar á þing er komið eru þeir þingmenn allra kjósenda og allra landsmanna en ekki aðeins þingmenn sinna stuðningsmanna."

Ég skil ekki hvað þetta skiptir máli í þessu samhengi. Það eru skiptar skoðanir um nánast öll mál og undantekningarlaust einhverjir sem munu verða ósammála þegar þingmenn nota atkvæði sitt. Þingmenn geta tekið afstöðu eða setið hjá sem sömuleiðis má túlka sem afstöðu.

Ég stórefast um að þingmenn eigi erfiðara með að hunsa hógværar beiðnir en "frómar". Þess fyrir utan sé ég enn ekki hví óskin "fróma" ber vott um frekju. Ef bréfið hefði heimtað að þingmenn hunsi helgihaldið mætti kannski tala um frekju en svo er ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 02:25 #

Æ, er ekki bara allt sem við gerum sjálfkrafa frekja og ofstæki? Ég fer bráðum að halda það sjálfur.


danskurinn - 04/10/06 08:30 #

Það skiptir máli að allir þingmenn eru í vinnu hjá öllum kjósendum og reyndar landsmönnum öllum. Það er á þeim forsendum sem hægt er að leggja fram hógværa ósk um að þingmenn spyrji sjálfa sig að því hvort eðlilegt sé að þeir fari allir í messu hjá einu og sama trúfélaginu. Hvort sá gjörningur sé yfirlýsing um að þeir séu ekki þingmenn fólks í öðrum trúfélögum eða þeirra sem eru trúlausir. Að krefjast þess að þeir fari ekki í messu er í raun krafa um að þeir geri fyrir þig það sem þú vilt ekki að þeir geri fyrir aðra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 09:12 #

Að krefjast þess að þeir fari ekki í messu er í raun krafa um að þeir geri fyrir þig það sem þú vilt ekki að þeir geri fyrir aðra.

Ég tek undir það, að krefjast þess væri krafa, en við kröfðumst einskis.

Með því að Alþingismenn eru fulltrúar allra Íslendinga hvetur félagið Vantrú yður, og aðra Alþingismenn, til að leggja þessari frómu kröfu lið á táknrænan hátt með því að mæta ekki til messu við setningu Alþingis 2. október næstkomandi.


danskurinn - 04/10/06 09:19 #

Þeir voru hvattir til að fara eftir kröfunni, hinni "frómu kröfu" ... Það má vel segja að það sé kurteislegt, mér er alveg sama um túlkunina á orðalaginu. Málið er að enginn fór eftir "kröfunni" og þess vegna ætti kannski eða endurskoða nálgunina.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 09:28 #

Já, við gerum þetta eflaust á annan hátt á næsta ári. Óþarfi að endurtaka sig :-)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 10:12 #

Vera kann að hvatning um að hugsa málið undir stólræðunni hefði verið betri hugmynd. Vera kann að við gerum einmitt það á næsta ári. Ég get samt ekki fallist á að nein frekja hafi falist í þessu bréfi (þótt það væri áhugavert að heyra hvort einhverjir þingmenn líti málið öðrum augum). Með "frómri kröfu" lít ég svo á að átt hafi verið við kröfu landsmanna, ekki Vantrúarmanna. Síðan finnst mér vafasamt að halda því fram að hver þingmaður séu í alvörunni fulltrúar allra landsmanna, þótt þeir segist auðvitað vera það.


Kalli - 04/10/06 18:37 #

Ég vil taka undir með Vésteini um að þessar sætu hugmyndir virðist ekki stemma við raunveruleikann. Ef eitthvað er að marka kannanir Gallup er ríflega helmingur þjóðarinnar hlyntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Kæmi til atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi þýðir það alls ekki að málið yrði samþykkt.

Það breytir því ekki að hvernig sem atkvæði yrði varpað myndu þingmenn gera það andstætt vilja um það bil helmings þjóðarinnar.

Og reyndar breytir tölfræðin litlu í þessu dæmi. Fólk er ekki sammála um þessi mál og þó þingmenn tali um að kjósa sem fulltrúar allrar þjóðarinnar munu þeir kjósa þvert um geð hluta hennar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.