Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hefur Hildur Eir Bolladóttir tjáningarfrelsi?

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Laugarneskirkju, ritar opið bréf til Smára Geirssonar í Morgunblaðinu föstudaginn 29. september. Tilefnið er að Smári, sem frv. formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, hefur gagnrýnt hana fyrir predikun sem Hildur flutti í útvarpi sl. sunnudag og nefndi Þörf eða græðgi?

Hildur greinir Smára frá því í opnu bréfi sínu, að starf prests feli ekki í sér afsal á réttinum til að hafa og tjá skoðanir á málefnum líðandi stundar, til dæmis pólitískum málum. Hún áréttar með öðrum orðum að hún hafi sama rétt og aðrir til að hafa skoðun á Kárahnjúkavirkjun, og að hún sé ekki að tjá afstöðu kirkjunnar sem slíkrar þótt hún tali í krafti embættis síns.

Rétt er að taka fram að ég er ekki alveg hlutlaus í þessu máli, þar sem ég hef verið andvígur Kárahnjúkavirkjun árum saman. Það er samt ekki tilefni mitt til að skrifa þessa grein, og er aukaatriði að öðru leyti en því að ég tel heiðarlegra að taka það fram.

Hefur prestur skoðanafrelsi sem prestur? Já, tvímælalaust. Hverju breytir það hvort hún er prestur eða ekki? Ég er ekki sammála þeim rökum sem Hildur færir fram í predikun sinni, að lónstæði Hálslóns sé sköpunarverk guðs og því beri að vernda það -- það er að segja, ég samþykki ekki að guð sé nein forsenda í þessu máli, né reyndar að hans sé þörf í því -- en að Hildur megi ekki tjá skoðun sína, væntanlega vegna þess að skoðunin varðar pólitískt deilumál, er fráleitt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem prestar eru skammaðir fyrir að tjá skoðanir á umdeildum málefnum. Skemmst er að minnast þess þegar Örn Bárður Jónsson skrifaði smásögu í Lesbókina og hlaut bágt fyrir. Ekki er heldur langt síðan ég sat fjölsóttan fund umhverfisverndarsinna í Hallgrímskirkju (ég hefði að vísu kosið annan fundarstað...) þar sem Sigurður Pálsson tjáði samúð sína með umhverfisvernd. Merkilegt nokk heyrði ég engan skamma hann. Það er kannski ekki sama hvort maður er séra Hildur eða séra Sigurður?

Aftur að ósætti Hildar og Smára. Það er nefnilega vel skiljanlegt í sjálfu sér, ef Smári áleit að prestar ættu ekki að taka afstöðu í deilumálum. Það verður nefnilega ekki betur séð en að það sé línan hjá kirkjunni. Stundum koma fram prestar sem þora að hafa skoðanir, en þær skoðanir sem helst heyrast eindregnastar hjá kirkjunni snúast oftast um að kirkjan sé á móti umferðarslysum, náttúruhamförum eða trúleysi. Sérstaklega eftirminnileg er hin æpandi þögn Karls Sigurbjörnssonar um það, hvort kynhverfir ættu að njóta jafnra réttinda og aðrir fyrir augliti kirkjunnar.

Þjóðkirkjan er í sjálfu sér ekki öfundsverð. Félag sem hefur langflesta Íslendinga innanborðs, og fæsta nema hálfvolga, er eins og Jesús með krossinn á herðunum inni í postulínsverslun. Það er sama hvernig hann snýr sér, alltaf skal hann reka krossinn utan í eitthvað viðkvæmt. Ef þjóðin er ekki sammála um tiltekið mál, þá hlýtur kirkjan að spæla hluta þjóðarinnar með því að taka afstöðu. Afstöðuleysi, „nó komment“-strategía, er hins vegar afleit líka. Bannsett ef hún gerir, bannsett ef hún gerir ekki. Þannig að margir af kirkjunnar mönnum gerast ömmuprestar. Forðast umræður sem eru líklegar til að vekja deilur.

Smára Geirssyni er kannski vorkunn. Hann hefur líklega hingað til séð það til kirkjunnar, hvað pólitísk varkárni hennar er öfgafull. „Heggur sá er hlífa skildi,“ gæti hann hafa hugsað. Nú hef ég ekki spurt Smára eða aðra virkjunarsinna að því sérstaklega, en ætli þeir hafi átt von á sneið úr þessari átt? Smári sagði predikun Hildar ekki guðsmanni sæmandi. Skrítið að maður hafi ekki heyrt hann segja svipað þegar Karl Sigurbjörnsson blessaði Kárahnjúkastíflu.

Þótt ég sé ósammála ákveðinni forsendu sem Hildur gefur sér, þá þykir mér gott mál að prestur þori að tjá sig um pólitík úr predikunarstól. Auk þess finnst mér virðingarvert að taka afstöðu gegn Valdinu. Prestar mættu alveg vera duglegri við þetta.

Vésteinn Valgarðsson 01.10.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 01/10/06 07:49 #

Umræddir umhverfisverndarsinnar hafa einnig haldid fund / samkomu í Dómkirkjunni. Sú samkoma var auðvitað ekki auglýst sem trúarsamkoma. Þar flutti sá séra Sigurður sem sagt er frá í ofangreindri grein ræðu / ávarp - n.k. bæn. Þau orð stungu mjög í stúf við annað sem sagt var af hálfu fundarmanna - en það er annað mál. Sigurður fékk enga skömm í hattinn fyrir þetta. Hefur Smári Geirsson ekki frétt af þessu eða er þetta í lagi af því að umræddur séra er karlkyns?


Eva - 01/10/06 10:51 #

Góð grein Vésteinn. Þótt ég sé ekki hrifin af kirkjunni eða trúflokkum yfir höfuð, finnst mér þó alltaf skárra að sjá einarða afstöðu og auðvitað hafa prestar sama tjáningar- og skoðaðrétt og annað fólk. Ánægjulegt að sjá að einhver þeirra hugrekki til að nýta sér þau sjálfsögðu mannréttindi.


Snæbjörn - 01/10/06 11:23 #

Mér finnst röksemdin um sköpunarverk Guðs líka hálfkjánaleg. Fannst reyndar Hildur Eir hálf óþarfi á stóru mótmælasamkomunni sér í lagi þar sem hún ávarpaði okkur öll eins og við værum kristin.

En allavega, hún setur fram góða punkta með Auðunnar húsið þar sem þvílíkri gersemi var fórnað svo menn gætu lifað af, sem andstæða við þetta, þegar þvílíkri gersemi er fórnað fyrir skyndigróða.

Hins vegar þá var blessun Karls á virkjuninni skammarleg. En sennilega vill Smári meina að kirkjunnar menn ættu að halda kjafti nema þegar þeir eru með hægrisinnaðar skoðanir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/10/06 11:30 #

Hildur hefur vissulega tjáningarfrelsi en við megum ekki heldur gleyma því að þegar hún tjáir sig á hún það til að segja ýmislegt gagnrýnivert og með tjáningarfrelsi fylgir réttur annarra til að gagnrýna það sem maður segir.

Því miður var lengi var lengi sá siður hér á landi að ekki þótti við hæfi að gagnrýna það sem prestar létu frá sér, sem betur fer er það liðin tíð.


Halldór - 04/10/06 13:44 #

Mjög góð grein Vésteinn. Sérstaklega er ég sammála því að landið sé ekki sköpun Guðs

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.