Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fermingarvertíð Þjóðkirkjunnar er að hefjast

Nú er sá tími árs að fermingarundirbúningur Þjóðkirkjunnar er að hefjast. Allir vita að flestir krakkar fermast hjá Þjóðkirkjunni, að þeir gera það vegna gjafanna og láta svo ekki sjá sig þar framar. Prestar vita þetta ekki síður en aðrir. Eins og við höfum ítrekað rakið hér á Vantrú, þá er það andstætt landslögum að ferma þann sem er ekki orðinn fullra 14 ára -- en eins og allir vita eru flestir 13 ára þegar þeir fermast.

Lögin segja , að barn skuli verða fullra fjórtán ára, en reyndar er tekið fram að biskup geti veitt undanþágu sem nemur allt að 6 mánuðum ef barnið er dauðvona eða á förum til heiðinna landa. Mér er ekki kunnugt um að biskup hafi veitt slíka heimild, og í öllu falli vantar meira en 6 mánuði upp á hjá mörgum fermingarbörnum, þar á meðal undirrituðum á sínum tíma.

Það er engin tilviljun að kirkjan velji að sniðganga þessi lög. Í Námsskrá fermingarstarfanna (s. 20) segir María Ágústsdóttir beinum orðum, um unglingsárin:

„Félagshópurinn hefur æ meira áhrifavald, en foreldrar minna, þegar ungmennin verða óháðari foreldrum sínum tilfinningalega. Áhrif félagshópsins eru hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í fermingarstörfunum.“

Þurfið þér frekari vitnanna við? Afstaða kirkjunnar kemur fram víðar, til dæmis segir Irma Sjöfn Óskarsdóttir í svari á trú.is:

„Hvað varðar þroskann til að tileinka sér slíkan lærdóm er talið að aldurinn 13 sé nægur til þessa. Hvað varðar skilninginn þá tekur lífið allt að skilja til fulls og skynja hver sá Guð er sem trúarlærdómurinn fjallar um og í þeim fræðum verðum við aldrei fullnuma hvorki 13 ára eða síðar á lífsleiðinni.“

Þetta er bara blaður. Hver telur að 13 ára aldurinn sé nægur? Kannski kirkjan, sem vill svo til að fær um 17-18.000 krónur fyrir hvert fermingarbarn * og hefur því fjárhagslegan ábata af því að ferma sem flesta áður en þeir ná að mynda sér upplýsta skoðun? Er það ekki venjan að dómari víki sæti ef hann á hagsmuna að gæta sjálfur? Eru það fordómar gegn 13 ára fólki að telja það ekki hafa þroska til að velja? Fólk er ekki talið fært um að velja sér trúfélag upp á eigin ábyrgð þegar það er 13 ára, og ekki hvort það reykir eða drekkur eða ekur bíl, er það? Ætli það sé vegna fordóma? Í annarri færslu á trú.is svarar Guðmundur Þór Guðmundsson, vitnar í lög frá 1997 um að foreldrar ráði persónulegum högum ólögráða barns, og þess vegna ráði foreldrar væntanlega hvort barnið má fermast eða ekki.

Mætti ekki með sömu rökum segja að foreldrar geti leyft 13 ára barni að drekka áfengi í óhófi, kaupa tóbak eða ganga í hjónaband? Eða kannski taka sér há bankalán? Varla mega foreldrar ganga lengra en lög leyfa, eða hvað? Guðmundur bætir við og segir „Einnig verður að horfa til þess að börn í dag eru vafalaust almennt betur í stakk búin til að meta hvort þau vilji fermast eða ekki, enda hafa þau notið skólagöngu og eru líklegast mun betur upplýst almennt, a.m.k. á mælikvarða nútímans.“

Í eina tíð var kallað að fólk væri tekið í fullorðinna tölu þegar það fermdist, og réði sig þá venjulega í vinnu. Er Guðmundur að segja að 13 ára nútímabörn séu fær um að fara að vinna fyrir sér? Mér þykir Guðmundur fullyrða of mikið þegar hann segir að börn séu „vafalaust“ betur fær um að fermast. Annars vegar má að vísu segja að þau hafi hlotið meiri menntun en 13 ára börn almennt fyrr á öldum, en á hinn bóginn kemur að þau njóta meiri verndar og þroskast varla eins snemma og börn sem ólust upp fyrir 200 árum síðan, sem umgengust aðallega fullorðið fólk og voru ekki hluti af samskonar félagahóp með tilheyrandi hópþrýstingi og unglingar eru nú til dags (eins og María benti réttilega á).

Árni Svanur Daníelsson, vefstjóri Biskupsstofu, segir í „Ummælum frá lesendum“ á eftir svari Guðmundar, að það sé „í raun makalaust hversu miklir fordómar eru í garð unglinga ... þegar kemur að fermingunni. Ég hef komið að fermingarfræðslu um árabil og hef allstaðar hitt fyrir fróðleiksfúsa unglinga sem eru áhugasamir um samræðu um tilvist, trú og tilgang.“ Eru það fordómar að benda á hvað hópþrýstingur er sterkur í 8. bekk? Það er enginn að halda því fram að unglingar séu heimskir. Það er ekki málið. Það gegnir hins vegar ekki sama máli um þá sem eru fullorðnir og þá sem eru ekki fullorðnir. Unglingar eru millistigið, og þroskinn er gjarnan hraður á unglingsárunum. Hvað heldur kirkjan að gerist ef lögum um 14 ára lágmarksaldur væri framfylgt? Hvað hefur hún að óttast? Kannski að margir mundu, að athuguðu máli, ekki velja að fermast hjá Þjóðkirkjunni? Ef Árna Svani finnst fólk nógu þroskað 13 ára til að vera fært um að fermast, ætti það þá ekki með sömu rökum að vera fært um að breyta trúfélagsskráningu sinni?

Það er hárrétt hjá Árna Svani að unglingar séu fróðleiksfúsir. Reynsla mín segir mér það sama. Hún segir mér líka að þorsta þeirra í fróðleik um lífsskoðanir er ekki svalað í skólanum, og því síður í kirkjunni, og að þeir sem komast í tæri við aðrar hugmyndir en lúthersk-evangelíska kristni eiga það til að velja aðra kosti en Þjóðkirkjuna. Þess vegna er það svo mikið hagsmunamál fyrir kirkjuna að fá unglingana um borð áður en þeim eru kynntar fleiri hugmyndir í skólanum. Ég get sagt það fyrir mitt eigið leyti, að þegar ég var 13 ára var ég fróðleiksfús og áhugasamur um tilvist, trú og tilgang. En að ég hafi haft þroska til að meta hvort ég ætti að selja sál mína eða ekki, það var ekki svo.

Í Blaðinu 1. febrúar sl. var rætt við sr. Magnús B. Magnússon og hann hafði þetta um málið að segja: „Þjóðkirkjan er að fá í fræðslu til sín um 90% árgangsins. Við myndum aldrei í lífinu sleppa þessu tækifæri sem við höfum til að ná til heils árgangs“ -- finnst öðrum en mér þetta lykta undarlega? Mundu Magnús og kollegar hans í kirkjunni búast við færra fólki í fermingarnar ef það væri fermt í 9. bekk en ekki 8.? Hvers vegna ætli það sé? Ætli 9. bekkingar séu vanþroskaðri en 8. bekkingar? Væri börnunum gerður grikkur með því að fara að gildandi landslögum?

Þetta ber allt að sama brunni. Ésús á að hafa sagt „Leyfið börnunum að koma til mín“ og eftir því fara prestarnir. Það er aukaatriði hvort börnin hafa þroska til eða ekki. Ferming er í senn yfirtaka kirkjunnar á manndómsvígslunni, og hálmstrá til að réttlæta óvitaskírnir. Þetta ber allt að sama brunni: Ná þeim meðan þau eru ung og saklaus.

Þegar upp er staðið stendur þetta eftir: Þjóðkirkjan gerir sér fulla grein fyrir því að 13 ára börn eru ekki tilbúin til að taka upplýsta afstöðu. Hún nýtir sér þetta til að lokka þau til fylgilags, meðvituð um að hún sé að brjóta landslög. Það getur verið að fleira ráði för en græðgin ein, það getur verið að prestar trúi því sjálfir að þetta sé fyrir bestu. Ef sú er raunin er því meiri ástæða til að hleypa þeim ekki inn í skóla. Fólk sem sér ekkert athugavert við að troða sér inn í barnaskóla til að halda yfirnáttúru að ófullveðja ungmennum, í trássi við lög en í krafti blindrar trúar, er varasamt.

  • María Ágústsdóttir: Námsskrá fermingarstarfanna, Reykjavík 1999.

Lög:

Spurningar af trú.is:

Vésteinn Valgarðsson 29.09.2006
Flokkað undir: ( Fermingar )

Viðbrögð


Guðmundur D. Haraldsson - 29/09/06 15:37 #

Er ekki kominn tími á nýjan árgang af Speglinum? Mér heyrist það.


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 30/09/06 12:14 #

Þetta fermingardæmi kirkjunnar er enn eitt dæmið um grófa fjárplógsstarfsemi hennar - sem jafnvel skólarnir taka þátt í með að taka svokallaða "fermingarfræðslu" inn í skólatímann. Þannig að þjóðkirkjan þarf ekki einu sinni að leggja til húsnæði.

Einnig er fermingin örvæntingarfull leið þjóðkirkjunnar að krækja til frambúðar í meðlimi samfélagsins: "Ja - maður er nú skírður og fermdur - ætli maður verði þá ekki bara í þjóðkirkjunni..."

En margir átta sig og yfirgefa allt ruglið og hræsnina sem tilheyrir þjóðkirkjunni, öðrum kristnum söfnuðum og öðrum trúarbrögðum og fara sjálfir að taka ábyrgð á lífi sínu í stað þess að "fela það á hendur" einhverjum ímynduðum "guði"! OG ÞEIM Á EFTIR AÐ FJÖLGA.


Ormurinn - 03/10/06 10:22 #

Ég er með spurningu sem hljómar etv. fáránlega, en eru þessi lög frá 1759 og 1827 enn í fullu gildi? Er ekki fyrir löngu búið að uppfæra þetta og/eða breyta???


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 04/10/06 10:13 #

Þau eru enn í gildi. Sjá www.althingi.is og skoða lagasafn.


Sigurlaug - 27/03/07 20:42 #

Langar í sambandi við þetta benda á nokkuð áhugaverðan spjallþráð á margfrægu barnalandi.is, en þar hefur ein umræðuna með spurningu um hver kostnaður fólks hafi verið af þessu. Og tölurnar sem fólk nefnir eru hreint ótrúlegar!

Ég verð að segja að mér varð hreinlega illt að vita af þessari firringu fólks.


jói - 22/04/07 17:46 #

það er nú enginn að neyða krakkagreyin til að fermast. þau hafa sjálf valið þetta svo what´s the point?


FellowRanger - 22/04/07 18:16 #

Börn eru menn, menn eru gráðugir, krakkar eru tilbúin að sitja nokkra tíma í kirkju til að fá gjafirnar sínar, ég gerði það og var hræddur um að fá engar gjafir ef ég gerði það ekki.


KáeS - 23/04/07 08:43 #

Það neyðir kannski enginn krakkana til að fermast, en flestir hafa þó afskaplega lítið um það að segja. Þau eru ekki sérlega sjálfstæð í hugsun á þessum aldri, stjórnast að miklu leyti af því hvað hópurinn gerir - hvað hefðin segir - það er fyrir flesta mjög erfitt að vera öðruvísi og þurfja jafnframt rökstyðja það (því flestir sem skera sig úr að þessu leyti fá mjög beittar spurningar um afhverju) - og hvað vit er líka í að sleppa gjöfunum? Fæstir foreldrar bjóða krökkunum upp á eitthvað val. Þau líta bara á það sem hvern annan eðlilegan þátt í lífinu líkt og 5 ára skoðun hjá heilsugæslunni, útskrift úr grunnskóla, taka bílpróf... Mín börn eru núna á fermingaraldri, einn fermdist (borgaralega) fyrir 3 árum og annar kemst á fermingaraldurinn á næsta ári. Við vorum, mér vitanlega, einu foreldrarnir í vinahópi stráksins míns sem veltum upp einhverjum spurningum um hvort - hvernig - hvers vegna... Einu spurningarnar sem komu frá öðrum foreldrum voru praktískar spurningar eins og hvort við værum búin að panta sal, hvar við hefðum fengið föt, köku- eða matarveisla..., semsagt, hjá lang,lang flestum er það sjálfgefið að börn fermist, annað er bara einhver kverúlans, sem þarf að rökstyðja sérstaklega! Nú orðið reyni ég að vera fyrri til og spyr krakka sem eru að komast á þennan aldur (og foreldrana) hvort börnin ætli að fermast, og þá hvers vegna. Oft verður fátt um svör! En vekur kannski einhverja til umhugsunar.


hjalti hilmarsson - 08/06/07 16:12 #

ég er 15 og lét ekki ferma mig í þóðkirkjunni. foreldrar mínir eru ekki trúleysingjar enn þau eru ekki neitt strangtrúuð heldur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.