Í kjölfar heimsóknar Richards Dawkins og tveggja drottningarviðtala við hann hafa prestar af og til minnst á Dawkins. Gæði þessara svara hafa verið misgóð, þó svo að mistúlkun Karls Sigurbjörnssonar sé án nokkurs vafa sú allra versta. Presturinn Skúli Sigurður Ólafsson hefur fjallað presta mest um málflutning Dawkins og í predikun sem bar heitið Ímyndið ykkur fjallar hann meðal annars um samband skynsemi og trúar.
Í umfjölluninni byrjar Skúli á því að spyrja:
Já, eru þetta ekki tvær ósamrýmanlegar andstæður – átrúnaðurinn sem sendir okkur inn á óræðar lendur til samfundar við hið almáttuga sem sprengir þann ramma sem tungumálið setur – og skynsemin, rökhugsunin sem beislar efnisheiminn og hafnar því öllu sem ekki stenst ítrustu kröfur um áreiðanleika og nákvænmi? Þeir eru margir sem halda slíku fram og benda máli sínu til stuðnins á þessa ógæfusömu einstaklinga sem fastir eru í neti haturs og ofbeldis.
Trú, fullvissa án raka, og skynsemin, það að mynda sér skoðanir í hlutfalli við vægi raka, eru auðvitað ósamrýmanlegar andstæður. Þú getur ekki bæði myndað þér skoðun á einhverju með því að nota rök og án þess að nota rök. Ekki hægt.
Það þarf ekki að benda á “ógæfusama einstaklinga sem fastir eru í neti haturs og ofbeldis” til þess að sjá þetta, okkur nægir að kíkja á Skúla sjálfan og kirkjuna hans.
Þar sem Skúli er þjóðkirkjuprestur geri ég ráð fyrir því að hann aðhyllist grundvallarkenningar kristindómsins, svo sem þrenningarkenninguna, upprisu Jesú og að Jesús hafi í senn verið sannur guð og sannur maður. Ef við beitum skynseminni á þessar kenningar verður niðurstaðan sú að það beri ekki að trúa þeim þar sem þær eru annað hvort óskiljanlegar, mótsagnakenndar eða ganga gegn almennri vitneskju.
Þetta hlýtur Skúli að vita. Til þess að samræma trú og skynsemi þarf hann því að halda því fram að á sumum sviðum sé ekki hægt að beita skynseminni og þar af leiðandi geti trúin fyllt upp í plássið:
Skynsemin og trúin eru ekki andstæður samkvæmt þessum skilningi. Þær glíma ekki við sömu spurningarnar. Þær leita ekki sömu svaranna.
Þessi skilningur Skúla er rangur. Skynsemin getur vel “glímt við” spurningar trúarinnar: “Er til þrí-einn andi sem talar við mig? Nei.”, “Reis Jesús upp frá dauðum? Nei.” “Var Jesús bæði sannur guð og sannur maður? Nei.”. Skúli er líklega ekki sáttur við þessi svör skynseminnar og þar af leiðandi lýsir Skúli því yfir að skynsemin ráði barasta ekki við þessar spurningar! Og þar sem að skynsemin getur ekki ráðið við þessar spurningar, að þá skapast pláss fyrir trúnna að svara þeim.
Reyndar er það ekki merkilegt að trú geti svarað þessum spurningum, þar sem hún getur í raun svarað öllum spurningum sem til eru. Því hverju er ekki hægt að svara ef þú þarft ekki að rökstyðja svarið? Á sama hátt og þú getur notast við trúnna til að svara þeim spurningum sem skynsemin á ekki að ráða við samkvæmt Skúla geturðu einnig kastað peningi upp á svarið. “Er til þríeinn andi?” Kastaðu peningi og ef landvættirnir koma upp er svarið “Já”, en ef fiskur kemur upp þá er svarið “Nei”. Þetta er ekkert verra eða heimskulegra en að notast við trúna.
Ímyndið ykkur svo heim þar sem fólk myndi ekki kasta upp á hvort eitthvað sé satt eða ósatt! Ímyndið ykkur allan þann sannleika sem menn færu á mis við!
Eflaust færu menn ekki á mis við neitt, því að ef við notum eitthvað annað en skynsemina til þess að dæma um hvað sé sannleikanum samkvæmt, þá er öruggt að sá “sannleikur” verður lítils virði. Þannig að þegar Skúli segir þetta um hvað myndi gerast ef heimurinn væri án trúarbragða:
Fyrst og fremst færu menn þó á mis við þann sannleika sem trúarbrögðin miðla.
...þá held ég að það væri fínt að fara á mis við þennan “sannleika”, því að allur sannleikur sem fæst með peningakasti og trú er ekki neins virði.
Hvað er skynsamlegt í hverju tilviki. Verður hver og einn ekki að treysta á eigin dómgreind. Ég held því fram að sannleikurinn og þar með skynsemin séu afstæð hugtök. Sannfæring okkar byggir á persónulegri reynslu okkar og þekkingu. Það sem er augljóslega skynsamlegt fyrir einum er jafn augljóslega óskynsamlegt fyrir öðrum. Það eru ekki til neinar bindandi reglur um hvern menn eigi að meta hvað sé skynsamlegt og hvað ekki. Þess vegna verður hver og einn að finn upp sínar reglur. Trú eða ekki trú veltur ekki fyrst og fremst á skynsemi, heldur því hvað forsendur menn gefa sér og hvað reynslu þeir byggja á.
Á vísindavefnum er ágæt umfjöllun um afstæðishyggju. Þar segir meðal annars:
ýmis vandkvæði eru bundin bæði siðferðilegri afstæðishyggju og afstæðishyggju um sannleikann. Siðferðileg afstæðishyggja samrýmist til dæmis illa hugmyndum um mannréttindi. Mannréttindahugtakið byggir á því að ákveðin siðalögmál séu algild, óháð landamærum eða ríkjandi viðhorfum til mannréttinda á hverjum stað. Þetta kemur í sívaxandi mæli fram í þróun þessara mála í heiminum nú á dögum og er ekki laust við að sumar þjóðir virðist vilja andmæla þessu eða draga það í efa.
Algeng rök gegn afstæðishyggju um sannleikann eru að hún feli í sér mótsögn. Þeirri fullyrðingu að sannleikurinn sé afstæður er nefnilega ætlað að vera algild, hún á að gilda um allar fullyrðingar. Þar af leiðandi hlýtur það að vera afstætt hvort fullyrðingin “Sannleikurinn er afstæður” er sönn eða ósönn. Ef ákveðinn hópur fólks trúir því að sannleikurinn sé algildur er sannleikurinn ekki afstæður hjá viðkomandi hópi og þá getur það ekki staðist að algilt sé að sannleikurinn sé afstæður. Afstæðishyggja um sannleikann virðist því falla um sjálfa sig sem almenn kenning um eðli sannleikans.
Afstæðishyggja um sannleikann virðist því falla um sjálfa sig sem almenn kenning um eðli sannleikans.
Ef ákveðinn hópur fólks trúir því að sannleikurinn sé algildur er sannleikurinn ekki afstæður hjá viðkomandi hópi og þá getur það ekki staðist að algilt sé að sannleikurinn sé afstæður.
Þetta merkir einfaldlega að stórir hópar manna neita að horfast í augu við staðreyndir og að hugmyndin er umdeild. Sannleikurinn á sér sjálfstæða tilvist og skoðanir okkar á honum breyta ekki eðli hans.
En ef við breytum veruleikanum eftir þeim skoðunum sem við höfum af honum, og breytni okkar samrýmist og gegnur eftir þeim spám sem skoðunin hljóðaði upp á; Hefur skoðunin þá ekki endurspeglað veruleikan, einmitt afþví hún hefur staðist hann?
Trúarbrögð eru ekki byggð á veruleikanum og standast heldur ekki veruleikan, eða eru ekki einu sinni samkvæmt skilgreiningu í tenglsum við rauveruleikan.
Skynsemin er ekki geðþóttaatriði, líkt og trú. Það fer ekki eftir smekk heldur varðar það óbrenglaða dómgreind hvað skynsemi er.
“Það fer ekki eftir smekk heldur varðar það óbrenglaða dómgreind hvað skynsemi er."
Allir þeir hafa óbrenglaða dómgreind gefi sig fram ;-)
En ef við breytum veruleikanum eftir þeim skoðunum sem við höfum af honum, og breytni okkar samrýmist og gegnur eftir þeim spám sem skoðunin hljóðaði upp á; Hefur skoðunin þá ekki endurspeglað veruleikan, einmitt afþví hún hefur staðist hann?Djúpur að vanda Kári. Ég drap nú á hugmyndum á þessum nótum einhverjum mánuðum síðan og þeim var nú ekki vel tekið af vantrúuðum.
Vísindakenningar eru ekki fyrst og fremst sannar eða ósannar þær eru nytsamar eða ekki nytsamar. Ef við hefðuð óendanlegan tíma og óendanlega fjölda vísindmanna til þess að rannsaka stæði ekki steinn yfir steini í nútímavísindum. Í þeim skilning eru allar nútímavísindakenningar sennilega meira og minna ósannar. Þess vegna er stöðugt þörf fyrir nýjar rannsóknir Ég er reyndar sérstakur áhugamaður um tilgátur sem engum manni mun nokkurtíma detta í hug að rannsaka vegna okkar mannlegu takmarkana. Hvaða sannleika er þar að finna og hverju getur slíkur sannleikur breytt? Ég held að hinn endanlegi sannleikur sé að stórum hluta þeirrar gerðar þ.e. handa mannlegs skilnings. Þó að vísindakenning skýri eitthvað og sé nytsöm þýir ekki endilega að hún sé sönn. Við vitum það ekki- það þarf að rannsaka betur og þá kemur ef til vill í ljós að til er mikið betri skýring sem byggir á allt öðrum forsendum.
Vísindakenningar eru ekki fyrst og fremst sannar eða ósannar þær eru nytsamar eða ekki nytsamar. Ef við hefðuð óendanlegan tíma og óendanlega fjölda vísindmanna til þess að rannsaka stæði ekki steinn yfir steini í nútímavísindum. Í þeim skilning eru allar nútímavísindakenningar sennilega meira og minna ósannar.
Guðjón - Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri betra að þú færir að hugsa áður en þú lætur svo rugl út úr þér.
Hjalti, stöndum við frammi fyrir aðeins tveimur möguleikum þegar ákvörðunar er þörf: að beita skynseminni eða jafn ónýtum aðferðum eins og að "kasta upp á það"?
Ef þú veist um einhverja þriðju leið, þá máttu endilega benda á hana.
Hjalti, ef þetta eru einu tveir valkostirnir í stöðunni - hvaða hlutverk hafa þá tilfinningarnar?
Það er ekki skynsamlegt að byggja skoðanir sínar á tilfinningum, eða finnst þér það?
Skynsemin og trúin eru ekki andstæður samkvæmt þessum skilningi. Þær glíma ekki við sömu spurningarnar. Þær leita ekki sömu svaranna. Nei, þær eru bandamenn þar sem kemur að því að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd, skapa jákvæðar fyrirmyndir og efla einstaklinginn í leit sinni að tilgangi og lífsfyllingu....eða hvert er þá hlutverk tilfinninganna ef þær hafa ekki áhrif á gjörðir okkar og ákvarðanir?
Hvert er hlutverk trúarinnar í þessu ferli og á hvaða hátt er það ólíkt því að kasta upp pening?
Eigum við ekki að fá svar við fyrri spurningunni fyrst?
Reyndar grunar mig í kjölfar síðustu samræðulotu við ykkur drengir að þið lesið illa þá pistla sem liggja til grundvallar gagnrýni ykkar. Ég læt því fylgja með útleggingu mína á hlutverki trúarinnar í þessum efnum eins og það birtist í téðri predikun:
Í raun má líkja trúnni við listina. Hægt er að túlka veruleikann með ólíkum hætti og það sést best á því hvernig listamenn beita hæfni sinni til þess að skapa nýja sýn á það sem við þekkjum og höfum í kringum okkur.
Þú stýrir ekki umræðum hér.
Það er semsagt enginn munur á því að nota trú og því að kasta pening. Ágætt að það sé á hreinu enda er það einmitt það sem greinin fjallar um.
Ekki sé ég hvað listin kemur málinu við. Finnst óttalega kjánalegt að reyna að réttlæta trú á þann hátt.
LOL! Ég átti nú heldur ekki von á því, Matti, að þú færir að taka þátt í þeim flótta undan vægi tilfinninganna sem mér sýnist Hjalti vera að hefja hér!
Listin er að því leyti sambærileg trúnni að hún bendir fremur á tilveruna frá öðru sjónarhorni en skynsemin gerir - frekar en að virka sem raunverulegt mótvægi.
Þú getur ekki bent á neitt sem greinir í sundur trú og peningakast sem aðferðafræði.
Það er einmitt það sem greinin fjallar um.
Reyndar er það ekki merkilegt að trú geti svarað þessum spurningum, þar sem hún getur í raun svarað öllum spurningum sem til eru. Það er einmitt ekki það sem trúin gerir. Trúin svarar ekki þeim spurningum sem skynseminni er ætlað að svara. Um það fjallar m.a. predikunin mín.
En hvað með spurninguna sem ég bar fram hér í upphafi? Mér finnst ég nú hafa ákveðið tjáningarfrelsi hérna í ljósi þess að orð mín liggja til grundvallar þessum pistli.
Reyndar er það ekki merkilegt að trú geti svarað þessum spurningum, þar sem hún getur í raun svarað öllum spurningum sem til eru.Það er einmitt ekki það sem trúin gerir. Trúin svarar ekki þeim spurningum sem skynseminni er ætlað að svara. Um það fjallar m.a. predikunin mín.
En hvað með spurninguna sem ég bar fram hér í upphafi? Mér finnst ég nú hafa ákveðið tjáningarfrelsi hérna í ljósi þess að orð mín liggja til grundvallar þessum pistli.
Skynseminni er ætlað að svara öllum spurningum. Það eru engar spurningar sem betra er að svara með því að kasta upp pening.
Efahyggjumenn láta þær spurningar eiga sig sem skynsemin getur ekki svarað. Trúmenn svara þeim út frá trúarsannfæringu sinni.
Og tilfinningaríkt fólk hefur líka sínar leiðir.
Trúmenn svara þeim út frá trúarsannfæringu sinni.
Trúmenn kasta pening.
...eða hvert er þá hlutverk tilfinninganna ef þær hafa ekki áhrif á gjörðir okkar og ákvarðanir?
Skúli, hvað ertu að reyna að segja? Að vitna í texta eftir sig og spyrja svona spurningar út í loftið er ekki góð aðferð við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Ekki ertu að segja mér að þú hafir það á tilfinningunni að það sé til þrí-ein andavera sem þurfti að fórna sér svo hún gæti fyrirgefið okkur? Og að réttlætingin þín fyrir að trúa þessu sé að þú hefur það á tilfinningunni?
Það [að svara öllum spurningum] er einmitt ekki það sem trúin gerir.
Ég sagði að þú getur svarað öllum spurningum með trú, á sama hátt og þú getur svarað öllum spurningum með því að kasta pening upp á svariðþ
Trúin svarar ekki þeim spurningum sem skynseminni er ætlað að svara.
Hún getur vel gert það.
Efahyggjumenn láta þær spurningar eiga sig sem skynsemin getur ekki svarað. Trúmenn svara þeim út frá trúarsannfæringu sinni.
Og hvaða spurningar eru það? Því ef þú ert að hugsa um spurningar eins og: "Er til almáttug, alvitur og algóð andavera?", "Er andaveran þríein?" eða "Reis Jesús upp frá dauðum?", þá getur skynsemin léttilega svarað þessum spurningum. Sumir sætta sig ekki við svarið og lýsa því þá yfir að skynsemin ráði ekki við þessar spurningar.
Skúli, hvað ertu að reyna að segja? Að vitna í texta eftir sig og spyrja svona spurningar út í loftið er ekki góð aðferð við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.Ekki skil ég hvers vegna það vefst fyrir þér að svara svo einföldri spurningu eins og þeirri sem ég bar upp hér í upphafi. Þú stillir upp tveimur valkostum og ég bendi dæmi um einhverja fleiri. Ef þú vilt ekki svara spurningum mínum - en leyfir þér að túlka orð mín með svo frjálslegum hætti - þá þú um það. Eins og Matti bendir á þá er ég ekki ritstjórinn hérna.
Sumir halda því fram að skynsemin geti afgreitt frumspekilegar spurningar - gott og vel. Kant kallaði það tálsýnir skynseminnar. Ég er honum sammála í þeim efnum.
Við þurfum ekki að ræða þetta meira.
Guðjón - Þetta er svo mikið kjaftæði að það væri betra að þú færir að hugsa áður en þú lætur svo rugl út úr þér.
Gætir þú verið svo vænn að útskýra betur hvað þú átt við.
Ef við hefðuð óendanlegan tíma og óendanlega fjölda vísindmanna til þess að rannsaka stæði ekki steinn yfir steini í nútímavísindum. Í þeim skilning eru allar nútímavísindakenningar sennilega meira og minna ósannar.
Ok, þessi fullyrðing þín er hreint kjaftæði eða næst því að vera mjög furðuleg alhæfing um vísindi. Það væri kannski betra að fá frá þér hvaða vísindagreinar/kenningar væru líklegri en aðrar breytast 100% við að setja fleiri vísindamenn í að rannsaka þær?
Vísindi eins og við þekkjum þau í dag byggja á eldri þekkingu sem vísindamenn hafa aflað sér í gegnum tíðina og því tómt bull að tala um að sá grunnur sem vísindi byggja á þurrkist út bara við það að setja fleiri menn í verkið.
Það sem við myndum fá ef við settum fleiri menn í að rannsóknir væri meiri þekking ofaná núverandi þekkingu. Það væru jú einhverjar kenningar sem myndu breytast en ekkert í líkingu við það sem þú vilt halda fram.
Ekki skil ég hvers vegna það vefst fyrir þér að svara svo einföldri spurningu eins og þeirri sem ég bar upp hér í upphafi.
Ég svaraði þeirri spurningu, svarið var: "Ef þú veist um einhverja þriðju leið, þá máttu endilega benda á hana."
Þú stillir upp tveimur valkostum og ég bendi dæmi um einhverja fleiri.
Ertu að halda því fram að það sé einhver þriðja leið að notast við tilfinningar við að mynda sér skoðun? Og ertu að halda því að þú notist við tilfinningar við að komast að því að til sé þríeinn, algóður, almáttugur og alvitur andi?
Það að tilfinningar hafi áhrif á "gjörðir okkar og ákvarðanir" þýðir hvorki að það sé einhver þriðja leið við að mynda sér skoðanir né að það sé skynsamlegt að gera það.
Ef þú vilt ekki svara spurningum mínum -...
Voðalegir stælar eru þetta. Ég vil alveg svara spurningunum þínum, en þá verða þær að vera skijanlegar. Svo mættir þú alveg líta í eigin barm, ég veit ekki til þess að þú hafir svarað einu einustu spurningu frá mér.
Sumir halda því fram að skynsemin geti afgreitt frumspekilegar spurningar - gott og vel.
Og hvaða frumspekilegu spurningum svarar þú með trú/tilfinningu sem skynsemin getur ekki svarað?
Vísindi eins og við þekkjum þau í dag byggja á eldri þekkingu sem vísindamenn hafa aflað sér í gegnum tíðina og því tómt bull að tala um að sá grunnur sem vísindi byggja á þurrkist út bara við það að setja fleiri menn í verkið.
Vísindi framtíðarinnar byggjast á þeim niðurstöðum sem þá verða fyrirliggjandi. Hver er skynsamlegasta túlkun á niðustöðum vísindamann í fjarlægri framtíð er ekkert hægt að fullyrða um. Það er því ekki hægt að fullyrða að grundvöllur núverandi vísinda standi þá óhaggaður. Mér finnst ekki ólíklegt að margvíslegar breytingar verði nauðsynlegar á grunnforsendum vísinda.
Guðjón, endilega upplýstu hverjar þessar margvíslegu breytingar gætu verið á grunnforsendum vísindanna.
Veruleikinn er einn, en vísindagreinarnar eru margar. Ástæðan er takmarkanir mannins. Hlýtur ekki lokamarkið vísinda að vera að útskýra hvernig allir hlutir tengjast. Öll vísindi eru háð óvissu, en það merki að við höfum ekki hugmynd um hvert vísindinn munu leiða okkur í fjarlægri framtíð vegna þess að niðustöður úr rannsóknum er ekki hægt að panta fyrirfram. Veruleikinn er eins og hann er og skoðanir vísindamanna á honum breyta ekki eðli veruleikans. Gjaldið fyrir framfarir í vísindum er stundum að menn fórni hugmyndum sem þeir eru aljörlega vissir um að séu réttar.
Hlýtur ekki lokamarkið vísinda að vera að útskýra hvernig allir hlutir tengjast.
Ehh.. nei.
Af hverju ætti að það að vera "lokamark" að uppgötva hvernig heilastarfsemin okkar tengist hreyfingu jarðskorpunnar, svona til að taka handahófskennt dæmi? Það fer svo fjarri því að "allir hlutir tengist", hvað þá að "lokamark" vísinda sé að uppgötva þessar tengingar. Því má með sanni segja að fjöldi vísindagreina komi takmörkunum okkar sem mannkyns ekki nokkuð við.
Hjalti, samlíkingin við listina og tilfinningarnar er viðleitni mín til þess að svara spurnigu þinni.
Svo ég ítreki það sem ég hef áður sagt í samræðum mínum við ykkur:
Listin byggir á innsæi og listamaðurinn drekkur í sig straumana úr umhverfinu. Hið sama gildir um stjórnmál sem ganga út á meira en að smætta viðfangsefnin niður í stærðfræði. Þau byggja að einhverju leyti á tilfinningum og innsæi. Og tilfinningarnar geta verið á skjön við kalda rökhugsun og stundum þurfum við að velja - já eða nei - þegar öll rök liggja ekki fyrir. Þú getur kallað það að "kasta upp á" ef það er það sem þú meinar með samlíkingu þinni.
Margt af þessu er bundið því inn í hvaða aðstæður menn fæðast, hvað og hverjir urðu á lífsleiðinni, hvað tilfinningarnar segja og hvernig menn tengja hinn og þennan veruleikann tilvist sinni og þeim spurningum sem á þá sækja. Þetta viðurkenna allir. En þegar kemur að trúnni horfir málið öðru vísi við.
ÉG hef aldrei haldið því fram að kristin trú sé rökleg niðurstaða eingöngu grundvölluð á skynseminni. Ég hef þvert á móti lýst trú minni sem afstöðu til málefna sem standa handan skynseminnar. Ég lít svo á að upptök og orsakasamhengi tilverunnar megi rekja til þess persónulega Guðs sem birtist okkur í persónu Jesú Krists. Trú mín byggist á því að líf mitt hafi tilgang og merkingu sem ég byggi á fyrirheitum Guðs. Af hverju aðhyllist ég þetta? Fráleitt væri að neita því að upptökin hvíla í því að ég fæðist inn í kristna menningu og drekk í mig boðskapinn frá æsku. Í kjölfarið hefur lestur minn og íhugun styrkt mig í þessari trú og sannfært mig um ágæti þeirrar lífsstefnu sem hún leiðir af sér.
Sumt getum við staðfest með reynslu og rökum. Sumt getum við hrakið. Um sumt fáum við ekkert vitað. Þeir sem kalla sig kristna telja það tilgang sinn að lifa í samfélagi með Guði.
Hvar koma tilfinningarnar inn í þína heimsmynd? Geturðu svarað með beinum hætti?
Hvaða listir ertu að tala um, Skúli? Ritlist (skáldverk og leikrit)? Tónlist? Myndlist? Þegar rithöfundar og leikskáld hitta naglann á höfuðið er það venjulega þegar þeir setja skynsamlegar og röklegar niðurstöður sínar í listrænt samhengi. Það er ekki listin sjálf sem varpar ljósi á hlutina heldur rökhugsun þeirra og skynsemi.
Varla geturðu átt við tónlist, hún er í eðli sínu fullkomlega abstrakt og svarar engum þekkingarfræðilegum spurningum. Myndlistin er svo undir sama hatt seld og ritlistin, málarinn getur sett röklega hluti í listrænt samhengi til að fá okkur til að skilja þá.
Listin er semsagt engin þriðja leið, en getur verið útfærsla leiðar skynseminnar.
Varla geturðu átt við tónlist, hún er í eðli sínu fullkomlega abstrakt og svarar engum þekkingarfræðilegum spurningum.Jafnvel tónarnir - "fullkomlega abstrakt" - geta tjáð og túlkað marga hugsun og tilfinningar og komið áhrifamiklum skilaboðum á framfæri.
Þessi hérna er dæmi um þetta. Hún túlkar óttann og ringulreiðina í fyrstu köflunum en lýkur svo með sigurtónum sem tákna vonina og það sem framundan er.
Trúin er á sama hátt farvegur tilfinninga og tilvistarspurninga sem maðurinn glímir við.
Ég held mikið upp á Leníngrad-sinfóníuna hans Sjosta, en í mínum augum er hún frekar staðfesting á því sem við vitum, fremur en vera tól til að skapa nýja þekkingu. Hafirðu aldrei upplifað hræðslu og sigurvímu muntu ekki geta sett þig í spor annarra sem þær tilfinningar upplifa, en sá sem þekkir þessar tifinningar mun kannast við þær í tónverkum góðra höfunda.
ÉG hef aldrei haldið því fram að kristin trú sé rökleg niðurstaða eingöngu grundvölluð á skynseminni.
Það hefur enginn haldið því fram á þessum vettvangi að kristin trú sé niðurstaða sem er eingöngu grundvölluð á skynseminni. Það er auðvitað fjarstæða.
Ég hef þvert á móti lýst trú minni sem afstöðu til málefna sem standa handan skynseminnar.
En ef við tökum sem dæmi sumt af innihaldi trúar þinnar þá er það alls ekki "handan skynseminnar". Til dæmis þrenningarkenningin, tilvist algóðs, alviturs og almáttugs anda og upprisa Jesú.
Ef við einblínum á upprisuna þá vitum við að fólk lifnar ekki við eftir dauðann og að á fornöld var allt krökkt af sögum af fólki sem á að hafa lifnað við.
Sú staðhæfing að Jesús hafi lifnað við er ekki "handan skynseminnar". Það er skynsamlegt að trúa ekki á hana.
Hvar koma tilfinningarnar inn í þína heimsmynd? Geturðu svarað með beinum hætti?
Nei, ég einfaldlega skil ekki hvað þú ert að spyrja um.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Skúli - 18/09/06 09:02 #
Hjalti, stöndum við frammi fyrir aðeins tveimur möguleikum þegar ákvörðunar er þörf: að beita skynseminni eða jafn ónýtum aðferðum eins og að "kasta upp á það"?