Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fornaldarfrumspeki Umferðarstofu

Umferðastofa fer mikinn þessa daga. Í rökréttu framhaldi af stefnu stofunnar um að birta mjög ögrandi sjónvarpsauglýsingar um mögulegar afleiðingar óábyrgs aksturs, er vart hægt að kveikja á sjónvarpi nema að rekast á einhverja af mis geðfeldum auglýsingum Umferðarstofu. Ekki ætla ég að efast um gildi þessara auglýsinga til þess að hvetja fólk til að haga akstri eftir aðstæðum, enda hef ég engar forsendur til þess. Ég tel hins vegar að í einni þessara auglýsinga hafi Umferðarstofa farið langt út fyrir lögbundið verksvið sitt, sem er að daga úr umferðaslysum, og ráfað hugsunarlaust inn á myrkar lendur frumspekinnar.

Í auglýsingunni sem hér um ræðir sjást þrjú ungmenni meðvitundarlaus í flaki bíls, en eftir skamma stund verður áhorfandanum ljóst að tvö þeirra eru látin því „sál“ þeirra sést fljúga til himna. Hjá þriðja ungmenninu virðist „sálin“ eitthvað óákveðin, en ákveður loks að vera um kyrrt í líkamanum er verður til þess að ungmennið raknar úr rotinu. Hægt væri að skrifa heila bók um heimsmyndina sem birtist í þessari stuttu auglýsingu, en hún endurspeglar hugmyndir sem raunvísindi undangenginna alda hafa annað hvort hafnað eða sett stórt spurningarmerki við. Auglýsingin vísar beint í tvo af helstu spekingum fornaldar. Hér er annars vegar um að ræða Plató og hugmyndir hans um óefnislega sál sem fanga í efnislegum líkama, sem voru síðar teknar upp af höfundum Nýja testamentisins. Hins vegar er vísað í jarðmiðjukenningu Ptólemaíosar, þar sem jörðin var í miðju alheims er gerður var úr sjö kristalhvelum, en handan þeirra var verustaður Guðs og óefnislegra sála, sbr. „ég er í sjöunda himni“. Í þessari fornaldarhugmyndarfræði, sem lifði góðu lífi fram yfir miðaldir, var maðurinn miðpunktur alheimsins.

Eins og alkunna er þá var jarðmiðjukenningunni og kristalhvelum hennar skipt úr fyrir sólmiðjukenningunni á 16. og 17. öld og við það missti Guð heimili sitt í heimsmynd raunvísindanna. Við þessi umskipti var maðurinn ekki lengur í miðpunkti alheimsins, en hann var enn miðpunktur sköpunarverks Guð á jörðinni. Hugmyndin um Guð og óefnislega sál hélt hins vegar áfram að lifa góðu lífi, enda varð sá skýri greinarmunur sem í dag er gerður á guðfræði og frumspeki annars vegar og raunvísindum hins vegar ekki til fyrr en á síðar hluta 18. aldar. Ef horft er sérstaklega til lífvísindanna leiddi þessi aðskilnaður beint til þess að fram komu hugmyndir um þróun lífsins, sem náðu hámarki árið 1859 er bók Darwins um Uppruna tegundanna kom út. Með þróunarkenningunni var ekki lengur þörf á neinum guðlegum mætti til þess að skýra tilurð lífsins á jörðinni, en við það breytist maðurinn úr kórónu sköpunarverks Guðs í eitt af dýrum merkurinnar. Þrátt fyrir tilkomu þróunarkenningarinnar var „sálin“ ennþá vandamál í heimi raunvísindanna og leystu ýmsir samtímamenn Darwins þessa gátu með því að telja efnið hafa óguðlega sálræna eiginleika. Það var hins vegar ekki fyrir á síðari hluta tuttugustu aldar sem efnislegar skýringar á tilurð sálrænna eiginleika urðu ráðandi innan lífvísindanna, sem endurspeglast í því að vísindalegar rannsóknir á meðvitundinni hófust þá. Auglýsing Umferðarstofu gengur í berhögg við þessa heimsmynd!

Á heimasíðu Umferðarstofu segir að hún leggi „áherslu á að ná árangri í umferðaröryggismálum og fækka slysum. Við viljum ná mælanlegum árangri í öllum þáttum starfseminnar“. Ég geri ráð fyrir að þessu markmiði reyni Umferðarstofa að ná með því að styðjast við nýjustu vísindarannsóknir á sviði umferðarmála, en í téðri auglýsingu virðist Umferðastofa hins vegar gefa lítið fyrir hinar vísindalegu aðferðir, sem þó hafa átt stóran þátt í mótum þess samfélags sem við búum við í dag. Hvar stæði til dæmis geðlæknisfræðin í dag ef hugmyndir Platós um óefnislega sál mótuðu enn hugmyndaheim lífvísindanna? Í stað beinna staðreynda leitar Umferðarstofa í „sálar“–auglýsingunni á náðir löngu úreltra hugmynda um manninn og stöðu hans í alheiminum; sem hin kristna kirkja leitast enn við að boða. Þá má færa rök fyrir því að hugmyndin um óefnislega sál sem lifir í eilífri sælu í “sjöunda himni”, nokkuð sem þýski félagsfræðingurinn Max Weber (1864-1920) kallaði heims-afneitandi ást, hafi minni fælingarmátt þegar málið snýst um dauðslys í umferðinni, en hugmyndir efnishyggjunnar sem alfarið hafnar tilvist óefnislegrar sálar. Til hvers að aka varlega ef einstaklingsins bíður að loknu dauðslysi í umferðinni eilíf sæla í faðmi Guðs, sem er einmitt hugmyndafræðin sem liggur til grundvallar sjálfsmorðsárásum íslamskra hryðjuverkamanna. Árangursríkari leið er að mínu viti að leggja áherslu á að með ábyrgum akstri séum við að verja hið einstaka líf sem hverju okkar er gefið við getnað og endar fyrir fullt og allt er við deyjum.

Steindór J. Erlingsson 26.07.2006
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Þossi - 26/07/06 17:39 #

Er þetta nú ekki úlfaldi úr mýflugu? Mér sýnist nú (á þessum lýsingum - hef ekki séð neina þessara auglýsinga sjálfur) að það sé bara verið að notast við einfalt myndmál sem við könnumst velflest við og skiljum. Og hvernig fer Umferðarstofa út fyrir verksvið sitt þegar hún notar tákn sem Vesturlandabúar hafa kannast við í ófáar aldir?


Steindór J. Erlingsson - 26/07/06 17:46 #

Fyrir þá sem trúa á þennan löngu úrelta dualisma þá er ég eflaust að gera úlfalda úr mýflugu. Fyrir okkur hin þá er það ansi hart að ríkisstofnun, sem á að sjá um umferðaröryggismál, skuli stunda trúboð. Ég kæri mig ekki um að skattpeningum mínum sé varið á þennan hátt.


Árni Árnason - 26/07/06 17:52 #

Ég hallast nú að því að Steindór fari hér óþarflega geyst, og leggi óþarflega mikið púður í gagnrýni sína á Umferðarstofu fyrir "upprisuauglýsinguna". Auðvitað er ég gersamlega sammála honum að þetta byggir allt á gamalli bábilju sem gengur þvert á alla skynsemi, en við meigum líka passa okkur á því að taka ekki alla hluti of bókstaflega.

Það er alveg augljóst hvað Umferðarstofa er að fara með þessari auglýsingu. "Sálir" þeirra sem ekki eru spennt í bílbelti líða upp af líkunum, en "sál" þess sem spenntur er í belti kemst ekki burt og hann heldur lífi.

Þetta með upprisu sálarinnar, er einungis myndrænt táknmál sem allir skilja þó að í stuttu myndbroti sé. Mér finnst Umferðarstofa eigi að hafa listrænt svigrúm til að koma sterkum skilaboðum á framfæri, þó að þar í leynist huglægar tengingar við gamlar þjóðsögur.

Ég ætla rétt að vona að Steindór fari ekki svona á hliðina yfir öllum himnríkis/helvítis bröndurunum, og geti notið leiksýningarinnar Gullna Hliðið sem bókmenntaverks eða skemmtisögu með boðskap, þó að ekki sé um sannsögulegt verk að ræða.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/07/06 18:48 #

Mér finnst þetta afar áhugaverð grein og fróðleg nálgun. Um að gera að nýta svona tækifæri til að fjalla um hugtök eins og tvíhyggju.

Auðvitað hefði verið hægt að gera þessa auglýsingu á annan hátt, t.d. með því að notast við hjartalínurit og "flata línu", afar þekkta myndlíkingu fyrir dauðdaga í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

En hugmyndin að baki auglýsingarinnar virðist erlend, a.m.k. er hún ansi lík þessari auglýsingu.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/07/06 18:51 #

Sá breytta útgáfu af þessari sömu auglýsingu þar sem sálirnar voru ekki notaðar, fannst mér hún áhrifaríkari.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/07/06 19:05 #

Ég fæ alltaf voðalegan kjánahroll þegar ég sé sálirnar skjótast upp til himna.


Þossi - 26/07/06 19:06 #

"Fyrir þá sem trúa á þennan löngu úrelta dualisma þá er ég eflaust að gera úlfalda úr mýflugu. Fyrir okkur hin þá er það ansi hart að ríkisstofnun, sem á að sjá um umferðaröryggismál, skuli stunda trúboð. Ég kæri mig ekki um að skattpeningum mínum sé varið á þennan hátt."

Ég er ekki tvíhyggjumaður, en samt þykir mér sem hér sé verið að gera eitthvað stórt úr einhverju örlitlu, að hér sé verið að segja (í löngu máli) eitthvað sem mætti segja í nokkrum málsgreinum.

Eða hvað - ef einhver myndi skrifa svona grein ef einhver auglýsing hljómaði "Þegar sólin kemur upp á morgnana förum við inn í eldhús og fáum okkur Seríos" - nánar tiltekið, færi að benda á að sólin kemur alls ekki upp og er ekki á hreyfingu (miðað við jörðina, eða hvað?) heldur að það sé snúningur jarðar sem valdi þessu - væri það kannske þörf og góð ábending?


Steindór J. Erlingsson - 26/07/06 19:11 #

Ég er ekki sammála Árna um fælingarmátt þess að sýna sálir fljúga til himna. Hugmyndin þar að baki er fáranleg, þ.e. að okkar bíði betra líf hjá Guði en hér á jörð. Þetta er ástæða þess að ég vísaði í Weber því eins og hann benti réttilega á felur dualismi eingyðistrúarbragðanna í sér að lítið er gert úr dvöl okkar hér á jörð og áhersla í þess stað öll lögð á það sem gerist eftir dauðann. Eins og ég bendi á í lok greinarinnar er árangursríkara "að leggja áherslu á að með ábyrgum akstri séum við að verja hið einstaka líf sem hverju okkar er gefið við getnað og endar fyrir fullt og allt er við deyjum."

Varðandi viðlíka dualisma í listum þá pirra ég mig ekki á honum, enda hafði ég mjög gaman af Gullna hliðinu.


steindór J. Erlingsson - 26/07/06 19:17 #

Þossi, það er að mínu viti hæpið að bera saman umfjöllun mína um auglýsingu Umferðarstofu og dæmið sem þú tekur um jarðmiðjumálfarið sem enn er með okkur. Í auglýsingu Umferðarstofu er stuðst við trúarhugmyndir sem að mínu viti eru ekki vænlegar til árangurs þegar kemur að umferðaröryggi


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 26/07/06 19:38 #

Mér finnst þessi grein frábær.


Ágúst - 27/07/06 02:52 #

Ég hel Steindór J. Erlingsson að þú sért riddarinn siðprúði. Þvílíkt kjaftæði. Hvers vegna að eyða púðri í svona ævintýri. Getur þú ekki alveg eins ráðist á einhvert Grímsævintýra? Ef þú vilt gera eitthvað að viti, reyndu þá að gera betur en þetta. Fyrnst þér kannski ástæða til að undirstrika að Terminator myndirnar séu ósannar?


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 08:15 #

Það væri full ástæða að gagnrýna stofnanir eða fyrirtæki sem gera tómt rugl að vísindalegri staðreynd. Þessi auglýsing umferðastofu er í meira lagi klaufaleg. Lýsing Steindórs á henni er alveg frábær og virkilega skemmtilega skrifuð. Það er ekkert að því að gera gott grín að þeirri heimsmynd sem umferðastofa boðar. Í auglýsingunni eru engir fyrirvarar né grín, hún verður ekki skilin sem ævintýra auglýsing, heldur fúlasta alvara stofnunarinnar fyrir notkun öryggisbelta.


Árni Árnason - 27/07/06 09:53 #

Ég hélt því aldrei fram að "upprisan" í auglýsingu Umferðarstofu hefði, eða ætti að hafa fælingarmátt.

Kjarni auglýsingarinnar er: Bílbelti geta skilið milli lífs og dauða.

Eins og Matti segir er hjartalíuritið og flata línan dæmigert minni þegar þessi lína milli lífs og dauða er dregin með myndrænum hætti, og er mikið notað í allskonar spítaladrama.

Þessi "upprisa" er ekkert annað en slíkt sagnaminni til þess að koma þessum mörkum lífs og dauða til skila á örfáum sekúndum, á myndmáli sem allir skilja burt séð frá því hvort þeir hafa nokkra minnstu trú á upprisu eða ekki.

Þó hinn menntaði nútímamaður kasti nú sem óðast allri þessari trúarþvælu fyrir róða, situr hann uppi með margra alda sagnahefð, rétt eins og Grimmsævintýrin og Þjóðsögur Jón Árnasonar, og hún á eftir að lifa með okkur löngu eftir að trúin er dauð.

Kjarni míns máls er sá að ég hef enga trú á að þessi auglýsing hafi nokkur áhrif á trúarskoðanir fólks. Fæstir Íslendingar trúa raunverulega á upprisuna hvort sem er. Við trúlausu lítum á hana, í þessu samhengi, sem myndrænt ævintýraminni. Hinir sem trúa gera það burt séð frá þessari auglýsingu. Frelsun mannsins undan oki trúarbragðanna er á fullri ferð, og listræn tjáning með ævintýraminnum stöðvar hana ekki.

Hættan er hinsvegar sú að ef við trúlausir erum sífellt að sífra yfir svona aukaatriðum gerum við okkur að nötturum og töpum trúverðugleika.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 11:01 #

Ég held að það sé mikil depruskapur að þora ekki að gagnrýna auglýsingar sem stofnanir láta frá sér. Mér finnst grein Steindórs full af lúmskum og skemmtilegum húmor, virkilega hugvekjandi og vel skrifuð. Það er engin ástæða til að taka þetta samt of alvarlega.


Svanur Sigurbjörnsson - 27/07/06 13:09 #

Sæll Steindór Ég las greinina þína í mbl á dögunum. Hún er vel skrifuð og fróðleg en ég á erfitt með að vera sammála tilefninu. Hér er væntanlega um að ræða kvikmyndagerðamenn sem nota gömlu sálarsöguna sem myndlíkingu þess viðburðar hjá manneskju sem er um það bil að annað hvort að taka sína síðust andardrætti eða koma til meðvitundar eftir harðan árekstur. Á þennan máta sýnir myndin hvað er að gerast með skemmtilegri líkingu í stað þess að sýna blóðgusur eða brotna hálsa (eða innfallin brjósthol). Það trúir nær enginn á sálina í dag (Skv IMG Gallup segjast 8% trúa því að fara upp til himna)og því virkar þetta sem myndlíking á flest fólk (jafnvel hina trúuðu). Ég hef því ekki hinar minnstu áhyggjur af því að auglýsingin stuðli að trú á sálina, ekki frekar en krassandi draugamyndir. Tilgangur auglýsingarinnar er augljóslega ekki trúboð. Ég held að ef við trúleysingjar og húmanistar getum ekki greint á milli listar (og notkun hugmyndaflugs) og rauverulegs trúboðs missum við marks og trúverðugleika (verðum hreinlega leiðinleg). Takk fyrir annars góð skrif.


Color limbo - 27/07/06 13:17 #

Mér finnst nú mesti tepruskapurinn felast í því að þola ekki eina svona auglýsingu. Í rauninni er það fyndin smámunasemi þegar menn taka sig svo alvarlega að þeir sjá sig knúna til að skrifa greinar í Morgunblaðið út af ekki meira máli en auglýsingu sem notar ákveðnar hugmyndir sem hafa verið teknar alvarlega hjá fjölda fólks í gegnum tíðina. E.t.v. taka einhverjir þessar hugmyndir enn alvarlega og reyndar er ég viss um það. Auglýsingin er flott, áhrifamikil, menn ná punktinum. Er það ekki það sem auglýsingar ganga út á? Ef menn skrifuðu greinar í Moggann í hvert skipti sem þeim mislíkaði einhver auglýsing þá væri hann nú lítið annað en einn stór og nöldrandi Velvakandi.


Árni Árnason - 27/07/06 13:23 #

Það er fráleitt, Frelsari, að Umferðarstofa sé með auglýsingu sinni að "gera tómt rugl að vísindalegri staðreynd" .

Ekki voru Þykkvabæjar-kartöflur að gera búálfa að vísindalegri staðreynd með auglýsingu sinni úr neðanjarðarverksmiðju búálfanna. Eða hvað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 13:28 #

Mér finnst margir festast í tilefni skrifanna frekar en efni greinarinnar. Það er löngu komið fram að mörgum þykir þetta smámunasemi og óþarfi að impra á því.

Aftur á móti er það mín skoðun að þessi grein sé bæði áhugaverð og fróðleg og því fórum við þess á leit við Steindór að fá að birta hana hér á Vantrú.


Steindór J. Erlingsson - 27/07/06 14:13 #

Ég sé að greinin fer fyrir brjóstið mörgum vantrúarmanninum. Ekki ætla ég að fjargviðraðst út af því, en þó langar mig aðeins að skýra ástæðu þess að ég skrifaði greinina, sem birtist upphaflega í Morgunblaðinu. Það er ekki oft sem mér gefst tækifæri á að koma fræðigrein minni, þ.e. vísindasagnfræðinni, að í fjölmiðlum. Þarna gast mér tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara. Í þeim persónulegu viðbrögðum sem ég hef fengið hefur fólk þakkað mér fyrir að benda ýmsa hluti í greininni sem það hafði ekki hugmyndum, sérstaklega áhrif forn-grísku spekinganna á hugmyndir okkar um sálina og dvalarstað Guðs.

Ég notaði svipað tækifæri árið 2004 til sem að senda greinina “Ljósvakamiðlar” eru ekki til í Morgunblaðið.

P.S. Þessi aulýsing ættuð frá Noregi, sem er lang-trúaðasta þjóð Norðurlandanna, og ber heitið "Heaven can wait"!


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 14:13 #

Ef menn skrifuðu greinar í Moggann í hvert skipti sem þeim mislíkaði einhver auglýsing þá væri hann nú lítið annað en einn stór og nöldrandi Velvakandi.

Ertu að reyna að halda því fram að Mogginn sé eitthvað annað einn stór nöldrandi Velvakandi?


Steindór J. Erlingsson - 27/07/06 14:27 #

Mig langar að endurtaka P.S.-ið því það inniheldur leiðilegar villur: P.S. Þessi auglýsing er ættuð frá Noregi, sem er lang-trúaðasta þjóð Norðurlandanna, og ber heitið "Heaven can wait"!


Árni Árnason - 27/07/06 15:26 #

Ég veit satt að segja ekki hvernig ég á að taka þessu tali öllu.

Eru menn virkilega að fara fram á einhvers konar fasistíska málhreinsun. Síst ætlar maður sagnfræðingi, ekki einu sinni vísindasagnfræðingi, að vilja "brenna bækur".

Að ótækt sé að nota orðið "ljósvaki" af því að það tilheyrði gamalli vísindakenningu sem ekki stóðst, er í mínum huga vísindafasismi.

Ljósvaki er hljómfagurt og fallegt orð sem auðgar mál okkar, og skítt veri með það þó að fyrirbærið sem skírt var þessu nafni hafi aldrei verið til.

Fyrir einhverjum árum var Sigurði Líndal lagaprófessor falið að yfirfara íslenska lagasafnið með það fyrir augum að hreinsa þaðan úrelt og úr sér gengin lög sem láðst hafði að nema úr gildi með formlegum hætti. Eins og ég heyrði söguna voru þó ákvæði um bann við hrossakjötsáti úr Jónsbók frá 13. öld, ofl. látin standa. Sigurður vissi sem var að það er fleira lög en það sem stendur í bókunum, og að ekki er allt endilega lög þó það standi í bók.

Ég hreinlega veit ekki hvar þessi vitleysa myndi enda ef ekki mætti tala um sólaupprás, eða að hafa þungan kross að bera. Ég ætla að vona að menn uppskeri eins og þeir sá þó aldrei hafi á akur komið og leggi ekki árar í bát, og það jafnt þó þeir hafi hvorki átt ár né bát og einungis séð slík fyrirbæri á mynd.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 15:39 #

Nei, Árni. Ég held að þú sért að taka þessu alltof alvarlega. Grein Steindórs er mjög skemmtileg og þörf hugvekja. Engin ástæða til að taka þessu á þennan hátt.


Steindór J. Erlingsson - 27/07/06 15:42 #

Árni, þetta er ekki spurning um "vísindafasisma", sem ég hef barist harkalega á móti sbr. bók mína Genin okkar. Málið snýst um að fræða fólk um rætur orða og hugtaka sem það notar "hugsunarlaust" í daglegu tali, en auðvitað hlýt ég í leiðinni að lýsa minni eigin skoðun!


Steindór J. Erlingsson - 27/07/06 15:53 #

Í grunn- og framhaldsskólum fræðumst við um rætur orða og orðasambanda, eins og þeirra sem Árni minnist á í síðasta innleggi sínu. En þegar kemur að "úreltum" raunvísindahugtökum er slíkri fræðslu ekki fyrir að fara, því raunvísindin sem slík hafa augljóslega engan áhuga á þeim og nánast ekkert er fjallað um sögu raunvísindanna í íslensku menntakerfi.


Árni Árnason - 27/07/06 16:57 #

Nei fari það og veri að það sé ég sem er að taka þetta of alvarlega.

Ekki er það ég sem er að mála skrattann á vegginn sem andsetinn væri yfir einhverri auglýsingu sem varpað er út á öldum ljósvakans. Það má vel vera að það hlaupi í mig einhver púki þegar besserwisserar þurfa endilega að bera einhverja vísindareglustiku á alla skapaða hluti, en veðurguðirnir hafa verið okkur svo góðir undanfarið að það er ekki hægt annað en að vera í góðu skapi og fyrirgefa þeim að þeir skyldu láta eina höfuðsyndina, hrokann, ná tökum á sér.

Leiðréttið þetta vísindalega ef þið viljið.

Það er nefnilega enginn vandi að hafa svo ofboðslega rétt fyrir sér, alltaf og allsstaðar að það nenni enginn að tala við mann lengur. Believe me I know.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/06 17:13 #

Ekki er það ég sem er að mála skrattann á vegginn sem andsetinn væri yfir einhverri auglýsingu sem varpað er út á öldum ljósvakans.

Nei, þú málar skrattann á vegginn sem andsetinn væri yfir einhverri grein sem birt er á netinu og í dagblaði :-)


Þossi - 27/07/06 18:09 #

Hvort málar Árni skrattann sem hann (Árni) sé andsetinn, eða sem hann (skrattinn) sé andsetinn? Hvers lags andar setjast annars í skratta?

En auðvitað er gott að fólk læri lítið eitt (eða rifji upp) um uppruna þessa myndmáls og heimsmyndar. Ef ég ætti að segja eitthvað um greinina annað en það sem ég hef þegar sagt, þá er það kannske bara það eitt að ég kann betur við þegar skrifað er "Platón" eða "Platon" heldur en "Plató". Þetta er auðvitað svo mikið aukaatriði - og smekksatriði að auki - að það tekur því vart að nefna það ...


Ágúst - 27/07/06 20:24 #

(vegna þess sem ég ritaði að ofan) Hér er að finna algeran hrylling:

http://www.zion.is/felagid.htm

þegar ég sé þetta, og í ljósi atburða síðustu daga, þá hryllir mig. Þetta sameinar þá að baki Bush (dráparanum) sem fer um með eldi og skilur eftir auðn og blóði drifna jörð. Bush, hinn “Kristni”! Bush, verndari siðarins. Mér finnst það vera asnalegt markmið að ætla að gera alla að trúleysingjum. Fólk hefur einfaldlega mannréttindabundið val til að hafa trú, en samt er það auðsjáanlegt hve hættuleg siðleysisleg villutrú vondra manna er. Vissulega á það við þar að samþykkja ekki alltaf allar skoðanir. Villuskoðanir geta einfaldlega verið hættulegar. Að berjast fyrir friði, jöfnuði og réttlæti með sæmandi hætti, er brýnt verk. Samkvæmni á réttum og traustum grunni er eina mögulega leiðin. Þið getið verið ykkur og þjóð ykkar til sóma, ef þið vinnið rétt verk á réttan hátt!


Ágúst - 27/07/06 20:30 #

þegar menn kenna sig við Kristni, en styðja framferðið sem er að eiga sér stað, þá finnst mér það öfugmæli! Ég vil ekki merkja Kristna menn því fyrr en ég sé það. Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér, en er ekki ábyrgur fyrir því sem einhver vitfyrringur gerir, nema að hann fylgi honum að málum.


Árni Árnason - 28/07/06 10:29 #

Já Matti þetta er rétt hjá þér. Maður getur hringsnúist í kring um þetta þrætuefni, og það fer að því er virðist eftir því í hvernig skapi maður er hvort maður lætur þessar endalausu trúartengingar í daglega lífinu fara í taugarnar á sér eða ekki. Ég lét það tildæmis pirra mig að Guði og lukkunni er þakkað fyrir það að ekki hefur orðið eldsvoði í Hvalfjarðargöngunum, í einhverju blaðinu í dag. Svo að nú er ég alveg kominn í hring, og verð að biðja Steidór afsökunar. Það er ekki heiglum hent að finna þessi mörk. Hvað er óþolandi bábiljuhjakk, og hvað er saklaus myndlíking ?

Þessi mörk eru kannski ekki til, nema fyrir hvern og einn persónulega.

Kveðja Árni


Árni Árnason - 28/07/06 10:32 #

Svo verð ég að biðja Steindór aftur afsökunar á misrituninni. Á.Á.


Steindór J. Eringsson - 28/07/06 13:10 #

Árni, þú þarft ekki að biðja mig afsköunnar. Sjálfskoðun sú sem við höfum staðið í vegna greinar minnar er að mínu viti nauðsynleg, auk þess sem hún sýnir "andstæðingum" okkar að við lepjum ekki hugsunarlaust upp skrif hvurs annars. Þó finnst mér rétt að benda á að við verðum að gæta þess að sýna kurteisi þó við séum ekki sammála; þá skiptir ekki máli hver á í hlut!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.