Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vísindaspekin og kristin trú

Bæði mér og þér gæti fundist hver sá sem gengur í Vísindaspekikirkjuna, Votta Jehóva eða Brethern-söfnuð Jim Roberts vera snarklikkaður, en þær geggjuðu hugmyndir og hegðun sem þetta fólk aðhyllist er í engu brjálaðri en það sem milljónir manna í hinum almennu trúarbrögðum kjósa að fylgja og aðyllast.

Robert Todd Carroll

Mér var á dögunum bent á þessa síðu um Vísindaspekikirkjuna (stundum kallað Vísundarkirkjan hér á Vantrú sökum undarlegheita sinna). Maður hefur svo sem lesið ýmislegt um þetta költ, en þarna er gengið harkalegar til verks en maður hefur áður séð:

Vísindaspekikirkjan er siðlaust og hættulegt költ sem dulbýr sig sem almenn trúarbrögð. Markmið þess er að hala inn peninga. Hún beitir ýmiss konar heilaþvottartækni á fólk sem lokkað hefur verið til fylgilags, til að ná tangarhaldi á fjármunum og lífi fólks. Markmiðið er að ná af mönnum sérhverjum eyri sem þeir eiga eða geta með nokkru móti fengið að láni og að auki hneppa þá í þrældóm, hinum illu áformum sínum til framdráttar.

Það má auðvitað alveg deila um það hvort raunverulegt heilaþvætt sé þarna í gangi, en augljóst er að költ á borð við Vísindaspekikirkjuna ná að telja fólki trú um fáránlegustu hluti til að geta síðan haft not af þeim og fengið peninga þess til að renna í sjóði kirkjunnar.

Þegar ég las þessa síðu fór ég ósjálfrátt að bera eðli þessa költs saman við eðli annarra trúarhreyfinga og niðurstaðan er sláandi. Ég ætla að benda hér á nokkur atriði:

Vísindaspekin er ruglingsleg samsuða af klikkaðri og hættulega útfærðri andlegri meðferð og mikið einfölduðum, bjánalegum og ónothæfum lífsreglum og hugmyndum í bland við vísindaskáldskap sem haldið er að meðlimum kirkjunnar (þeim sem náð hafa forfrömun) sem æðri sannleik.

Berum þetta saman við kristni. Geðsjúklingar hafa í aldanna rás verið fórnarlömb kristinna kenninga um illa anda og geðræn meðferð kirkjunnar um aldir fólst í því að reka þá út af mönnum, oft með hörumlegum pyntingum. Í seinni tíð hefur Þjóðkirkjan síðan, í samkeppni við fagfólk, boðið upp á amatörslega andlega meðferð án endurgjalds, þar sem fólki í vanda er beint inn í bænalíf og traust á yfirnáttúrlegar verur, í bland við hversdagslegar ráðleggingar um fyrirgefningu, umburðarlyndi og ástundun góðs siðferðis. Það er hörmulegt til þess að vita að margir þeir sem ættu að leita sér hjálpar hjá fagfólki, t.d. eftir áföll, enda í „sálgæslu“ hjá illa upplýstum prestum sem hafa lítið að bjóða annað en goðasagnaverur og töfraþulur.

Kristnir söfnuðir halda að meðlimum sínum vísindaskáldskap um mann sem getinn var af geimveru, dó á krossi og lifnaði svo aftur við, til þess að fljúga í holdinu burt af jörðinni. Það er með ólíkindum að almenningur skuli kaupa svo fjarstæðukenndar útlistanir, en þar sem yfirgengilegt kjaftæðið sem Vísindaspekikirkjan boðar nær eyrum fólks þá er ekki óskynsamlegt að ætla að nánast hvaða vitleysa sem er getur gengið í hinn almenna borgara, sé hún reidd fram af nógu miklu átoríteti. Við erum svo áhrifagjörn upp til hópa.

Markmið hinnar kolklikkuðu andlegu meðferðar (sem kallast „endurskoðun“) er að veikja hugann. Hann víkur frá rökhugsun í átt að óskynsamlegum hugsunarhætti með því að ranghugmyndir dulvitundarinnar eru togaðar upp á yfirborðið og gerðar gildandi. Þetta gerir manneskjuna um leið næmari fyrir sefjunaráhrifum með því að færa gagnrýna hugsun hennar niður í ómeðvitað ástand. Afleiðingin er laus dásvefn sem gerir það að verkum að viðkomandi lætur betur að stjórn. Maðurinn verður við þetta í auknum mæli reiðubúinn til að trúa og hegða sér á hvern þann hátt sem fyrir er lagt. Og auðvitað er það síðan notað til að sannfæra viðkomandi enn betur um að hann eigi að láta meira fé af hendi rakna og sökkva sér af meira afli í viðjar költsins.

Dettur fleirum en mér í hug Ómega? Dagskráin þar, eins og í Krossinum, Veginum og öllum þessum frjálsu söfnuðum gengur út á nákvæmlega þetta, sefja fólk með viðstöðulausum áróðri sem lætur vel í eyrum um að láta fé af hendi rakna. Það sem í fyrstu hljómar afkáralega fyrir fólki og fær það til að hlæja, nær síðan með lúmskum hætti eyrum þess. Maður hefur heyrt ófáar slíkar reynslusögur á Ómega, þar sem fólk sem var „á valdi Satans“ eða eitthvað slíkt, hló og gerði grín af bullinu, en fékk síðan „vakningu“, fór á hnén og grét. Og síðan hafa peningar þess stöðugt runnið í hendurnar á forsprökkunum.

Takið eftir að þessi taktík á ekki við um Þjóðkirkjuna. Hún er enda fyrir löngu orðin löt, er á framfæri skattborgaranna og fær sjálfkrafa borgandi safnaðarmeðlimi í krafti hefða og siðvenja. En það þarf ekki að fara langt aftur til að sjá hliðstæðum (en kannski ekki svipuðum) aðferðum beitt af þessari stofnun. Galdrafár, Satan og helvítiseldar voru viðkvæðið öldum saman þegar þurfti að hræða fólk til fylgilags við þetta arma költ. Kirkjan sáði veilu í fólk til að geta síðan verndað það gegn öllu því illa sem það hélt að væri á sveimi. Ég minni á orð Pjeturs G. Guðmundssonar:

Ekkert barn í þessu landi á nokkursstaðar friðlýstan blett eða hæli gegn áróðri [...] atvinnu-trúmanna. Þeim er hið mesta kappsmál að vekja vanmáttartilfinninguna sem víðast og mest, og sem fyrst hjá hverjum manni, svo trúin fái þar jarðveg að vaxa í. Með þessu eru þeir vitandi - og þó reyndar langtum fleiri óvitandi - að búa til mein, svo trúnni gefist sem flest tækifæri til að græða mein.

Já, Þjóðkirkjan starfar helst á barnaökrum, fyllir hug óvitanna af trúarþvælu til að verða sér út um framtíðarkúnna. Hún veit sem er að kenningin er of vitlaus til að ná eyrum fullvaxinna, upplýstra þegna nútímasamfélagsins, hafi þeir ekki verið smitaðir á unga aldri.

Afleiðingar þess að innræta þessar ofureinfölduðu og ónothæfu lífsreglur felast í því að fólk hættir að geta hugsað rökrétt og skynsamlega. Manneskjan missir getu til að leggja sjálfstætt mat á hlutina og um leið getuna til að skora ranghugmyndir á hólm. Þetta gerir fólk meðfærilegra. En einnig einangrar þetta fólk frá samfélaginu og gerir það því afhuga, svo að það dregur sig út úr því og hverfur inn í samfélag Vísindaspekikirkjunnar.

Aftur dettur mér í hug hinir frjálsu söfnuðir. Þeir sem inn í þá hverfa hætta að taka þátt í ýmsu því sem af söfnuðinum er talið ljótt og vont. Rokk var til dæmis kallað tónlist Djöfulsins af Gunnari í Krossinum og safnaðarmeðlimirnir leika það aðeins á útvötnuðum kristilegum forsendum. Samkvæmt þessu hlustar þá varla nokkur safnaðarmeðlimur á Marilyn Manson, nema þá að hann sé að stelast til þess. Ég veit ekki hvort þetta hafi eitthvað lagast hjá Gunnari, eða hvort hann heldur enn fram þessum nöttaragangi sínum. En sé svo enn er ekki við því að búast að költlimir sæki rokktónleika þar sem handbendi Djöfulsins er á sviðinu, heldur flykkist þetta fólk á samkomur hjá söfnuðinum hvenær sem því verður við komið, til að láta ljúga að sér enn stærri skammti af rugli og vitleysu, sefjast undir algóðan leiðtogann og reiða um leið af hendi hluta af launum sínum.

„Siðferði“ er notað með góðum árangri til að koma böndum á fólk. Hinn náttúrlegi vilji okkar til að láta gott af okkur leiða er nýttur. Já, við viljum vera siðlegri, en hvað táknar það? Þarna er snilldarlegu bragði beitt. „Siðferði“ er endurupphugsað á þann hátt að í því að vera siðleg vera felist það að vera góður Vísindaspekimeðlimur og hlýða kenningum „kirkjunnar“. Ungt fólk sem enn er ekki í nöp við vélarbrögð lífins og stjórnmálanna hefur það gjarna mjög á sinninu að láta gott af sér leiða og ástunda gott siðferði. Þessi siðferðisbrella dugar því ákaflega vel til að sannfæra það um að ganga í „kirkjuna“.

Þarna finnst mér Þjóðkirkjunni rétt lýst og auðvitað öllum hinum kristnu söfnuðum líka. Það er stór partur af kennisetningu kristindómsins að siðferði geti ekki þrifist án trúar. Svo oft hefur maður séð þessu haldið fram innan Þjóðkirkjunnar, t.d. af biskupi hennar. Og trúmenn ganga um eins og viljalausir róbótar og endurtaka þvæluna í sífellu. Ég veit ekki hvað oft hafa spunnist um þetta umræður hér á Vantrú sem og á öðrum umræðuvöllum netsins.

Þetta eru aðeins nokkur atriði sem slógu mig við lestur þessarar greinar. Ég hvet lesendur Vantrúar til að lesa hana í heild sinni og leggja á þetta sjálfstætt mat. Mínar tilfinningar eru þær helstar að það séu ekki bara snarbiluð költ á borð við Vísindaspekikirkjuna sem ógna mannlegu samfélagi, heldur séu kristin og önnur trúarsamtök nákvæmlega eins í rótina.

Ef Vísindaspekikirkjan kæmist í þá eftirsóknarverðu aðstöðu að verða einhvers staðar ríkistrúarbrögð, með sjálfkrafa aðgang að sjóðum samfélagsins og sjálfkrafa inntöku meðlima, yrði hún álíka löt og Þjóðkirkjan. Prestar hennar myndu auðvitað halda áfram að blaðra um Xenu og herteknu líkamana, en þeim væri nokk sama hvort fólk hlustaði eða eigi. Þetta snýst allt, þegar öllu er á botninn hvolft, bara um peningana.

Birgir Baldursson 23.07.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Daníel - 25/07/06 01:35 #

Mér leiðist alltaf þessi íslenskun á nafni trúfélagsins "Vísindakirkjan" enda heitir hún á ensku "Church of Scientology" en ekki "Sience" eða "Sienceology". Sience og scient eru ólík orð og hafa mjög mismunandi merkingu. Sience þýðir vísindi en scient þekkjum við kannski helst úr hugtakinu omniscient sem hefur verið þýtt á íslensku sem alsjáandi. Church of scienology mætti því þýða sem Sjáandakirkjuna eða vitundarkirkjuna. Vísindakirkjan, Vísindaspekikirkjan eða Vísundarkirkjan eru kjánalegar þýðingar enda kemur scientology vísindum (sience) ekker við.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/07/06 03:15 #

scientific:

l. vísindalegur; vísinda-

scientism

n. vísindahyggja kv.

Það sem tengist vísindum getur semsagt einnig haft scient í orðinu, ekki bara science. Auk þess er -scient endingin í omniscient sama orð og science, sbr. omniscience. Hvort tveggja getur haft ce og t sem viðskeyti á eftir rótinni. Eitt orð með tvær merkingar, myndi ég halda.


Svanur Sigurbjörnsson - 25/07/06 11:13 #

Frá því að ég var í New York 2004 og svo aftur í júní 2006 hefur Scientology kirkjan þar eignast gamalvirt steinhús rétt við Times Square (mjög dýr staður) til viðbótar við það sem söfnuðurinn hafði upp við Central Park (einnig mjög dýr staður og stöndugt hús). Þetta er skelfileg þróun á að líta því þeim er greinilega að vaxa ásmegin og þeir ætla sér augljóslega að vera mjög áberandi í bandarísku þjóðfélagi.
Takk fyrir greinina Birgir


Kári B - 25/07/06 13:54 #

humm ég sé ekki betur en þetta sé predikun, og tilvitnjanir. Þú gætir orðið góður sem Prestur í Vísandakirjunni sjálfur, og talandi um klikkun og múgsefjun, mér sýnist þú vera einn af þeim sjálfur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/07/06 14:05 #

Jamm, það er semsagt dæmi um trúboð og klikkun að vara við trúboði og klikkun. Mjög góður punktur.


Khomeni - 25/07/06 14:29 #

Ég veit til þess að "Church of Scientology" er kölluð "Vísindaspekikirkjan" í HÍ.

Ekki skil ég athugasemd kára b. Hann hefur kannski ruglast eitthvað? Athugasemd hans er út í hött.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 31/07/07 00:57 #

Þetta er frábær pistill hjá þér Birgir og hann þyrfti svo sannarlega að komast "í loftið" aftur.

Allir þessir trúarhópar eða költ byggja á sömu uppskriftinni í raun. Höfða til egósins og veiða fólk til fylgis með trúarlegum gylliboðum eða loforðum að það verði eitthvað meira en aðrir og svo auðvitað á peningaplokki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.