Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um ímyndaðan andstæðing séra Gunnars

Í Mogganum þann 8. júlí skrifar Gunnar Jóhannesson prestur langa grein um Richard Dawkins. Það sem gerir þessa grein máttlausa er fyrst og fremst sú staðreynd að presturinn virðist ekki hafa lagt sig fram við að hlusta á það sem hinn virti líffræðingur hefur að segja. Þess í stað ýkir presturinn skoðanir Dawkins og oftúlkar. Þannig býr presturinn sér ímyndaðan andstæðing eða strámann (sbr. strámannsrökvillan) sem hann getur ráðist á í stað þess að svara því sem Dawkins raunverulega er að segja. Það er líka sá ímyndaði andstæðingur sem Gunnar ásakar sífellt um hroka og öfgar.

En fyrsta rangfærslan sem ég þarf að leiðrétta í grein Gunnars (þið afsakið að ég nefni ekki allt sem rangt er í greininni því þá þyrfti svar mitt að vera að minnsta kosti tvöfalt lengra en upphaflega greinin) er það að í fyrstu setningunni er ráðstefnan Jákvæðar raddir trúleysis kölluð Trúleysi á Íslandi.

Til að hrekja það sem Gunnar segir um Dawkins er best að byrja á innganginum að lokaorðum Gunnars þar sem hann segir að það sé "mjög frumstæður hugsunarháttur og til marks um afar öfgakennda vísindahyggju að kenna trú og trúarbrögðum um allt sem farið hefur miður í sögu mannsins." Málið er að Dawkins hélt þessu aldrei fram. Hann segir að trúarbrögð og trú hafi í gegnum tíðina verið stórir áhrifavaldar til ills í mörgum ógæfuköflum mannkynssögunnar, því verður ekki neitað.

Gunnar gerir nokkrar tilraunir til að sýkna trúarbrögð um áhrif á stríð og illvirki, lélegasta dæmið sem hann velur sér er þegar hann segir að það sé "ekki einu sinni hægt að skoða gyðingahatur Hitlers og hans fylgismanna í trúarlegu ljósi". Þarna hefur Gunnar rangt fyrir sér. Gyðingahatur á sér fyrst og fremst rætur í kristni. Ég ætla ekki að fara í smáatriði í þessu samhengi en það verður þó að minnast á Lúther sem skrifaði bókina "Um gyðingana og lygar þeirra", boðskapur bókarinnar er einfaldlega sá að það eigi að ofsækja gyðinga. Á Vísindavefnum skrifaði Gísli Gunnarsson prófessor í sagnfræði um gyðingaofsóknir og segir meðal annars að það hafi verið "úr gömlum arfi kristinnar hefðar sem Hitler og nasistar smíðuðu Gyðingahatur sitt og þar var af nógu að taka." Það er okkur nær óskiljanlegt að hægt sé að æsa nær heila þjóð upp í að styðja ofsóknir gegn nágrönnum sínum en ef við horfum til þess að trúarleiðtogar, bæði mótmælenda og kaþólskra, höfðu undirbúið jarðveginn í margar aldir þá skiljum við ofstækið betur.

Gunnar gerir Dawkins líka upp skoðanir þegar hann segir að prófessorinn "virðist ekki átta sig á, eða kýs að minnsta kosti að líta framhjá, er að trú á ekki heima á hinu rökræna sviði mannlegrar hugsunar. Trú er ekki hægt að rökstyðja með vísindalegum hætti." Þetta er furðuleg athugasemd af því að Dawkins gagnrýnir trú einmitt á þessum forsendum, það að hún sé ekki rökrétt og hún sé ekki studd neinum gögnum. Dawkins er ekki að misskilja trú heldur er Gunnar að misskilja Dawkins.

Í greininni tekur presturinn fram að það eigi ekki að taka Biblíuna bókstaflega. Hann predikar jafnvel afstæðishyggju í túlkun hennar og segir að Biblían sé "skrifuð á tímabili sem spannar árþúsund og ber vitni um heimsmynd, siði og menningu sem ekki er hægt að fallast á í dag. Að þessu leyti krefst biblíulestur tiltekinnar þekkingar og boðskap biblíunnar þarf að túlka á hverjum tíma." Það er reyndar skrýtið að á öðrum stað í grein sinni predikar Gunnar einmitt gegn afstæðishyggju. En Dawkins hefur einmitt gagnrýnt þessa afstæðishyggju frjálslyndra trúmanna með eftirfarandi hætti. Ef þú notar eigið hyggjuvit til þess að velja hvað er gott í Biblíunni þá er ljóst að Biblían er tilgangslaus í þessu ferli. Þú gætir allt eins notað hyggjuvit þitt til að komast að niðurstöðu um hvað er rétt og hvað rangt. Þessi afstæðishyggja frjálslyndra trúmanna hefur verið kölluð hlaðborðskristni, þú velur það sem hentar þér og sneiðir framhjá því óþægilega.

Þegar Gunnar segir að "sköpunarfrásagnir Biblíunnar eru ekki náttúruvísindi eins og Dawkins heldur staðfastlega fram að þær séu heldur ljóðræn framsetning á trú fólks og reynslu þess í heimi sem það reynir að skilja og staðsetja sig í" verður sá sem þekkir til nokkuð gáttaður. Dawkins heldur því ekki fram að sköpunarfrásagnir Biblíunnar séu náttúruvísindi. Ég veit ekki hvernig Gunnar fékk það út. En nú mæli ég með því að Gunnar og aðrir þjóðkirkjuprestar fari kerfisbundið í gegnum Biblíuna og útskýri fyrir okkur hinum hvað þeir telja bókstaflega satt og hvað er ljóðrænt líkingamál. Það væri líka gott ef að í kristinfræðibókum grunnskóla þá væri tekið fram að sköpunarsagan (og væntanlega meirihluti Biblíunnar) sé ljóðrænt líkingamál, það gæti komið í veg fyrir að talsmenn "sköpunarhyggju" eða "vitrænnar hönnunnar" nái til villuráfandi trúmanna á Íslandi.

Þegar Gunnar fjallar um afstöðu Dawkins til barna og trúar þá gerir hann Dawkins aftur upp skoðanir og heldur því fram að prófessorinn geðþekki tali gegn því að börn séu frædd um trúmál. Það er náttúrulega út í hött. Dawkins hefur einmitt sagt að fræðsla um trúmál sé mikilvæg. Hann talar hins vegar gegn því að trúaráróðri sé haldið að börnum. Þetta minnir óneitanlega á þá ómálefnalegu gagnrýni sem hefur komið frá kirkjunnar mönnum þegar rætt er um kristinfræðikennslu í skólum. Þegar fólk kemur fram og segir að það eigi að passa að fræðsla um trúmál í skólum verði ekki trúarlegur áróður þá er því fólk nær alltaf gerð upp sú skoðun að það eigi ekki að vera trúarbragðafræðsla í skólum. Fræðsla á heima í skólum, áróður og boðun ekki.

Í grein sinni reynir Gunnar líka að afneita trúleysi Dawkins og segir að traust á aðferðir vísindanna sé einhvern veginn svipað því að treysta (eða trúa) á ósýnilegan Guð. Ég skilgreini trúleysi, og ég held að Dawkins geri það á svipaðan hátt, þannig að trúleysingjar trúi ekki á yfirnáttúruleg fyrirbrigði (guð, álfa, jólasveina eða líf eftir dauðann). Í þeim skilningi er Dawkins augljóslega trúlaus en Gunnar trúaður. Við hljótum að sjá að trú á guð og traust á aðferðir vísindanna sem hafa ítrekað sannað gildi sitt í þekkingarleit manna eru ekki tengd fyrirbæri, þetta eru gjörólíkar hugmyndir. Önnur hvílir á reynslu og síendurteknum staðfestingum tilrauna, hin á blindri trú.

Gunnar segir trú sína réttlæta sig, ég segi að orð mín og gjörðir þurfi að réttlæta mig. Þegar Gunnar segir "[é]g veit ekki hvað framtíðin geymir í skauti sér, en það er allt í lagi því ég veit hver geymir framtíðina. Það nægir mér að treysta þeirri vissu" þá sýnir hann vel hvað aðgreinir hann sem trúmann frá Dawkins sem trúleysingja. Við trúleysingjar leyfum okkur ekki að lifa í slíkri blindri trú á framtíðina. Við, og mannkynið allt, þurfum bera ábyrgðina sjálf.

Stytt útgáfa af greininni var send Morgunblaðinu þann 10. júlí síðastliðinn og birtist þann 20. júlí.

Óli Gneisti Sóleyjarson 21.07.2006
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Khomeni - 21/07/06 10:01 #

Frábær grein... Frábær grein.

Bravó!


Árni Þór - 21/07/06 12:10 #

Mjöf fín grein hjá þér Óli. Gott framtak og nauðsynlegt. Rangtúlkanir séra Gunnars voru ákaflega kómískar, en engu að síður mikilvægt að svara þeim.


Pétur Haukur - 22/07/06 01:52 #

Mjög vel orðað og vel rökstudd grein. Cheers.


Svanur Sigurbjörnsson - 25/07/06 00:37 #

Flott grein! Mitt svar komst ekki almennilega úr startholunum. SS


jón - 01/09/06 18:37 #

haha er þetta gunnar í krossinum? einn galli við það sem allt þetta fólk er að segja: ef bibblían segir að guð elski alla elskar hann þá ekki líka trúleysingja og gyðinga og alla araba og bara alla í heiminum. síðan eru sumir af þessum ofsatrúargaurum bara að reyna að fá aðra kristna gaura til að gefa skít í þetta fólk eða í besta falli drepa það(gerist ekki á íslandi:Þ). ég meina er kristni þá einhvað betri en allir þessir sjálfsmorðsmúslimar?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.