Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Blinda vanans

Ég held að það eigi við um okkur öll að gagnrýnin hugsun okkar megi sín síst þegar kemur að öllu því sem við erum samdauna. Það þarf sérstakt átak til að taka sig upp og byrja að horfa á allt hið viðtekna eins og utanaðkomandi.

Við hér uppi á Íslandi eigum ekki í nokkrum vandræðum með að skoða mormónatrúna sem eitthvað undurfurðulegt fyrirbæri, fáránlega lygasögu um tvær ættkvíslir gyðinga í Ameríku allt frá því aftur fyrir Krist. Þessar ættkvíslir voru þess eðlis að önnur var vond og hin góð, sú vonda slátraði öllum þeim góðu, nema manni að nafni Mormón, en svo kom Jesús Kristur, eftir krossfestinguna og refsaði öllum þessum vondu með því að breyta þeim í það sem við köllum indíána. Samkvæmt Mormónstrúnni eru indíánarnir því afkomendur vonda fólksins sem drap allt góða fólkið.

Við sjáum að þetta er bara einhver furðuleg kynþáttahyggja, byggð á ömurlegum ranghugmyndum.

Við flest sjáum líka Scientology sem einhverja svona útúrgeggjaða vitleysu sem Hollywood-leikarar sumir hverjir eru svo vitlausir að kaupa. Kennisetningarnar eru einfaldlega svo fjarstæðukenndar að okkur dettur ekki til hugar að leggja á þetta nokkurn trúnað. Sem vísindaskáldsaga væri þetta ekki einu sinni spennandi.

En hér ganga um götur menn og konur sem finnst ekkert sjálfsagðara en að halda að einhver Gyðingur hafi fyrir tvö þúsund árum tekið á sig syndir mannanna og tilbeiðsla á honum þýði að menn komast í góð mál eftir dauðann.

Ef kristindómurinn væri að koma fram fyrst í dag mundu fáir líta við honum. Þessi saga, sem ætlast er til að menn trúi, er einfaldlega of vitlaus, of mikil fjarstæða. Nútíminn er einfaldlega of upplýstur fyrir svona dót, enda er kirkjan óðum að laga sig að honum með því að henda burtu öllu þessu költíska sem í trúarritunum stendur. Heimsendirinn og endurkoma frelsarans er til dæmis eitthvað sem ekki tekur lengur að fjölyrða um og djöfullinn sjálfur er bara orðin að einhverju skrípói. Af hverju ekki guð líka?

Það er blinda vanahugsuninnar sem veldur því að mörg okkar hafa ekki hafnað kristindóminum. Við höfum alist upp við þetta blaður frá frumbernsku, hlýtt á presta og aðra erindreka trúarinnar segja sögur af kraftaverkum og göfgi. Þetta er í eyrum okkar orðið að einhverju þægilegu glundri sem framreitt er með höfugri orgeltónlist kvölds og morgna í Ríkisútvarpinu. Við erum orðin sljó fyrir þessu.

Ég skora á ykkur að rífa hugann upp úr vanafarinu og skoða kristindóminn á óvæginn og gagnrýninn hátt. Ég get lofað ykkur því að það ferðalag verður bæði fróðlegt og spennandi. Kristindómurinn er nefnilega, rétt eins og öll önnur trúarbrögð, alveg hrikalega vitleysisleg og sjúk pæling.

Birgir Baldursson 23.06.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Pétur Björgvin - 23/06/06 10:20 #

Sæll Birgir. Mjög þarft og rétt sem þú bendir á að við eigum öll sérstaklega erfitt með að líta í eigin barm. Og það er sannarlega persónulegt átak sem fylgir því að fara í gegnum ígrundaða naflaskoðun. En nóg um það því þér og flestum sem þetta lesa er ljóst að svona jákvæðum inngangi frá mér fylgir væntanlega ,,EN" eða ,,NEI" setning. Þær eru nokkrar í þetta sinn en þurfa smá inngang (og svo kemur aftur jákvæður botn):

Ég er þeirrar skoðunar að sama hvar við stígum niður í eigin lífi, þjóðmálaumræðunni eða samskiptum um trúmál (svo dæmi séu nefnd) sé afstöðuleysi ekki svar. Það er mikilvægt fyrir einstaklinginn að taka afstöðu. Og það gerum við öll, sífellt: Skráum okkur í skóla og tökum þar með þá afstöðu að þetta nám sé gott. Kaupum okkur hús og tökum þar með þá afstöðu að þetta hús sé gott. Kynnumst lífsförunaut og ákveðum að binda okkur nánari böndum og tökum þar með þá afstöðu að kostir lífsförunautar okkar sé svo margir að þeir gersamlega þurrki út gallana. Við förum á kjörstað og kjósum eða förum ekki og kjósum og tökum þar með afstöðu til stjórnmála.

Allar ákvarðanir um slíka afstöðu snúast um okkur sjálf, snúast um hvort og þá hvernig við viljum hafa áhrif á umheiminn, hvort og þá hvaða afstöðu við höfum til annars fólks, hvaða markmið við setjum okkur í lífinu eða hvort við veljum að láta slag standa. Við tökum afstöðu, sífellt, endurtekið, aftur og aftur þó svo að stundum snúist afstaðan einungis um að velja illskásta kostinn, en einnig slík afstaða er líka afstaða og á rétt á sér við aðstæður þar sem úr fáu er að velja.

Ég reyni að virða þessar ákvarðanir annarra þó svo að ég eigi stundum erfitt með að ímynda mér hvernig í ósköpunum viðkomandi gat tekið þá ákvörðun eða afstöðu sem hann tók.

Og það er það sem ég vil segja þér hér í dag Birgir. Ég á afskaplega erfitt með að átta mig á því hvers vegna í ósköpunum þú velur að taka þá afstöðu að: * Mormónatrú sé ,,furðuleg kynþáttahyggja, byggð á ömurlegum ranghugmyndum" * Scientology sé ,,útúrgeggjuð vitleysa" * Kristindómurinn sé ,,saga ... [sem er] einfaldlega of vitlaus, of mikil fjarstæða."

Þar sem að ég á erfitt með að átta mig á þessari afstöðu þinni er það mér áskorun að kyngja því að þetta sé þín afstaða og segja við sjálfan mig að þú eigir fullan rétt á því að taka þessa afstöðu og tala um hana á opinskáan hátt.

Það sama gildir fyrir mig varðandi Mormóna og fylgisfólk Vísindakirkjunnar. Ég á erfitt með að skilja afstöðu þessara einstaklinga, erfitt með að átta mig á því hvers vegna þau velja þetta lífsviðhorf.

Og nú langar mig að forvitnast hvort að ég skilji það rétt að þú, Birgir, eigir erfitt með að skilja afstöðu okkar sem játum kristna trú. Játum trú á þríeinan Guð, þann Guð sem skapaði heiminn, kom í þennan heim sem maður, barðist við hið illa og sigraði það og hrífur okkur og heillar með heilögum anda sínum enn þann dag í dag.

Í lokin langar mig til þess að þakka þér (nú kemur það sem mér finnst vera jákvæði endirinn) fyrir þá hvatningu sem þú setur fram í lok pistilsins: ,,Ég skora á ykkur að rífa hugan upp úr vanafarinu og skoða kristindóminn á óvæginn og gagnrýninn hátt." Þetta er mjög mikilvægt og á við um okkur öll. Harður sjálfstæðismaður þarf sífellt að rífa hugan upp úr vanafarinu og skoða sjálfstæðistefnuna á óvæginn og gagnrýninn hátt annars missir flokkurinn tengslin við fólkið. Stjórnendur fyrirtækis þurfa að gera það sama varðandi stefnu fyrirtækisins annars fer það einfaldlega á hausinn og svona mætti lengi telja.

Slíkt hið sama þurfa lesendur vantru.is að gera, skoða eigin afstöðu til þess sem ritað er á óvæginn og gagnrýnan hátt. Og það gerist ekki nema með því að kynna sér fleiri hliðar málsins.

Og það er einmitt þetta sem Biblían hvetur okkur til að gera, vera brennandi í andanum og taka afstöðu með lífinu.

Kveðja að norðan Djákninn á Glerá


Carlos - 23/06/06 10:55 #

Ef kristindómurinn væri að koma fram fyrst í dag mundu fáir líta við honum. Þessi saga, sem ætlast er til að menn trúi, er einfaldlega of vitlaus, of mikil fjarstæða. Nútíminn er einfaldlega of upplýstur fyrir svona dót, enda er kirkjan óðum að laga sig að honum með því að henda burtu öllu þessu költíska sem í trúarritunum stendur.
Boðskapur Jesú var of ruglaður fyrir marga samtímamenn hans og Páll bendir á að það sem hann prédikaði hafi verið Gyðingum hneyksli og Grikkjum (heimspekilega þenkjandi) heimska. Þannig að fátt hefur breyst hvað þetta varðar. Samt halda menn í þetta túlkunarmódel fyrir lífs- og trúarreynslu sína. Þú heldur því fram, Birgir að það sé vegna vana eða vanhugsunar, einnig hefurðu nefnt heilaþvott og ófrelsi hugsunar (þetta költíska). Loks hefurðu nefnt skort á vísindalegri hugsun eða þjálfun og kallar aðlögun gamalla goðsagna að nútímahugsun grænsápu eða fegrunaraðgerðir (þú leiðréttir orðanotkun þar sem ég hef misskilið).

Ég kalla viðvarandi trúariðkun upplýstrar manneskju heilbrigða trú, skynsama trú. Geri mér grein fyrir því að það er mótsögn í þínum huga. Enda getur trú ekki verið skynsamleg, ef maður útilokar það fyrirfram, að hún geti verið rétt viðbragð við tilgreindu áreiti.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/06/06 13:22 #

Ég útiloka ekkert að trúin geti verið skiljanlegt viðbragð við tilteknu áreiti, ég útiloka það bara að trú geti nokkurn tíma verið skynsamlegt viðbragð við nokkru áreiti.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 23/06/06 14:15 #

Carlos, ég var afskaplega krúttlega kristinn frá barnæsku til næstum þrítugs. Var bara í minni grænsápu, sæll og glaður. Það sem maður nemur í barnæsku er eitt af best víruðustu tengslum heilans. Vegna þess að heilinn er analog líffæri, þá þarf að mynda á fullorðins árum mun fleiri tengsl til að hafna rótgrónum og jákvæðum Jesú tengslum. Það tók mig 10 ár að tengja framhjá í eigin heilabrotum um Jesú og félaga. Á endanum gat ég ekki af kærleik trúað á slík fyrirbirgði en trúði samt á æðri máttarvöld á endanum. Það var því sem rothögg að uppgötva að þróun lífs á jörðinni, þýðir að guð er ekki til. Hann, hún eða það hefur engan tilgang. Eiginlega ótrúlega heimskuleg hugmynd, hvað þá sú botnlausa heimska að hann hafi skapað okkur í eigin mynd.

Að rjúfa þessi heilatengsl í góðri trú er meiriháttar mál, aðallega vegna þess að ég var alveg sáttur við mína mildu trú, sem byggðist ekkert á dogma eða fanatík. Ef maður hleypir þekkingunni að sér, horfir á öll samfélög jarðar úr smá fjarlægð og leyfir sér að hugsa á rökrétt. Þá er smá möguleiki að klafar trúarinnar og allar þær ranghugmyndir skolist út í átökum heilafrumanna. Reyndar lít ég svo á að svo rækilega eru trúartengsl heilafrumanna föst í okkar heilabúi þeirra sem hafa lifað í jákvæðri trú frá barnæsku að það nær ógjörningur að sjá ljósið í þessum málum. Sá sem er trúlaus á bágt með skilja að fólk trúir á jafn mikla fjarstæðu eins Jesú. En staðreyndin er sú að heilaþvotta trú frá barnæsku er með síðustu tengslum heilans sem rofna ef fólk heilabilast á gamals aldri. Svo sterk er þessi fáránlega innræting. Þess vegna er svo erfitt að fyrir þann trúaða að endurskoða trú sína. Þetta er það síðasta sem trúmaður getur endurskoðað í sínu heilabúi.

En kristin trú er byggð á sandi, gamalt költ sem hefur kostar þúsund ár af afturför og ömurleika fyrir forfeðurna. Núna hefur költið aðlagað sig að nútímanum eins og kostur er. Hætt að meiða aðra nema kannski einstaka minnihlutahópa. Núna er kristni bara þægur hvolpur sem dillar rófunni ef maður mætir í messu.

Að horfast í augun við raunveruleikan er meiriháttar mál og mikið verk. Ég öfunda engan sem trúir af kærleik að uppgötva eigin asnaeyru. Það var sársaukafullt fyrir mig í fyrstu, en er í dag algjör frelsun. Hugurinn ber mann alla leið í frelsið frá trúarbrögðum ef maður tekst á við það verkefni. Þegar því verki er lokið líður manni aftur vel sem manneskju. Í dag er mun sáttari en ég var sem trúaður, sáttur að vera maður, en ekki hluti af brúðuleikhúsi guðs. Það er því hægt að sjá ljósið, en kyndilinn er ekki blekking heldur þekking.


Carlos - 23/06/06 17:40 #

Þakka þér fyrir innsæið í sögu þína, frelsari, mín saga er önnur en þín, þar sem ég var látinn í friði með trú mína í foreldrahúsum, varð trúlaus milli 14 og 19 ára, frelsaðist, varð heittrúaður um stund og fór síðan í 10 ára háskólanám í guðfræði er á Íslandi og í útlöndum.

Guðfræðin varð sá skurðarhnífur sem skar á þau asnaeyru sem þú talar um í mínu tilfelli. Fræðin gáfu mér túlkunarlykil sem mér finnst ganga upp. Ég, eins og þú er mun sáttari nú en ég var heittrúaður eða trúlaus. Ég eins og þú er sáttur við að vera maður, hugsandi, með sambland vissu og efasemda. Ég get ekki hugsað mér líf mitt án Guðs frekar en ég hugsað mér líf mitt án þeirra ástvina sem ég á og aðra hluti sem skilgreina hver ég er.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 24/06/06 00:23 #

Sæll Carlos, mig grunar að þú hafir frekar verið afstöðulaus í trúmálum áður en þú fórst að leita í alvöru, allavega er það mjög algengt. Ég geri ráð fyrir að þú hafir ekki verið vantrúar "dólgur" á þessum árum:)

Það sem gleður mest Carlos er að þú átt miklu meiri möguleika en ég átti að endurskoða hugmyndina um "almættið". Það er miklu auðveldara, nema þá kannski fjárhagslega, fyrir þig að eignast nýja heimsmynd. Ég samgleðst þér innilega fyrir að hafa þennan möguleika sem ég átti tæpast ekki.

Tilfinningin að hafna bókstafstrú og gangast undir nútímalegan evangelískan Jesú hlýtur að vera ákveðið spark og jafnvel tímabundið sjokk. Ég bið þig innilega að taka þessi orð mín ekki sem móðgun. En asnaeyrun meintu (lesist í ljósi Krists:) eru þarna ennþá. Láttu mig þekkja þau, ég er ennþá að skamma sjálfan mig fyrir að hugsa ekki ráðgátur lífsins í stærra samhengi en mín trúaða heimsmynd leyfði.

Upplýsingarnar liggja fyrir, mannskepnan hefur aðeins verið við líði síðustu sekúndur jarðsögunnar. Meintur Jesú frá smábænum Nasaret aðeins síðustu sekúndubrotinn og á því bjargi á tilvist hins kristna guðs að standa. Já, ellefu vitni af geimför Jesú sem vottar um eilíft líf. Eilíft líf sem við höfum ekkert við að gera, sem lífverur sem þrífumst við á því að endurnýja sig í stöðugri þróun. Vegna þróunar er sköpunar guðinn algjörlega atvinnulaus. Við setjum lög um öryggisbelti í bíla og færri deyja í bílslysum, enginn guð þar að verki. Guð sem er bæði áhrifalaus með öllu, hefur engan tilgang en að lækna bakverki á samkomum bókstafstrúarmanna. Voðalegur asni gat maður verið... Það er allavega mín játning við augljósa tilvistkreppu míns gamla guðs. Einhver heimsspeki þjark um þetta efni stenst ekki raunveruleikan, né þær upplýsingar sem við höfum alheim allan.

Ef maður elskar fjölskyldu og vini sem reynast manni vel. Hvað höfum við að gera með guð? Til hvers að deila þessari tilfinningu með meintum guð sem við ímyndum okkur að sé í samvinnu með okkur. Ekki gera það, ástvinir koma þar fullkomlega í staðinn. Hins vegar er verk að vinna að hjálpa þeim sem ekki eiga vini og aðgengi að kærleik. Það ætti að vera framtíðarstarf þeirra sem velja nú prestskap. Ég sé fyrir mér næg verkefni í samfélaginu, þó að við hentum út öllum Jesú dogma og skítnum kirkjusiðum. Það er allavega mín upplifun og von fyrir framtíð mannúðar og kærleiks. Það er því full þörf fyrir fólk eins og Carlos, bara án hempu og krossa.


Carlos - 24/06/06 11:15 #

Þakka hlý orð, frelsari og innsæi. Ég held að ég hafi aldrei verið "dólgur", nema þá sem trúmaður og þá aðeins skamma hríð ;-)

Að öllu gamni slepptu, þá er það rétt hjá þér, ég hef allt frá því að ég hóf guðfræðinámið, haft mikla möguleika á því að endurskoða almættið, reynslu mína, trú mína, mig sjálfan. En ólíkt þér komst ég að þeirri niðurstöðu að án Guðs er mér vant. Hitt er rétt hjá þér, að ferðalagið frá bókstaf til nútímalegs, evangelísks Jesú var ekki þrautalaust, ég held ég hafi aldrei komist nær því að kasta trúnni en á þeirri leið. Ástæðan var einföld, bókstafstrúin gerir kröfu um að maður gangist undir aga sem kastar allri skynsemi fyrir kreddur sem standast ekki. "Ef einn stafur af biblíunni er ósannur, hvaða gagn er þá af henni?" spurði ég. "Allt eða ekkert" trú.

Frjálslynd, nútímaleg túlkun trúararfsins gerir mér kleift að finna trúarreynslu minni stað, hefur leyft mér að halda í það sem heillaði mig við kristna trú frá upphafi og leyfir mér að skoða heiminn af sömu gagnrýni og ég sé ykkur, skrifendur á vantru.is gera. Hver erfið spurning er hvatning til að fá mér occamskan rakstur, og síðasta áskorun þín líka.

Því ef ég get ekki fundið Guði mínum stað, þá ætti ég að snúa mér að öðru. En nú veit ég hvar Guð er að finna. Gamla ljóðið, "trúðu á tvennt í heimi" lýsir guðfræði minni og trúarreynslu best. Sú reynsla hefur gert mér fært að reyna Guð í því sem ég hugsa og geri en fyrst og fremst í samskiptum við annað fólk.

Trú mín og prédikun á því tvær stoðir, annarsvegar að skoða og leita inn á við, í tilbeiðslu, einkennisorðin "lex orandi, lex credendi" (trúðu því sem þú getur orðað í bæn) eiga við þar. Hinsvegar útávið, "gullna reglan" og nútímaleg tjáning þeirra í framsetningu mannréttinda og baráttu fyrir þeim.

En kjarni trúarreynslu minnar felst í því að ég er sáttur við Guð og Guð við mig. Eins væmið og það hlýtur að hljóma hér, þá er þessi vissa eitthvað sem ég kemst ekki framhjá, og því skammast ég mín ekki fyrir væmnina.


jonfr - 24/06/06 18:16 #

Að "frelsast" til trúar er ekkert annað nema merki um ákveðna geðveiki, sem er gefið "andlit" með trúinni.

Svei, svei.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 25/06/06 02:23 #

Carlos, takk fyrir góð svör. Mér finnst ekki væmið að lesa einlægar skriftir. Ég samgleðst þér að þú hafir fundið þinn stað og stund í trú. Mín reynsla af trú er góð og hin evangelíska "grænsápa" eða ljós Jesú Krists eins ég kallaði það einu sinni var öruggur staður. En trúin ber mann aðeins hálfa leið, undarlegt en satt. Alheimurinn í rúmi tímans, án höfundar eða stjórnvalds, gerir heimsmynd Yahweh, Jesú eða Búdda að undarlegri (vildi helst kalla bjánalegri) arfleið samtímans. Í sannri trú aðlagaði ég sannleikanum að mínum ranghugmyndum, jafnvel augljósar staðreyndir um þróun lífs kveikti ekki á neinni peru, alltaf var pláss fyrir guð. Trúin endar á hurð, slagbrand og lás. Ég dáði fegurð hurðarinnar, gylta lása og hljómfagrann slagbrand. Það var slys að ég opnaði hana. Ég vona að það gerist ekki í messu hjá nokkrum presti, því það er yfirþyrmandi uppgötvun að standa einn andspænis öllum heiminum :)


Carlos - 25/06/06 13:58 #

Þakka nærgætin orð, frelsari, en mér sýnist við vera komnir að mörkum þess sem hægt er að fela þessum vettvangi skrifaðra athugasemda án andlits eða líkama til að lesa í og án þekkingar á persónu og sögu til að miða við. Því er nefnilega þannig farið, að þegar maður hefur eingöngu texta fyrir framan sig, þá er niðurstaða eins og sú sem jonfr stingur upp á bæði augljós og rökrétt (eða hið gagnstæða, ef maður kemur að þessu sem trúmaður), þ.e.a.s. ef enginn lífsreynsla er tekin með í reikninginn og maður sættir sig við yfirborðsklórið og áróður aldanna. Niðurstaða þesskonar er að við getum ekki meir en slegið upp gömlum slagorðum annað hvort í kurteisi eða með dólgshætti, en komumst ekki nær skilningi.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 25/06/06 18:18 #

Ég er sammála, þetta er ágætt. Kannski óþarfi að fara skrifta hérna eins og kaþólikkar :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.