Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Má ekki vera gaman á Hvítasunnudegi?

Fyrir tæpum tveimur mánuðum ögruðum við á Vantrú lögum um helgidagafrið með því að halda kvikmyndasýningu fyrir klukkan 15:00 á föstudaginn langa. Þrátt fyrir að við klöguðum okkur sjálfir til lögreglunnar þá var ekkert að gert. Því miður fá ekki allir að hunsa þessi lög. Nú um helgina var haldin tónlistarhátíðin Reykjavík Trópík. Þrátt fyrir að fyrirheit hefðu verið gefin um skemmtanaleyfi alla helgina kom í ljós síðasta föstudag að ekki mætti halda tónleika á Hvítusunnudegi. Ástæðan er sú að Hvítasunnudagur er heilagur samkvæmt íslenskum lögum og þá má ekki vera jafn gaman og aðra daga.

Það furðulegasta er að fæstir Íslendingar vita hvað í ósköpunum á að hafa gerst þennan dag. Öllum virðist sama um þennan dag. Hann hefur samt löggildingarstimpill sem stendur á að hann sé heilagur og við eigum öll að fara eftir því. Það er sama hvort að við teljum að lærisveinarnir hafa þjáðst af ofskynjunum á Hvítasunnudaginn fyrsta eða hvort við teljum að sú saga sé uppspuni frá rótum. Jafnvel við sem teljum að það hafi verið slæm hugmynd að stofna kristna kirkju þurfum að fylgja þessum lögum. Það er skítt og það er ósanngjarnt.

Í þessu tilfelli virðast helgidagalögin hafa orðið til þess að gott fólk varð fyrir fjárhagslegum skaða. Fólk sem lagði á sig gríðarlega vinnu til þess að halda hátíð fyrir tónlistaraðdáendur. Það var ekki verið að reyna að ögra kirkjunni eða lögunum. Tilgangurinn var ekki að reyna að særa trú eins eða neins og það er eiginlega ómögulegt að skilja að nokkur gæti tekið það nærri sér að fólk vilji hlusta á tónlist þennan dag.

Nú vona ég innilega að aðstandendur tónlistarhátíðarinnar geti fengið bætur fyrir þann skaða sem þau urðu fyrir. Ég vona líka að þessi atburður verði til þess að heimskulegustu lög Íslendinga verði tekin til alvarlegrar endurskoðunar.

Óli Gneisti Sóleyjarson 05.06.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


óðinsmær - 05/06/06 12:25 #

Ótta fólks við skemmtun á Hvítasunnunni var haldið lifandi með allskonar hjátrú, ég held einmitt að þessit tveir dagar, þ.e fl og hs, séu lang öflugastir hvað það varðar. Maður hefur séð margar sögur af því að fólk gat hreinlega dáið við það eitt að vinna eða blóta á Hvítasunnunni. Þetta er algerlega úr takti við nútímann, við ættum að geta komið okkur saman um að hafa einn svona dag á ári (hvað er að því?) jafnvel fleiri, ef fólk vill það upptilhópa en það er glatað að halda þessu gangandi vegna gamals ótta og kirkju sem neitar að færa sig úr sporunum.


Carlos - 05/06/06 20:26 #

Hvernig er það, þegar engir dagar eru orðnir helgir, þ.e. fráteknir frá daglegu streði, eru þið ekki hrædd um að krafan um vinnu og framleiðni verði svo mikil að leitun verði að hentugum frítíma stærri og smærri hópa? Ég fyrir mitt syrgi fyrri dýrð 1. maí og frídags verslunarmanna, þar sem verslunarfólk átti raunverulegt frí. Helgi helgidaganna er ekki bara út af okkur, afturhaldssömu trúarnötturum sem sjá ekki útyfir eigið svartnætti.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 05/06/06 20:53 #

Fínt væri að hafa góða frídaga, vel skipulagða, kirkjufrídagarnir eru það ekki. En finnst þér ekki ósanngjarnt að þetta fólk sem skipulagði Reykjavík Trópík sé að tapa á þessum lögum?


Carlos - 06/06/06 01:14 #

Ég skil reyndar ekki hvernig á því stendur að tónlistarhátíðir eru blásnar af tveimur dögum áður en þær eiga að haldast og hvaða "kristnu" forsendur ættu að standa í vegi fyrir því að þær eru haldnar. Þannig að nei, mér finnst það ekki sanngjarnt að beita helgidagalöggjöfinni til þess að blása Reykjavík Trópík af.

Ég skil heldur ekki alveg hvað þú átt við með fýlubombunni sem þú sendir hvítasunnunni eða kirkjunni almennt, nema það sé til þess að fá útrás fyrir hvað dagurinn er eyðilagður... óþarfi að gera gys að trúfólki bara af því að þú skilur ekki út á hvað hátíð þeirra gengur.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 05:42 #

Eftir stendur að helgidagalög eru komin vegna ykkur trúarnöttarana. Er ekki eðlilegast að nema þau lög úr gildi og láta sannkristna sem þora ekki að vinna fyrir guðseldingum að taka frídag á eigin kostnað? Það held ég.

Ég ætlaði að fara með systur minni í sund annan í hvítasunnu og lauginn var lokuð óheyrilega snemma vegna dagsins. Og við fórum fíluferð vegna þessa.

Carlos þú ert íhaldsamur úreltingur. Að auki ertu ætlaður vegna stöðu þinnar að vera eins og dragbítur á sleða hvað framfarir varða, enda atvinnu-trúmaður giftur valdinu. Þessi lög eru óþarfi og tímaskekkja en þú finnur því til foráttu að hanga í þeim. Ef pása frá vinnunni sé það sem heiðra skal hví ekki breyta hvítasunnunni í "Alsherjardaginn: Frí-frá-vinnunni" eða "Hvíldarunan", til að hafa tilefnið undir réttum formerkjum ?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 08:21 #

Æi Kári, það mætti tóna þessa athugasemd dálítið niður.

Carlos gerist aftur á móti sekur um "slippery slope" að mínu mati. Auðvitað er það engin forsenda frídaga að þeir séu kristnir, enda öfug tengsl milli trúarhita þjóðarinnar annars vegar og fjölda frídaga hinsvegar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 08:21 #

Hvaða fýlubombu sendi ég og hvernig geri ég gys að trúfólki? Ég er ekki alveg að fatta hvert þú ert að fara Carlos.

Ég hef það fyrir sið að spyrja fólk að því hvort það viti hvers vegna Hvítasunnan er haldin hátíðleg og ég lendi mjög sjaldan á því að fólk muni það. Fólki er almennt sama um þessa hátíð.


Carlos - 06/06/06 13:45 #

Fýlubomban:

Það er sama hvort að við teljum að lærisveinarnir hafa þjáðst af ofskynjunum á Hvítasunnudaginn fyrsta eða hvort við teljum að sú saga sé uppspuni frá rótum. Jafnvel við sem teljum að það hafi verið slæm hugmynd að stofna kristna kirkju þurfum að fylgja þessum lögum. Það er skítt og það er ósanngjarnt.

Slipery slope? Ég held ekki. Það sést kannski ekki á orðanotkun minni en ég legg ekki trúarlegt innihald í orðið "helgi". Í mínum huga eru helgidagar = dagar teknir undan almennri vinnuskyldu og fríaðir til tómstunda, menningar og annarrar endurlífgunar krafta mannsskepnunnar. Það sem ég hef hinsvegar séð undanfarin ár og misseri, er t.d. að krafan um aukna opnun verslunar hefur kostað verslunarfólk frídag þess og finnst mér það, gömlum afgreiðslumanni í Melabúðinni, ferlega skítt. Menning okkar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, ber meiri virðingu fyrir trúarlegum tilfinningum um helgi heldur en veraldlegum. Þar finnst mér, í fúlustu alvöru, að þið, trúlausir, hafið sofið á verðinum. Því þurfið þið að mínu viti að breyta.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 14:26 #

Þetta komment er þarna af góðri ástæðu, það sýnir vel og vandlega hvers vegna er ósanngjarnt að við sem ekki aðhyllumst þessa trú þurfum að fara eftir þessu. Það að kalla að lýsa skoðunum fólks getur ekki talist nein fýlubomba.

Tek fram að mín skoðun er sú síðarnefnda að atburðirnir hafa einfaldlega ekki átt sér stað (og mig grunar að ótal frjálslyndir prestar og guðfræðingar séu mér sammála). Heldur þú Carlos að sagan um fyrsta hvítasunnudaginn sé sönn lýsing á atburðum sem áttu sér stað?

Orri Harðar er væntanlega að styðja fyrri skoðunina sem ég nefndi þegar hann segir: "Í dag halda kristnir upp á frægasta delerí mannkynssögunnar."

Í fyrri umfjöllunum okkar um þessi lög höfum við bent á að þetta er ekki spurning um að afnema frí yfirhöfuð heldur hætta að binda þá við kristna hátiðsdaga. Þetta er fölsk klemma, false dilemma, sem Carlos setur þarna upp.


Carlos - 06/06/06 15:03 #

Mér sýnist upprunaleg færslan reyna eftirfarandi:

-Að sýna fram á ósanngirni þess að helgidagslögum sé beitt gegn menningarhátíð og að trúarlegum gildum sé troðið upp á fólk sem ekki aðhyllist þau.

-Að sýna fram á það að upphaf téðs helgidags hafi verið í besta falli fyllerí í versta falli uppspuni (eða öfugt)

Ég hef þegar fallist á hina fyrri staðhæfingu og skil ekki í framkvæmdavaldinu að beita helgidagalöggjöf þannig að trúfrelsi skerðist við þá sem ekki fylgja meirihluta. Ég benti á vankanta afhelgunar helgidaga, en hafna endurbindingu þeirra við meint trúarlegt innihald. Það er því engin false-dilemma þarna á ferðinni, heldur einföld, praktískt athugun.

Hvað hina síðari staðhæfingu varðar, þá sýnist mér hún einmitt setja upp strámannarökvillu til þess að gera andstæðinga hinnar fyrri staðhæfingar tortryggilega. Ég bendi á að síðari staðhæfingin er meiðandi, því kalla ég hana "fýlubombu", mér finnst ólykt af henni og hún bætir engu við vægi raka hinnar fyrri staðhæfingar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 15:23 #

Nei Carlos, þú ert að lesa eitthvað í greinina sem er ekki þar. Seinni "staðhæfingin" er einungis til þess að sýna fram á hve fáránlegt sé að við sem ekki trúum þessu séum neydd til að fylgja þessum lögum (eins og ég hef sagt áður). Fýlubomutal þitt er út í hött.

En þú svaraðir ekki hvort þú sért í hópi þeirra sem trúir þessari sögu.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 06/06/06 16:44 #

Æi Kári, það mætti tóna þessa athugasemd dálítið niður.

Jú, ekkert mál. Ég sé á mér.


Carlos - 06/06/06 17:58 #

Ég hef greinilega lesið greinina af meiri viðkvæmni en pistlahöfundur ætlaðist til af lesanda og steytt á hlöðnu orðalagi (sbr. sbr. aths. Óla Gneista kl. 15.23).

Hvað spurningu Óla um hverju ég trúi um hvítasunnuna varðar, þá gerði ég grein fyrir áliti mínu í aths. hér á vantrúnni. Ég vísa einnig til prédikunar minnar á Hvítasunnudag, sem ætti að gefa aukna innnsýn í viðhorf mín til dagsins og umræðunnar hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.