Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðsóttinn

Eitt af öflugustu tækjum einræðisherra í gegnum aldirnar er óttinn. En sami ótti hefur verið eitt mesta mótunarafl kristninnar. Þær kynslóðir sem hafa hvatt okkur ásamt mörgum þeim sem eru nú við ævikvöld sitt voru haldin heilaþvegnum guðsótta. Allt kennivald kirkjunnar frá fyrri tíma var heilagt og prestar ósnertanlegir menn. Núverandi kynslóðir íslendinga eru ekki haldnar þessum guðsótta nema með örfáum undantekningum. Klerkar landsins, þá sérstaklega þeir sem eru að enda sinn starfsferil eftir tugi ára undirgefni söfnuðs síns, kalla þetta afhelgun samfélagsins.

Gyðingahatarinn Hallgrímur Pétursson orti vísu sem flestir þekkja frá sínum yngri árum í grunnskólanum:

Ungum er það allra best
að óttast Guð, sinn herra.
Þeim mun viskan veitast mest
og virðing aldrei þverra.

Það er engum ofsögum sagt að forkólfar ríkiskirkjunnar eru afskaplega hrifnir af þessari vísu. Í vísunni kristallast siðfræði hins sjúka einvalds og þarna fær orðið drottinn merkingu sína. Hann vill drottna, vera bæði herra og vald óttans. Í vísunni fær sá undirgefni halda virðingu sinni hjá einvaldinum svo framarlega sem hann óttast hann. Vísan ætti að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum, en í samfélagi grænsápuguðfræðinnar ríkir ekkert siðferði heldur aðeins dauður bókstafur biblíunnar.

Mín skoðun er sú að á meðan landinu var stjórnað af klerkum og kirkju óttans var útilokað að nokkrar samfélagslegar breytingar gátu átt sér stað. Áhrif liðinna kynslóða sem aldnar voru upp í ótta við danskan konung og ríkistrú geta sem betur fer ekki lengur smitast um samfélagið. Því má segja að innreið trúleysis hér á landi sé fyrst möguleg fyrir alvöru á 21 öld. Framundan eru frjóir tímar upplýstrar umræðu og samdráttar í ríkistrúarbúskapnum. Ok óttans er að þurrkast út og spurt er, hver vill verða síðasti starfsmaður hræðslubandalagsins?

Frelsarinn 01.06.2006
Flokkað undir: ( Hallgrímur Pétursson , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Carlos - 01/06/06 12:03 #

Það ætla ég að vona, að sá tími er liðinn að kirkjan, kirkjur séu trúarlegur armur stjórnmálaflokka og öfugt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/06 12:17 #

Sú tíð virðist ekki liðin að Þjóðkirkjan hafi ansi mikil áhrif á stjórnmálaflokka (sbr: Þjóðkirkjan og frumvarp um réttindi samkynhneigðra)


Tóti - 01/06/06 13:49 #

Ógnarvald óttans hverfur ekki með uppþornun Kirkjunnar. Óttinn mun áfram verða stjórntæki ríkisstjórna. Var ekki 11. september dæmigerður sviðsettur atburður af stjórnvöldum til þess að vekja ótta og réttlæta aukin völd ráðamanna, afnám mannréttinda og stríðsbrölt. Mér þætti vænt um að sjá efasemdarraddir Vantrúar beinast almennt af yfirvöldum. Það eru jú yfirvöld sem móta margar goðsagnir mannkynssögunnar sem eru oft ekkert mikið fráleitari en þær goðsagnir sem trúarbrögð eru byggð á. Ég veit af einum (ónefndum) meðlimi Vantrúar sem féll í þá gildru að trúa opinberu sögunni um 11. september. Honum er auðvitað frjálst að trúa því en ég vil bara benda á að við ættum ávalt að efast um að merkir sögulegir atburðir gerist endilega með þeim hætti sem yfirvaldið (stjórnvöld og fjölmiðlar) gefa í skyn. Óttinn er enn ekki úr sögunni sem stjórntæki. Svo lengi sem við erum trúgjörn, þá mun yfirvaldið komast upp með að nota óttann til þess að stjórna okkur.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 01/06/06 13:55 #

Hvaða opinberu sögu um 11.sept? Ég vona að þú sért ekki að meina samsæriskenningarnar sem hafa vaðið uppi á netinu.


Tóti - 01/06/06 14:14 #

Eigum við ekki bara að segja að opinbera sagan sé hin eiginlega samsæriskenning, byggð á fullyrðingum ráðamanna?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/06 14:16 #

Ég veit af einum (ónefndum) meðlimi Vantrúar sem féll í þá gildru að trúa opinberu sögunni um 11. september.

Ég er einn af þeim sem hafa "fallið" fyrir opinberu sögunni. Hún er ekki til umræðu hér en hefur verið rædd á spjallinu. Slíka umræðu er hægt að færa þangað.


Carlos - 05/06/06 09:09 #

Samskipti Alþingis og Þjóðkirkju vegna frumvarpsins um aukin réttindi samkynhneigðra er hið vandræðalegasta mál fyrir kirkjuna. Kirkjan þolir ekki mörg svona glímutök til viðbótar, áður en krafan um skilnað ríkis og kirkju (sbr. Frakkland) verða svo hávær að stjórnmálaflokkarnir láta eftir. Eins og staðan er nú standa þeir allir á bremsunni í báðum málunum, aðskilnaðinum og réttindum samkynhneigðra.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?