Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um efahyggju ungra íhaldsmanna

Bannað að efast um þróunarkenninguna“ er yfirskrift nýlegrar greinar á vefritinu Íhald.is og kom það mér nokkuð í opna skjöldu því ekki hafði ég heyrt að slíkar efasemdir væru bannaðar.

Við lesturinn varð ég lítt fróðari um þetta bann en tilgangi greinarinnar lýsir greinarhöfundur svo:

En hvað sem því líður þá er ekki tilgangurinn með þessari grein að fjalla um það hvort þróunarkenning Darwins sé á rökum reist eða ekki heldur þann félagslega rétttrúnað sem hefur smám saman slegið um hana skjaldborg þannig að í dag má enginn á Vesturlöndum efast um gildi hennar án þess að vera sakaður hreinlega um heimsku og/eða trúaröfga vilji svo til að viðkomandi játi kristna trú.

Hvort að kenningin sé góð eður ei er semsagt ekki það sem þetta snýst heldur hvort að réttmæt gagnrýni á hana sé leyfileg. Áður en lengra er haldið skulum við þó fyrst átta okkur á grundvallarhugtökum því ákveðins misskilnings virðist hér þó gæta á því hvað vísindakenning sé eins og sést á þessum orðum:

Engu að síður er staðreyndin sú að þróunarkenningin er einmitt það – kenning. Hún hefur nefnilega alls ekki verið sönnuð með óyggjandi hætti. Raunar langt frá því.

Nú veit ég ekki hvað vefritið Íhald.is telur vera óyggjandi sönnun á vísindakenningu. Það er nefnilega svo að ekki er hægt að sanna vísindakenningar endanlega, eins og útleiðslur í stærðfræði eða rökfræði. Vísindakenningar byggja á uppsafnaðri þekkingu og leitast við að útskýra náttúruleg fyrirbæri með það markmið í huga að auka og dýpka skilning okkar á þeim. Endanlegar sannanir eru hér ekki til umræðu. Samt sem áður fyrst að þróunarkenning Darwins er studd af fjölmörgum staðreyndum, þá telst hún vera góð og gild útskýring á fjölbreytileika lífríkisins. Þeir sem halda öðru fram verða að geta sýnt fram á það með gildum hætti eða með betri kenningu.

Nú bregður svo við að greinarhöfundurinn flokkar þróunarkenninguna undir “skoðun” sem aftur megi ekki gagnrýna. Að segja að vísindakenning sé einvörðungu skoðun er einfaldlega rangt. Það er ekki skoðun manna að segja sem svo að jörðin sé á sporbaug umhverfis sólu eða að vatn sé efnasamband vetnis og súrefnis heldur rökstuddar hugmyndir. Sama gildir þegar rætt er um þróun lífsins. Hér er ekki einhver skoðun á ferðinni heldur heilsteypt kenning sem hingað til hefur staðist allar athuganir vísindanna.

Þar sem að þróunarkenningin er bara skoðun fyrir ungum íhaldsmönnum þá vitna þeir í þar til gerðar skoðanakannanir máli þeirra til stuðnings, þar sem kemur fram að margir í Bretlandi og Bandaríkjunum trúa bókstaflega á sögur Biblíunnar um sköpun lífsins. Hvað um það þá hefur álit fjöldans lítið vægi þegar rætt er um vísindi. Að vísa til álits, sem stór hópur manna hefur, máli sínu til stuðnings er rökvilla (argumentum ad populum) sem hefur ekkert að segja í þessari umræðu.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru ekki margir möguleikar í stöðunni þegar rætt er um tilurð og þróun lífsins. Í rauninni sé ég einungis tvo, náttúrulega þróun efnisheimsins eða einhvers konar sköpun lífsins af æðri vitsmunaverum. Greinilegt er að höfundi greinarinnar á Íhald.is finnst hallað á seinni hópinn í umræðunni:

Í lýðræðisríkjum ber að ræða málin opinberlega á málefnalegan og fordómalausan hátt en ekki þannig að ákveðnum aðilum umræðunnar sé hreinlega bannað að hafa þær skoðanir sem þeir sjálfir kjósa af einhverjum sjálfskipuðum skoðanalöggum sem enga samleið eiga með neinu sem kallast getur lýðræði.

Ég veit ekki betur að mikil umræða hafi verið um þessi mál allt frá tímum Darwins, sérstaklega núna á síðustu árum eftir að hugmyndir um “vitræna hönnun” urðu áberandi. Gallinn við þær hugmyndir eru þó augljósar frá sjónarmiði vísindanna. Þó að margir aðhyllist þá lífskoðun að heimurinn sé skapaður af guði eða guðum þá geta slíkar hugmyndir aldrei rúmast innan vísindanna. (Sjá nánar svar á Vísindavefnum, Geta vísindamenn útilokað vithönnun (intelligent design) sem upphaf lífsins?)

Það sem mér finnst þó undarlegast við þessa grein er hvaða mynd er máluð af vísindamönnum í þessu fagi:

Það má ekki efast um þróunarkenninguna frekar en að það mátti efast á sínum tíma um að heimurinn væri flatur eins og pönnukaka. Þróunarkenningarsinnar eru m.ö.o. orðum komnir í hlutverk kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma og verja nú með kjafti og klóm þá hugmyndafræði sem þeim var innprentuð í æsku sem hið eina rétta. Ófáir varðmenn þróunarkenningarinnar eru sömuleiðis fræðimenn sem hafa margir byggt margra ára rannsóknir, og jafnvel ævistarf sitt, á kenningu Darwins og mega ekki til þess hugsa að einokunarstöðu hennar sé ógnað.

Hér hefur öllu verið snúið á hvolf því þegar nánar er að gáð þá hefur ekki svo margt breyst frá þeim tímum þegar kaþólska kirkjan streittist á móti sólmiðjukenningunni. Enn í dag eru það trúarhópar sem standa í vegi fyrir vísindunum, þegar uppgötvanir þeirra brjóta í bága við fyrirfram gefna heimsmynd trúarbragðanna. Þróunarkenning Darwins er einhver best staðfesta vísindakenning nútímans enda gætir andstöðu við hana nær eingöngu meðal hópa bókstafstrúarmanna sem telja kenninguna í andstöðu við trúarhugmyndir sínar. Þeim hefur verið innrætt hugmyndafræðin ekki öfugt. Vísindin hafa lært með tímanum að skilja og útskýra þróun lífsins enda þurfa góðar og gildar hugmyndir ekki áróður til að sanna gildi sitt.


Sjá einnig
Efahyggjuorðabókin: Vísindi
Vísindavefurinn: Er þróunarkenningin bara kenning eða er hún staðreynd?

Lárus Viðar 22.05.2006
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Khomeni - 22/05/06 09:19 #

Er þetta bara ekki fyrirtaksdæmi um hugmyndafræðilegan undirlægjuhátt ysta hægrisins á íslandi. Ef Amerískir hægrimenn hafa e-ð málefni, þá er það tekið upp á íslandi.

Auðvitað er þróunarkenninin KENNING. það fellst í orðanna hljóðan. Það þarf meira en lítin hálfvita til að fatta það ekki. LandreksKENNINGIN er líka kenning. Það fellst líka í orðanna hljóðan. Flestir vita að KENNING er ekki uppákrift að sannleikanum. Kenning er líkleg skýring á e-u fyrirbæri. Ef ysta hægrið í íslenskri pólitík ætlar að hampa hinu og þessu rugli vegna þess að það er "heldur ekki sannleikur" þá þá er umræðan komin á afar lágt plan. Sama plan og amerkískir hægrimenn vilja gjarnan vera á. s.s jörðin er 6000 ára. (kenning) Adam og Eva voru sköpuð af guði (kenning) Bill Clinton er í raun Satan (kenning)

-o-o-o-o-

ég er sammála að allar skoðanir eiga "rétt á sér". Um það þarf ekki að deila. ég veit hinsvegar að sá sem viðhefur hálfvitalegar skoðanir er stypmplaður hálfviti. ...og er sennilega hálfviti.


Snæbjörn - 22/05/06 10:17 #

Tja... Ég sem hélt að við værum blessunarlega lausir við kristilega íhaldsmenn á þessu landi. En svo er víst ekki.

Nú hef ég nýlega lesið greinar frá sjálfstæðismönnum sem halda því bæði fram að þróunarkenningin sé "skoðun" og að það ætti að banna fóstureyðingar. Og svo lögleiða byssur!

Og maður spyr hvers vegna sjálfstæðismenn bera sig frekar saman við Repúblikana en Demókrata.

Annars hef ég nú bara eitt að segja við þá sem eru andvígir þróunarkenninguni:

Ég myndi persónulega fagna annarri kenningu en henni, af því það væri rosalega spennandi. Af fullri alvöru talað, það væri magnað að horfa upp á heimsmynd manns algjörlega viðsnúinni.

En ég held nú samt að það sé ómögulegt. En engu að síður, ef þetta er kenning byggð á vísindalegum grundvelli og byggist ekki á Guði, þá væri hún mjög athyglisverð.

Svo ég bíð bara spenntur. ;)


Árni Árnason - 22/05/06 11:00 #

Ég hef aldrei fengið það til að ganga upp afhverju sjálfstæðisstefnan og bábiljutrúin eru svona samtvinnuð. Það eru Sjálfstæðismenn sem ganga fremstir í flokki þjóðkirkjuverndara á sama tíma og þeir halda því blákalt fram að þeir vilji draga sem allra mest úr umfangi ríkisins.

Ef minnka á afskifti ríkisins af einstaklingunum , væri ríkiskirkjan það fyrsta sem ætti að fjúka.

Sjálfstæðisflokkurinn er kristilegur flokkur, samanber eftirfarandi úr ályktun landsfundar:

"Menning og staða Íslendinga sem þjóðar hvílir líka á öðrum undirstöðum sem ekki mega bresta en það eru almenn lífsviðhorf kristinnar trúar og heiðarleiki í samskiptum, viðskiptum og opinberri stjórnsýslu ."

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völdin á Íslandi í langa hríð, kristinfræði er enn á aðalnámsskrá grunnskóla, og fyrrverandi kirkjumálaráðherra flokksins lét aðspurð það bull út úr sér ganga að ekki væri hljómgrunnur fyrir því meðal þjóðarinnar að aðskilja ríki og kirkju.

Kristilegir íhaldsmenn ? ó já


Árni Árnason - 22/05/06 11:58 #

Úr ummælum Khomeni hér að ofan:

"ég er sammála að allar skoðanir eiga "rétt á sér". Um það þarf ekki að deila. ...."

Ég er að spá í hvað gæsalappirnar utan um -rétt á sér- eiga að tákna.

Þýðir það að menn hafi rétt á því að hafa heimskulegar skoðanir þó að skoðanirnar eigi ekki rétt á sér ? Eða hvað ?

Hinn pólitíski réttrúnaður dagsins í dag, stútfullur af misráðnu umburðarlyndi, síhjakkandi á því að allir eigi að vera svo ofsalega jafnir, og að bera eigi virðinu fyrir öllum skoðunum, sama hversu vitlausar þær eru, er hreint alveg að fara með allt vit úr heiminum.

Ef perrinn er þeirrar skoðunar að stúlkubörn sem vega 21 kíló eða meira ( með skólatösku )séu mannbærar, eigum við þá bara að leyfa honum að hafa rétt á þeirri skoðun?


Khomeni - 22/05/06 12:03 #

Þetta er afar ógeðfelt og afar þversagnakennt svo ekki sé meira sagt. Hvernig getur flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklngsins hampað svo ógeðfelldri hugmynd á borð við ríkiskirkjuskipulag. Þar sem allir Íslendingar tilheyra sama trúfélaginu. Allir marsera í takt við vælið úr biskup. Hví er ekki til alvöru hægriflokkur sem krefst raunverulegs frelsis en ekki frelsis fyrir þá innmúruðu? Þar sem órétturinn er áréttaður i STJÓRNARSKRÁNNI...


Khomeni - 22/05/06 12:11 #

varðandi spurningu Árna um gæsalappirnar utan um allar skoðanir "eiga rétt á sér". þá á ég við að auðvitað eiga allar skoðanir rétt á sér, enda fáranlegt að halda öðru fram. Gæsalappirnar eru árétting um hversu hallærisleg umræðan um "að allar skoðanir eiga rétt á sér" getur orðið..

AUÐVITAÐ EIGA ALLAR SKOÐANIR RÉTT Á SÉR!!!

AUÐVITAÐ. AUÐVITAÐ. ÞAÐ ÞARF EKKI AÐ TAKA ÞAÐ FRAM!! heimskulegar skoðanir eiga rétt á sér, asnlalegar skoðanir eiga rétt á sér. fábjánálegar skoðanir eiga rétt á sér. Getur e-r bent mér á skoðun sem er bönnuð á Íslandi? Sem betur fer búum við ekki við skoðanalögreglu (þótt dómsmálaráðherra okkar vilju sennilega breyta því. Umræða um hvort sumar skoðanir séu bannaðar er beinlínis bjánáleg.

En það er einmitt punkturinn í þessari grein ysta hægsisins...


óðinsmær - 22/05/06 13:07 #

þetta virkar á mig einsog klassískt dæmi um ungan mann með viðskiptapróf eða lögfræðipróf sem fattar ekki að það þarf ákveðinn skilning á líffræði, efnafræði, fornleifafræði, steingervingafræði og fleiri fræðum, sem hann hefur efalaust enga hugmynd að eru einhversstaðar til, til þess að geta almennilega skilið hvað meikar sense við þróunarkenninguna ógurlegu. jón steinar gunnlaugsson skrifaði helling um bókmenntafræði í blöðin þegar hannes hólmsteinn var í vandræðum og þetta er sama dæmi - þeir vita bara um tölur og klækjabrögð en trana sér oft fram með einhverja heimsku og yfirgang, þegar íhaldssemin krefst þess.


Allah - 22/05/06 13:24 #

Þetta er gott dæmi um mann í fullkominni vörn. Hugmyndir um að æðri máttarvöld hafi skapað heiminn eiga sér engar skýringar í náttúrunni og því eðlilega dregnar í efa af vísindamönnum. Þróunarkenningin er rökstudd með sterkum vísindalegum rökum. Það er ekkert að því að efast um hana, sérstaklega ekki ef sannfærandi rök benda til annars. Það eru engin vísindaleg eða sannfærandi rök sem benda til þess að guð hafi skapað heiminn og því er auðvelt að hrekja slíkar kenningar. Þessi íhaldsmaður fer þá auðvitað í vörn fyrir vikið og klagar um að honum sé bannað að halda fram sínum kreddufullnu skoðunum.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 22/05/06 14:40 #

Þessi rugl-pistill Hjartar er einungis bergmál af málflutningi kristinna íhaldsmanna í BNA, en það eru augljóslega hetjur og fyrirmyndir piltsins. Það er dagljóst að nefndur Hjörtur hefur það á dagskránni að auka ítök kristninnar í stjórnmálum á Íslandi. Það er ekki langt í að stofnaður verði kristilegur íhaldsflokkur hérlendis, e.t.v. á rústum exbé, en örugglega með ýmsa gegna exdé trúarfasista til meðreiðar. Hjörtur, Björn, Þorgerður Katrín og Halldór verða stofnfélagar og mottóið - credo ergo sum.


Guðmundur D. Haraldsson - 22/05/06 15:54 #

Að vísa til álits, sem stór hópur manna hefur, máli sínu til stuðnings er rökvilla (argumentum ad populum) sem hefur ekkert að segja í þessari umræðu.

Ertu hér ekki að lesa fullmikið út úr pistlinum? Það eina sem ég er statístík sem er frekar mikið út úr tengslum við restina af greininni.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 22/05/06 16:22 #

Kohmeini segir:

Getur e-r bent mér á skoðun sem er bönnuð á Íslandi?

Rasismi.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 22/05/06 16:31 #

Ertu hér ekki að lesa fullmikið út úr pistlinum? Það eina sem ég er statístík sem er frekar mikið út úr tengslum við restina af greininni.

Það getur vel verið. Ég skildi samt þessa framsetningu á tölfræðinni þannig að fyrst að stór hluti almennings er hallur undir sköpunarsögu Biblíunnar þá sé eitthvað í hana spunnið. Með öðrum orðum vísun í vinsældir.


Þossi - 22/05/06 17:13 #

Það er ekki skoðunin sem er bönnuð - hins vegar eru sektir við því að tjá sig um þessa skoðun sína. Sem aftur er sambærilegt við barnaníðinginn sem einhver nefndi hér að ofan: Hann má alveg hafa þá skoðun sem hann hefur um börn, en hins vegar má hann ekki breyta í samræmi við þessa skoðun sína.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 22/05/06 17:45 #

Ég veit það vel. En á þennan hátt kemst hugmynd næst því að vera bönnuð. Mönnum er frjálst lagalega að hugsa það sem það vill inn í kollinum á sér. Þó svo það væri bannað af lagana bókstaf væri mjög erfitt og hagfræðilega óhagkvæmt að framfylgja banni á hljóðlátum hugsunum sem láta ekkert á sér bera, ef ekki alveg ómögulegt.

Málið er að allar skoðanir eru ekki jafnréttháar samkvæmt lagana bókstaf.


Árni Árnason - 22/05/06 17:49 #

Sá fjöldi sem trúir sköpunarsögunni segir ekkert um það hvort það sé eitthvað í hana spunnið, miklu fremur hversu lítið er í þá spunnið sem trúa henni þó margir séu.

Eitt sinn trúði megnið af heimsbyggðinni því að jörðin væri flöt eins og pönnukaka, en það var og er jafnheimskt fyrir því.

Ef bannað er að tjá skoðanir eða breyta eftir þeim eiga þær ekki rétt á sér, þó að tilgangslaust sé að banna þær.

Skoðanir ( trú ) sanntrúaðra krisslinga eiga þá einungis rétt á sér að þeir hafi þær algerlega fyrir sig og grjóthaldi kjafti yfir því rugli öllu saman. Þeir geta þá dýrkað sitt lík neglt á spýtu einir með sjálfum sér í lokuðum herbergjum í stað þess að vera sífellt að bera þessa þvælu á borð okkar hina í tíma og ótíma og á okkar kostnað.

Það bara veður á kallinum.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/06 02:01 #

Kári Svan Rafnsson segir:

Kohmeini segir:
Getur e-r bent mér á skoðun sem er bönnuð á Íslandi?

Rasismi.

Ég er ósammála. Rasismi er í mínum augum ekki skoðun heldur tilfinning. Skoðun þarf að hafa einhver rök að styðjast við. Þannig er það ekki skoðun að trúa á yfirburði kynþáttar, virkni hómópatíu, lífeðlisfræðileg áhrif af fullu tungli eða tilveru guða eða ósýnilegra einhyrninga.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/06 03:00 #

Hmm, ég hef litið á skoðun sem staðhæfing eða hugmynd um eitthvað sem er studd ýmsum ástæðum eða útskýringum. Ástæðum sem eru annað hvort studd rökum eða þá rökvillum.

Tilfinnig gæti það verið ef einhver finnst dökkbrúnn seðjandi en ljósbrúnn ekki. En eins og við þekkjum báðir af umræðunni á töflunni þá snýst rasísk hugmyndafræði oft í kringum ákveðnar staðhæfingar sem eru taldar sannar óháð tilfinningum einstakra manna.

Sá sem er tæmilega cúltiveraður rasisti lítur á sýnar staðhæfingar sem varða sannleika vel rökkstuddar. Þau rök geta sjálfsagt verið tilfinningarök í raun. En samt sem áður er skýr og skorin rasismi sett fram í ákveðnum fullyrðingum studd ástæðum þó hún sé á endanum ekki studd rökum heldur rökvillum. Þannig að þetta ætti að vera skoðun.

En röng skoðun er náttúrulega sú sem ekki er studd rökum. Ef allar skoðanir væru rökstuddar þá væri varla nein skoðun röng. En núna reynast margar skoðanir rangar. Því geta þær ekki verið allar rökstuddar. Því skoðun getur ekki verið röng nema að hún feli í sér rökvillu.

Rasismi er kannski ekki skoðun sem stendur á sterkum grunni, þ.e.a.s svona últra harðsoðin skoðun einhver, en skoðun samt sem áður.


Gulli - 23/05/06 08:38 #

"Never underestimate the power of stupid people in large groups..."

Þetta hangir upp á vegg hjá vini mínum og ég held að menn ættu að hafa þetta í huga. Það er stórhættulegt þegar farið er að nota innrættar skoðanir fólks sem "sönnun" eða "afsönnun" á einhverjum hlutum. Hættan er sérstaklega sú að í lýðræði getur þessi stóri hópur gert hvaða vitleysu sem er að lögum.


Guðmundur D. Haraldsson - 11/07/06 16:15 #

Kenningin um að lífið hafi þróast er einhver best staðfesta vísindakenning sem um getur og sækir hún stuðning í allar undirgreinar líffræðinnar sem og margar af helstu greinum jarðfræðinnar.

Kenningin um náttúruval hefur ekki náð þessum sessi en hún er besta hugmyndin sem völ er á um orsakir þróunar lífsins á jörðinni. Þrátt fyrir þennan sterka sess sem þessar tvær kenningar hafa ber að hafa í huga að vísindakenningar eru í eðli sínu ekki endanlegur sannleikur, en í þessu tilfelli virðumst við vera ansi nálægt því sem satt getur talist. Endanlegur sannleikur er hins vegar viðfangsefni frumspeki og guðfræði.

Sjá: http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=4630

Vitanlega má deila um þetta. Það má líka skilgreina vísindi sem eitthvað allt annað og ræða út frá því - sem mér sýnist að margir geri. Og svo framvegis.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 11/07/06 22:34 #

Ég tók það skýrt fram í greininni að vísindakenningar eru ekki einhver ginnhelgur sannleikur. Hins vegar er það lágmark þegar að einhver fer að atast í vísindakenningum að hann/hún geti sýnt fram á það með skýrum hætti á hverju gagnrýnin er byggð og geti þá komið með betri kenningu.

Pirringur guðsmanna og annarra sköpunarsinna á yfirburðastöðu þróunarkenningar Darwins á þessu sviði er ekki gagnrýni sem er einhvers virði.


Guðmundur D. Haraldsson - 12/07/06 11:06 #

Ég tók það skýrt fram í greininni að vísindakenningar eru ekki einhver ginnhelgur sannleikur. Hins vegar er það lágmark þegar að einhver fer að atast í vísindakenningum að hann/hún geti sýnt fram á það með skýrum hætti á hverju gagnrýnin er byggð og geti þá komið með betri kenningu.

Vissulega, enda var þetta ekki gagnrýni á þinn pistil, mig langaði til að setja fram þetta komment í tengslum við bæði náttúruval og kenninguna um að lífið hafi þróast, og mér finnst líka áhugavert að þessar kenningunar skulu vera svona vel studdar eins og segir í Vísindavefsgreininni.

Pirringur guðsmanna og annarra sköpunarsinna á yfirburðastöðu þróunarkenningar Darwins á þessu sviði er ekki gagnrýni sem er einhvers virði.

Já, þar held ég að þú hafir hitt naglann á höfuðið; pirringur :-)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.