Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gamaldags átrúnaður

Einn af göllum þess að láta bók hugsa fyrir sig er að ekki eru allir sammála því hvað bókin segi, hvernig beri að túlka hana. Nýjasta dæmið er auðvitað rökrildi þjóðkirkjupresta um álit bókaheilans þeirra á giftingum samkynhneigðra.

En hvers vegna í ósköpunum ætti það að skipta máli hvað Nýja testamentið hefur um málið að segja? Robert Ingersoll sagði eitt sinn:

Því er haldið fram að þessi bók sé innblásin. Mér er sama hvort hún er það eða ekki; spurningin ætti að vera, er hún sönn? Ef hún er sönn, þá þarf hún ekki að vera innblásin. Ekkert þarfnast innblásturs nema ósannindi eða mistök.

Það sýnir í raun vel hve heimskuleg kristið siðferði er að þegar spurt er um réttmæti þess að gifta samkynhneigða, að þá sé aðalmálið hvað eitthvert hrafnaspark auðtrúa og óupplýstra fornaldarmanna hefur um málið að segja. Það er einfaldlega staðreynd að höfundar Nýja testamentisins voru auðtrúa menn með fornaldarsiðferði og höfðu þar af leiðandi ýmsar skoðanir sem eru ekki góðar og gildar að mati Íslendinga með almennt siðferði. Þjóðkirkjuprestar falla líka í þennan hóp, þar sem þeir hafa fyrir löngu losað sig við “kristilegt siðferði” höfunda Nýja testamentisins og fylgt þjóðfélaginu.

En þetta veldur auðvitað kirkjunni vandkvæðum, annars vegar standa þeir frammi fyrir fornaldarsiðferði pappírspáfans síns og hins vegar almennu siðferði þjóðfélagsins. Þá kemur guðfræðin til hjálpar og reynir að bjarga málunum.

Gott dæmi um þetta er hjónavígsla samkynhneigðra. Sérskipaður starfshópur þjóðkirkjunnar um málefni samkynhneigðra opnaði nýlega vef. Þar er auðvitað vísað á grein um kennivald Biblíunnar, enda skiptir afskaplega miklu máli fyrir þjóðkirkjufólk að fá að vita hvað blessaða skruddan hefur um málið að segja.

Greinin sjálf, Kennivald Biblíunnar í ljósi sögulegs Biblíuskilnings er afskaplega fræðandi og áhugaverð, enda skrifuð af Clarence E. Glad, nýjatestamentisfræðingi með meiru. Í lokaorðum greinarinnar kemur Clarence með afskaplega skynsamlega aðvörun:

Jafnframt ber að varast að heimfæra einhverjar staðbundnar aðstæður fornra menningarsamfélaga einfeldningslega upp á nútíma aðstæður. Þannig verða menn ávallt að spyrja hvort þeir séu að heimfæra birtingarform átrúnaðarins sem eru háðir stund og stað yfir á nútímann eða einhver „algild sannindi” hinna fornu texta.

Þetta er eitt af túlkunarreglunum sem prestar misnota gjarnan til þess að bjarga sér úr klemmum:

“Vissulega segir Páll að konan eigi að vera undirgefin karlinum í öllu, en hann var bara barn síns tíma. Þú verður að lesa þetta í sögulegu samhengi.” eða “Já, að vísu segir Jesús að maður drýgi hór ef maður giftist fráskilinni konu, en hann var að tala í sinn samtíma og því er þetta ekki í gildi núna.”.

Þessi afsökun er auðvitað notuð þegar bent er á ritningarstaði í Nýja testamentinu sem fordæma mök samkynhneigðra.

Einn augljós galli við þessa aðferð er að maður getur beitt þessari afsökun á allan siðferðisboðskap Nýja testamentisins sem passar við samtímann, nánast allt: “Að elska náungann eins og sjálfan sig? Þú verður að lesa þetta í sögulegum samhengi, augljóslega eru þessi ummæli bara samtíma áhrif frá gyðingdómi.”

Annar og veigameiri galli við þessa afsökun er að þetta ætti auðvitað að gilda um fleira en bara siðferðisboðskapinn. Hvað með fæðingarfrásögurnar? Hvað með kraftaverk Jesú? Hvað með guðdóm Jesú? Hvað með sjálfa upprisuna?

Á dögum Jesú var mikið til af frásögum af guðdómlegum mönnum sem fæddust við ævintýralegar aðstæður. Það var allt morandi í galdraköllum. Það var nánast sjálfgefið að merkilegir menn risu upp frá dauðum og ekki var skortur á guðum sem dóu og lifnuðu við.

Þetta vita prestarnir, eða ættu að minnsta kosti að vita það, en samt vilja þeir ekki átta sig á því að ævintýri Jesú og félaga er bara birtingarmynd forns átrúnaðar sem engin upplýst manneskja ætti að taka trúanlega. Hvers vegna skoða þeir ekki gamaldags frásagnir af ævi Jesú í sama sögulega samhengi og þeir nota til þess að losna við gamaldags siðferðisboðskap? Einfaldlega vegna þess að “sögulegt samhengi” er bara léleg afsökun sem þeir nota til þess að losna við óþægilegan boðskap.

Það er synd að gamaldags hindurvitni kristindómsins séu ekki óþægilegur boðskapur fyrir prestana því í grundvallaratriðum er enginn munur á því að trúa hindurvitnum fornaldarmanna og að aðhyllast siðferði fornaldarmanna. Ef einhver hefur fornaldarsiðferði, þá finnst öllum líklega sjálfsagt að hjálpa honum að sjá hve skaðlegt það er. Það sama ætti að gilda um fornaldarhindurvitni.

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.05.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Khomeni - 19/05/06 12:38 #

Flott grein hjá Hjalta. Eitt atriði sem ég geri athugasemd við Setningin:

Það er einfaldlega staðreynd að höfundar Nýja testamentisins voru auðtrúa menn með fornaldarsiðferði og höfðu þar af leiðandi ýmsar skoðanir sem eru ekki góðar og gildar að mati Íslendinga með almennt siðferði

Ég er fullviss um að höfundar Nýja testamentisins unnu verk sitt í pólitískum anda fremur en "heilögum" anda. Marmiðið var að stilla hinn guðfræðilega kompás eftir hinum veraldlega kompás frekar en að vera siðferðisleg mælistika. Rit Nýja testamentisins eru mörg hver samtýningur úr öðrum ritum. Í gegnum aldirnar hefur margoft verið bætt inn í atriðum sem ekki voru fyrir en hentuðu tíðarandanum þá stundina. Þegar veraldegt vald hefur ráðskast með hið andlega vald afhjúpast hið sanna eðli kirkjunnar, hún er stofnun sem notuð er til þess að hafa félagslegt taumhald á samfélaginu. Kirkjan skammast sín fyrir þetta en dæmin eru fjölmörg. Það er mörgum í fersku minni samningur Píusar Páfa við Adolf Hitler. Hér á Íslandi er kirkan fyrist og fremst samfélag embættismanna sem eru áskrifendur af launum frá ríkinu. Afar ógeðfelt samfélag sem berst með kjafti og klóm gegn því að hróflað sé við þessu sjálftökukerfi.

-o-o-o-

Ég minnist orða séra Geirs Waage sem sagði eitt sinn þegar umræða um giftingu samkynhneigðra var í deiglunni. Hann sagði að í í fornold hafi ríkisvaldið gefið hinu andlega valdi frið og tíma til að taka ákvarðanir. Þetta er einfaldlega RANGT.. það var ekki svo. Að halda þessu fram er áþekkt þvi að segja að Nasistar hafi verið góðir við Gyðinga. Þetta er alrangt og ömurleg söguskoðun enda tekur engin fræðimaður mark á þessum öfugmælum. .....Nema Waage.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 19/05/06 17:00 #

Já, alvöru fræðimaður ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.