Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðferðisleg afstæðishyggja? Þversagnakenndur málflutningur Þjóðkirkjumanna

Undanfarnar aldir hafa, sem kunnugt er, orðið umtalsverðar breytingar á hugmyndum manna um hvað er rétt og rangt, hvað er gott og slæmt, hvernig leggja ber mat á hitt og þetta og hvernig reka ber samfélagið. Lífsseigir flokkadrættir, milli þeirra sem eru óhræddir við breytingar og þeirra sem eru á móti þeim, lifa góðu lífi enn í dag. Meðal talsmanna íhaldssams gildismats stendur Þjóðkirkjan einna fremst í flokki og hefur lengi gert, í öllu falli ef tekið er tillit til umfangs og grundvallar.

Á seinni árum hefur mönnum orðið tíðrætt um „siðferðislega afstæðishyggju“ og fylgir þeim orðum neikvæður blær. Með þeim er einatt gefið í skyn að þeir sem aðhyllist slíkar hugmyndir líti á siðferði sem svo flöktandi og rótlaust, að það megi hiklaust laga að tíðaranda, á því sé lítt byggjandi, og að siðferði þeirra sópist auðveldlega í burtu ef á mót blæs. Þessi fylgja auk þess oft heimsósómakveinstafir um hvað breytingarnar séu hraðar og hvað fólk eigi erfitt með að fylgjast með.

Mér sýnist þessi málflutningur helst vera sniðinn að tilfinningum eldri borgara sem finnst nóg um hvað breytingarnar eru miklar og virðast sífellt hraðari, ekki síst í siðferðismálum. Er nokkuð skrítið, í sjálfu sér, við að fólk sé fastheldið á hugmyndir sem það hefur alist upp við, og yngri kynslóðir hafa fallið frá, til að mynda um samkynhneigða? Þetta kemur reyndar heim og saman við þá tilfinningu mína að yngri kynslóðirnar séu síður ginnkeyptar fyrir lúthersk-evangelískri heimsmynd og tilheyrandi boðskap.

„Siðferðisleg afstæðishyggja“ -- hvað er nú það? Retorískt vindhögg sem er ætlað húmanistum, sem vilja byggja siðferði á mannlegum grunni en ekki guðlegum? Það er rétt að taka nokkur dæmi: Í predikun á nýjársdag 2002 sagði biskup svo:

Á morgni 21. aldar spyr maður sig hvort kristinn siður sé að hopa fyrir afstæðishyggju og andlegu dómgreindarleysi og trúarlegu ólæsi.

Sigurður Pálsson, þá sóknarprestur í Hallgrímskirkju, sagði á gamlárskvöld 2002:

Höfum við kjark til að endurskoða gildismat okkar og taka upp baráttu gegn niðurbrjótandi og mannskemmandi afstæðishyggju og brengluðu gildismati sem samtíminn er svo ríkur af ...?

Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfirði, sagði í september 2003:

[K]ærleiksboðorði Krists er skipt út fyrir lögmál markaðarins og fjölhyggjusamfélagsins sem segir að allt sé afstætt og því í raun ekkert heilagt ...

En hvað með Þjóðkirkjuna sjálfa? Væri henni ekki hollt að líta í eigin barm eða -- svo ég geri orð Jesú að mínum -- sjá bjálkann í eigin auga? Á þessum vettvangi hef ég áður skrifað um afstæðishyggju biskups (sjá „Blóðskömm eða hór? Valkvæmt ritningarminni biskups eða ritningarleg afstæðishyggja?“) og hvernig kirkjunnar menn velja úr Biblíunni þau siðaboð sem þeir telja henta hagsmunum kirkjunnar á líðandi stund. Hvers vegna neitar kirkjan að gifta samkynhneigt fólk en giftir samt fráskilið fólk?

Ég bar á dögunum fram spurningu á Trú.is. Ég spurði:

Ef við göngum út frá að frásögn Nýja testamentisins sé rétt, og ef það er satt að konur hafi yfirleitt verið á aldrinum 11-15 ára þegar þær voru mönnum gefnar við upphaf tímatals vors, má þá álykta að María mey hafi vart verið komin af barnsaldri þegar hún átti Jesú?

Magnús Erlingsson varð fyrir svörum. Ég vil hvetja fólk til að lesa svar hans í heild sinni svo eftirfarandi tilvitnun skiljist örugglega í réttu samhengi, en hann svaraði:

Í fornöld var litið svo á að kynþroski stúlkna væri til marks um að þær væru reiðubúnar til hjúskapar. ... Þannig að María hefur að öllum líkindum verið ung móðir þegar hún eignaðist Jesú. Frá fæðingunni er sagt í 2. kafla Lúkasar. Í kirkjulist er hefð fyrir því að sýna Maríu unga en Jósef mun eldri. ... Áhyggjuleysi unglingsára eru forréttindi nútímamannsins.

Ekki andmæli ég því að fornmenn hafi haft aðrar hugmyndir en nútímamenn um við hvaða aldur hjúskapur væri hæfilegur. Hverja kynslóð ber að meta í samræmi við aldarhátt. En hvað með eilífan guð? Hvað með hann? Segjum að við göngum út frá því að hann sé til í alvörunni. Skiptir hann um skoðun eftir því hvernig aldarháttur breytist? Ef það þótti allt í lagi fyrir 2000 árum að fullorðnir menn börnuðu 13 eða 14 ára stelpur, þýddi það þá að guð mætti gera það líka? Ber að skilja það svo að frá sjónarmiði guðs sé það í stakasta lagi? (Einhver dóni gæti í þessu samhengi fengið hugmyndir um presta og fermingarbörn.) Ef þetta er í stakasta lagi í augum eilífs og alviturs guðs, þýðir það þá ekki að hann hafi dregist afturúr mönnum í siðferðisefnum fyrir a.m.k. nokkrum kynslóðum síðan? Er það kannski þessi „hraði“, þessi „siðferðislega afstæðishyggja“, að siðferðisþrek manna hækki svo hratt að kirkjan nái ekki að halda í við það?

Tal kristinna kennimanna um „kristið siðferði“ einkennist af hroka gagnvart þeim sem telja rétt að atferli manna miðist við menn en ekki ímyndaða loftanda. Alvitur, eilífur Faldafeykir á himnum þyrfti varla að endurskoða mælikvarða sína. Það getur mannkynið hins vegar gert eftir því sem þekkingu og félagsþroska fleygir fram.

Vésteinn Valgarðsson 08.05.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


mofi - 08/05/06 13:23 #

Í fyrsta lagi þá veit enginn hve gömul María var og í öðru lagi þá var engan vegin um einhver kynmök að ræða.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 08/05/06 13:54 #

Tja bara ef þú afneitar að Jahve hafi verið ofursterkur semíti og erkifígúra annarra ætthöfðingja. Svipaður af stærð og gerð bara sterkari.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 09/05/06 09:22 #

mofi, í fyrsta lagi er fyllilega réttmætt að leiða getum að aldri Maríu út frá því að hún var heitmær Jósefs og að á þessum tíma voru heitmeyjar yfirleitt það sem við mundum í dag kalla unglinga. Í öðru lagi, þá er ég að tala um unglingaþungun. Er hún besta mál að þínu mati ef hægt er að koma henni við án þess að eiginleg kynmök fari fram?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.