Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Árás á Alþingi, árás á lýðræðið

Í 2. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er fjallað um löggjafarvaldið. Þar segir: “Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. …”. Þar er ekki sagt að prestastefna eða kirkjuþing sé hluti af löggjafarvaldi landsins. Né heldur veitir ákvæðið embætti Biskups Íslands neitt löggjafarvald.

En mannkynssagan er full af fólki sem tók sér vald sem það hafði ekki lögum samkvæmt. Stundum heppnaðist valdatakan og þar með var hún orðin löghelguð. Sem dæmi um það má nefna valdatöku Júlíusar Sesars, Napoleon Bonaparte og Hinriks 4. Englandskonungs. Og þetta veit biskupinn séra Karl Sigurbjörnsson mætavel. Enda leggur hann ofuráherslu á að valdataka sín í íslensku þjóðfélagi heppnist.

Þannig er nefnilega í pottinn búið að biskupinn er kominn á bólakaf í pólitík. Hann hefur ákveðið að líta framhjá því að Alþingi er lýðræðislega kosinn vettvangur þjóðarinnar til sjálfsstjórnar. Nei, séra Karl Sigurbjörnsson þolir ekki að hafa eitthvað slíkt yfirvald yfir sér. Hann vill ráða í krafti kennivalds kirkjunnar. Og þess vegna hikar hann ekki við það að ráðast á sjálfstæði Alþingis. Hann beinlínis bannar þinginu að setja lög sem heimila trúfélögum í landinu að gefa saman samkynhneigð pör. Og þetta gerir hann þrátt fyrir að lög banni slíkt, sbr. 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum (Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.). Enda veit hann að hann hefur bæði dómsmálaráðherra og ríkissaksóknara í rassvasanum í krafti trúarlegs kennivalds síns. Þeir munu aldrei mæla fyrir um opinbera rannsókn á meintu lögbroti biskups og fá þar með alla hallelújahoppara landsins upp á móti sér. Sama hvað stendur í lögunum.

Alþingismenn eru í vanda. Þrátt fyrir skynsemi nútímans þá er staðreyndin sú að á Íslandi eru þeir sem trúa á “Guð” ennþá sterkur þrýstihópur, mun sterkari en hommar og lesbíur. Og margfalt sterkari en þeir sem láta sér það í léttu rúmi liggja hvort samkynhneigð pör séu gefin saman af trúfélögum eður ei. Og þó svo að þingmenn hafi svarið drengskaparheit að stjórnarskránni og eigi að heita óháðir þá er staðreyndin sú að margir þeirra óttast það ef skipulögð samtök trúaðra fara að vinna gegn þeim í prófkjöri og flokksvali fyrir næstu Alþingiskosningar. Margir hverjir vilja skapa sér ímynd sem fulltrúar hinna gömlu gilda, fjölskyldugilda, og það getur verið erfitt fyrir þá að fá þann stimpil á sig að þeir vinni gegn kirkjunni og fulltrúum “Guðs” hér á jörðu.

Vissulega eru, sem betur fer, skynsemismenn innan kirkjunnar. Skynsemismenn sem sjá að ótti hinna íhaldssömu við þessi brúðkaup er tilhæfulaus. Fólk sem þekkir kenningar Marteins Lúters um að hjónabandið sé stofnun veraldlegs eðlis sem kirkjan á ekki að hafa skoðun á. Þeir lögðu fyrir prestastefnu fyrir stuttu tillögu um að þessu oki fordóma og fáfræði yrði varpað af kirkjunni svo bæði hún og önnur trúfélög geti komist í takt við nútímann. En þá risu upp á afturfæturna í vandlætingu og hneykslan menn sem halda mætti að tilheyrðu frekar 17. öldinni, útsendarar Piet-ismans sem eiga þá óska heitasta að húsagi og trúrækni verði aftur í lög leidd að viðlagðri líkamlegri refsingu. Og þeir töluðu um hryðjuverk og skemmdarverk, að sundur væri rofinn friðurinn sem séra Karl hefur sett um þessi mál. Sér er nú hver friðurinn. Þegar þröngsýni biskups og skoðanabræðra hans stendur í vegi fyrir því að trúfélög sem vilja gefa samkynhneigða saman geti það og hann hefur í hótunum við löggjafann þá er ekki hægt að segja að það sé friður í samfélaginu.

Hvað er til ráða? Alþingi á fyrir höndum val. Val um það um hvort það lætur biskup svínbeygja sig í duftið og aftur verði upp tekin sú gamla regla að “Guðs” lög gildi framar manna lögum. Eða þá að Alþingi stendur í fæturna sem sjálfstæð stofnun og lætur biskup ekki þvinga sig. Að það samþykki lög um það að gefa megi í hjónaband samkynhneigð pör hvort heldur er karl og karl eða konu og konu.

Vonandi nær lýðræðið og skynsemin að sigra.

Jón Einarsson 04.05.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Árni Árnason - 04/05/06 09:42 #

Ef breytingatillaga Guðrúnar Ögmundsdóttur gengi út á að skylda trúfélög til þess að gefa saman samkynhneigð pör, væri e.t.v. ekkert óeðlilegt að stór söfnuður eins og þjóðkirkjan væri marktækur álitsgjafi.

Það er bara einfaldlega ekki þannig.

Málið snýst um að HEIMILA trúfélögum að gera þennan gerning, EF ÞAU VILJA.

Það er því algerlega óviðeigandi, og með öllu óþolandi að biskoppurinn sé yfirleitt að blanda sér í þetta mál.

Ef Ajatollah Karl ( eins og einhver kallaði hann) vill ekki gefa saman samkynhneigða, getur hann bara ákveðið það fyrir sinn hatt, en hann er svoddan gunga að hann þorir ekki að standa á bak við slíka ákvörðun, og vill skýla sér að bak við landslög.

Gunguhátturinn hjá þingnefndinn er engu minni, þar sem hún þorir ekki að ganga gegn óskum Ajatollans um skálkaskjól.

Það er svosem ekkert nýtt að kirkjan sé með puttana í lagasetningum (og stjórnarskrá) en það er komin 21. öld hjá okkur flestum "for kræss seik".


Hippo - 04/05/06 10:18 #

Það er eitt sem ég skil enganveginn!

Af hverju í ósköpunum vilja hommar og lesbíur fá viðurkenningu kirkjunnar á sambandi sínu? Kirkjan og það sem hún stendur fyrir (kristin trú) er uppfull af fordómum og það segir m.a. í Rómverjabréfinu að hommar séu dauðasekir.

Af hverju vill þetta fólk blessun þessara trúarbragða á sambandi sínu og blessun þess "Guðs" sem hefur dæmt það til dauða?

Mér finnst þetta beinlínis fáránlegt! Kannski getur einhver útskýrt þetta fyrir mér?


Árni Árnason - 04/05/06 10:35 #

Mikið væri nú lífið einfaldara Hippo ef það væri bara EITT sem við skiljum ekki.

Þetta er bara enn ein þversögnin, hjá þessu trúaða liði, sem ekki er nokkur leið að skilja. Ég held að hugsandi fólki sé alls ekki ætlað að skilja svona hundingjahátt, þar sem samkynhneigðir vilja óðir og uppvægir hljóta blessun einhvers apparats sem vill ekkert með þá hafa. En þeir um það. Er ekki sagt, þegar eitthvað er með öllu órökrétt og óskiljanlegt, að vegir guðs séu órannsakanlegir. Er það ekki bara jafnfínn flótti frá skynseminni og hvað annað.


Kalli - 04/05/06 12:08 #

Hippo, kannski vilja samkynhneigðir bara sitja við sama borð og hórdómsfólkið sem Biblían fordæmir en fær samt að gifta sig í kirkju?

Þjóðkirkjan er heldur ekki eina trúfélagið sem fengi val um að gefa saman samkynhneigða og t.d. Ásatrúarfélagið hefur þegar látið í ljós vilja til að gera það.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 13:02 #

Hugleiðingar varðandi athugasemd Hippo:

Samkynhneigðir eru ekki utanaðkomandi hópur sem vill fá viðurkenningu innan kirkjunnar. Ef fólk elst upp í trúfélagi er það fyrir sumum samfélag og það er erfitt að vera hafnað af því samfélagi sem maður elst upp í.

Til að mynda ef einhver kall út á götu kallar þig hommaógeð þá geturðu hunsað hann og það væri skrýtið ef þú vildir verða vinur hans. Aftur á móti ef besti vinur þinn (eða móðir) þín afneituðu þér eftir að þú kæmir útúr skápnum þá væri ekki svo einfalt að hunsa viðkomandi og segja: fyrst hann vill mig ekki þá getur hann bara átt sig. Ég held að flestir myndu vilja reyna að fá vin sinn til að skipta um skoðun - verða umburðarlyndari. Það er held ég sambærilegt við það að samkynhneigðir vilja fá viðurkenningu innan kirkjunnar.


Þorsteinn Ásgrímsson - 04/05/06 17:01 #

Held að Siggi Örn hitti naglann á höfuðið í sínu svari, en einnig held ég að þetta sé visst prinsip mál hjá samkynhneigðum. Að þeir vilji vera taldir fullgildir í þjóðfélaginu (ekki að mér finnist það vera fullgilding að vera tekinn í sátt af kirkjunni, en það er annað mál) og þetta með kirkjuna/trúfélög sé bara eitt af þeim prinsip málum.

Jón, þegar þú segir "Hann beinlínis bannar þinginu að setja lög sem heimila trúfélögum í landinu að gefa saman samkynhneigð pör", hvar hefur hann beint bannað Alþingi að setja þessi lög? Ég hef nú ekki alveg nógu vel fylgst með þessu, en það sem ég hef heyrt hefur aldrei farið alveg út í það að hann "banni" Alþingi að setja lög, frekar að hann mótmæli því. En ég vil endilega vera leiðréttur sé það vitlaust.


Árni Árnason - 04/05/06 17:41 #

Já Sigurður Örn hittir auðvitað naglann á höfuðið. Ég geri ráð fyrir að það séu einmitt tilfinningarnar sem hann lýsir sem eru hvati þess að samkynhneigðir sækjast eftir viðurkenningu kirkjunnar. Það er svosem ekkert illskiljanlegt.

Hitt er óskiljanlegt að þeir skuli vænta þessarar vinar- eða móðurástar frá þessu afdankaða apparati sem yfirlýst telur þá myndu gera hjónabandið að haugamat.


Khomeni - 04/05/06 17:45 #

Sammála grein Jóns Einars. Hugsið ykkur ef t.d Gunnar í Krossinum eða einhver álíka, einhver sem er forystusauður e-r trúfélags, hefði vald til að skipa Alþingi fyrir.

Nú er ég viss um að biskoppurinn hefur ekki "bannað" eitt eða neitt. Dómsmálaráðherra gerir bara það sem -koppurinn segir.

Aðeins eitt sem fór í taugarnar á mér.... Jón Einar ætti að hætta að nota stóran staf í guð. Það er ósiður sem er afar hvimleiður. Takk samt fyrir massa fína grein


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 17:51 #

Einmitt, meðlimir hins himneskja sóló-tríós heita Jahveh og Jesús. Nafn þriðja guðsins persónu hinnar heilögu þrenningar er ekki þekkt


Magnús - 04/05/06 17:54 #

Sömuleiðis er það hvimleiður ósiður að skrifa ekki undir nafni, hvað þá að kalla sig misrituðu nafni öfgasinnaðs harðstjóra og tala um sjálfan sig í þriðju persónu. Þessi vefur á betra skilið.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 18:12 #

Það er ekki krafa að menn skrifi undir nafni en menn verða að nota löglegt netfang. Ef menn verða vísir að því að nota ólögleg netföng þá er þeim hent út og því sem þeir sögðu.

Svo Khomeni fær að skrifa í friði. Annars fær nafnið Khomeni mig alltaf til að brosa - sé alltaf fyrir mér jarðaförina hans sem var mögnuð! Frábær jarðaför fyrir trúarofstækis-harðstjóra, þ.e.a.s. alger niðurlæging!


khomeni - 04/05/06 20:10 #

Mikið er gaman að vekja svo sterk viðbrögð. Ég verð samt að viðurkenna að ég ætlaði ekki að særa neinn.

"Magnús" nokkur virðist hafa tekið þessa stafsetningar ábendingu mína mest til sín, sem er afar undarlegt því það er af og frá að ég hafi gagnrýnt hvernig hann setur niður staf.

Ástæðan fyrir því að ég noti leyni-nafn er sú að ég gegni afar mikilvægu opinberu embætti sem ég myndi örugglega missa ef ég yrði afhjúpaður. Þess fyrir utan færi konan frá mér. Svo ég minnist ekki á allt það góða fólk sem treysta mér fyrir viðurværi sínu.

Mér þykir afar vænt um að Jón Magnús og vinir hans í Vantrúnni góðu leyfa mér að skrifa hér undir nafni ógeðfelds harðstjóra. Furðu þykir mér það sæta að "Magnús" telji nafn mitt vera misritað. Staðreyndin er að ritháttur nafnsins Khomeni er mismunandi enda getur verið snúið að skrifa nöfn frá persneskum rithætti yfir á evrópskan eða enskan rithátt. "Khomeni" eins og ég nota orðið er notað jafnhliða orðinu "Khomeini" (sem reyndar er ritháttur i Wikipediunni)

-o-o-o-o-

Útför Khomenis er sennilega eftirminnilegasta útför á 20 öld. Kista Khomenis var borin eftir aðalgötunni í Teheran. Allir sem túrban gátu valdið héldu grenjandi út á göturnar, smám saman varð skipuleggjendum útfararinnar ljóst að dæmið var að fara út böndunum. Burðarmenn Khomenis voru yfirbugaðir og kistan var opnuð af viltum skríl. Sögusagnir eru um að lík Khomenis hafi verið tætt upp af þessum óða skríl en opinber skýring er sú að öryggisverðir hafi náð stjórn á ástandinu og önnur útför hafi farið fram síðar. Hvort sem það er rétt eða ekki náðust eftirminnilegar myndir af skrílnum vera að rífa Khomeni úr kistunni. Hann var klæddur hvítum kufli og eina myndskeiðið sem sýnt var í amerískum fjölmiðlum var 2 sekúnta bútur sem sýndi tippið á Khomeni....

Nokkuð góð hefnd fyrir daganna 444....

-o-o-o-o-

ég verð að viðurkenna að ég brosi allaf þegar ég sé mynd af Khomeni...


Þorsteinn Ásgrímsson - 05/05/06 01:06 #

Veist þú nokkuð um myndband eða góðar myndir af þessum atburði?


Magnús - 05/05/06 12:49 #

Ég veit ekki til þess að þú hafir sært neinn, "Khomeni", en ég legg til að þú sleppir stælum á borð við að setja gæsalappir utan um nafnið mitt. Ég heiti Magnús, þú heitir ekki Khomeni. Svo var ég nú bara að benda á hvað það er hallærislegt að tala um sjálfan sig í þriðju persónu, nema maður heiti Diego Armando Maradona. Hvað rithátt nafnsins snertir er eðlilegt að hann sé ekki negldur niður en ég hef aldrei áður séð ritháttinn "Khomeni", aldrei heyrt neinn bera nafnið þannig fram og aldrei séð nafn heimabæjar erkiklerksins ritað Khomen. Blessaður skrifaðu frekar undir nafni, þú hefur margt að segja og það liggur mun beinna við að taka mark á því ef raunverulegt nafn fylgir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/06 12:56 #

Vinsamlegast haldið umræðunum við efni greinarinnar. Við gerum ekki kröfu til þess að fólk skrifi undir nafni svo lengi sem það notar gilt póstfang (póstfang sem hægt er að senda á póst og fá svar frá þeim sem athugasemd ritaði).


óðinsmær - 05/05/06 20:22 #

þetta er vægast sagt hroðalegt ástand en hvað getum við gert??? Það er viðbjóðsleg tilfinning að vita af þessu misrétti þarna úti og vera valdalaus til að breyta því, ég hef reyndar reynt að gera mitt með því að kjósa ekki stjórnmálamenn sem eru trúarhræsnarar en landið er að drukkna í sjálfstæðisfólki svo það nær aldrei neitt gott fram að ganga, þeir pólitíkusar sem hæðst væla um kristin gildi þekkja ekkert til þeirra (með örfáum vg undantekningum) og hugur þeirr hefur dvalist við græðgi áratugum saman og það sést á þeim.


óðinsmær - 05/05/06 20:23 #

[Athugasemd eytt - vefstjóri]


Einar Steinn - 08/05/06 00:24 #

Ég get skilið hvað Hippo á við, það er óneitanlega íronískt þegar fólk vill verða/halda áfram að vera hluti af söfnuði sem hefur fordóma gegn þeim sem skýran hluta af kennisetningu sinni. Það væri svona álíka eins og ef blökkumenn vildu fá inngöngu og/eða viðurkenningu í Ku Klux Clan.

Fólk elst auðvitað alla jafna upp við þessa trú, en þegar maður sér að fordómar eru hluti af kennisetningu trúarfélagsins þá má sannarlega spyrja sig hvort trúarfélagið sé þess virði að maður vilji vera í því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.