Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðlast í Edinborg

Guðfræði er samansafn af illa tilfundnu kjaftæði, blandað siðfræðilögmálum heimspekinga, ljóðræðnum skáldskap og stórkostlegum ranghugmyndum. Gamla Testamentið væri réttnefnt Dæmisögur Esra. Kristur lærði töfra í Egyptalandi sem gerði honum kleyft að gabba menn með brögðunum sem kölluð hafa verið kraftaverk. Nýja Testamentið er saga svikarans Krists. Móses var betri listamaður og pólitíkus. Múhammeð er skárri en Kristur. Ritningarnar eru fullar af þvílíkri geðveiki, rugli og þversögnum að maður dáist að heiminum fyrir að trúa þessu kjaftæði. Þrenningarkenningin er svo fáránleg að það er óþarfi að hrekja hana. Guðdómur Krists er hlægileg hugmynd.

Höfundur við styttu af David Hume í EdinborgÞað var eitthvað í líkingu við þetta sem hinn 18 ára Thomas Aikenhead á að hafa sagt í samræðum við kunningja sína í Edinborgarháskóla. Einhver þeirra taldi nauðsynlegt að láta yfirvöld vita af guðlausti Aikenhead og var hann því fangelsaður. Um jólin 1696 var réttað yfir Thomas og hann dæmdur til dauða. Thomas reyndi að draga yfirlýsingar sínar til baka og ýmsir reyndu að fá dóminn mildaðann vegna ungs aldurs hans. Yfirvöld ákváðu að láta kirkjuna ráða hvort dauðadómnum yrði hnekkt en enga miskunn var að finna þar. Dauði Aikenhead átti að verða öðrum víti til varnaðar. Í bréfi sem Thomas skrifaði áður en hann var tekin af lífi þann 8. janúar 1697 sagði hann að hann teldi að siðalögmál væru mannanna verk. Kirkjan missteig sig illilega í máli Thomas Aikenhead. Almenningur hafði samúð með stráknum og hann varð síðastur til að vera tekinn af lífi fyrir guðlast í Bretlandi.

Í skugga aftöku Aikenhead reis skoska upplýsingin. Margir merkustu hugsuðir áttjándu aldar voru Skotar. Einhver merkasti hugsuðurinn var David Hume. Hann var þekktur fyrir efahyggju sína og varð sjálfur fyrir ofsóknum. Hume var sakaður um villutrú sex áratugum eftir dauða unga guðlastarans. Sem betur fer höfðu Skotar lært sína lexíu og Hume var slapp.

Thomas Aikenhead á að hafa spáð dauða kristinnar trúar. Eins og aðrir sem hafa gert það var hann of bjartsýnn. En hins vegar hefur kristin trú hörfað mikið frá hans tíð. Kirkjum Edinborg hefur meðal annars verið breytt í þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn og gistiheimili. Aðrar kirkjur virðast aðallega þjóna þeim tilgangi að vera áfangastaður ferðamanna sem vilja sjá aftur í aldir. Kristnin sem Thomas Aikenhead þekkti er horfin.

Ég veit ekki til þess að það sé minnismerki um Aikenhead í Edinborg en á þeim slóðum sem honum var haldið föngnum er nú stytta af David Hume. Arfleið Thomas Aikenhead er frelsið til að gagnrýna kenningar trúarinnar og við eigum að nota það.

Heimildir og íterefni
David Hume
Thomas Aikenhead
Thomas Aikenhead
How modern life emerged from eighteenth-century Edinburgh

Óli Gneisti Sóleyjarson 01.05.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.