Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mælistika biblíunnar

Því hefur verið fleygt fram að bókstafstrúarmenn hafni skynseminni en frjálslyndir trúmenn hafni jafnt skynseminni sem og trúnni. Svo virðist sem hinir frjálslyndu veigri sér við að taka afstöðu. Þeir aðhyllast biblíuna hálfpartinn, en hvernig ákveða þeir hvað eigi að taka bókstaflega og hvað skuli skoðast á táknrænan hátt?

Mér finnst undarlegt að þess sé krafist af okkur að aðhyllast sumt úr frásögnum biblíunnar en ekki annað, því hvaða mælistiku getum við notað, þegar öllu er á botninn hvolft, til að meta hvað skuli velja úr? Til hvers að burðast með Biblíuna á annað borð fyrst við höfum möguleikann á að velja sjálf hvað er rétt og hvað er rangt fyrir samfélag nútímans?

Richard Dawkins - úr þáttunum Rót alls ills?

Ritstjórn 13.04.2006
Flokkað undir: ( Fleyg orð )

Viðbrögð


Guðmundur I. Markússon - 16/04/06 16:39 #

Fyrst vill ég þakka Vantrú og samstarfsaðilum fyrir sýningar á þáttum Dawkins. Gott að fá tækifæri til að berja þá augum svo stuttu eftir frumsýningu í Bretaríki. Menn hjóta að taka þá til sýninga hér á landi--enda koma karlsins í sumar stórviðburður.

Þættirnir voru góðir áhorfs en ýmislegt kom mér þó spánskt fyrir sjónir--t.d. vöntun á barnasálfræðingum í seinni þáttinn sem byggir á kenningu RD um EÐLI barna. Hér finnst mér RD ganga óvísindalega til verks: hann ætti að vita það manna best að þegar maður vill setja fram kenningar (svo ekki sé talað um STÓRAR kenningar) sé nauðsynlegt að taka mið af því sem vísindamenn á því sviði segja (hér, tilrauna- og þroskasálfræðingar).

Annars um frjálslynda og þá sem eru bókstafstrúar. Tilfellið er það að svonenfndir bókstafstrúarmenn velja og hafna ekkert síður en frjálslyndir. Lesning þeirra á Biblíunni byggist ekkert síður á túlkun en hinna frálslyndu. Það er því í raun ofsögum sagt að segja að biblíutrúaðir séu bókstafstrúaðir. Þegar grant er skoðað eru tengsl kenninga þeirra við Biblíuna oft óljós. Hins vegar gengur orðræða þeirra að miklu leyti út á að HALDA ÞVÍ FRAM að biblíuleg tengsl séu til staðar (að hitt og þetta sé "Bible based").

Um þetta má lesa í athyglisverðri bók Brians Malley: HOW THE BIBLE WORKS (Alta Mira Press, 2004), sem byggir á ýtarlegri rannsókn hans á hugmyndum biblíutrúaðra UM Biblíuna og hvernig þeir túlka hana ... mér kom það einnig undarlega fyrir sjónir að trúarbragðafræðinga var hvergi að sjá.

Annars, gangi ykkur sem best að selja þessa þættir sem sannarlega eru tímabærir.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 17/04/06 11:42 #

Já, ég er sammála því að Dawkins ætti bara að einbeita sér að því að inntak trúar fólks sé nánast algjörlega skilyrt af "heilaþvotti" í æsku, alveg óþarfi að koma með einhverjar kenningar um sálfræði barna til þess að benda á þessa staðreynd og afleiðingar hennar.

Ég er líka sammála því að bókstafstrúarmenn velji og hafni líka (td trúa þeir ekki á flata jörð). Mætti kannski segja að munurinn sé á afstöðu trúmannanna til biblíunnar, frekar en hvernig þeir meðhöndla hana.


Guðmundur I. Markússon - 17/04/06 19:04 #

Ég er reyndar ekki sammála þér. Ef talað er um "heilaþvott" í æsku er vart hægt að horfa fram hjá eiginleikum barnshugans. RD gerir sér grein fyrir þessu og kemur því með kennisetningu sína um skilyrðislausa trúgirni barnsins.

Gott og vel. Vandamálið er bara að kenning RD kemur illa heim og saman við rannsóknarniðurstöður fjölda sálfræðinga sem benda einmitt til þess að börn séu ekki eins trúgjörn og almennt er talið, og að sumar hugmyndir falli mun betur að barnshuganum en aðrar. Sem sagt, hugi barnsins er EKKI tabula rasa sem hægt er að krota á hvaða bull sem er. (RD gerist því sekur um "blank slate" sjónarhorn á mannshugann, sem S.Pinker étur í sig í samnefndri bók.)

Þetta snýr hugmyndinni um heilaþvott á höfuðið: heili barnsins er þvottavélin sem "þvær" (mótar og velur úr) þær upplýsingar sem berast honum um augu og eyru.

Þannig hafa börn (og fullorðnir reyndar líka) sterka tilhneigingu til þess að líta á heiminn sem hafandi tilgang--ský eru sköpuð "til þess" að rigna o.s.frv. Börn eru því fæddir "sköpunarsinnar". Þetta er ein ástæða þess að svo erfiðlega gengur að breiða út þróunarkenninguna.

Það er hins vegar rétt að uppeldi og menntun er lykilatriði. Til þess að komast hjá náttúrulegum tilhneigingum mannshugans þarf innrætingu--þess vegna nær vísindalegt sjónarhorn á tilveruna aðeins fótfestu með skipulegu aðhaldi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/06 19:34 #

Áhugavert. Pinker leiðir semsagt að því rök að börn fæðist með fyrirfram gefnar hugmyndir um veröldina, enda þjóni það þróunarlegu markmiði. Gott og vel, en ógildir það í raun það sem Dawkins segir um trúgirnina? Er það ekki einmitt raunin að börn trúa hinum fullorðnu þegar þeir fabúlera um guði sökum þess að barnshugurinn á auðvelt með að taka við slíkum hugmyndum? Trúgirnin er sú sama og áður og hinir fullorðnu sá einungis í þann jarðveg sem frjósamur er. Þess vegna viðhaldast kristnar hugmyndir í kristnu menningarsamfélagi og hindúískar þar sem þær ranghugmyndir eru praktíseraðar.

Fái ég færi á að spjalla við Dawkins í sumar mun ég hiklaust fá álit hans á þessum skrifum hins ágæta Pinker. Í millitíðinni mun ég auðvitað lesa „The blank Slate“.

Eitt um Pinker og afgreiðslu hans á rökum manna: Einhvers staðar gagnrýnir hann Desmond Morris fyrir að kalla bók sína „Nakta apann“. Hann segir nafngiftina villandi, því hún einblíni um of á það sem maðurinn á sameiginlegt með öðrum dýrategundum, en útiloki það sem sker hann frá þeim. Segir þetta vera svipað og ef sérfræðingur í hvölum myndi gefa út bókina „The Naked Cow“. Hvalir eru hvalir en ekki kýr.

Þarna sést honum yfir það að maðurinn er api, rétt eins og hinar tegundirnar sem þróuðust út af sameiginlega forföður apategundanna. skilgreiningin um nakinn apa er því hárrétt, rétt eins og ef til væri loðin hvalategund og hann myndi kalla bókina loðna hvalinn. Ef Desmond hefði kallað bókina „Nakti forsögulegi prímatinn“ myndi gagnrýni hans gilda. En svo er ekki, Pinker getur skjátlast eins og öðrum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 17/04/06 20:02 #

Guðmundur:

Þegar ég tala um heilaþvott, þá er ég bara að segja að meðtækileiki barnsins er notaður til þess að fá þau til þess að trúa inntaki trúarinnar. Ég er með því ekki að segja að hugur barnsins sé tabula rasa eða að þau gleypi við öllu án nokkurrar umhugsunar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/06 20:26 #

Ég efast reyndar um að Dawkins haldi nokkru slíku fram heldur, sennilega er þetta misskilningur á þvi sem hann heldur fram.

Barnið er ekki tabula rasa, heldur einmitt vírað til að trúa því sem fullorðnir segja, líka yfirnáttúrlega kjaftæðinu. Það er í það minnsta staðreynd að það gera þau.


Guðmundur I. Markússon - 17/04/06 22:14 #

Pinker skjátlast um heilmargt, eins og flestum öðrum. Eftir að hafa lesið Terrence Deacon: THE SYMBOLIC SPECIES er ég sannfærður um að hann gangi of langt varðandi meðfædda eiginleika. Þetta með gagnýri hans á Morris eru sennilega áhrif frá Chomsky sem var mjög upptekinn af því að aðgreina manninn frá öðrum dýrum (með sínu, nú vafasama, máltökutæki og universal grammar).

Ég dæmi Dawkins hér einungis út frá því sem ég hef heyrt hann segja í áðurnefndum þáttum, sem og í viðtölum. Vel kann að vera að hann þjappi kenningu sinni of mikið saman við slík tækifæri og sýni af sér meiri núansa sé hann negldur niður. Hann þekkir auðvitað Pinker og hefur sennilega rennt gegnum áðurnefnda bók.

Þetta er hins vegar ekki eina skiptið sem Dawkins kemur með "mind-blind" teóríur. Mímkenningin, sem S. Blackmore heldur áfram með, er einnig brennd marki blank slate viðhorfa þar sem heilinn er general purpose kópíeríngarapparat.

Það skiptir hins vegar öllu máli hvort trúgirnin er almenn eða takmörkuð. Eins og ég skil RD er hún ótakmörkuð. Það stenst einfaldlega ekki vísindin. Einnig skiptir það máli hvor þvinga þurfi trúarkenningar upp á börn. RD telur að svo sé. Sú skoðun gengur þvert á rannsóknarniðurstöður.

Það vakir einingis fyrir mér að benda á þetta. Ég er EKKI að segja að honum sé alls varnað eða að hann hafi ekkert til málanna að leggja. Síður en svo.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/06 22:29 #

Nei, enda enginn að gera þér upp þá skoðun. Allir eru þessi kallar skeikulir, en geta eftir sem áður varpað skynsömu ljósi á fræðin og togað þau fram á veg.


Guðmundur I.M. - 18/04/06 00:45 #

Gott.

En svo karpinu sé aðeins haldið áfram. BB segir:

"Barnið er ekki tabula rasa, heldur einmitt vírað til að trúa því sem fullorðnir segja, líka yfirnáttúrlega kjaftæðinu."

Þetta er í mótsögn: ef barnið er "vírað til að trúa því sem fullorðnir segja" er hugur þess hannaður til að gleypa við öllu sem þeir fullorðnu láta út úr sér--sem sagt, tabula rasa sem hægt er að krota hvað sem er á.

Það er nefnilega engin staðreynd að börn gleypi við öllu á þennan hátt þrátt fyrir að slíkt kunni að vera viðtekin sannindi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/04/06 03:30 #

En bendir ekki Pinker einmitt á að barnshugurinn sé víraður til að samþykkja hugmyndir um yfirnáttúru? Eða er hann kannski víraður til að kokka upp slíkar hugmyndir sjálfur?

En staðreyndin er eftir sem áður sú að þeim börnum farnast best sem hlýða foreldrum sínum og trúa þeim þegar þau vara við hættum. Hin sem gera það ekki eru líklegri til að falla frá.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/04/06 08:45 #

Það er nefnilega engin staðreynd að börn gleypi við öllu á þennan hátt þrátt fyrir að slíkt kunni að vera viðtekin sannindi.

Er það orðið umdeilt að lítil börn séu trúgjörn og treysti (trúi) fullorðnu fólki?

Mögnuð þessi fræði :-)


Guðmundur I. Markússon - 18/04/06 10:51 #

Man ekki hvort Pinker fjalli sérstaklege um trúarhugmyndir--það gerir Pascal Boyer (og ýmsir fleiri) hins vegar sem tilheyrir meira eða minna sömu línu og Pinker, sem við getum kallað "þróunarsálfræði" (evolutionary psychology).

Annars þetta um trúgirni. Það er ekki umdeilt að börn treysti sér eldri. Hins vegar hefur það sýnt sig bæði hjá mannfræðingum og sálfræðingum sem stúdera miðlun hugmynda milli kynslóða að börn (1) gleypa ekki við öllu hráu sem þau heyra og (2) að barnshugurinn meðhöndlar upplýsingar á annan hátt en fullorðnir. Sem sagt, það er ekki einfalt, línulegt samhengi milli hugmynda fullorðinna og barna.

Menning miðlast ekki þannig að kynslóð 1 sturti hugmyndum í höfuð kynslóðar 2. Vísindin sýna að hér er mun flóknara samspil á ferðinni. Hér erum við ekki að tala um einhverjar póstmódernískar fabúleringar heldur túlkanir rannsóknarniðurstaðna sem taka verður alvarlega. Vissulega gengur þetta gegn því sem er viðtekið en það er einmitt það sem vísindin gera best.

Sem sagt: börn eru trúgjörn og treysta sínum eldri, en hvoru tveggja hefur sín takmörk. Barnsheilinn er ekki general pupose ljósritunarvél.


Guðmundur I. Markússon - 18/04/06 20:35 #

Við erum víst farnir að endurtaka okkur--vorum að ræða meira eða minna það sama síðasta haust:

www.vantru.is/2005/09/29/13.21/

Kannski óþarfi :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.