Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Argumentum ad populum

„Argumentum ad populum“ er dæmi um röksemdafærslu sem oft er gripið til en gengur ekki upp. Hún er á þessa leið:

  1. Flestir samþykkja eða fallast á X
  2. Af því leiðir að X er sönn

Í stað þess að setja fram gögn til þess að rökstyðja X er því haldið fram að þar sem svona margir séu sammála X hljóti staðhæfingin að vera sönn.

Það er oftast nær mun auðveldara að fylgja meirihlutanum en að þurfa að standa fyrir máli sínu gegn áliti meirihlutans. Þess vegna hefur Argumentum ad populum röksemdafærslan gefist vel í auglýsingum og áróðri ýmiss konar þar sem því er haldið fram að allir séu ánægðir með vöruna/skoðunina.

Fræg birtingarmynd þessarar rökvillu er bæklingur sem var gefinn út sem liður í gyðingaofsóknum í þriðja ríkinu. Hann bar yfirskriftina „100 höfundar gegn Einstein“. Eftir að Einstein sá bæklinginn á hann að hafa sagt: „Ef ég hefði haft rangt fyrir mér hefði einn höfundur dugað.“

Heimildir:
„Fallacy: Appeal to Popularity“
„Energy Planet: Albert Einstein (1879-1955)“

Sverrir Guðmundsson 05.04.2006
Flokkað undir: ( Rökvillur )

Viðbrögð


Finnur - 06/04/06 01:05 #

  1. Skoðanakannanir sýna að 80% úrtaksins er andvígur ríkistjórninni.

  2. Ríkisstjórnin er óvinsæl.

    Er þetta „Argumentum ad populum“ sem gengur ekki upp?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/06 01:27 #

Nei, því niðurstaðan í þínum dæmi (2) er endurorðun á fyrri fullyrðingunni (1), það felst í því að ef 80% er andvíg ríkisstjórninni að hún sé óvinsæl (að því gefnu að könnun sé rétt framkvæmd). Ef 2 væri ekki endurorðun á 1 væri þetta argumentum ad populum.

Þú tekur setninguna

"Flestir samþykkja eða fallast á X" og setur "eru andvígir ríkisstjórninni" í stað X

Þvínæst tekur þú seinni setninguna "Af því leiðir að X er sönn" og því ætti seinni setningin þín að vera "af því leiðir að flestir eru andvígir ríkisstjórninni" í stað "Ríkisstjórnin er óvinsæl".

Ef fyrri setningin hefði verið "flestir segja að ríkisstjórnin sé óvinsæl" eða "margir segja að ríkisstjórnin sé óvinsæl" og niðurstaða þín væri "þar af leiðir að ríkisstjórnin er óvinsæl", þá værir þú með argumentum ad populum í höndunum því það segir okkur ekkert um vinsældir ríkistjórnar þó flestir telji að hún sé óvinsæl, til að komast að því þyrftum við könnun þar sem spurt væri um viðhorf til hennar, ekki hvað fólk telji að almennt viðhorf sé.

Hér er gott að hafa í huga að það getur verið rökvilla jafnvel þó niðurstaða sé rétt. "Flestir eru þeirrar skoðunar að jörðin snúist í kringum sólina, þar af leiðir að jörðin snýst í kringum sólina" er rökvilla þó jörðin snúist að sjálfsögðu í kringum sólina. argumentum ad populum snýst um að það er ekki fjöldinn sem trúir fullyrðingu sem segir til um réttmæti hennar.


Finnur - 06/04/06 01:45 #

...því það segir okkur ekkert um vinsældir ríkistjórnar þó flestir telji að hún sé óvinsæl...
Ha! Má ekki draga þá ályktun að flestir hafi eitthvað til síns máls?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/06 08:45 #

Sú ályktun er ekki rökrétt. Þú þarft að spyrja þig; "af hverju halda flestir þetta".

Eða svo við tökum annað dæmi um Nasista og Gyðinga, þá hefði það ekkert sagt okkur um innræti Gyðinga þau skoðanakönnun á stíðsárunum í Þýskalandi hefði sýnt að 80% þjóðarinnar teldu að þeir væru illa innrættir. Eða ættum við að draga þá ályktun að flestir hafi eitthvað til síns máls.

argumentum ad populum gengur út á að afneita því að það sé sjálfgefið að flestir hafi eitthvað til síns máls.


Árni Árnason - 06/04/06 12:10 #

Báðir svolítið komnir út fyrir efnið.

Argument ad populum snýst ekki um túlkun á niðurstöðum skoðanakannana. Ef 80% eru andvígir ríkisstjórn í sæmilega vel unninni skoðanakönnun, má vel til sanns vegar færa að umrædd ríkisstjórn sé óvinsæl.

Skoðanakannanir eru mæling á fylgi við skoðanir, en segja ekkert um hvort þær séu réttar eða rangar, enda ekki til þess gerðar, og dæmið því ekki nothæft.

Gott dæmi um Argumentum ad populum er hinsvegar þegar skoðanakönnun sem gerð var árið 1999 sýndi að 65% þjóðarinnar töldu aldamót verða um áramótin 1999-2000. Með argument ad populum myndi það dæmast rétt, en var að sjálfsögðu rangt.

Meirihluti hefur sannarlega oft rétt fyrir sér, en argument ad populum gefur sér að það sé ófrávíkjanleg regla, sem það er auðvitað ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/06 12:28 #

Ertu ekki bara að orða skýrar það sem ég var að reyna að koma frá mér? :-)


Árni Árnason - 06/04/06 12:55 #

Jú, en það er ekki beinlínis rangt að álykta eins og Finnur gerir, að ef 80% eru andvígir ríkisstjórn sé ríkisstjórnin óvinsæl.

Þetta hefur hinsvegar ekkert með rökvilluna argument ad populum að gera. :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/04/06 12:58 #

Nei, enda ætlaði ég ekki að halda því fram að það væri rangt, þvert á móti andmælti ég því að þar væri um þessa tilteknu rökvillu að ræða - ályktunin væri semsagt rétt. Ég þarf greinilega að vanda mig betur við framsetningu :-)


Finnur - 07/04/06 04:49 #

Eða ættum við að draga þá ályktun að flestir hafi eitthvað til síns máls.
Mér finnst það eðlilegur útgangspunktur. Það er beinlínis hrokafullt að ganga út frá því að flestir viti ekkert um það sem þeir eru að segja.
Ef þú ert ósammála flestum, þá hlýtur sönnunarbyrðin að hvíla á þér -- ekki satt? Ef flestir telja að aldamótin voru um áramótin 1999-2000, en þú ert ósammála því, þá þarft þú að færa rök fyrir því afhverju þetta er rangt. Og það að benda á að þetta sé "argumentum ad populum", og þar af leiðandi gildir ekki, geta vart talist rök -- eða hvað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/04/06 08:33 #

En það er einmitt málið Finnur, staðreynd málsins er að aldamótin voru 2000-2001 þrátt fyrir að flestir væru á því að þau væru áramótin á undan. Þess vegna væri það þessi tiltekna rökvilla að halda því fram að aldamótin væru 1999-2000 vegna þess að flestir halda það. En hér er ekki verið að ræða um þessi tilteknu aldamót heldur þessa tilteknu rökvillu.

Það er beinlínis hrokafullt að ganga út frá því að flestir viti ekkert um það sem þeir eru að segja.

Hvaða vitleysa er þetta, enn og aftur þurfa menn að væna okkur um hroka þegar einungis er verið að benda á einfaldar staðreyndir. Í þessu tilviki þá staðreynd að vinsældir ákveðinnar yrðingar segja ekkert til um sannleiksgildi hennar. Ekkert.


Árni Árnason - 07/04/06 10:19 #

Nú er Finnur kominn á flug, en því miður blindflug án siglingatækja.

Maður er bara orðinn hrokagikkur sem vanvirðir lýðræðið og gengur út frá því að flestir viti ekkert í sinn haus.

Hvaðan kemur svona bull Finnur ?

Ég ætla samt að reyna einu sinni enn, og taktu nú vel eftir Finnur áður en þú ferð að gaspra meira um hroka okkar.

Argumentum ad populum er röksemdafærsla sem segir: Flestir halda... og því er það rétt.

Argumentum ad populum er ónýt röksemdafærsla vegna þess að: Þó að flestir haldi... er það ekki endilega rétt.

Einu sinni stóð einn maður gegn nánast öllum heiminum, þegar hann hélt því fram að jörðin væri kúla og snerist um sólina. Þetta eina dæmi er nóg sönnun þess að: Þó að flestir haldi... er það ekki endilega rétt.

Comprendo?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/04/06 12:22 #

Ef þú ert ósammála flestum, þá hlýtur sönnunarbyrðin að hvíla á þér -- ekki satt? Ef flestir telja að aldamótin voru um áramótin 1999-2000, en þú ert ósammála því, þá þarft þú að færa rök fyrir því afhverju þetta er rangt.

Nei Finnur, báðir aðilar þurfa að færa rök fyrir máli sínu og við vegum og metum rökin. Aldamótin voru 2000-2001 af því að grunnhugmyndin á bak við tímatal okkar gerir ekki ráð fyrir að árið 0 hafi verið til.


Árni Árnason - 07/04/06 12:47 #

Finnur segir:

"Ef þú ert ósammála flestum, þá hlýtur sönnunarbyrðin að hvíla á þér -- ekki satt? Ef flestir telja að aldamótin voru um áramótin 1999-2000, en þú ert ósammála því, þá þarft þú að færa rök fyrir því afhverju þetta er rangt."

Málsgreinin hér að ofan er argumentum ad populum í sinni tærustu mynd, hvort sem Finnur hefur gert sér grein fyrir því eða ekki.

Með þessum orðum sínum hér að ofan er Finnur að segja:

Meirihlutinn þarf ekki að sanna neitt, vegna þess að hann er meirihluti, og því dæmist á minnihlutann að sanna sitt mál.

Búið er að sýna fram á að Argumentum ad populum er handónýt röksemdafærsla, og þarmeð gróf Finnur sína eigin gröf.


Gunnar - 07/04/06 22:13 #

…vinsældir ákveðinnar yrðingar segja ekkert til um sannleiksgildi hennar. Ekkert.

Þarna tekurðu reyndar fulldjúpt í árinni. Jafnvel þótt vinsældir ákveðinnar yrðingar nægi aldrei einar og sér til að segja til um sannleiksgildi hennar, þá hlýtur þú að vera mér sammála um það að almennt séð séu vinsælar yrðingar líklegri til að vera sannar heldur en óvinsælar yrðingar. Flestir eru í dag sammála um að jörðin sé hnöttótt, sú yrðing er vinsæl. En það að hún er vinsæl er ekki orsök þess að hún er sönn, heldur öfugt: hún er vinsæl vegna þess að hún er sönn. Og þrátt fyrir allt hugsa ég að hversdagslegar vinsælar sannar yrðingar séu fleiri en vinsælu hindurvitnin.

En þetta var nú bara nitpicking hjá mér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/04/06 01:20 #

Flestir eru í dag sammála um að jörðin sé hnöttótt, sú yrðing er vinsæl.

Aha. Við göngum flest ekki út frá því að jörðin sé hnöttótt af því að flestir aðrir gera það, heldur vegna þess að fyrir hnattlögun jarðar eru færð ákveðin rök og sannanir. Þessi rökvilla er framin þegar menn tefla vinsældunum fram sem rökum í stað þess að tiltaka eitthvað sem styður fullyrðinguna.


Finnur - 08/04/06 03:50 #

Maður er bara orðinn hrokagikkur sem vanvirðir lýðræðið og gengur út frá því að flestir viti ekkert í sinn haus.
Ef þú ert sammála Matta um að það sé ekkert að marka skoðanir meirihlutans, þá ertu hrokagikkur að mínu áliti, Árni. Og ef meirihlutinn er sammála mér, þá ertu hrokagikkur -- ekki satt?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/04/06 12:02 #

Finnur, ertu í alvörunni svo vitlaus að þú skilur þetta ekki eða ertu bara að reyna að vera leiðinlegur?


Árni Árnason - 08/04/06 22:15 #

Finnur skilur þetta ekki, það er fullreynt. En honum tekst hreint ágætlega upp í að vera leiðinlegur, hvort sem hann er að reyna það eða ekki.

Árni hrokafulli :-)


danskurinn - 09/04/06 01:48 #

”Meirihlutinn þarf ekki að sanna neitt, vegna þess að hann er meirihluti, og því dæmist á minnihlutann að sanna sitt mál.”

Ef menn hugsa aðeins útí það þá er þessi fullyrðing í raun alveg rétt. Rétt í þeim skilningi að það dæmist á minnihluta að sanna mál sitt burtséð frá því hvort skoðanirnar eru “réttar eða rangar”. Á hinn bóginn er það líka rétt að skoðanir fólks verða ekki “réttar eða rangar” eftir því hve margir aðhyllast þær.

Argumentum ad populum getur fengið veikari merkingu þegar rökrætt er um listir. Flestir munu hafa þá skoðun að sú list sem nýtur fjöldahylli og almennrar viðurkenningar sé hin góða eða “rétta” list. Spurningin er hvort það geti verið rétt að vinsældir og viðurkenning listar sé raunhæfur mælkvarði þegar rökrætt er um listir. Ef svo er þá er hefur argumentum ad populum breytilega merkingu eftir umræðuefni.


Finnur - 09/04/06 08:03 #

Ekki er það nú markmiðið hjá mér að vera leiðinlegur, þannig að þið verðið að umbera heimsku mína. Er það ekki annars tilgangur þessa vefseturs að uppfræða okkur hina annars?

Ef flestir vísindamenn telja að athafnir okkar séu beinlínis valdandi að hækkandi hitastigi jarðar, vegna svokallaðra gróðurhúsaáhrifa, en lítill hluti þeirra telur að jörðin sé að fara í gegnum eðlilega hitastigssveiflu, er þá ekki skynsamlegt að álykta sem svo að gróðurhúsaáhrifin séu staðreynd? Við drögum ályktun sem byggir á afstöðu flestra vísindamanna, við beitum "argumentum ad populum".
Eða er það bara heimska að hafa áhyggjur af gróðurhúsaáhrifunum?



Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/06 08:21 #

Ef vísindamennirnir færðu engin rök fyrir ályktunum sínum myndi varla nokkur maður hlusta á þá. Það eru rökin sem gera kenningarnar almennt viðurkenndar, ekki það eitt að það séu vísindamenn sem halda þeim fram.


Finnur - 09/04/06 09:44 #

En vandamálið er að þú sem leikmaður átt erfitt með að gera uppá milli kenninganna. Vísindamenn eru þjálfaðir í því að gera mælingar og túlka niðurstöður þeirra, og við sem leikmenn verðum yfirleitt að draga ályktanir útfrá því sem vísindamenn halda fram. Og vísindamenn eru fjarri því að vera ætíð sammála.
Er þá ekki eðlilegt að hallast að því sem flestir vísindamenn halda fram? Ekki getum við farið að grúska í öll því sem vísindamenn gera til þess að draga ályktanir. Við verðum að treyst á "argumentum ad populum", ekki satt?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/04/06 13:07 #

Nei Finnur, þegar við erum til dæmis að tala um þróunarkenninguna þá teljum við hana ekki rétta af því að nærri allir vísindamenn segja það heldur af því að þróunarkenningin hefur rökin og sannanirnar sín megin. Ef við ætlum raunverulega að hafa skoðun á máli þá dugar ekki að taka bara upp meirihlutaskoðun heldur þarf maður að skoða hvað er á bak við hana.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/06 16:26 #

Einmitt. Það væri heimskulegt að kynna sér ekki þróunarkenniguna og treysta bara í blindni að vísindamennirnir séu með þetta á hreinu. Þróunarkenningin er ekkert svo flókin og þegar maður kynnist henni sér maður í hendi sér hve glæst hún er og mikilfengleg. Eftir að hafa kynnt mér hana treysti ég mér til að halda því fram að hún sé rétt mat á lífheiminum.


Finnur - 10/04/06 00:12 #

...þróunarkenningin hefur rökin og sannanirnar sín megin.
Sannanir! Hvar eru þær? Ég trúi því að þróunarkenningin sé rétt vegna þess að hún er rökrétt og vegna þess að hún er studd af flestum vísindamönnum.
Hvar hefurðu séð þessar sannanir Óli?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 08:23 #

Líkindi manna og annarra apa myndi ég kalla ágætis sönnun þess að þróunarkenningin sé rétt.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 09:02 #

Finnur, mér finnst þetta og þetta ansi sannfærandi.


Finnur - 10/04/06 10:22 #

Þetta eru vísbendingar, ekki sannanir Hjalti.
Sönnun fyrir þróunarkenningunni þarf að sýna framá, svo ekki verði um villst, að ein dýrategund breytist í aðra, eða aðrar, séu rétt skilyrði fyrir hendi.
Og huglægt mat á frændsemi við apa getur vart talist sönnun Óli. Í versta lagi þá gefur það vísbendingu um þann félagsskap sem þú umgengst.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/04/06 10:54 #

Vinsamlegast ræðið þróunarkenninguna á spjallinu. Finnur hlýtur að vera farinn að átta sig á því út á hvað argumentum ad populum gengur - a.m.k. sýnist mér þetta hafa verið þokkalega útskýrt í pistlinum og athugasemdum.


Árni Árnason - 10/04/06 10:57 #

Nú eru allir komnir út á sama hála ísinn.

Stígum allir 10 skref til baka og athugum hvort við getum ekki orðið sammála. Ég held nefnilega að við séum í raun sammála, en erum að tala í Austur og Vestur eins og sagt er.

Rökin gegn Argumentum ad populum eru miklu þrengri heldur en umræðuefnin hér að ofan gefa tilefni til að halda.

Þau eiga aðeins við, ÞAU EIGA AÐEINS VIÐ þegar fjöldinn einn ( vinsældir skoðunar/ kenningar) er EINA röksemdin.

Við hljótum að geta verið samála um að fjöldinn einn getur aldrei orðið röksemd fyrir því að eitthvað sé rétt. Þar þarf eitthvað fleira að koma til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.