Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að ráðast á minni máttar

Mér var kennt að það væri rangt að ráðast á minni máttar. Kirkjunnar menn myndu eflaust vilja kalla þetta kristið siðferði, en í almennu tali virðist kristið siðferði bara vera það siðferði sem er ríkjandi á hverjum tíma. Það sem annað fólk kallar almennt siðferði. En ég efast um að það gæti kallast kristið siðferði að ráðast ekki á minni máttar, að minnsta kosti ef maður telur Þjóðkirkjuna vera fulltrúa kristninnar.

Kirkjan stundar það nefnilega grimmt að ráðast á minni máttar. Hún beitir einnig óheiðarlegum aðferðum til þess að komast að þeim sem minna mega sín og notfærir sér síðan veikt ástand þeirra til þess að koma trúarhugmyndunum sínum inn í hausinn á fólki.

Þjóðkirkjan vill að prestar heimsæki leikskóla til þess að “fræða” leikskólabörn. Sama kirkja vill koma djáknum í skóla til þess að sinna “sálgæslu” og sama kirkja hefur presta á sjúkrahúsum til þess að "hugga" fólk.

Ég er ekki að halda því fram að starfsfólk kirkjunni sé ekki að fræða, hugga og veita stuðning. Það gerir það, en einnig er það að boða trú. Trúir því virkilega einhver að sanntrúaður mormóni, útskrifaður úr mormónaskóla, myndi ekki einnig boða trúnna sína í þessum aðstæðum? Hvers vegna ætti maður þá að halda að sannkristið þjóðkirkjufólk, útskrifað úr þjóðkirkjuskólanum, geri ekki nákvæmlega það sama?

Engum myndi detta í hug að fá mormóna til þess að sjá um að “fræða” leikskólabörn eða veita grunnskólabörnum “sálgæslu” á þeim forsendum að hann sé atvinnumormóni. Það eiga fagmenn að sjá um þetta, leikskólakennarar, félagsráðgjafar og sálfræðingar, en ekki sérfræðingar í yfirnáttúru, hvorki mormónar né þjóðkirkjukristnir.

Hjalti Rúnar Ómarsson 30.03.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 30/03/06 09:02 #

Þar við bætist spurningin, er atvinnutrúmaður ekki alltaf að "vitna um trú sína" með því sem hann gerir? Þannig að sama hvað hann reynir sjálfur að halda þessu á hlutlausu nótunum, þá er alltaf undirliggjandi trúaráróður, ekki satt?


Tryggvi Gunnarsson - 30/03/06 16:32 #

Á hverju byggist almennt siðferði? Byggist það ekki á þínum gildum og samfélagsins sem þú býrð í? Hvernig getur þá ein siðferðisstefna verið réttari en önnur? Eða röng?


Snæbjörn - 31/03/06 20:42 #

Er það ekki annars það sem hann sagði. Almennt siðferði er það sem er við lýði að hverju sinni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.